Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 159

Skóla- og frístundaráð

Ár 2019, 23. apríl, var haldinn 159. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í fundarherberginu Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.33. Fundinn sátu Skúli Helgason formaður (S), Alexandra Briem (P), Katrín Atladóttir (D), Líf Magneudóttir (V), Sigríður Arndís Jóhannsdóttir (S), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum; Sigríður Björk Einarsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum og Sindri Bjarkason, Reykjavíkurráð ungmenna. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Elín Norðmann, Guðmundur G. Guðbjörnsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Sigrún Sveinbjörnsdóttir. Eygló Traustadóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á niðurstöðum Heilbrigðiseftirlits á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs árið 2018. SFS2019030140

    Berglind Ósk Þórólfsdóttir, Helgi Guðjónsson, Kolbrún Georgsdóttir, Rósa Magnúsdóttir, Agnar Guðlaugsson og Daníel Benediktsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    -    Kl. 12.42 tekur Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum.

    -    Kl. 12.54 tekur Soffía Vagnsdóttir sæti á fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti skóla- og frístundaráðs þakkar starfsfólki Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur fyrir skilmerkilega og góða framsetningu á niðurstöðum eftirlits í leik- og grunnskólum og frístundaheimilum og samanburði á milli ára. Niðurstöðurnar sýna að margt hefur áunnist við að draga úr raka- og loftgæðavandamálum milli ára og staðan er betri varðandi ástand skólalóða og skólamötuneyta. Hins vegar er meira um frávik og ábendingar varðandi almenn þrif og viðhald sem þarf að taka á. Það er mikilvægt að starfsfólk á hverjum stað sé meðvitað um þá eftirlitsþætti sem þurfa að vera í lagi í umhverfi barna og að það sé í virku samtali við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur telji það að eitthvað þarfnist aðhlynningar eða viðhalds. Það þurfa allir að vera samtaka og viðbragðsgóðir í að gera úrbætur þegar eitthvað aflaga fer og því er góð upplýsingamiðlun og samtal milli stjórnenda, starfsfólks, Heilbrigðiseftirlitsins og sviða borgarinnar afar mikilvægt.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði telja það verulegt áhyggjuefni hversu viðhaldi hafi illa verið sinnt á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs, sem berlega kemur í ljós í framlögðu yfirliti Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Skólahúsnæði liggur víða undir skemmdum og hefur í för með sér heilsufarsleg vandamál bæði fyrir starfsfólk og nemendur. Á þessum vanda verður að taka, enda eru leik- og grunnskólar rukkaðir um innri leigu sem á að standa straum af öllum viðhaldskostnaði. Það er mikilvægt að þeir peningar sem teknir eru af skólunum og eyrnamerktir viðhaldi komi til baka til þeirra.

    Fylgigögn

  2. Fram fer umræða um fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2020, trúnaðarmál. SFS2019020034

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs, dags 22. janúar 2019, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. mars 2019, um tillöguna:

    Flokkur fólksins leggur til að kössum verði komið upp í miðrými skóla í Reykjavík, þar sem börn, foreldrar/forsjáraðilar og aðrir sem tengjast skólastarfinu geti komið óskum sínum, tillögum, skilaboðum eða ábendingum á framfæri með einföldum hætti er varða skólastarfið. Tillaga þessi er hugsuð til að auðvelda börnum og forráðamönnum að hafa áhrif á skólastarfið og velferð barnanna í skólanum. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2019010157

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs að beina þeim tilmælum til stjórnenda í grunnskólum og frístundamiðstöðvum Reykjavíkur að leita leiða til að tryggja að börn, foreldrar/forsjáraðilar og aðrir sem tengjast skóla- og frístundastarfi geti komið óskum sínum, tillögum, skilaboðum eða ábendingum á framfæri með einföldum hætti er varða skóla- og frístundastarfið, t.d. með hugmyndakössum. Tillaga þessi er hugsuð til að auðvelda börnum og foreldrum að hafa áhrif á starfið og velferð barna og ungmenna í samræmi við áherslur nýrrar menntastefnu Reykjavíkurborgar um félagsfærni og sjálfseflingu barna og ungmenna þ.m.t. lýðræðislega virkni.

    Samþykkt.

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Valdefling barna og ungmenna er mikilvægt markmið nýrrar menntastefnu og í þeim anda samþykkjum við að beina þeim tilmælum til stjórnenda í grunnskólum og frístundamiðstöðvum að tryggja að börn og forráðamenn þeirra geti komið óskum, tillögum og ábendingum á framfæri varðandi skóla- og frístundastarfið.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 9. apríl 2019:

    Skóla- og frístundaráð samþykkir að gefa starfshópi er stofnaður var til að meta og útfæra tillögur um framkvæmd grunnskóla- og frístundastarfs í norðanverðum Grafarvogi, skólahverfum Kelduskóla og Vættaskóla lengri tíma til þess að útfæra sína vinnu. Til stendur að hópurinn skili niðurstöðum til sviðsstjóra eigi síðar en 29. apríl 2019. Líkt og bent er á í skýrslu Intellecta þá var stofnun nýs skóla- og frístundasviðs og sameiningarferli leikskóla og grunnskóla viðamikið verkefni sem hafði ekki fyrirfram augljósan og óumdeilanlegan ávinning. Þetta kemur fram í óháðri úttekt sem Intellecta gerði fyrir Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar. Því er mikilvægt að vanda gríðarlega þá vinnu sem nú hefur verið sett af stað. Páskar og aðrir frídagar skerða verulega þann tíma sem þessi hópur hefur til þess að vinna og því leggja fulltrúar Sjálfstæðisflokks til að hópurinn fái tíma til 31. maí 2019.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Skóla- og frístundaráð samþykkir að framlengja skilafrest starfshóps um framtíðarskipan grunnskóla- og frístundastarfs í norðanverðum Grafarvogi. Hópnum var samkvæmt tillögu sem samþykkt var í skóla- og frístundaráði 12. mars síðastliðinn ætlað að skila niðurstöðum til sviðsstjóra eigi síðar en 29. apríl 2019. Starfshópurinn hefur óskað eftir rýmri tíma til að ljúka sinni vinnu og er lagt til að skilafresturinn verði framlengdur til 20. maí 2019.

    Samþykkt með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. SFS2019020105 

    -    Kl. 14.30 víkja Jón Ingi Gíslason og Magnús Þór Jónsson af fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúum Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði finnast það léleg vinnubrögð hjá meirihlutanum í skóla- og frístundaráði að geta ekki samþykkt þá tillögu er þeir komu með á fundi skóla- og frístundaráðs 9. apríl 2019 um það að framlengja frest starfshóps um skóla- og frístundastarf í norðanverðum Grafarvogi. Það væri algerlega sársaukalaust fyrir meirihlutann í skóla- og frístundaráði að vinna í viðkvæmum málum með minnihlutanum þannig að betri samstaða og samráð geti náðst. Öll erum við jú að vinna með hagsmuni barna í Reykjavík að leiðarljósi.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Starfshópur um framtíðarskipan skóla- og frístundastarfs í norðanverðum Grafarvogi hefur óskað eftir viðbótarfresti til að skila niðurstöðum og er hér með samþykkt að koma til móts við þær óskir með því að framlengja til 20. maí. Það gefur tækifæri til að taka vinnu starfshópsins til meðferðar á fundi skóla- og frístundaráðs 28. maí og þar með mæta óskum íbúa og foreldra um að ekki verði of mikill dráttur á niðurstöðu þessa máls.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 28. febrúar 2019, um tillöguna:

    Flokkur fólksins leggur til að gerðar verði breytingar á forgangsreglum í leikskóla þannig að einstætt foreldri sem er með fullt forræði yfir barninu fái forgang í þeim tilfellum sem hitt foreldrið tekur ekki fæðingarorlof. Í þessum tilfellum þarf hið einstæða foreldri að fara út á vinnumarkaðinn þremur mánuðum fyrr en ella, þ.e. þegar barnið er 6 mánaða. Ef forsjárlaust foreldri tekur ekki fæðingarorlof situr forsjárforeldrið ekki við sama borð og foreldrar sem deila með sér fæðingarorlofi.

    Tillagan er felld. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2019010146

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð tekur undir þær áhyggjur sem fram koma í tillögunni, en lítur svo á að heppilegra sé að yfirfara inntökureglur leikskóla borgarinnar heildrænt og þá verði þessi sjónarmið höfð með í þeirri vinnu.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. apríl 2019, um tillöguna: 

    Flokkur fólksins leggur til að borgin fjármagni að fullu Vináttuverkefni Barnaheilla fyrir þá leik- og grunnskóla sem þess óska. Rökin með þessari tillögu hafa verið reifuð oft áður og skemmst er að nefna að góð reynsla er af verkefninu sem hjálpar börnum að fyrirbyggja og leysa úr ýmsum tilfinningalegum og félagslegum vanda. 

    Tillagan er felld. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2018090085

    Fylgigögn

  7. Lögð fram hugmynd af samráðsvefnum Betri Reykjavík, dags. 5. febrúar 2019, um verkefnið Vináttu og sambærileg forvarnarverkefni gegn einelti. 

    Tillagan er felld. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2019020017

    Fylgigögn

  8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. apríl 2019, um sumaropnanir í leikskólum Reykjavíkurborgar sumarið 2019. SFS2018090095 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að tilraunaverkefni um sumaropnanir leikskóla sé unnið í góðri sátt leikskólastjórnenda og annarra starfsmanna leikskólanna. Þess verði gætt að orlofstaka starfsfólks þessara leikskóla sé til jafns við það sem almennt gerist. Sömuleiðis að tryggt verði fjármagn til að mæta hugsanlegum kostnaðarauka sem gæti fylgt þessu tilraunaverkefni. Tölurnar sýna að þau börn sem nýta sumaropnanir eru að mestu leyti börn í þeim leikskólum sem eru opnir. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja það ekki góðs viti og vona að fylgst verði vel með þessu verkefni í framhaldinu.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ákveðinn hópur foreldra hefur um árabil óskað eftir meiri sveigjanleika varðandi sumaropnun leikskóla. Með tilraunaverkefninu er verið að koma til móts við þessi sjónarmið og verður lagt mat á framvindu þess eftir sumarið þar sem leitað verður eftir sjónarmiðum foreldra, starfsfólks og stjórnenda.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 11. apríl 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram á 153. fundi skóla- og frístundaráðs, um fjölda leikskólakennara í leikskólum Reykjavíkurborgar. SFS2019020061

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði hafa áhyggjur af fækkun leikskólakennara hjá leikskólum Reykjavíkurborgar. Meðan stöðugildum starfsmanna fer fjölgandi þá fækkar stöðugt stöðugildum leikskólakennara og voru þau árið 2018 259 en 348 árið 2015. Fulltrúarnir telja að ráðast verði í átaksverkefni sem miðar að því að fjölga leikskólakennurum hjá leikskólum Reykjavíkurborgar. Þar má horfa til annarra sveitarfélaga sem hafa átt auðvelt með það að ráða til sín leikskólakennara og því sem vel er gert hjá þeim.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. apríl 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram á 156. fundi skóla- og frístundaráðs, um úthlutun leikskólaplássa. SFS2019030198

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 15:12

Skúli Helgason Alexandra Briem

Líf Magneudóttir