Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 151

Skóla- og frístundaráð

Ár 2019, 8. janúar, var haldinn 151. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.30. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Alexandra Briem (P), Katrín Atladóttir (D), Líf Magneudóttir (V), Pawel Bartoszek (C), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Eva Sóldís Bragadóttir, Reykjavíkurráð ungmenna; Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva og Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir og Soffía Pálsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar. SFS2019010033

    Þröstur Sigurðarson og Arna Ýr Sævarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 12:38 taka Guðrún Gunnarsdóttir, Sigríður Björk Einarsdóttir og Ragnheiður E. Stefánsdóttir sæti á fundinum.
    -    Kl. 12:50 tekur Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum.
    -    Kl. 12:55 tekur Kristján Gunnarsson sæti á fundinum.
    -    Kl. 13:15 tekur Soffía Vagnsdóttir sæti á fundinum.

  2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 2. janúar 2019, varðandi breytingu á rekstarleyfi leikskólans Mánagarðs, drög að nýju rekstarleyfi fyrir leikskólann Mánagarð, rekstarleyfi fyrir leikskólann Mánagarð, dags. 5. september 2018, bréf Félagsstofnunar stúdenta þar sem óskað er eftir leiðréttingu á framlagi til leikskólans Mánagarðs, dags. 10. desember 2018 og bréf Félagsstofnunar stúdenta þar sem óskað er eftir stækkun og fjölgun dvalarrýma á leikskólanum Mánagarði, dags. 26. janúar 2017. 
    Samþykkt. SFS2015030161

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs varðandi rekstrarframlag til Félagsstofnunar stúdenta vegna leikskólans Mánagarðs, dags. 2. janúar 2019, bréf Félagsstofnunar stúdenta þar sem óskað er eftir leiðréttingu á framlagi til leikskólans Mánagarðs, dags. 10. desember 2018, bréf Félagsstofnunar stúdenta þar sem óskað er eftir stækkun og fjölgun dvalarrýma á leikskólanum Mánagarði, dags. 26. janúar 2017, rekstrar- og húsnæðisframlag til sjálfstætt starfandi ungbarnaleikskóla með samning við skóla- og frístundasvið, börn 6/9 mánaða til 36 mánaða, í gildi frá 1. október 2018 og rekstrar- og húsnæðisframlag til sjálfstætt starfandi leikskóla með samning við skóla- og frístundasvið, börn frá 18 mánaða til 6 ára, í gildi frá 1. október 2018: 

    Lagt er til að viðmið um hámarksfjölda reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna til Félagsstofnunar stúdenta vegna Mánagarðs verði óbreytt hvað það varðar að miðað verði við að hámarksfjöldi reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna geti orðið 128 börn en að gerð verði sú breyting að heimilt sé að greiða framlag vegna 104 barna á aldrinum 18 mánaða til 6 ára og 24 barna á aldrinum 12 til 18 mánaða. Jafnframt verði gerð sú breyting að greitt verður húsnæðisframlag vegna allt að 60 reykvískra reykvískra barna. Samningarnir gildi frá 1. september 2018. Sviðsstjóra er falið að gera framangreinda samninga á forsendum annars vegar samninga vegna barna á aldrinum 18 mánaða til 6 ára og hinsvegar á forsendum samninga vegna barna á aldrinum 6/9 mánaða til 36 mánaða. 

    Samþykkt.
    Vísað til borgarráðs. SFS2015030161

    Fylgigögn

  4. Lögð fram úttekt á sameiningum leikskóla Reykjavíkurborgar 2009-2018. SFS2018090115

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Úttekt á sameiningum leikskóla frá árinu 2011 sýnir að reynslan af sameiningunum var háð aðstæðum, hún gekk betur þar sem um var að ræða sameiningu tveggja nærliggjandi leikskóla en þar sem um var að ræða sameiningu þriggja leikskóla þegar umtalsverð landfræðileg fjarlægð var á milli þeirra. Draga þarf lærdóm af þessari reynslu, undirbúa skipulagsbreytingar vel og gefa nægan tíma fyrir samráð við starfsfólk, stjórnendur og foreldra um útfærslu þeirra.

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi leikskólastjóra þakkar fyrir skýrslu Úttekt á sameiningum leikskóla 2009-2018. Hún varpar skýru ljósi á og er mikilvægur vitnisburður um sameiningar leikskóla sem farið var í í skjóli sparnaðar og hagræðingar. Mikilvægt er að draga lærdóm af því sem skýrslan sýnir okkur og huga betur að sameiningum í framtíðinni og byggja þær á faglegum grunni, því breytingar fela ekki endilega í sér sparnað til lengri tíma litið þó svo að eitthvert hagræði náist. Þriggja eininga sameining gekk ekki og sameining tveggja eininga þar sem langt var á milli er alls ekki góður kostur. Þá er réttara að tala um samrekstur en ekki sameiningu. Því miður var hart gengið á eina stétt stjórnenda, leikskólastjórnendur hjá Reykjavíkurborg, sem engin fordæmi eru fyrir og núna er mikilvægt að græða þau sár og hlúa að starfsfólkinu því hvað er skóli án góðs starfsfólks.

    -    Kl. 13.40 víkur Soffía Pálsdóttir af fundinum.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. janúar 2019, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um umsagnir vegna tillögu um breytingar á rekstrarumhverfi leikskólans Sunnufoldar, dags. 2. janúar 2019, umsögn foreldraráðs og foreldrafélaga Sunnufoldar um tillögu til breytts rekstrarumhverfis leikskólans, dags. 10. desember 2018, umsögn starfsfólks Sunnufoldar, dags. 17. desember 2018, minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um niðurstöður starfshóps um rekstrarumhverfi leikskólans Sunnufoldar, dags. 16. nóvember 2018 og skýrsla starfshóps um rekstrarumhverfi leikskólans Sunnufoldar, dags. 16. nóvember 2018:

    Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að starfseining leikskólans Sunnufoldar, Funi við Funafold 42, verði skilin frá leikskólanum og að í kjölfarið verði Funi stækkaður svo hann megi verða sex deilda leikskóli. Starfseiningar leikskólans Sunnufoldar, Frosti við Frostafold 33 og Logi við Logafold 18, verði áfram reknir saman sem fimm deilda leikskóli. Við hvorn leikskólann starfi leikskólastjóri. Leikskólarnir njóti stuðnings fagskrifstofu og mannauðsskrifstofu skóla- og frístundasviðs í breytingarferlinu út árið 2019, í það minnsta.

    Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2018090038
    Samþykkt
    Vísað til borgarráðs.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Einn helsti lærdómur úttektarinnar á sameiningum leikskóla er að erfiðast hafi verið að ná fram samlegðaráhrifum í sameiningum þriggja leikskóla þar sem nokkur fjarlægð var á milli starfsstöðvanna. Það á við um leikskólann Sunnufold í Grafarvogi. Með þennan lærdóm í huga er lagt til að endurskoða skipulag leikskólans þannig að starfsstöðin Funi verði skilin frá hinum tveimur og jafnframt lögð drög að stækkun hennar í samræmi við aðgerðaáætlunina Brúum bilið.

    -    Kl. 13.50 tekur Sigrún Sveinbjörnsdóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. janúar 2019, ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um viðmið skrifstofu skóla- og frístundasviðs sem eru höfð til grundvallar varðandi mögulegar skipulagsbreytingar á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs, dags. 12. nóvember 2018:

    Sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs leggur til að leikskólarnir Suðurborg og Hólaborg verði sameinaðir í einn heildstæðan leikskóla, undir einni stjórn frá og með 1. apríl 2019 og að staða leikskólastjóra verði auglýst laus til umsóknar í febrúar 2019. Samhliða ráðningu leikskólastjóra verði myndaður innleiðingarhópur sem vinni með stjórnanda að sameiningunni og þeim breytingum á starfseminni sem henni fylgir. Í hópnum eigi sæti fulltrúar beggja starfsstöðva þ.e. fulltrúar stjórnenda og annarra starfsmanna auk fulltrúa fagskrifstofu og mannauðsskrifsstofu skóla- og frístundasviðs. Hópurinn leiti samráðs og ráðgjafar foreldra og annarra aðila eftir málefnum hverju sinni. Hópurinn starfi frá 1. apríl 2019 til 1. október 2020. Jafnframt er lagt til að gerðar verði breytingar á rekstri mötuneyta leikskólanna með aukna rekstrarhagkvæmni að leiðarljósi t.d. að hádegismatur verði framleiddur í eldhúsi Suðurborgar og eldhúsið í Hólaborg verði móttökueldhús. Strax verði hafist handa, í samstarfi við umhverfis- og skipulagssvið, að meta aðstöðu í mötuneytum í báðum húsum með þetta í huga. Lagt verði mat á hvort og þá hvaða breytingar þarf að gera á aðstöðunni ásamt kostnaðarmati á aðgerðum þar með talinn kostnaður við að leggja upphitaðan stíg á milli húsanna.

    Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2019010039

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Skóla- og frístundaráð samþykkir að vísa tillögu varðandi sameiningu leikskólanna Hólaborgar og Suðurborgar til umsagnar foreldraráða og foreldrafélaga leikskólanna. Tillagan verði jafnframt kynnt fyrir starfsmönnum leikskólanna og þeim gefinn kostur á að leggja fram umsagnir um hana. 

    Samþykkt.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Sameining leikskóla getur verið farsæll kostur ef þeir standa nálægt hvor öðrum þar sem möguleikar á faglegri og fjárhagslegri samlegð eru miklir. Það á við um leikskólana Suðurborg og Hólaborg í Hólahverfi í Breiðholti en einungis 43 metrar eru á milli leikskólahúsanna og lóðirnar liggja saman. Það er ekki síst á þessum forsendum sem lagt er til að sameina leikskólana undir einni stjórn. Við sameininguna verður til öflugur tíu deilda leikskóla með 160 börnum og sérútbúinni ungbarnadeild sem gert er ráð fyrir að taki til starfa næsta haust. Settur verður á fót innleiðingarhópur með fulltrúum m.a. stjórnenda og starfsmanna og aðkomu foreldra, sem hefur það hlutverk að vinna að farsælli innleiðingu breytinganna.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. desember 2018, um samning skóla- og frístundasviðs og Kennarafélags Reykjavíkur. Jafnframt lögð fram drög að samningi skóla- og frístundasviðs og Kennarafélags Reykjavíkur. SFS2018120024
    Samþykkt
    Vísað til borgarráðs. 

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Með samningum við Kennarafélag Reykjavíkur og Félag skólastjórnenda í Reykjavík er stigið það skref að efla samstarf við fagfélög stjórnenda og starfsmanna í reykvískum grunnskólum. Það er gert vegna þeirrar viðamiklu vinnu sem framundan er vegna innleiðingar nýrrar menntastefnu. Það er öllum mikill hagur að árangur náist þegar kemur að þeim markmiðum sem tilgreind eru í samningunum, má þar nefna átak til að draga úr veikindafjarvistum, bæta líðan starfsfólks og ímynd kennarastarfsins.

    Jón Ingi Gíslason víkur af fundinum undir þessum lið vegna vanhæfis.

    Fylgigögn

  8. agt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 5. desember 2018, um samning skóla- og frístundasviðs og Félags skólastjórnenda í Reykjavík. Jafnframt lögð fram drög að samningi skóla- og frístundasviðs og Félags skólastjórnenda í Reykjavík. SFS2018120025
    Samþykkt
    Vísað til borgarráðs. 

    Magnús Þór Jónsson víkur af fundinum undir þessum lið vegna vanhæfis.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram fjárhagsuppgjör skóla- og frístundasviðs fyrir tímabilið janúar – september 2018. SFS2018090028 

    -    Kl. 14.55 víkur Helgi Grímsson af fundinum.

    Fylgigögn

  10. Lagt fram yfirlit yfir innkaup skóla- og frístundasviðs fyrir tímabilið janúar – september 2018. SFS2018060175

    Fylgigögn

  11. Lagt fram yfirlit yfir ferðir starfsmanna og kjörinna fulltrúa fyrir tímabilið júlí – september 2018. SFS2018060173

    -    Kl. 15.08 víkur Magnús Þór Jónsson af fundinum.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 15:12

Skúli Helgason Alexandra Briem

Líf Magneudóttir Pawel Bartoszek