Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 150

Skóla- og frístundaráð

Ár 2018, 11. desember, var haldinn 150. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.32. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Alexandra Briem (P), Elín Oddný Sigurðardóttir (V), Katrín Atladóttir (D), Pawel Bartoszek (C), Valgerður Sigurðardóttir (D) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum; Sigríður Björk Einarsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum og Sindri Bjarkason, Reykjavíkurráð ungmenna. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Ragnheiður E. Stefánsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Sindri Bjarkason er boðinn velkominn á sinn fyrsta fund í skóla- og frístundaráði.

    1.    Lögð fram skýrslan Úttekt á sameiningum leikskóla Reykjavíkurborgar 2009-2018. SFS2018090115

    Anna Magnea Hreinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 12.43 tekur Kristján Gunnarsson sæti á fundinum.
    -    Kl. 12.51 tekur Guðrún Gunnarsdóttir sæti á fundinum.
    -    Kl. 13.05 tekur Soffia Pálsdóttir sæti á fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meirihluti skóla- og frístundaráðs þakkar Önnu Magneu Hreinsdóttur fyrir ítarlega og vandaða skýrslu um sameiningar leikskóla undanfarinn áratug með áherslu á sameiningar á árinu 2011 sem ráðist var í, í kjölfar fjármálahrunsins. Sameiningarnar voru vandasamt og umfangsmikið verkefni við afar krefjandi aðstæður og mat viðmælenda á vettvangi var að betur hefði þurft að undirbúa sameiningarnar þar með talið samráðsferlið. Mikilvægt er að læra af þessari reynslu með því að undirbúa skipulagsbreytingar vel og gefa nægan tíma fyrir náið samráð við starfsfólk, stjórnendur og foreldra. Það er ein af niðurstöðum skýrslunnar að ekki hafi tekist sem skyldi að ná markmiðum tveggja sameininga í leikskólum sem voru með þrjár starfsstöðvar og umtalsverða fjarlægð á milli þeirra. Við þessu hefur núverandi meirihluti þegar brugðist með tillögum um endurskipulagningu leikskólans Sunnufoldar og byggingu nýs leikskóla Miðborgar sem mun leysa af hólmi tvær eldri starfsstöðvar. Jákvætt er að starfsánægja hefur að jafnaði verið sambærileg í sameinuðum leikskólum og þeim sem ekki voru sameinaðir og veikindaforföll eru heldur minni í sameinuðu leikskólunum. Stjórnendur sameinaðra leikskóla sem liggja nálægt hver öðrum hafa getað nýtt fjármuni, húsnæði og búnað á hagkvæmari hátt. Þá var almenn ánægja foreldra með aukið samstarf skólastiga sem leiddi af sameiningum leikskóla og grunnskóla. 

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka vandaða og ítarlega úttekt á sameiningum leikskóla borgarinnar 2009 til 2018. Niðurstöður sýna að margt hafi farið úrskeiðis, breytingar hefði mátt undirbúa betur og kynna með lengri aðdraganda. Andstaða hagsmunaaðila hafi verið mikil við kynntum breytingum og lítið horft til annarra leiða til lausna en sameininga leikskóla. Samráð hafi ekki verið skýrt eða vel skilgreint sem hafi valdið vonbrigðum. Um var að ræða afar viðamiklar breytingar á rekstrar- og starfsumhverfi leikskóla borgarinnar, sem ekki voru undirbúnar með nægilega góðum hætti. Jákvætt er að meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar í skóla- og frístundaráði hafi ákveðið að hverfa frá frekari sameiningum í kjölfar viðvarana og ábendinga fulltrúa Sjálfstæðisflokks í nóvember 2017. Af úttektinni má draga afar verðmætan lærdóm sem nauðsynlegt er að nýta til að undirbúa breytingar í málaflokknum gerist þess þörf. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir að úttektin og niðurstöður hennar verði tekin til umræðu á næsta fundi skóla- og frístundaráðs til að nýta þann lærdóm sem af henni megi draga til að ráðið megi vera betur undirbúið fyrir stærri breytingar sem nauðsynlegar kunna að vera í framtíðinni.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

    Skóla- og frístundaráð leggur til að í samræmi við fyrirheit nýrrar menntastefnu Reykjavíkurborgar um eflingu listnáms verði hafin vinna við að móta stefnu um framtíðarskipan tónlistarnáms í Reykjavíkurborg með áherslu á jöfn tækifæri barna og ungmenna til tónlistarnáms, almennt aðgengi barna að tónlistarnámi óháð búsetu og efnahag, fjölbreytni varðandi framboð tónlistarnáms og kennsluhætti og aukið samstarf tónlistarskóla við leikskóla, grunnskóla, frístundamiðstöðvar og skólahljómsveitir í borginni. Lagt er til að skipaður verði stýrihópur með fulltrúum meirihluta og minnihluta sem fær það verkefni að leggja til leiðir til að mæta ofangreindum markmiðum sem rædd hafa verið á síðustu árum og misserum hvað varðar tónlistarnám barna og ungmenna í Reykjavík á vettvangi tónlistarskólanna og í skólum borgarinnar. Starfsmaður skóla- og frístundasviðs vinni með hópnum sem kalli til samstarfs fulltrúa tónlistarskóla, skólahljómsveita og aðra aðila frá vettvangi eftir þörfum. Stýrihópurinn skili niðurstöðum sínum fyrir 1. júní 2019.

    Greinargerð fylgir. SFS2018120032
    Samþykkt.

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sköpun er einn af hornsteinum nýrrar menntastefnu Reykjavíkurborgar og í aðgerðahluta stefnunnar er kveðið á um að tryggja eigi börnum jafnari tækifæri og aðgang að fjölbreyttu list- og verknámi í skóla- og frístundastarfi borgarinnar í samræmi við áhuga þeirra og hæfileika. Liður í þessu er að móta framtíðarstefnu tónlistarnáms í borginni og er fagnaðarefni að skóla- og frístundaráð hafi sameinast um að ráðast í það verkefni. Fulltrúar meirihluta og minnihluta munu skipa stýrihóp með ríkri aðkomu fulltrúa tónlistarskóla og skólahljómsveita og er tilgangurinn að kortleggja hvernig megi efla tónlistarnám í borginni með áherslu á jöfn tækifæri barna og ungmenna til tónlistarnáms, almennt aðgengi barna að tónlistarnámi óháð búsetu og efnahag, fjölbreytni varðandi framboð tónlistarnáms og kennsluhætti og aukið samstarf tónlistarskóla við leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðvar í borginni.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. desember 2018, um þjónustusamninga við sjálfstætt rekna grunnskóla í Reykjavík ásamt drögum að þjónustusamningi við sjálfstætt rekna grunnskóla í Reykjavík. SFS2013090060

    Fylgigögn

  4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. desember 2018, um staðfestingu starfsáætlana grunnskóla í Reykjavík skólaárið 2018-2019. Jafnframt lagðar fram starfsáætlanir grunnskólanna Árbæjarskóla, Ártúnsskóla, Austurbæjarskóla, Barnaskóla Hjallastefnunnar, Brúarskóla, Dalskóla, Fellaskóla, Foldaskóla, Fossvogsskóla, Hamraskóla, Hlíðaskóla, Hólabrekkuskóla, Húsaskóla, Ingunnarskóla, Skóla Ísaks Jónssonar, Kelduskóla, Klébergsskóla, Klettaskóla, Landakotsskóla, Langholtsskóla, Melaskóla, Norðlingaskóla, Ölduselsskóla, Réttarholtsskóla, Rimaskóla, Selásskóla, Seljaskóla, Suðurhlíðarskóla, Tjarnarskóla, Vættaskóla, Vesturbæjarskóla, Vogaskóla, Waldorfskólans Sólstafa og Laugarnesskóla. SFS2017020126

    Samþykkt.

    Kristinn Svavarsson, Arnar Ævarsson og Guðrún Edda Bentsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skóla- og frístundaráð þakkar góða kynningu og þá miklu vinnu sem liggur að baki starfsáætlunum. Jafnframt eru þeir skólar sem enn eiga eftir að skila starfsáætlunum hvattir til að ljúka þeirri vinnu.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 23. október 2018 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. október 2018:

    Flokkur fólksins leggur til að skóla- og frístundaráð beiti sér fyrir því að menntamálaráðherra hafi samráð við foreldra þegar ákvörðun á samræmdu einkunnakerfi er tekin enda séu það lýðræðisleg vinnubrögð. Ólíkar skoðanir eru í gangi hvað varðar einkunnakerfi/leiðsagnarmat og námsmat og er rétt að kalla kerfisbundið og markvisst eftir viðhorfi og skoðunum foreldra og eldri barnanna einnig. Sumum foreldrum kann að þykja kerfið tölur frá 0 til 10 best en öðrum hugnast ef til vill bókstafir og enn öðrum þykir blanda af hvoru tveggja besti kosturinn. Kerfi einkunnagjafar í grunnskóla þarf að vera í sátt við sem allra flesta sem það varðar, börnin, foreldra og kennara.

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2018030006

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 23. október 2018 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. desember 2018, um tillöguna: 

    Flokkur fólksins leggur til að skóla- og frístundaráð beiti sér fyrir því að menntamálaráðuneytið samþykki að skák verði kennd í grunnskólum. Skák er því miður ekki komin á námskrá grunnskólanna í Reykjavík, þótt tvær nefndir á vegum menntamálaráðuneytisins hafi mælt eindregið með því. Rannsóknir hafa sýnt að samhengi er á milli námsárangurs og skákkunnáttu. Hafa skal í huga að skák er einstök hvað varðar svo ótal margt. Skák þjálfar m.a. sjónminni og sjónræna rökhugsun, þjálfar barn í að hugsa sjálfstætt, viðhafa gagnrýna hugsun, fást við óhlutbundin viðfangsefni og finna rökleg tengsl. Þannig leggur skákíþróttin svo ótal margt á vogarskálar þroska barns sem hana stundar. Auk einbeitingar og sjálfsaga sem skákin krefst, þá auðgar íþróttin ímyndunaraflið og iðkendur læra að hugsa í lausnum. Skákíþróttin kallar á hugrekki, að þora að taka ákvörðun og hún þjálfar iðkendur í að lesa í, greina og meta stöðu. Félagslegur ávinningur þeirra sem stunda skákíþróttina á sér einnig margar hliðar. Tengsl myndast þótt aðilar hafi það eina markmið sameiginlegt, að tefla skák. Þannig getur skákborðið laðað að börn frá gjörólíkum menningarheimum. Kennarar og skólastjórnendur eru margir hlynntir skákkennslu, og víða í Reykjavíkurskólunum er unnið gott starf. Skák þarf hins vegar að komast inn á námskrá, 1 kennslustund í viku ef vel ætti að vera.

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2018100193

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins sem frestað á fundi skóla- og frístundaráðs 23. október 2018 ásamt umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 29. október 2018, um tillöguna:

    Lagt er til að frístundaheimili fyrir börn foreldra sem eru undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins verði gjaldfrjáls. Samkvæmt nýjustu upplýsingum eru tæp 500 börn sem hér um ræðir, sjá viðhengi.

    Greinargerð fylgir. SFS2018070089

    Tillögunni er vísað frá.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillagan hefur þegar verið borin upp og felld í borgarráði. Nú þegar eru ýmsar leiðir til að koma til móts við þær fjölskyldur sem eiga í vandræðum með greiðslu gjaldanna. Að auki hefur meirihlutinn sammælst um tillögur til að minnka kostnað barnmargra fjölskyldna vegna leikskólavistar og dvalar á frístundaheimilum og vinnur í samræmi við það.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. desember 2018, um ungbarnadeildir í sjálfstætt reknum leikskólum með samning við Reykjavíkurborg vegna barna á aldrinum 18 mánaða til 6 ára og umsögn Samtaka sjálfstæðra skóla, dags. 10. desember 2018, um drög að samningi við sjálfstætt starfandi leikskóla í Reykjavík um rekstur ungbarnadeilda:

    Skóla- og frístundaráð samþykkir með vísan til minnisblaðs sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. desember 2018, að sjálfstætt reknir leikskólar í Reykjavík með samning við skóla- og frístundasvið vegna barna á aldrinum 18 mánaða til 6 ára og sem eftir því óska verði heimilt að setja á fót ungbarnadeild fyrir börn frá 12 mánaða aldri. Það er forsenda að nýting á plássum samkvæmt rekstrarleyfi aukist að lágmarki sem nemur 2/3 þeirra barna sem áætluð eru á ungbarnadeildina. Tryggt verði að þrátt fyrir opnun ungbarnadeildar verði fylgt kennitöluröð við innritun með þeim hætti að elstu börn verði innrituð fyrst. Greiðslur vegna barna yngri en 18 mánaða verði með sama hætti og samkvæmt samningi skóla- og frístundasviðs við sjálfstætt rekna ungbarnaleikskóla þ.e. vegna barna á aldrinum 6/9 mánaða til 36 mánaða. Gerður er fyrirvari um að uppfyllt séu viðeigandi skilyrði vegna starfseminnar, svo sem gilt rekstrarleyfi og að hver og ein umsókn um opnun ungbarnadeildar og aukin framlög þarf að fara fyrir skóla- og frístundaráð og borgarráð til samþykktar.

    Samþykkt og vísað til borgarráðs. SFS2018110106

    Fylgigögn

  9. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. desember 2018, um ósk Hjallastefnunnar ehf. um að opna ungbarnadeild í leikskólanum Öskju ásamt nýju rekstrarleyfi fyrir leikskólann Öskju og bréfi Hjallastefnunnar ehf., dags. 5. maí 2018. SFS2018060264

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. desember 2018, um breytt framlag vegna opnunar ungbarnakjarna í leikskólanum Öskju, samningi um framlag skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt starfandi leikskóla fyrir börn frá 18 mánaða til 6 ára og samningi um framlag skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt starfandi leikskóla fyrir börn frá 6/9 mánaða til 36 mánaða:

    Lagt er til með vísan til minnisblaðs sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. desember 2018, að viðmið um hámarksfjölda reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna til Hjallastefnunnar vegna leikskólans Öskju verði breytt með þeim hætti að miðað verði við að hámarksfjöldi reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna geti orðið 121 vegna barna á aldrinum 18 mánaða til 6 ára og 16 vegna barna á aldrinum 12 til 18 mánaða frá 1. janúar 2019. Sviðsstjóra er falið að gera samninga við Hjallastefnuna vegna framlagsins. 

    Samþykkt og vísað til borgarráðs. SFS2018060264

    Fylgigögn

  11. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. desember 2018, varðandi stofnun ungbarnaleikskólans Krílasels og rekstarleyfi fyrir leikskólann Krílasel. SFS2018110108

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. desember 2018, varðandi framlag vegna 20 barna í ungbarnaleikskólanum Krílaseli og samning um framlag skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt starfandi leikskóla fyrir börn frá 6/9 mánaða til 36 mánaða:

    Lagt er til að heimilt verði að gera samning við sjálfstætt rekna leikskólann Krílasel ehf með þeim hætti að heimilað verði að greiða framlag vegna allt að 20 reykvískra barna á aldrinum 6/9 mánaða til 36 mánaða frá og með samþykkt borgarráðs. Sviðsstjóra er falið að gera samning við Krílasel vegna framlagsins. 

    Samþykkt og vísað til borgarráðs. SFS2018110108

    Fylgigögn

  13. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 3. desember 2018, um samning skóla- og frístundasviðs og Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni ásamt drögum að samstarfssamningi skóla- og frístundasviðs og Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni. SFS2018120031

    Samþykkt og vísað til borgarráðs.

    Samþykkt og vísað til borgarráðs

    Fylgigögn

  14. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 7. desember 2018, um samning skóla- og frístundasviðs og Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík ásamt drögum að samningi skóla- og frístundasviðs og Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík. SFS2018110015

    Samþykkt og vísað til borgarráðs.

    Samþykkt og vísað til borgarráðs.

    Fylgigögn

  15. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, 3. desember 2018, um rekstur félagsmiðstöðvar að Hraunbæ 105 ásamt könnun um viðhorf notenda félagsstarfs Hraunbæjar 105 og samningar skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs um rekstur félagsmiðstöðvarinnar í Hraunbæ 105. SFS2016030076

    Fylgigögn

  16. Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 4. desember 2018, við fyrirspurn skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi biðlista í leikskólum frá 145. fundi skóla- og frístundaráðs. SFS2018100117

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði harma það að 80 börn séu nú á biðlista eftir leikskólaplássum í Reykjavík. Af þessum 80 börnum þá eru 70 börn þegar orðin 18 mánaða. 10 börn eru yngri en 18 mánaða en eru með forgang eftir plássi. Fulltrúarnir hafa verið að benda á það síðustu mánuði að vandi leikskóla Reykjavíkur er mannekla og á meðan ekki er róið öllum árum að því að leysa hann þá verður ekki hægt að vinna á biðlistunum. 

    -    Kl. 15.05 víkja Magnús Þór Jónsson, Jón Ingi Gíslason, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Soffía Pálsdóttir, Soffía Vagnsdóttir, Helgi Grímsson, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Sindri Bjarkason, Anna Metta Norðdahl og Sigríður Björk Einarsdóttir af fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Rétt er að leiðrétta að það sé mannekla á leikskólum borgarinnar. Hið rétta er að einungis eru 0,5 stg. ómönnuð á leikskólum borgarinnar að meðaltali. Mönnunarmál eru hins vegar viðvarandi verkefni sem tengjast einkum skorti á leikskólakennurum. Það að 80 börn séu á biðlista dregur fram allt annan veruleika en var í umræðunni í vor þegar frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins héldu því fram að rúmlega 1600 börn væru á biðlista.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 15:15

Skúli Helgason Alexandra Briem

Pawel Bartoszek