Skóla- og frístundaráð
Ár 2018, 23. október, var haldinn 146. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.35. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Alexandra Briem (P), Pawel Bartoszek (C), Sanna Magdalena Mörtudóttir (J), Sigríður Arndís Jóhannsdóttir (S) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva og Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Sanna Magdalena Mörtudóttir og Sigríður Arndís Jóhannsdóttir eru boðnar velkomnar á sinn fyrsta fund í skóla- og frístundaráði.
Fram fer kynning á Hinsegin félagsmiðstöð, samstarfi frístundamiðstöðvarinnar Tjarnarinnar og Samtakanna 78. SFS2018100159
Hrefna Þórarinsdóttir og Daníel E. Arnarsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Kl. 12.57 taka Kolbrún Baldursdóttir og Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum.
Kl. 13.05 tekur Sigríður Björk Einarsdóttir sæti á fundinum.
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. október 2018, um staðfestingu starfsáætlana frístundamiðstöðva 2018-2019. Jafnframt lagðar fram starfsáætlanir frístundamiðstöðvanna Ársels, Gufunesbæjar, Kringlumýrar, Miðbergs og Tjarnarinnar fyrir starfsárið 2018-2019. SFS2018100147
Samþykkt með sex atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá.
Atli Steinn Árnason, Árni Jónsson, Haraldur Sigurðsson, Helgi Eiríksson og Sigrún Sveinbjörnsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 13. september 2018, þar sem svohljóðandi tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. október 2018, um upplýsingar um kostnað vegna útvíkkunar félagsstarfs í Frosta og umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 27. ágúst 2018, um tillöguna:
Lagt er til að félagsmiðstöðin Frosti útvíkki starf sitt og bjóði unglingum í Skerjafirði upp á frístundastarf einu sinni í viku í tilraunaskyni.
Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2018050228
Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata gegn tveimur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs þann 9. maí 2018 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. október 2018, um tillöguna:
Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur skorar á menntamálaráðherra að breyta kerfi einkunnagjafar við brautskráningu úr grunnskóla. Meginmarkmið breytinganna verði að gera einkunnagjöf auðskiljanlega og gagnsæja fyrir nemendur, foreldra og kennara. Sérstaklega verði horft til þess hvort unnt sé að taka að nýju upp kerfi þar sem einkunnagjöf byggist á arabískum tölustöfum.
Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2018030006
Tillagan er felld með fimm atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokks Íslands gegn einu atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins situr hjá.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Flokkur fólksins leggur til að skóla- og frístundarráð beiti sér fyrir því að menntamálaráðherra hafi samráð við foreldra þegar ákvörðun á samræmdu einkunnakerfi er tekin enda séu það lýðræðisleg vinnubrögð. Ólíkar skoðanir eru í gangi hvað varðar einkunnakerfi/leiðsagnarmat og námsmat og er rétt að kalla kerfisbundið og markvisst eftir viðhorfi og skoðunum foreldra og eldri barnanna einnig. Sumum foreldrum kann að þykja kerfið tölur frá 0 til 10 best en öðrum hugnast ef til vill bókstafir og enn öðrum þykir blanda af hvoru tveggja besti kosturinn. Kerfi einkunnagjafar í grunnskóla þarf að vera í sátt við sem allra flesta sem það varðar, börnin, foreldra og kennara.
Frestað.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna ásamt áætlun um innleiðingu tillagna starfshóps um aukið vægi starfs-, list- og verknáms í grunnskólum Reykjavíkur, dags. í september 2018, minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 9. apríl 2018, um skil skýrslu starfshóps um aukið vægi starfs-, list- og verknáms í grunnskólum Reykjavíkur, skýrsla starfshóps um aukið vægi starfs-, list- og verknáms í grunnskólum Reykjavíkur, ódags., og niðurstöður könnunar vorið 2015 í tengslum við starfshóps um aukið vægi starfs-, list- og verknáms í grunnskólum Reykjavíkur, dags. í febrúar 2018:
Áætlun um innleiðingu tillagna starfshóps um aukið vægi starfs-, list- og verknáms í grunnskólum Reykjavíkur er samþykkt og vísað til fjárhagsáætlunargerðar skóla- og frístundasviðs 2019.
Samþykkt og vísað til borgarráðs. SFS2015020048
Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi Félags skólastjórnenda í Reykjavík fagnar áherslum á aukið vægi starfs-, list- og verknáms í grunnskólum borgarinnar og fyrirliggjandi áætlun starfshóps um innleiðingu tillagna byggðum á þeim áherslum. Lykilatriði þegar kemur að auknu vægi umrædds náms innan grunnskólans er að fjárveitingar til þess séu í samræmi við þær kröfur sem til þess er gert í Aðalnámskrá grunnskóla. Á þar bæði við fjármagn í formi úthlutaðs kennslumagns samkvæmt viðmiðunarstundaskrá sem og til þess sem horfir til þess aðbúnaðar sem þær krefjast hvort sem er í húsnæði eða tækjakosti. Lykilatriði er að kallaðir verði til fulltrúar kennara og stjórnenda í grunnskólum borgarinnar þegar kemur að innleiðingarferli tillagnanna, enda þar á ferð það fagfólk sem ber ábyrgð á því að stýra því aukna vægi sem ætlað er að ná fram í áætluninni.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er grundvallarforsenda nýrrar menntastefnu borgarinnar að vinna með styrkleika barna og ungmenna í fjölbreyttu skóla- og frístundastarfi og auka áherslu á tiltekna hæfniþætti sem ýta undir alhliða þroska og menntun þeirra. Sköpun er einn af þessum forgangsþáttum og fram á við litið er ásetningur okkar að auka vægi list- og verknáms í daglegu starfi. Með þeim aðgerðum sem hér eru samþykktar er lagður grunnur að sókn á þessu sviði, með auknu kennslumagni í list- og verkgreinum, úrbótum á aðstöðu í skólunum og öflugra samstarfi við listamenn, fagfélög og atvinnulífið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins telur að það þurfi að gera miklu betur þegar kemur að auknu vægi list- og verknáms í grunnskólum og hefði borgin átt að setja þennan málaflokk í forgang fyrir löngu þegar kemur að útdeilingu fjármagns. Eins og staðan er í dag þá er vægi list- og verknáms mjög misjafnt eftir skólum sem er óásættanlegt. Ljóst er að börn sitja ekki við sama borð í þessum efnum og er það alvarlegt. Lengi vel hefur verið kallað eftir auknu vali á t.d. fjölbreyttum verkgreinum en einnig síðustu ár ekki síður list- og menningargreinum. Börn eru eins misjöfn og þau eru mörg og er mikilvægt að mæta áhuga og þörfum þeirra á öllum sviðum. Því fjölbreyttari sem valkostirnir eru því betra. Eins og staðan er núna fá þau börn sem þurfa aðlagaða námskrá ef til vill eitthvað val en það á ekki að þurfa að vera skilyrði. Hér er líðan barna, sjálfstraust og sjálfsmat í húfi. Flokkur fólksins skorar á skóla- og frístundaráð að beita sér af þunga í þessum málum þannig að staðan verði ekki bara viðunandi heldur fullnægjandi.
Fylgigögn
- Málsmeðferðartillaga vegna áætlunar um innleiðingu tillagna um aukið vægi starfs-, list- og verknáms í grunnskólum Reykjavíkur
- Áætlun um innleiðingu tillagna starfshóps um aukið vægi starfs-, list- og verknáms í grunnskólum Reykjavíkur
- Minnisblað með skýrslu starfshóps um aukið vægi starfs-, list- og verknáms í grunnskólum Reykjavíkur
- Skýrsla starfshóps um aukið vægi starfs-, list- og verknáms í grunnskólum Reykjavíkur
- Niðurstöður könnunar í tengslum við starfshóp um aukið vægi starfs-, list- og verknáms í grunnskólum Reykjavíkur
-
Lögð fram skýrslan Reynsla af þróunarverkefni í skólabúðunum á Úlfljótsvanti árið 2017. SFS2018100157
Jakob Frímann Þorsteinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á ferli vegna athugasemda Vinnueftirlitsins vegna starfsstöðva skóla- og frístundasviðs. SFS2018100158
Daníel Benediktsson og Agnar Guðlaugsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.
Kl. 15.20 víkur Guðrún Kaldal af fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Brýnt er að bæta ferla hjá borginni varðandi aðbúnað starfsfólks á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs til samræmis við ákvæði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Það er fagnaðarefni að í ljósi nýlegra dæma um athugasemdir Vinnueftirlitsins gagnvart tilteknum starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs hefur verið skerpt á vinnulagi til að tryggja að athugasemdir berist beina leið til skrifstofu SEA, USK og SFS sem hafa með höndum að grípa til úrbóta í samráði við stjórnendur. Mikilvægt er að fylgja því eftir með frekari styrkingu ferla á starfsstöðvunum sjálfum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ótækt er að boðleiðir innan Reykjavíkurborgar séu þannig að jafn alvarlegar athugasemdir og Vinnueftirlitið gerði 16. janúar 2013 vegna leikskólans Lyngheima um vanrækslu á að fara eftir fyrirmælum stofnunarinnar um úrbætur á aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi starfsmanna, hafi ekki ratað rétta leið innan embættismannakerfisins. Vinnueftirlitið setti því dagsektir á Reykjavíkurborg 8. október 2018. Þetta er sérstaklega ámælisvert þar sem gert var mat á starfi leikskólans sem kynnt var í mars 2017 og ekkert kom fram í því mati að vinnueftirlitið hefði gert þessar athugasemdir. Alvarlegast er þó að viðvaranir Vinnueftirlitsins voru einnig sendar á skrifstofu borgarstjóra og lágu þar án þess að gripið væri til aðgerða. Fulltrúi Sjálfstæðisflokks fagnar því að sú breyting hafi orðið á vinnulagi, að ekki sé lengur gert ráð fyrir að borgarstjóra berist tilkynningar af þessu tagi, í ljósi þess að ekki er brugðist við þeim þar með viðeigandi hætti.
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata:
Skóla- og frístundaráð samþykkir að ráðast í aðgerðir til að auka hagkvæmni innkaupa á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs á grundvelli greiningar sviðsins á helstu tækifærum til hagræðingar á þessu sviði. Markmið verkefnisins verði að lækka útgjöld sviðsins vegna vörukaupa um 100-150 m. kr á ársgrundvelli með útboðum og magninnkaupum á helstu rekstrarvörum starfsstöðvanna. Samstarf verði haft við velferðarsvið um verkefnið og Innkaupadeild Reykjavíkurborgar varðandi gagnaöflun og innleiðingu. Gert er ráð fyrir að undirbúningi verkefnisins ljúki fyrir áramót 2018, aðgerðir hefjist í ársbyrjun 2019 og meginþungi verkefnisins verði á fyrri hluta árs 2019.
Greinargerð fylgir tillögunni. SFS2018080052
Samþykkt og vísað til borgarráðs.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í tengslum við tillögu meirihlutans að auka hagkvæmni innkaupa á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs vill Flokkur fólksins minna á tillögu sem borgarfulltrúi lagði fram í september en hún hljóðaði þannig að borgin skilgreini þjónustusamninga mötuneyta borgarinnar og bjóði rekstur þeirra út. Í greinargerð segir að markmiðið með tillögunni sé að skilgreina gæði mötuneytisfæðis betur og auka gæðin. Auk þess eru vísbendingar um að þetta fyrirkomulag er hagstæðara en það sem nú ríkir sbr. niðurstöður útboða. Ef borgin vill auka hagkvæmni er varðar mötuneyti þarf að skoða matarsóun og stefnu til að sporna við henni. Fjölmargt skiptir máli í þessu sambandi og hefur Flokkur fólksins sent inn fyrirspurnir sem er enn ósvarað t.d um hversu margir af þeim sem greiða fyrir mat nýta sér að jafnaði þjónustuna á hverjum degi. Matarsóun er kostnaðarsöm og meðal fyrirspurna Flokks fólksins var hversu miklum mat er hent í mötuneytum borgarinnar og hvort til sé stefna hjá borginni eða leiðir til að nýta matarafganga.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að auka hagkvæmni innkaupa hjá Reykjavíkurborg. Nauðsynlegt er að tekið verði upp innkaupakerfi þar sem auðvelt er að nálgast upplýsingar úr kerfinu og auka þannig kostnaðarvitund stjórnenda og starfsmanna á hinum fjölmörgu starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs. Það á við um upplýsingar um hvað sé verið að kaupa og hversu mikið magn hafi verið keypt. Það er ótækt að leita þurfi til birgja til þess að fá þessar upplýsingar líkt og gera þarf í dag. Það er ekki auðvelt verk að fara í hagkvæmari innkaup þegar ekki er hægt að nálgast með auðveldu móti hvað er verið að kaupa. Fulltrúi Sjálfstæðisflokks fagnar því að farið verði í aðgerðirnar.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er metnaðarmál hjá meirihluta skóla- og frístundaráðs að farið sé vel með þá fjármuni sem úthlutað er til skóla- og frístundastarfs í borginni. Liður í því er að auka hagkvæmni innkaupa en um 2,5 milljörðum króna er varið í kaup á vörum og þjónustu til málaflokksins sem bjóða mætti út á hverju ári. Í kjölfar hagstæðs útboðs á námsgögnum liggur nú fyrir greining á því að lækka megi útgjöld sviðsins um a.m.k. 100-150 m. kr. á ári með útboðum á ritföngum, ræstingarvörum og þurrvöru til notkunar í skólamötuneytum svo eitthvað sé nefnt. Efnt verður til samstarfs við velferðarsvið og innkaupadeild borgarinnar um verkefnið og er stefnt að því að aðgerðir hefjist í ársbyrjun 2019.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. október 2018, um tilraunaverkefni um sumaropnun leikskóla 2019. Jafnframt lagt fram tölvubréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 27. september 2018, með tillögu borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um tilraunaverkefni um sumaropnun leikskóla 2019 ásamt greinargerð. SFS2018090095
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að tilraunaverkefnið sé unnið í góðri sátt þátttakanda, þ.e. leikskólastjórnenda, leikskólakennara og starfsmanna. Þess verði gætt að orlofstaka þátttakenda sé til jafns við það sem almennt gerist. Sömuleiðis að tryggt verði fjármagn til að mæta hugsanlegum kostnaðarauka sem gæti fylgt þessu tilraunaverkefni.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillagan að sumaropnun leikskóla er jákvætt skref í átt að aukinni þjónustu borgarinnar við barnafjölskyldur. Hvað varðar áætlanir um sumaropnun leikskóla telur skóla- og frístundaráðsfulltrúi Sósíalistaflokksins að hefjast þurfi handa við að laga þann vanda sem steðjar nú að leikskólum borgarinnar; láglaunastefnuna, mannekluna og starfsumhverfið áður en litið er til frekari uppbyggingar. Í framhaldi væri sennilega hentugra að lengja sumaropnun allra leikskóla frekar en að að aðlaga fjölda barna að nýjum deildum leikskóla til skamms tíma. Nauðsynlegt er að breytingar á opnunartíma leikskólanna séu unnar út frá hluteigandi aðilum, þ.e.a.s. starfsfólki og foreldrum barnanna á leikskólum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er fagnaðarefni að tekist hafi að finna leikskóla til að taka þátt í tilraunaverkefni um sumaropnun en þegar hafa stjórnendur sex leikskóla í öllum borgarhlutum samþykkt þátttöku. Með góðu samstarfi við stjórnendur, starfsfólk og foreldra er best tryggt að markmið tillögunnar um aukinn sveigjanleika og bætta þjónustu við reykvísk börn og foreldra þeirra nái fram að ganga.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er mjög leiðinlegt að heyra hvað mikil gremja virðist vera vegna þessa tilraunaverkefnis með sumaropnun, bæði hjá hópi foreldra og starfsmanna leikskóla. Ýmis rök og sjónarmið hafa komið fram sem útskýra óánægjuna. Um er að ræða tilraunaverkefni og spurning er hvort ekki hefði mátt grunnvinna þetta betur. Hér heyrist einnig vera spurning um óánægju vegna forgangsröðunar fjármagns. Á meðan starfsmönnum finnast þeir sviknir t.d. um orlof þá svíður þeim að skóla- og frístundarráð keyri verkefni sem þetta í gegn. Ekki liggur heldur nægjanlega vel fyrir afstaða foreldra og hversu mikil nýtingin verði á verkefninu sem er bagalegt auk þess sem það hefði mátt vera mun víðtækara samráð við starfsfólk leikskóla að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 10. október 2018, þar sem tilkynnt er að eftirfylgni með úttekt á leikskólanum Garðaborg er lokið. SFS2015030115
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. október 2018, um stöðu vinnu starfshóps um rekstrarumhverfi leikskólans Sunnufoldar. SFS2018080043
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. október 2018, um embættisafgreiðslur sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, tvö mál. SFS2016080100
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að frístundaheimili fyrir börn foreldra sem eru undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins verði gjaldfrjáls. Samkvæmt nýjustu upplýsingum eru tæp 500 börn sem hér um ræðir, sjá viðhengi.
Greinargerð fylgir. SFS2018070089
Frestað.
Kl. 16.00 víkja Soffía Vagnsdóttir, Anna Metta Norðdahl, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir og Ragnheiður E. Stefánsdóttir af fundinum.
Kl. 16.10 víkja Magnús Þór Jónsson og Kristján Gunnarsson af fundinum.
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Flokkur fólksins leggur til að skóla- og frístundaráð beiti sér fyrir því að menntamálaráðuneytið samþykki að skák verði kennd í grunnskólum. Skák er því miður ekki komin á námskrá grunnskólanna í Reykjavík, þótt tvær nefndir á vegum menntamálaráðuneytisins hafi mælt eindregið með því. Rannsóknir hafa sýnt að samhengi er á milli námsárangurs og skákkunnáttu. Hafa skal í huga að skák er einstök hvað varðar svo ótal margt. Skák þjálfar m.a. sjónminni og sjónræna rökhugsun, þjálfar barn í að hugsa sjálfstætt, viðhafa gagnrýna hugsun, fást við óhlutbundin viðfangsefni og finna rökleg tengsl. Þannig leggur skákíþróttin svo ótal margt á vogarskálar þroska barns sem hana stundar. Auk einbeitingar og sjálfsaga sem skákin krefst, þá auðgar íþróttin ímyndunaraflið og iðkendur læra að hugsa í lausnum. Skákíþróttin kallar á hugrekki, að þora að taka ákvörðun og hún þjálfar iðkendur í að lesa í, greina og meta stöðu. Félagslegur ávinningur þeirra sem stunda skákíþróttina á sér einnig margar hliðar. Tengsl myndast þótt aðilar hafi það eina markmið sameiginlegt, að tefla skák. Þannig getur skákborðið laðað að börn frá gjörólíkum menningarheimum. Kennarar og skólastjórnendur eru margir hlynntir skákkennslu, og víða í Reykjavíkurskólunum er unnið gott starf. Skák þarf hins vegar að komast inn á námskrá, 1 kennslustund í viku ef vel ætti að vera.
Frestað. SFS2018100193
Fundi slitið klukkan 16:25
Skúli Helgason Alexandra Briem
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Pawel Bartoszek
Sanna Magdalena Mörtudottir