Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 153

Skóla- og frístundaráð

Ár 2019, 12. febrúar, var haldinn 153. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.32. Fundinn sátu Skúli Helgason (S), formaður, Alexandra Briem (P), Líf Magneudóttir (V), Pawel Bartoszek (C), Sanna Magdalena Mörtudóttir (J), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Eva Sóldís Bragadóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva og Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Sigrún Sveinbjörnsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á fyrirhugaðar framkvæmdir og viðhald á starfseiningum skóla- og frístundasviðs 2019. SFS2019020059

    Agnar Guðlaugsson og Daníel Benediktsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 13.00 tekur Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum.

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra í frístundamiðstöðvum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva þakkar fyrir kynningu frá umhverfis- og skipulagssviði um framkvæmdir á skóla- og frístundasviði árið 2019. Framkvæmdastjórar vilja benda á að skóla- og frístundasvið er eitt svið og mikilvægt að horfa heildstætt á alla aðstöðu sviðsins. Mikið af frístundastarfinu fer fram í samnýttu húsnæði með grunnskólum borgarinnar og allar úttektir frá USK þurfa að horfa á mannvirkin sem fjölnota mannvirki þegar farið er í framkvæmdir og viðhald. Framkvæmdastjórum finnst óskýrt hvaða framkvæmdir í starfseiningum frístundamiðstöðva, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum á að fara í árið 2019. Mikið af húsnæði starfseininganna er ábótavant og áríðandi að bregðast skjótt við. Framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva óska eftir betra upplýsingastreymi milli USK og SFS þar sem settir eru fram skýrir verkferlar um samskipti og vinnsluhraða verkefna.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði þakka fyrir góða kynningu á fyrirhuguðum framkvæmdum á starfseiningum skóla- og frístundasviðs. Ljóst er að þó svo bætt hafi verið í fjárveitingar til viðhaldsverkefna þá er langt í land að búið sé að uppfylla þá gríðarlegu uppsöfnuðu viðhaldsþörf sem er á starfseiningum skóla- og frístundasviðs. Þetta bitnar verst á börnum og starfsfólki á þeim starfsstöðvum sem eru að bíða eftir því að viðhald klárist. Fulltrúarnir vilja hvetja til þess að áfram verði haldið af fullum þunga að vinna upp þessa miklu uppsöfnuðu viðhaldsþörf.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikið stendur til í framkvæmdum á komandi ári hvað varðar nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs. Alls verður varið tæplega 2,4 milljörðum króna í nýframkvæmdir, stærsti hlutinn í nýjar leikskóladeildir sem tengjast uppbyggingu leikskólaþjónustu á komandi árum. Veruleg aukning verður á fjármagni til almenns viðhalds sem nemur í ár 2,5 milljörðum króna til leikskóla- og grunnskólahúsnæðis en það er tvöföldun á tveimur árum. Þá fara rúmar 150 milljónir í sérstök átaksverkefni í leik- og grunnskólum. Alls er því varið um 4 milljörðum króna í fjárfestingar, almennt viðhald og endurbætur skólahúsnæðis á komandi ári.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 28. janúar 2019, um tillöguna:

    Lagt er til að sá afsláttur sem námsmenn, einstæðir foreldrar og öryrkjar geta fengið af leikskólagjöldum barna sinna, nái einnig til gjalds vegna dvalar barna á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar

    Greinargerð fylgir. SFS2018090152
    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ábendingar um að afsláttarreglur varðandi gjöld á frístundaheimilum nýtist illa foreldrum með eitt barn, eru gildar og þarfnast skoðunar. Ljóst er að endurskoða þarf afsláttarreglur skóla- og frístundasviðs í heild sinni, enda byggja þær á aðstæðum og umhverfi fyrri tíma. Í dag telst starf grunnskóla, leikskóla og frístundamiðstöðva jafngilt og því eðlilegt að sömu reglur gildi um gjöld og afslætti á þessum þrem stoðum menntamála í borginni. Hvatt er til að umræddar gjaldskrár verði endurskoðaðar í heild fyrir næsta fjárhagsár, með samræmi og jafnan aðgang í huga.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Gjaldskrármál borgarinnar eru í stöðugri endurskoðun. Búið er að ákveða, í samræmi við samstarfssáttmála meirihlutans, að frá og með 1. janúar 2019 skuli hver fjölskylda einungis greiða eitt námsgjald þvert á skólastig. Ekki þykir rétt að ráðast í frekari breytingar á gjaldskrám á þessari stundu, en það kann að vera gert í framtíðinni, til dæmis í tengslum við næstu fjárhagsáætlunargerð.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands telur að þjónusta borgarinnar gagnvart börnum eigi að vera gjaldfrjáls og þá sérstaklega á sviði skóla- og frístundasviðs. Meðan að slíkt á ekki við er mikilvægt að sá afsláttur sem einstæðir foreldrar, námsmenn og öryrkjar geta fengið af leikskólagjöldum barna, eigi einnig við inni á frístundaheimilum borgarinnar en staðan er ekki sú í dag. Slíkt gerir mörgum foreldrum í erfiðri efnahagslegri stöðu enn erfiðara fyrir þar sem þeir finna fyrir auknum fjárútlátum þegar barn þeirra fer frá leikskólastigi og yfir á grunnskólastig. Nýlegar breytingar Reykjavíkurborgar gera það að verkum að hver fjölskylda greiðir einungis eitt námsgjald þvert á skólastig óháð fjölda barna. Slík breyting er jákvæð fyrir fjölskyldur með fleiri en eitt barn en gerir ekkert fyrir foreldra með eitt barn. Vonast er til þess að tekið verði tillit til foreldra í þessari stöðu og gjaldskrár endurskoðaðar til að auka samræmi. 

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 8. febrúar 2019, um tillögu að úthlutun þróunar- og nýsköpunarstyrkja vegna innleiðingar Menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030, drögum að reglum um styrkveitingar skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur vegna styrkja í A-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur Látum draumana rætast, drögum að reglum um styrkveitingar skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur vegna styrkja í B-hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur Látum draumana rætast og reglum um styrkveitingar skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur til þróunarverkefna á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar:

    Skóla- og frístundaráð samþykkir reglur um styrkveitingar skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur vegna styrkja í A hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur „Látum draumana rætast“ og reglur um styrkveitingar skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur vegna styrkja í B hluta þróunar- og nýsköpunarsjóðs skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur „Látum draumana rætast“. Við gildistöku nýrra reglna falla úr gildi reglur um styrkveitingar skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur til þróunarverkefna á starfsstöðum skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. 

    Greinargerð fylgir. SFS2019020035
    Samþykkt.
    Vísað til borgarráðs.
    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ný menntastefna Reykjavíkurborgar Látum draumana rætast sem samþykkt var í lok nóvember er nú að koma til framkvæmda og fyrsti áfangi innleiðingarinnar felur í sér stofnun þróunar- og nýsköpunarsjóðs sem úthlutar styrkjum til allra leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva í borginni auk skólahljómsveita. Fjárveiting sjóðsins á árinu er 200 milljónir króna sem er margfalt hærra framlag en málaflokkurinn hefur haft til ráðstöfunar til þróunarverkefna á undanförnum árum. Þar má nefna sem dæmi að árið 2017 var 19 milljónum króna varið í þróunarverkefn starfsstöðva skóla- og frístundasviðs og fengu mun færri en vildu. Hér er því um að ræða kröftuga innspýtingu í skóla- og frístundastarf borgarinnar og verður spennandi að sjá afraksturinn þegar umsóknir taka að berast inn á komandi vikum.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um úthlutun almennra styrkja skóla- og frístundaráðs árið 2019, dags. 30. janúar 2019, yfirlit um styrkumsóknir almennra styrkja skóla- og frístundaráðs 2019 og reglur um úthlutun almennra styrkja skóla- og frístundaráðs. Einnig er lögð fram svohljóðandi tillaga úthlutunarnefndar um almenna styrki skóla- og frístundaráðs um að eftirtaldir aðilar hljóti styrki skóla- og frístundaráðs 2019: 

    1)    Umsækjandi: Alexía Björg Jóhannesdóttir. Heiti verkefnis: Kynfræðsla pörupilta. Kr. 750.000.
    2)    Umsækjandi: Arna Hrönn Aradóttir. Heiti verkefnis: Hjólakraftur fyrir nemendur frá 1. – 10. bekk. Kr.    300.000.
    3)    Umsækjandi: Félag Litháa á Íslandi. Heiti verkefnis: Þrír litir. Kr. 200.000.
    4)    Jóhann Björnsson. Heiti verkefnis: Merkingarbært nám í „tilgangslausum skóla“. Kr. 250.000.
    5)    Umsækjandi: Kikka, K.M. Sigurðardóttir. Heiti verkefnis: Leikskólasögur. Kr. 400.000.
    6)    Umsækjandi: Klassísi listdansskólinn ehf. Heiti verkefnis: Dans fyrir alla. Kr. 500.000.
    7)    Umsækjandi: Landsamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Heiti verkefnis: Eldvarnarátak. Kr. 300.000.
    8)    Umsækjandi: Móðurmál – Samtök um tvítyngi. Heiti verkefnis: Kennsluefni fyrir móðurmálshópa samtakanna. Kr. 200.000.
    9)    Umsækjandi: Móðurmál – Samtök um tvítyngi. Heiti verkefnis: Hýsing í Gegni. Kr. 200.000.
    10)    Umsækjandi: Muhammed Emin Kizilkaya. Heiti verkefnis: Panga stærðfræðikeppni 2018. Kr.    200.000.
    11)    Umsækjandi: Rauði krossinn í Reykjavík. Heiti verkefnis: Heilahristingur – heimanámsaðstoð. Kr. 250.000.
    12)    Umsækjandi: Rithöfundasamband Íslands. Heiti verkefnis: Skáld í skólum. Kr. 600.000
    13)    Umsækjandi: Veran, félag um vellíðan. Heiti verkefnis: Vellíðan í skólum, listin að leika og læra með núvitund og jóga. Kr. 300.000.
    14)    Umsækjandi: Waldorfleikskólinn Sólstafir. Heiti verkefnis: Lifandi tónlist í lifandi skólasamfélagi. Kr. 250.000.

    Samþykkt. SFS2018090047

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er jákvætt að sjá styrkjaúthlutanir skóla- og frístundaráðs en ýmsar mikilvægar styrkumsóknir fengu þó ekki styrk eða fá hluta upphæðarinnar sem þau sóttu um. Sósíalistar hefðu viljað sjá fleiri styrkumsóknir samþykktar og minna á tillögu þess efnis um að Reykjavíkurborg vinni að því að koma útsvari á fjármagnstekjur og aðstöðugjöld á fyrirtæki til að fjármagna öll þau mikilvægu verkefni sem sveitarfélögin sinna. Þar gæti Reykjavíkurborg leitað til hinna sveitarfélaganna í landinu með það að markmiði að mynda samstöðu til að beita sér fyrir því að aðstöðugjöld verði aftur lögð á fyrirtæki og að útsvar verði lagt á fjármagnstekjur. Aðstöðugjöld voru veigamikill hluti af tekjustofni sveitarfélaganna og ef 1,3% aðstöðugjald hefði verið lagt á veltu tíu stærstu fyrirtækjanna sem voru með höfuðstöðvar í Reykjavík árið 2017 hefði borgarsjóður fengið um 9,7 milljarða (þessu er ætlað að gefa grófa mynd en þar þarf að skoða ýmsa þætti, í útsvari er t.d. jöfnunargjald til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og sjálfsagt að reikna með einhverju slíku í aðstöðugjaldi). Fjármagnstekjur bera ekkert útsvar líkt og launatekjur. Mikilvægt er að fyrirtæki og fjármagnseigendur greiði í sameiginlegan sjóð okkar allra svo hægt sé að sinna öllum þeim mikilvægu verkefnum sem koma inn á borð borgarinnar. 

    Guðrún Edda Bentsdóttir og Elísabet Helga Pálmadóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram hugmynd af vefsvæðinu Betri Reykjavík, dags. 31. janúar 2017, um skólagróðurhús við alla grunnskóla. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. febrúar 2019, um hugmyndina. SFS2017010167
    Tillagan er felld. 
    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn þakkar fyrir áhugaverða tillögu, en telur þó að af nokkrum ástæðum sé ekki mögulegt að samþykkja hana að svo stöddu. Þar stendur fremst sú staðreynd að skólar borgarinnar eru lokaðir á sumrin, en það er helsti ræktartími gróðurhúsa. Þó er mikill vilji til að efla sjálfbæra ræktun í hverfum borgarinnar og gróðurhús gætu vel fallið að þeim áherslum í einhverjum hverfum.

    Fylgigögn

  6. Fram fer skipan í stýrihóp um framtíðarskipan tónlistarnáms. 
    Samþykkt að skipa í stýrihópinn Eyþór Laxdal Arnalds, Elínu Oddnýju Sigurðardóttur og Alexöndru Briem sem jafnframt verður formaður hópsins. SFS201812003

  7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs varðandi ráðningu í stöðu leikskólastjóra í Stakkaborg , dags. 1. febrúar 2019. SFS2019020018

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum leikskólastjóra Stakkaborgar Jónínu Einarsdóttir til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fráfarandi leikskólastjóra Ólafíu Björk Davíðsdóttur fyrir vel unnin störf.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs varðandi ráðningu í stöðu skólastjóra í Vættaskóla, dags. 30. janúar 2019. SFS2019020020

     

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

     

    Skóla- og frístundaráð óskar nýráðnum skólastjóra Vættaskóla Þuríði Óttarsdóttur til hamingju með starfið og óskar henni velfarnaðar. Ráðið þakkar fyrrum skólastjóra Jóhönnu S. Vilbergsdóttur fyrir vel unnin störf.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram tíma- og verkáætlun vegna undirbúnings og afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2020 og fimm ára áætlunar 2020-2024, dags. 14. janúar 2019. Jafnframt lagðar fram reglur um gerð og framkvæmd fjárhagsáætlunar hjá Reykjavíkurborg, dags. 1. desember 2015. SFS2019020034

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. desember 2018, um breytingar á skipuriti skrifstofu skóla- og frístundasviðs. SFS2018120101

    Fylgigögn

  11. Lagt fram yfirlit yfir starfshópa skóla- og frístundasviðs í janúar 2019. Jafnframt lagt fram yfirlit yfir starfshópa á vegum Ráðhúss sem skóla- og frístundasvið á fulltrúa í, dags. 5. febrúar 2019. SFS2016020039

    Fylgigögn

  12. Lagt fram yfirlit yfir erindisbréf starfshópa skóla- og frístundasviðs, dags. 29. janúar 2019. Jafnframt lögð fram erindisbréf samráðshóps um innleiðingu kjarasamnings Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands vegna Félags grunnskólakennara í grunnskólum borgarinnar, starfshóps um samræmda talmeinaþjónustu við grunn- og leikskóla Reykjavíkur, starfshóps um samræmd viðmið um skólasókn, verkefnahóps vegna KFS greiningar – innkaup á námsefni og leikföngum, verkefnahóps vegna KFS greiningar, skólahljómsveitir og Tónlistarskólinn á Klébergi, starfshóps um markvissara samstarf frístundaheimila og félagsmiðstöðva við grunnskóla í Reykjavík og starfshóps um snjalltækjanotkun og skjátíma. SFS2017010020

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. febrúar 2019, um embættisafgreiðslu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, eitt mál. SFS2019020033 

    -    Kl. 14.30 víkja Guðrún Kaldal og Anna Metta Norðdahl af fundinum.

    Fylgigögn

  14. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir upplýsingum um það hversu margir leikskólakennarar störfuðu í leikskólum Reykjavíkurborgar árið 2018, 2017, 2016 og 2015.

    SFS2019020061

  15. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir upplýsingum um úrbætur sem hafa verið gerðar á þeim 31 atriðum úr samantektar skýrslu sem gerð var eftir kjarasamninga við Félag grunnskólakennara. Hversu mörg atriði af þeim 31 atriðum sem lagt var til úrbóta er búið að framkvæma og hvað á eftir að framkvæma?

    SFS2019020060

  16. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði óska eftir upplýsingum um það hversu margir skólar og leikskólar hafa fengið athugasemdir/frávik/ábendingar frá Heilbrigðiseftirlitinu sem ekki hefur verið brugðist við.

    SFS2019020062

  17. Fram fer umræða um bruna í leikskólanum Árborg miðvikudaginn 6. febrúar 2019 og viðbrögð vegna hans. SFS2019020063

    -    Kl. 15.00 víkja Eva Sóldís Bragadóttir og Kristján Gunnarsson af fundinum.

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð þakkar fyrir afbragðs góða vinnu og fumlaus vinnubrögð í tengslum við eldsvoða sem kom upp á leikskólanum Árborg í síðustu viku. Allir hafa lagst á eitt við að tryggja að sem minnst rask verði á starfseminni. Ber þá sérstaklega að þakka stjórnendum og starfsfólki Árbæjarskóla og Ársels en fljótt og örugglega gekk að koma börnum og starfsfólki Árborgar í öruggt skjól meðan unnið er að endurbótum í leikskólahúsnæðinu. Þökk sé áræðni, yfirvegun og fumlausum viðbrögðum starfsfólks og viðbragðsaðila tókst að koma í veg fyrir stórslys á börnum og fólki. Það er mikil mildi að ekki fór verr og að allt gekk upp þegar þurfti að rýma leikskólann. Héldust þar í hendur margir þættir; greiðvikni nágranna og starfsfólks stofnana hverfisins og eins skjót viðbrögð Strætó. Þessi bruni minnir okkur á mikilvægi fræðslu og forvarna í samstarfi við slökkviliðið og aðra viðbragðsaðila, og það hversu dýrmætt er að öll öryggismál á vinnustöðum séu í lagi og starfsfólk vel upplýst.

Fundi slitið klukkan 15:04

Skúli Helgason Alexandra Briem

Líf Magneudóttir Pawel Bartoszek

Sanna Magdalena Mörtudottir