Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 156

Skóla- og frístundaráð

Ár 2019, 26. mars, var haldinn 156. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.31. Fundinn sátu Skúli Helgason (S), formaður, Alexandra Briem (P), Katrín Atladóttir (D), Líf Magneudóttir (V), Pawel Bartoszek (C), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Sigríður Björk Einarsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Elín Norðmann, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Jóhanna H. Marteinsdóttir, Kristján Gunnarsson og Soffía Pálsdóttir. Eygló Traustadóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning og umræða um raka- og loftgæðavanda í grunnskólum. 

    Ámundi V. Brynjólfsson, Agnar Guðlaugsson og Kristján Sigurgeirsson taka sæti á fundinum undir þessum lið. 

    -    Kl. 13:02 tekur Guðrún Edda Bentsdóttir sæti á fundinum.

  2. Lagðar fram skýrslurnar Gullborg - mat á leikskólastarfi, dags. í september 2018; Vinaminni - mat á leikskólastarfi, dags. í nóvember 2018; Laugasól - mat á leikskólastarfi, dags. í desember 2018; Langholtsskóli - ytra mat á grunnskólastarfi, dags. í október 2018 og Félagsmiðstöðin Tían - ytra mat á frístundastarfi, dags. í nóvember 2018. SFS2015060052

    Auður Ævarsdóttir og Sigrún Harpa Magnúsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. mars 2019, um tillögur starfshóps um markvisst verklag við útfærslu tillagna fagráðs um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings barna í skóla- og frístundastarfi í Reykjavík, aðgerðabundin og tímasett markmiðaáætlun vegna tillagnanna og skýrsla starfshóps um markvisst verklag við útfærslu tillagna fagráðs um eflingu málþroska, lestrarfærni og lesskilnings barna í skóla- og frístundastarfi í Reykjavík, dags. í nóvember 2018. SFS2018110057
    Frestað.

    -    Kl. 14:12 víkur Örn Þórðarson af fundinum.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. febrúar 2019, um tillöguna: 

    Tillaga Flokks fólksins að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir því að öll börn sem sækja félagsmiðstöðvar eigi þess kost að taka þátt í ferðum eða viðburðum á vegum félagsmiðstöðvarinnar sem þau sækja án tillits til efnahags foreldra þeirra. Flokkur fólksins vill að skerpt sé á reglum um starfsemi félagsmiðstöðva hvað þetta varðar svo það sé ekki á valdi leiðbeinanda hverju sinni hvernig dagskráin er. Kostnaðarsöm dagskrá leiðir án efa oft til þess að börn fátækra foreldra geta ekki tekið þátt. Lagt er til að börnum fátækra foreldra (foreldra sem eru undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytis) verði gert kleift að taka þátt í öllum dagskrárliðum þeim að kostnaðarlausu. Þetta er tryggasta leiðin til að gefa öllum börnum tækifæri til að taka fullan þátt í skipulagðri dagskrá félagsmiðstöðvanna án tillits til kostnaðar.

    Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2018100130
    Tillagan er felld. 
    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs, ásamt umsögn skóla- og frístundasviðs um tillöguna, dags. 12. febrúar 2019:

    Félagsmiðstöðvar Reykjavíkurborgar bjóða upp á félagsstarf fyrir 10-16 ára gömul börn. Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að enginn kostnaður fylgi því að mæta í félagsmiðstöð þegar það er opið hús. Einnig kemur fram að kostnaði á skemmtanir og aðra viðburði sé haldið í lágmarki. Í þeim tilvikum sem gjald er innheimt sé það staðgreitt eða innheimt eftir á. Óljóst er að sjá hvenær skemmtanir og aðrir viðburðir félagsmiðstöðva eiga sér stað og getur slíkt sett efnalitla foreldra og forráðamenn í mjög erfiða stöðu, þ.e.a.s. að þurfa að mæta óvæntum útgjöldum eða að geta ekki boðið börnum sínum að taka þátt í starfi félagsmiðstöðva. Því er lagt til að skóla og- frístundasvið kanni þann kostnað sem hefur verið innheimtur af foreldrum vegna skemmtana eða annarra viðburða hjá félagsmiðstöðvum síðasta árið og geri ráð fyrir þeim útgjaldaliðum í fjárhagsáætlun árið 2019, svo að sú starfsemi verði börnum gjaldfrjáls. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2018100037
    Tillagan er felld. 
    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram drög að samningi um samstarf menntavísindasviðs Háskóla Íslands og skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar um starfsþróun og nýsköpun í menntun. SFS2019030056
    Samþykkt.
    Vísað til borgarráðs.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Síðastliðin ár hefur skóla- og frístundasvið (SFS) verið í samstarfi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands m.a. um rannsóknir, menntamiðju og símenntun starfsmanna sviðsins. SFS hefur gjarnan kallað til fulltrúa frá Menntavísindasviði í starfshópa á vegum sviðsins, t.d. við gerð menntastefnu Reykjavíkur og eins varðandi ráðgjöf varðandi val á stjórnendum skóla. Í menntastefnu Reykjavíkur er undirstrikað mikilvægi þess að starfsfólk á skóla- og frístundasviði fái rík tækifæri til starfsþróunar og markvissa ráðgjöf og handleiðslu í starfi. Í stefnunni er tekið fram að starfsfólk SFS þurfi að eiga í þverfaglegu samstarfi m.a. við stofnanir sem stuðla að þróun menntunar. Menntastefna Reykjavíkur er því sá grundvöllur sem þessi samningur við Menntavísindasvið hvílir á en hann fjallar um samstarf varðandi starfsþróun starfsfólks á leikskólum, grunnskólum og frístundamiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Samstarfið felst annars vegar í samvinnu um þróun námskeiða, ýmist einingabær eða sértæk og hins vegar um ráðgjöf og faglega leiðsögn.

    Fylgigögn

  7. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hversu mörg börn sem verða orðin 18 mánaða 1. september hafa ekki fengið úthlutað leikskólaplássi í haust? SFS2019030198

  8. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hver er staðan á tillögu sem samþykkt var 9. október síðastliðinn varðandi aukinn stuðning við dagforeldra í Reykjavík? Gott væri að fá svörin í þeim 9 liðum sem tillagan er í. SFS2019030199

    -    Kl. 14:26 víkur Guðrún Edda Bentsdóttir af fundinum og Soffía Vagnsdóttir tekur þar sæti.

Fundi slitið klukkan 14:29

Skúli Helgason Alexandra Briem

Líf Magneudóttir Pawel Bartoszek