Skóla- og frístundaráð
Ár 2019, 12. mars, var haldinn 155. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.35. Fundinn sátu Skúli Helgason (S), formaður, Alexandra Briem (P), Katrín Atladóttir (D), Líf Magneudóttir (V), Pawel Bartoszek (C), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Ásta Bjarney Elíasdóttir, skólastjórar í grunnskólum; Eva Sóldís Bragadóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum og Sigríður Björk Einarsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Ásta Bjarney Elíasdóttir er boðin velkomin á sinn fyrsta fund í skóla- og frístundaráði.
Lagt fram bréf borgarstjóra Reykjavíkurborgar til borgarráðs, dags. 14. janúar 2019, um skýrslu og tillögur starfshóps um miðlæga stefnumótun. Jafnframt lögð fram skýrsla starfshóps um miðlæga stefnumótun, dags. í október 2018. SFS2018100154
Svavar Jósefsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að fela sviðsstjóra að setja af stað starfshóp til að meta og útfæra tillögur um framkvæmd grunnskóla- og frístundastarfs í norðanverðum Grafarvogi, skólahverfum Kelduskóla og Vættaskóla í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á nemendafjölda í einstökum starfsstöðvum á undanförnum árum. Starfshópurinn nýti í starfi sínu tillögur, kynningargögn og ábendingar sem fram hafa komið m.a. á fundum með starfsfólki og foreldrum og hafi það hlutverk að leggja fram útfærðar tillögur sem hafi það að markmiði að tryggja farsælt og gott skóla- og frístundastarf í norðanverðum Grafarvogi. Hlutverk hópsins verði jafnframt að huga að mótvægisaðgerðum sem nýtist nemendum og foreldrum þeirra í hverfinu. Starfshópinn skipi þrír fulltrúar frá hvorum skóla úr skólaráðum, þ.e. fulltrúi foreldra, kennara og stjórnanda, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvar auk fulltrúa skóla- og frístundasviðs. Skrifstofustjórar grunnskóla- og frístundamála fagskrifstofu leiði hópinn auk þess sem starfsmaður hópsins komi frá skrifstofu. Starfshópurinn nýti í vinnunni rýnihópa valda með slembiúrtaki til að fá fram viðhorf nemenda, foreldra, íbúa og starfsmanna. Starfshópurinn hafi samráð við umhverfis- og skipulagssvið um skipulagsmál í norðanverðum Grafarvogi. Hópurinn skili niðurstöðum til sviðsstjóra eigi síðar en 29. apríl 2019.
Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2019020105
Samþykkt með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Þróun nemendafjölda í norðanverðum Grafarvogi á undanförnum árum hefur verið með þeim hætti að mikil fækkun hefur orðið á nemendum í Kelduskóla Korpu og eru þar einungis 61 nemandi í skóla sem byggður var fyrir 170 nemendur. Nemendum hefur fækkað um 55% frá 2012 og er skólinn sá fámennasti í borginni og á öllu höfuðborgarsvæðinu. Ástæða er til að bregðast við þessari þróun og leita lausna sem geta tryggt nemendum í skólanum meiri fjölbreytni og val varðandi námsframboð og félagslega stöðu. Mikilvægt er að meta vandlega fyrirliggjandi gögn og rýna mismunandi valkosti varðandi framtíðina og því leggjum við fram tillögu um stofnun starfshóps með fulltrúum stjórnenda, kennara, starfsfólks, foreldra og sviðsins sem fái ráðrúm til að leggja fram tillögur að lausn. Þar verði sérstaklega hugað að mótvægisaðgerðum sem tengist m.a. samgöngum, skólaakstri og öðru sem getur bætt hag viðkomandi barna og fjölskyldna þeirra með það að höfuðmarkmiði að styrkja skóla- og frístundastarfið í hverfinu.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði harma það að til standi að loka og sameina grunnskóla í norðanverðum Grafarvogi. Ítrekaðar sameiningar hafa verið í grunnskólum Grafarvogs og hafa foreldrar ekki verið sáttir við framgöngu Reykjavíkurborgar. Þar sem efndir hafa ekki alltaf fylgt loforðum. Eins þá vilja fulltrúarnir benda á það að tölur sem nýttar eru í þessa vinnu frá skóla- og frístundasviði hafa ekki tekið mið af þeirri uppbyggingu sem borgarstjóri kynnti fyrir kosningar 2018, þá vantar líka inn í þessar tölur heildarfjölda barna á grunnskólaaldri í Staðarhverfi og meðalaldur íbúa í þessum hverfum. Eins þá þarf að huga að því að umboðsmaður Alþingis hefur úrskurðað 2012 um að breytingar á Kelduskóla-Korpu hafi ekki verið í samræmi við skipulagsáætlanir hverfisins. Eins þá gerði Intellecta úttekt á sameiningum grunnskóla 2014 sem staðfestir það að mikið hafi verið ábótavant í þeim sameiningum sem Reykjavíkurborg hefur farið í. Því verður vonandi staldrað við núna og hlustað á foreldra og íbúa og vandað til verka.
Valgerður Sigurðardóttir víkur af fundi undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 1. mars 2019, varðandi tillögu að skóladagatali grunnskóla skólaárið 2020-2021 auk skóladagatals fyrir skólaárið. Skólaárið 2020-2021 er gert ráð fyrir að skólastarf hefjist 24. ágúst 2020 og að skólar taki vetrarleyfi 22., 23. og 26. október 2020 og 22. og 23. febrúar 2021. Lagt er til að umhverfisdagar verði 16. september 2020 og 26. apríl 2021. Skólaslit verði 10. júní 2021. SFS2019030055
Samþykkt.
Guðrún Edda Bentsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um málefni leikskólanna Hólaborgar og Suðurborgar. SFS2019010039
Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:
Á síðasta fundi skóla- og frístundaráðs var samþykkt einróma breytingartillaga um sameiginlega yfirstjórn leikskólanna Hólaborgar og Suðurborgar í Breiðholti. Í kjölfarið hafa komið fram athugasemdir og gagnrýni starfsmanna og foreldra sem gáfu tilefni til frekari viðræðna um stöðuna. Fulltrúar skóla- og frístundaráðs funduðu með fulltrúum starfsfólks og foreldra í gær og var þar lögð áhersla á að mikilvægt væri að gefa þessum breytingum meiri tíma og undirbúning. Það eru málefnaleg sjónarmið sem við teljum eðlilegt að virða og höfum því óskað eftir því að borgarráð fresti því að taka málið til endanlegrar afgreiðslu, svo halda megi áfram samtali við starfsfólk og foreldra og freista þess að skapa meiri sátt um niðurstöðuna og útfærslu hennar með hag barna og fjölskyldna þeirra í fyrirrúmi.
-
Fram fer kynning um skráningu persónuupplýsinga um börn í upplýsingakerfi. SFS2019020079
- Kl. 14.42 víkur Líf Magneudóttir af fundinum.
-
Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. febrúar 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um brennanleg efni í byggingum í eigu Reykjavíkurborgar sem var lögð fram á 145. fundi skóla- og frístundaráðs. SFS2018100122
Fylgigögn
-
Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. febrúar 2019, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lóð leikskólans Hamra og ófrágengnar lóðir leik- og grunnskóla sem var lögð fram á 147. fundi skóla- og frístundaráðs. SFS2018110076
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um embættisafgreiðslu sviðsstjóra, dags. 7. mars 2019, eitt mál.
- Kl. 15.02 víkur Guðrún Kaldal af fundinum.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um bruna í Seljaskóla.
-
Fram fer umræða um raka- og loftgæðavanda í Fossvogsskóla
- Kl. 15.40 víkur Anna Metta Norðdahl af fundinum.
- Kl. 15.45 víkur Eva Sóldís Bragadóttir af fundinum.
Fundi slitið klukkan 15:57
Skúli Helgason Alexandra Briem
Pawel Bartoszek