Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 154

Skóla- og frístundaráð

Ár 2019, 28. febrúar, var haldinn 154. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 9.05. Fundinn sátu Skúli Helgason (S), formaður, Alexandra Briem (P), Katrín Atladóttir (D), Líf Magneudóttir (V), Pawel Bartoszek (C), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Eva Sóldís Bragadóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Sigríður Björk Einarsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Eygló Traustadóttir, Guðrún Edda Bentsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Pálsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. janúar 2019:

    Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að leikskólarnir Suðurborg og Hólaborg verði sameinaðir í einn heildstæðan leikskóla, undir einni stjórn frá og með 1. apríl 2019 og að staða leikskólastjóra verði auglýst laus til umsóknar í febrúar 2019. Samhliða ráðningu leikskólastjóra verði myndaður innleiðingarhópur sem vinni með stjórnanda að sameiningunni og þeim breytingum á starfseminni sem henni fylgir. Í hópnum eigi sæti fulltrúar beggja starfsstöðva þ.e. fulltrúar stjórnenda og annarra starfsmanna auk fulltrúa fagskrifstofu og mannauðsskrifsstofu skóla- og frístundasviðs. Hópurinn leiti samráðs og ráðgjafar foreldra og annarra aðila eftir málefnum hverju sinni. Hópurinn starfi frá 1. apríl 2019 til 1. október 2020. Jafnframt er lagt til að gerðar verði breytingar á rekstri mötuneyta leikskólanna með aukna rekstrarhagkvæmni að leiðarljósi t.d. að hádegismatur verði framleiddur í eldhúsi Suðurborgar og eldhúsið í Hólaborg verði móttökueldhús. Strax verði hafist handa, í samstarfi við umhverfis- og skipulagssvið, að meta aðstöðu í mötuneytum í báðum húsum með þetta í huga. Lagt verði mat á hvort og þá hvaða breytingar þarf að gera á aðstöðunni ásamt kostnaðarmati á aðgerðum þar með talinn kostnaður við að leggja upphitaðan stíg á milli húsanna.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. febrúar 2019, ásamt umsögn foreldra og foreldraráðs leikskólans Hólaborgar, dags. 19. janúar 2019, umsögn kennara Hólaborgar, dags. 24. janúar 2019, umsögn leikskólastjóra Hólaborgar, dags. 28. janúar 2019, umsögn foreldra í Suðurborg, ódags., umsögn starfsfólks Suðurborgar, dags. 30. janúar 2019, umsögn leikskólastjóra Suðurborgar, dags. 29. janúar 2019, bréf nokkurra starfsmanna Suðurborgar, ódags. og vinnuskjal vegna Hólaborgar og Suðurborgar, dags. í febrúar 2019:

    Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að í ljósi þess sem fram kemur í umsögnum foreldra og starfsfólks leikskólanna Suðurborgar og Hólaborgar verði einvörðungu sameinuð yfirstjórn þessara tveggja leikskóla sem standa svo nærri hvor öðrum. Með sameiningu yfirstjórnar er átt við að ráðinn verði einn leikskólastjóri sem stýri báðum leikskólunum en að ekki verði lagðar til breytingar á öðrum starfsheitum né áherslum í innra starfi. Til viðbótar við stjórnun leikskólans komi jafnframt 25% stöðuhlutfall til viðbótar inn í stjórnun leikskólanna sem nýtist stjórnendum til að ná betur utan um stjórn leikskólanna. Tillaga um sameinaða yfirstjórn felur fyrst og fremst í sér samrekstur leikskólanna tveggja. Innra starf leikskólanna verður óbreytt; ekki er gerð krafa um breytingar á rekstri mötuneyta, stöðugildi aðstoðarleikskólastjóra standa óbreytt en til viðbótar kemur 25% staða sem stjórnandi ráðstafar, stöðugildi sérkennslustjóra standa óbreytt, ekki verður farið í að aldursskipta börnum á milli húsa og ekki verður tilfærsla á starfsfólki. Með sameinaðri yfirstjórn er lögð áhersla á að standa vörð um styrkleika og áherslur hvors leikskóla og ekki verður breyting á starfinu næst börnunum en hins vegar nýtt þau tækifæri sem felast í rekstrarlegri samlegð leikskólanna sem standa svo nærri hvor öðrum. 

    Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2019010039

    -    Kl. 9.20 tekur Jón Ingi Gíslason sæti á fundinum.

    -    Kl. 9.25 tekur Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir sæti á fundinum.

    Samþykkt og vísað til borgarráðs.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna þeirra stefnubreytingu sem orðið hefur á sameiningaráformum í leikskólunum Suðurborg og Hólaborg. Sérstaklega er ánægjulegt að horft hafi verið til umsagna frá foreldrum og starfsfólki skólanna.  Ný og breytt tillaga tekur á faglegu starfi og er það vel. Einn mikilvægasti en um leið viðkvæmasti þáttur í rekstri leikskóla eru starfsmannamál.  Mjög áríðandi er að innleiðing breytingarinnar valdi ekki óróleika eða óvissu í starfsmannamálum. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Breytingartillaga sviðsstjóra um sameinaða yfirstjórn leikskólanna Suðurborgar og Hólaborgar í Breiðholti tekur mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram í umsögnum foreldra og starfsmanna leikskólanna tveggja. Tillagan er sanngjörn málamiðlun og felur fyrst og fremst í sér sameiginlegan rekstur leikskólanna en ekki eru lagðar til breytingar á innra starfi leikskólanna, ekki verða frekari tilfærslur á starfsfólki eða börnum. Leikskólarnir Suðurborg og Hólaborg í Efra-Breiðholti standa hlið við hlið á sömu lóð með girðingu á milli. Skýr hagkvæmnisrök hníga að því að sameina yfirstjórn þessara leikskóla. Það er líka skýrt tækifæri til umbóta á leikskólanum Suðurborg ekki síst með vísan til ytra mats leikskólans frá 2015 þar sem allmörg atriði kölluðu á umbætur. Þá er rétt að halda til haga að leikskólinn Suðurborg hefur ekki gefið út skólanámskrá á grunni Aðalnámskrár leikskóla frá 2011 og ekki liggur fyrir starfsáætlun fyrir skólaárið 2018- 2019 heldur greinargerð um að unnið sé á grunni starfsáætlunar 2017-2018. Við þessar aðstæður er skynsamlegt að sameina yfirstjórn og í því felast tækifæri varðandi starfsþróun, valdeflingu starfsmanna, fræðslu og aukið samstarf leikskólanna.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. febrúar 2019, minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. janúar 2019, drögum að þjónustusamningi um framlag vegna barna í sjálfstætt reknum grunnskólum í Reykjavík sem nýta frístundaheimili skólans og eiga lögheimili í Reykjavík og fósturbarna ef fósturforeldrar eiga lögheimili í Reykjavík, umsögn Samtaka sjálfstæðra skóla um drög að þjónustusamningi, dags. 1. febrúar 2019 og bréfi skóla- og frístundasviðs, dags. 19. febrúar 2019: 

    Skóla- og frístundaráð samþykkir og vísar til borgarráðs tillögu sviðsstjóra um að gerður verði þjónustusamningur við sjálfstætt rekna grunnskóla í Reykjavík vegna reksturs frístundaheimila þeirra, svo fremi sem þeir uppfylla skilyrði samkvæmt drögum að samningi og eru með viðurkenndan þjónustusamning um rekstur grunnskóla í Reykjavík. Vísað er til minnisblaðs sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. febrúar 2019, og fyrirliggjandi draga að þjónustusamningi. Gerður er fyrirvari um endanlega útfærslu á samþykkt borgarstjórnar um að barnafjölskyldur greiði einungis námsgjald fyrir eitt barn, þvert á skólastig. Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs er falið að gera samninginn með þeirri breytingu þegar útfærsla liggur fyrir. 

    Samþykkt og vísað til borgarráðs. SFS2016100093

    -    Kl. 10.00 víkur Líf Magneudóttir af fundinum og Elín Oddný Sigurðardóttir tekur þar sæti.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2019. SFS2019020034

    Áheyrnarfulltrúar skólastjóra í grunnskólum, leikskólastjóra, stjórnenda frístundamiðstöðva og kennara í grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúar Félags skólastjórnenda í Reykjavík, leikskólastjóra, frístundamiðstöðva og Kennarafélags Reykjavíkur skora á skóla- og frístundaráð að leiðrétta áætlaðar fjárheimildir í fjárhagsáætlun sviðsins fyrir árið 2019 í samræmi við raunkostnað liðinna ára. Sérstaklega er bent á fjármagnsliði sem falla undir annan rekstrarkostnað, langtímaforföll, orlof utan lokunar og sértækan stuðning en í þeim liðum er verulegt ósamræmi sem hætta er á að komi niður á þjónustu við börnin í borginni.  Auk þess treysta áheyrnarfulltrúar ráðinu fyrir því að á árinu komi réttmætar upphæðir til viðhalds sem falla til vegna innri leigu til framkvæmda á nauðsynlegu viðhaldi skólanna og frístundamiðstöðvanna í borginni.  Þar þarf að koma til mikið átak, nú í ár og á næstu árum.

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð þakkar fyrir góða kynningu á fjárhagsáætlun ársins 2019. Mikilvægt er að fjárhagsáætlun sé byggð á öruggum grunni sem tryggir grunnskólum, frístundamiðstöðvum og leikskólum raunhæfa fjármögnun til rekstrar og viðhalds sem byggi á raunhæfum væntingum. Ráðið telur ástæðu til að farið verði yfir aðferðafræði við úthlutun rekstrarfjármagns og gerð fjárhagsáætlunar frá grunni.

    Einnig lagðar fram bókanir sem skráðar voru í trúnaðarbók skóla- og frístundaráðs 9. október 2018.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi trúnaðarbókun á fundi skóla- og frístundaráðs 9. október 2018:

    Tillaga að fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs fyrir komandi ár endurspeglar áframhaldandi sókn í málaflokknum. Framlög til sviðsins hækka um 1,7 milljarð frá fjárhagsáætlun þessa árs og rúma 4,5 milljarða frá ársreikningi síðasta árs. Mestu munar um hækkun launa í samræmi við nýgerða kjarasamninga við kennara og aðra starfsmenn. Forgangsverkefni komandi árs eru annars vegar innleiðing nýrrar menntastefnu sem stefnt er að því að afgreiða fyrir lok ársins og hins vegar aðgerðir til að bæta vinnuumhverfi starfsfólks leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva en mikil og góð vinna hefur verið lögð í tillögur þar um undanfarin tvö ár. Þar er bæði um að ræða umbætur sem tengjast innra starfinu, s.s. aukin framlög í fagstarfið, endurnýjun tölvukosts og annarra kennslutækja en sömuleiðis á ytra umhverfi, ekki síst í formi verulega aukins fjármagns til viðhalds og endurbóta á húsnæði skóla- og frístundastarfs í borginni.

    Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum lagði fram svohljóðandi trúnaðarbókun á fundi skóla- og frístundaráðs 9. október 2018:

    Áheyrnarfulltrúi Félags skólastjórnenda í Reykjavík lýsir fyrir hönd félagsmanna yfir áhyggjum af fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs fyrir árið 2019. Á uppgjöri fyrir árið 2017 er staðan þannig í mörgum grunnskólum borgarinnar að útgjöld þeirra fara þar fram úr fjárhagsáætlunum og miðað við fyrirliggjandi áætlun fyrir komandi ár er ljóst að niðurskurðarkrafa verður gerð milli ára, allavega í ákveðnum þáttum skólastarfs. Skólastjórnendur hafa lýst því ítrekað yfir að þeir muni í ákveðnum aðstæðum ekki ná tilætluðum árangri nema með niðurskurði sem bitnar verulega á þjónustu skólanna. Sérstaklega má þar horfa til almenns rekstrarliðar sem enn á ný verður ekki bættur að fullu, þrátt fyrir að undantekningalaust hafi grunnskólar borgarinnar ekki náð að halda sig þar innan áætlunar. Mikilvægt er að horft sé til lögbundinnar skyldu grunnskóla til að sinna þjónustu til handa nemendum sínum þegar fjárhagsáætlun er unnin og horfa þarf til þess þjónustuhlutverks í hvívetna við þá vinnu. Veitt þjónusta er í takt við það fjármagn sem sviðið dreifir og mjög mikilvægt að horfa til þess hvort að það fjármagn sem er til dreifingar á árinu 2019 sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir um grunnskóla og/eða þjónustukröfu nemenda og aðstandenda þeirra í Reykjavík. 

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva lagði fram svohljóðandi trúnaðarbókun á fundi skóla- og frístundaráðs 9. október 2018:

    Framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva fagna nýrri frístundastefnu og tækifærum sem með henni koma til þess að auka faglegt frístundastarf. Áhersla á aukið 10-12 ára starf og aukinn stuðning fyrir börn á aldrinum 10-16 ára í félagsmiðstöðvarstarfi eru sett á oddinn. Sjá minnisblað til borgarráðs 15.maí 2018

    https://reykjavik.is/sites/default/files/skjol_borgarstjornarfundur/sbb_innleiding_n.pdf 

    Einnig er ánægjulegt að sjá að hluti af aðgerðum tengdum bættu fagumhverfi starfsmanna eru komnar inn í áætlun 2019. Mikilvægt er að styrkja fræðslukerfi og móttöku nýliða í frístundastarfi. Einungis 35% starfsmanna í frístundastarfi er með uppeldismenntun og því skiptir það máli að þjálfa starfsmenn vel. Í útreikningum tengdum bættu starfsumhverfi kemur fram að fjárþörfin er 11 milljónir en í fjárhagsáætlun sem hér er kynnt er gert ráð fyrir 6 milljónum. Mönnunarvandi frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva er viðvarandi og því er mikilvægt að svara því ástandi sem uppi er. Mikilvægt er að tryggja að USK geri úttekt á húsnæði frístundastarfsins, sett verði fram skýr umbótaáætlun fyrir þær starfseiningar sem eru hvað verst staddar og ráð gert fyrir fjármagni til að styrkja aðbúnað og húsakost starfseininganna. Þessu tengt þarf að skoða fjárveitingar undir liðnum annar kostnaður sem ár eftir ár er ekki í takt við þarfir til endurnýjunar á búnaði.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi trúnaðarbókun á fundi skóla- og frístundaráðs 9. október 2018:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks árétta að fjárhagsáætlun er almennt ætlað að gefa fyrirheit um raunverulegan rekstrarkostnað. Fram hefur komið í ábendingum fulltrúa stjórnenda á starfsstöðvum að áætlun fyrir næsta ár er að mörgu leyti ábótavant, kostnaður víða vanáætlaður og nánast ógerlegt að mæta hagræðingarkröfum. Enn fremur kom fram að innri leiga vegna húsnæðis er hærri en gerist í öðrum sveitarfélögum, sem skekkir samanburð og leiðir til hærri kostnaðar við skólagöngu reykvískra barna. Full ástæða er til að endurskoða vinnulag við fjárhagsáætlanagerð, til að áætlun endurspegli væntan raunkostnað og sé í takti við það sem víðast tíðkast í öðrum sveitarfélögum.

    Fylgigögn

  4. Fram fer kynning á hverfisskipulagi Reykjavíkur vegna Ártúnsholts, Árbæjar og Seláss. SFS2019020034 

    Ævar Harðarson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 26. febrúar 2019, um öryggisbrest í rafræna upplýsingakerfinu Mentor í febrúar 2019. SFS2019020079 

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð ítrekar þá eindregnu afstöðu sína að öll meðferð á persónupplýsingum barna, starfsfólks og foreldra verði að vera yfir allan vafa hafin. Ráðið lítur það mjög alvarlegum augum að ekki hafi verið hægt að koma í veg fyrir þann öryggisbrest sem þarna kom upp á fyrri stigum máls og leggur til að farið verði í umræðu um þau kerfi sem notuð eru af skólum borgarinnar og þær öryggisráðstafanir sem þar eru viðhafðar.

    -    Kl. 11.05 víkja Kristján Gunnarsson og Soffía Pálsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram dagskrá öskudagsráðstefnu skóla- og frístundasviðs sem fram fer 6. mars 2019. SFS2019020138 

    -    Kl. 11.18 víkur Elín Oddný Sigurðardóttir af fundinum.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 11:20

Skúli Helgason Alexandra Briem

Pawel Bartoszek