Skóla- og frístundaráð - Fundur nr. 144

Skóla- og frístundaráð

Ár 2018, 25. september, var haldinn 144. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 12.34. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Katrín Atladóttir (D), Líf Magneudóttir (V), Pawel Bartoszek (C) og Valgerður Sigurðardóttir (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva; Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum; Lilja Eyþórsdóttir, leikskólastjórar; Magnús Þór Jónsson, skólastjórar í grunnskólum og Sigríður Björk Einarsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Elín Norðmann, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Kristján Gunnarsson, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Sigrún Sveinbjörnsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Eygló Traustadóttir ritar fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Móðurmálskennarar og brúarsmiðir, kynning.

    Dröfn Rafnsdóttir, Fríða Bjarney Jónsdóttir, Kriselle Lou Suson Jónsdóttir og Magdalena Elísabet Andrésdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 13.05 tekur Kolbrún Baldursdóttir sæti á fundinum.

    -    Kl. 13.11 tekur Alexandra Briem sæti á fundinum.

  2. Lögð fram skýrslan Velkomin: skýrsla starfshóps um móttöku og aðlögun barna innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd í skóla- og frístundastarf. SFS2018010152

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:

    Lagt er til að sviðsstjóra verði falið að móta áætlun um innleiðingu þeirra tillagna sem koma fram í skýrslu starfshópsins, þar sem komi fram forgangsröðun og kostnaðarmat. Innleiðingaráætlun verði lögð fram eigi síðar en 1. nóvember næstkomandi.

    Samþykkt.

    Dröfn Rafnsdóttir, Fríða Bjarney Jónsdóttir, Kriselle Lou Suson Jónsdóttir og Magdalena Elísabet Andrésdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Skóla- og frístundaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ráðið þakkar þá miklu og góðu vinnu sem lögð var í skýrslu um móttöku og aðlögun barna innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd í skóla- og frístundastarfi borgarinnar. Ráðið felur sviðstjóra að leggja drög að innleiðingaáætlun sem lögð skuli fyrir ráðið fyrir 1. nóvember. Ráðið áréttar að auka þurfi enn frekar áherslu á íslenskukennslu barna með annað móðurmál en íslensku, hraða vinnu við þróunarverkefni, auka samstarf við grasrótarsamtök og önnur sveitarfélög og auka áherslu á verkefni sem styðja við máltöku barna í leikskólum. Sérstaklega þarf að huga að stuðningi við leikskóla og grunnskóla þar sem er mjög hátt hlutfall barna með annað móðurmál en íslensku.

    Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi skólastjóra í grunnskólum fagnar framkomnum tillögum starfshóps um móttöku og aðlögun barna innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd í skóla- og frístundastarfi. Í skýrslu hópsins kemur fram að um 10 ára skeið hafi fjárframlög til málaflokksins staðið í stað á meðan að gríðarleg fjölgun varð í hópi umræddra nemenda. Frá árinu 2014 hafa mál þokast í rétta átt og nú er komið að stórátaki í málaflokknum. Tillögur hópsins koma til móts við óskir skólastjórnenda um stórbætta þjónustu fyrir umræddan hóp og er skorað á skóla- og frístundaráð að hefja nú þegar vinnu við innleiðingu þeirra, börnunum til heilla.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 11. apríl 2018 ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. september 2018, um tillöguna:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði leggja það til að sviðinu verði falið að skoða hvort hægt sé að koma í veg fyrir tvíverknað við túlkaþjónustu hvað varðar efni sem er almennt og á við alla grunnskóla í Reykjavík. Þannig væri hægt að koma upp öflugri þýðingarbanka en nú er, með almennu efni, sem allir grunnskólar Reykjavíkur hefðu aðgang að. 

    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá. SFS2018040048

    Fríða Bjarney Jónsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 14.20 víkur Lilja Eyþórsdóttir af fundinum.

    -    Kl. 14.25 víkur Jón Ingi Gíslason af fundinum.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tillaga Sjálfstæðisflokksins virðist byggja á misskilningi. Þar er ýjað að einhvers konar tvíverknaði varðandi túlkaþjónustu en eðli málsins samkvæmt er túlkaþjónusta einstaklingsbundin þjónusta þar sem tvíverknaður hefur ekki verið vandamál enda vandséð hvernig það gæti orðið. Eins og fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra varðandi upplýsingagjöf til forráðamanna barna með annað móðurmál en íslensku hefur fjölmargt verið gert til að bæta upplýsingagjöfina á undanförnum árum, fjármagn í túlkaþjónustu hefur aukist og gott samstarf hefur verið við SAMFOK, samtökin Móðurmál og fleiri um viðburði og verkefni sem miðað hafa að því að fræða foreldra barna með annað móðurmál en íslensku um skóla- og frístundastarf borgarinnar. Þar ber hæst upplýsingafundina Allir með um íslenska skólamenningu sem fóru fram á tíu tungumálum með tilheyrandi upplýsingagjöf og útgáfu á viðkomandi tungumálum.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram drög að samstarfssamningi skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, Gufunesbæjar – miðstöðvar útivistar og útináms, íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkur og Fjölskyldu og húsdýragarðsins. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. september 2018, um samninginn. SFS2017110042 

    Samþykkt og vísað til borgarráðs.

    Guðrún María Ólafsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 27. ágúst 2018, þar sem svohljóðandi tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins af fundi borgarráðs þann 23. ágúst 2018 er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags, 18. september 2018:

    Lagt er til að inntökuskilyrði í Klettaskóla verði endurskoðuð og í stað greina 1 og 2 þar sem segir: „Innritun í Klettaskóla. 1. Klettaskóli er einn af grunnskólum Reykjavíkur og er sérskóli fyrir nemendur með þroskahömlun. Skólinn er fyrir nemendur með: miðlungs, alvarlega og djúpa þroskahömlun með eða án viðbótarfatlana væga þroskahömlun og skilgreinda viðbótarfötlun/fatlanir s.s. einhverfu, blindu, heyrnarleysi og alvarlega hreyfihömlun“ skal koma einungis: „Klettaskóli er sérskóli sem ætlaður er börnum með sérþarfir vegna þroskahömlunar. Umsóknir eru metnar í samvinnu við foreldra á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um nemandann.“

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2018080157

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta eru ósanngjörn inntökuskilyrði að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og sett til að fæla þá foreldra barna frá sem eru með þroskahömlun á miðlungs eða vægara stigi. Sömu inntökuviðmið hafa gilt um skólavist í þátttökubekknum og í Klettaskóla sjálfum. Foreldrar barna sem ná ekki þessum viðmiðum eða naumlega (jafnvel þótt ekki muni nema einu stigi í greindarvísitölu) reyna ekki að sækja um því þau vita að það þýðir ekki. Á meðan eru kannski mörg börn með þroskahömlun á einhverju stigi að berjast í bökkum inn í almennum bekk, líður illa, finnast þau vera ómöguleg, eru einangruð, er strítt og eru á engan hátt meðal jafningja. Í ljósi vaxandi vanlíðunar barna, aukins sjálfsskaða og hækkaðri tíðni sjálfsvígshugsana samkvæmt skýrslu Embættis landlæknis er hér um alvarlegan hlut að ræða í skólakerfinu í Reykjavík. Eins og fyrirkomulagið er núna fá sum börn ekki tækifæri til að stunda nám meðal jafningja og þess í stað er þeim gert að stunda nám í „skóla án aðgreiningar“ sem er vissulega falleg hugmynd en ekki alltaf raunhæf enda hefur ekki fylgt þessu fyrirkomulagi nægt fjármagn árum saman. Skóli án aðgreiningar eins og hann er í dag er ekki að mæta þörfum allra barna.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skóli án aðgreiningar hefur lengi verið hryggjarstykki menntastefnu landsins og byggir á því að námslegum þörfum barna sé að jafnaði mætt í heimaskóla þess. Unnið er að úrvinnslu á greiningu Evrópumiðstöðvarinnar um framkvæmd stefnunnar og á vegum borgarinnar er jafnframt verið að rýna fyrirkomulag skólaþjónustunnar í markvissu samstarfi velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs. Þar þarf að auka inngrip sem skila börnum framförum en draga úr ofuráherslu á formlegar greiningar. Mikilvægt er að hvika hvergi frá stefnunni um menntun fyrir alla en styrkja framkvæmdina svo hún nái enn betur markmiðum sínum. Kannanir á viðhorfum foreldra eru reglulega lagðar fyrir foreldra í Reykjavík. Þar hefur m.a. verið spurt að því hvort foreldrar telji að skólinn sé að mæta sínu barni sem skyldi, s.s. hvort þeir telji að barnið fái góðan stuðning frá kennurunum, hvort því líði vel í skólanum og hvort það taki stöðugum framförum í námi. Það kemur fram í minnisblaði sviðsins að öll börn sem sótt hefur verið um fyrir og fallið hafa undir inntökuviðmið Klettaskóla hafi hingað til fengið þar skólavist. Hins vegar er ljóst að Klettaskóli getur ekki tekið við stærri nemendahópi en þar er nú þegar. Breyting á inntökuskilyrðum í skólann myndi þar engu breyta um.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 27. ágúst 2018, þar sem svohljóðandi tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins af fundi borgarráðs þann 23. ágúst 2018 er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags, 18. september 2018:

    Lagt er til að foreldrar/aðstandendur grunnskólabarna verði spurðir hvort þeir telji þörf á fleiri sérskólaúrræðum, frekari úrræðum innan núverandi skóla eða blöndu af hvoru tveggja. Spurningin gæti verið með fimm svarmöguleikum með miðju og jafnmörgum neikvæðum og jákvæðum svörum: 1. Átt þú barn sem þarf á sérstökum stuðningi að halda í skóla (vegna vísbendinga/greiningar um lesblindu, sértæka námserfiðleika eða frávika í vitsmunaþroska; raskana t.d. ADHD, asperger eða einhverfuróf og/eða annarra tilfinninga-, hegðunar- og félagslegra vandamála) 2. Ég tel að fjölga þurfi sérskólaúrræðum (t.a.m. fyrir börn með þroskahamlanir sbr. úrræði eins og Klettaskóla og sérdeildir með sérhæft hlutverk vegna barna með miklar sérþarfir í námi, meðal annars vegna geðraskana og annarra alvarlegra hegðunarvandamála) mjög ósammála; frekar ósammála; hvorki sammála né ósammála; frekar sammála; mjög sammála. 3. Ég tel að fjölga þurfi úrræðum innan núverandi skóla til að styrkja stefnuna um skóla án aðgreiningar. Mjög ósammála; frekar ósammála; hvorki sammála né ósammála; frekar sammála; mjög sammála. Mikilvægt er að skoðanir barnanna sjálfra nái fram í umræðuna. Þar væru viðtöl og vettvangsheimsóknir gagnleg leið til að safna upplýsingum. 

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2018080156

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fram kemur að kannað hafi verið meðal foreldra (eða kannað sé reglulega) hvernig barni vegni í skólanum sínum og þá spurt um líðan barns, stuðning frá kennara og framfarir í námi. Það kemur ekki fram hverjar niðurstöður hafi verið úr þessum könnunum. Hverju svara foreldrar? Hverju svara foreldrar fatlaðra barna? Það vekur eftirtekt hve lítið er gert úr því þegar foreldrar gera sérstakar athugasemdir í könnunum, enda séu þær ekki vísbendingar um vilja foreldra almennt. Það eru höfð mörg orð um að ekki sé til fjármagn né mannafli til að kanna vilja/skoðun foreldra. En er til fjármagn til að gera þær kannanir sem sagt er að hafi verið gerðar? Til þess að draga úr kostnaði og þörf fyrir mannafla væri hægt að einfalda könnunina. Það er hópur fatlaðra barna í skólum borgarinnar, (börn með misalvarlegar fatlanir) sem líður illa vegna einangrunar og einmanaleika og finna sig ekki í aðstæðum þar sem þau geta ekki það sama og önnur börn, finnst þau vera öðruvísi og eignast ekki vini á jafningjagrunni. Foreldrar þessara barna bera kvíðboga fyrir fötluðum börnum sínum og svíður að hafa ekkert val um úrræði sem hentar þeim betur.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 27. ágúst 2018, þar sem svohljóðandi tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins af fundi borgarráðs þann 23. ágúst 2018 er vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags, 18. september 2018:

    Lagt er til að fleiri sérskólaúrræði verði sett á laggirnar í Reykjavík enda er Klettaskóli sprunginn. Klettaskóli er eini sérskólinn í Reykjavík af sinni gerð en í honum stunda börn með sérþarfir vegna þroskahömlunar nám. Flokkur fólksins telur að fleiri slík úrræði þurfi enda mörg börn nú á biðlista sem Klettaskóli getur ekki tekið inn. Í sérskólaúrræði eins og Klettaskóla og öðrum sambærilegum skólaúrræðum er mikilvægt að inntökuskilyrðin séu með þeim hætti að hver umsókn sé metin í samvinnu við foreldra á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um nemandann. Í þessum efnum eiga foreldrar ávallt að hafa val enda þekkja foreldrar börn sín best og vita þess vegna hvað hentar barni þeirra námslega og félagslega. Ekki má bíða lengur með að horfa til þessara mála og fjölga úrræðum. Það er réttur hvers barns að fá skólaúrræði við hæfi þar sem því líður vel, þar sem námsefni er við hæfi og þar sem félagslegum þörfum þess er mætt, þar sem það er meðal jafningja. 

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. SFS2018080155

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins harmar afgreiðslu þessarar tillögu og hinna tveggja sem Flokkur fólksins hefur lagt fram og sem fjalla einnig um skóla- og félagslegar þarfir fatlaðra barna í skólum í Reykjavík. Í svari við tillögunni er bent á að ekki séu biðlistar en staðreyndin er sú að Klettaskóli er mjög eftirsóttur og foreldrum barna sem óska inngöngu er vísað frá áður en til umsóknar kemur. Foreldrum sem óska eftir skólavist í Klettaskóla fyrir börn sín er tjáð strax í upphafi að barnið muni ekki fá inngöngu sé það ekki „nógu“ fatlað til að mæta skilyrðunum. Auk þess er Klettaskóli löngu sprunginn og tekur ekki við fleiri börnum sem segir kannski allt sem segja þarf í þessum efnum. Nauðsynlegt er að hafa skólaúrræði sem mætir ólíkum þörfum barna. Ein tegund úrræðis ætti ekki að útiloka annað. Málið snýst um að hafa val. Börn með þroskahömlun eru nefnilega ekki öll eins og þeim hentar ekki öllum það sama. Það þrífast ekki öll börn í þeim úrræðum sem eru í boði. Það vantar annan skóla eins og Klettaskóla og það vantar einnig úrræði fyrir börn með væga og miðlungs þroskahömlun, börnum sem líður illa í almennum bekk, námslega eða félagslega. Barn sem líður illa lærir lítið. Það væri óskandi að borgin/borgarmeirihlutinn myndi vilja horfast í augu við þessa staðreynd ekki síst í ljósi vaxandi vanlíðan barna eins og skýrsla Embættis landlæknis hefur fjallað um.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um drög að samningum við sjálfstætt rekna leikskóla í Reykjavík, dags. 20. september 2018; yfirlit yfir samninga og rekstarleyfi sjálfstætt rekinna leikskóla; samningur um framlag skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt starfandi leikskóla fyrir börn frá 18 mánaða til 6 ára, drög með breytingum frá fyrri samningi; samningur um framlag skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt starfandi leikskóla fyrir börn frá 18 mánaða til 6 ára, drög með samþykktum breytingum; rekstrar- og húsnæðisframlag til sjálfstætt starfandi leikskóla með samning við skóla- og frístundasvið, börn frá 18 mánaða til 6 ára, í gildi frá 1. ágúst 2018; reglur um leikskólaþjónustu; reglur um niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum; samningur um framlag skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt starfandi leikskóla fyrir börn frá 6/9 mánaða til 36 mánaða, drög með breytingum frá fyrri samningi; samningur um framlag skóla- og frístundasviðs til sjálfstætt starfandi leikskóla fyrir börn frá 6/9 mánaða til 36 mánaða, drög með samþykktum breytingum; rekstar- og húsnæðisframlag til sjálfstætt starfandi ungbarnaleikskóla með samning við skóla- og frístundasvið, börn 6/9 mánaða til 36 mánaða, í gildi frá 1. ágúst 2018; bréf samtaka sjálfstæðra skóla og samtaka verslunar og þjónustu um drög að þjónustusamningi við sjálfstætt starfandi leikskóla, dags. 8. febrúar 2018; bréf skóla- og frístundasviðs um drög að þjónustusamningi við sjálfstætt rekna leikskóla, dags. 23. mars 2018, athugasemdir vegna tillagna skóla- og frístundasviðs um breytingar á samningi um framlög borgarinnar til sjálfstætt starfandi leikskóla fyrir börn frá 18 mánaða til 6 ára; bréf skóla- og frístundasviðs um drög að þjónustusamningi við sjálfstætt rekna leikskóla, dags. 20. ágúst 2018, bréf skóla- og frístundasviðs um samninga skóla- og frístundasviðs við sjálfstætt rekna leikskóla, dags. 20. september 2018 og viðauki með kostnaðarþáttum. SFS2017110158

    Með vísan til minnisblaðs sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. september 2018 er tillaga sviðsstjóra um að gerðir verði þjónustusamningar við sjálfstætt rekna leikskóla í Reykjavík, á grundvelli framlagðra samningadraga, samþykkt og vísað til borgarráðs.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði fagna áframhaldandi samningum við sjálfstæða leikskóla. Sjálfstæðir skólar bæta flóru skóla Reykjavíkur svo um munar. Þeir veita foreldrum valkosti í skólamálum og tækifæri til að velja milli ólíkra áherslna í uppeldi og menntun barna sinna. Þeir telja þó að eðlilegt væri að líta á framlag sviðsins út frá réttindum barna til að sækja hvaða leikskóla sem er. Að barn hefði rétt á því að fá sama framlag óháð því hvaða skóla það og foreldrar þess kjósa að velja.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. ágúst 2018, um beiðni Sælukots um aukið framlag vegna 20 reykvískra barna og beiðni Sælukots, dags. 7. maí 2018, um aukið framlag vegna 20 reykvískra barna:

    Lagt er til að viðmið um hámarksfjölda reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna til Sælukots verði breytt með þeim hætti að miðað verði við að hámarksfjöldi reykvískra barna sem heimilt er að greiða framlag vegna geti orðið 59 í stað 39 frá 1. október 2018. Sviðsstjóra er falið að gera samninga við Sælukot vegna framlagsins. 

    Samþykkt og vísað til borgarráðs með sex atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá. SFS2015060229

    Fylgigögn

  10. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 17. september 2018, um stöðu ráðninga í skóla- og frístundastarfi 13. september 2018. SFS2018080035

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Góðu heilli gengur betur og hraðar að manna lausar stöður í leikskólum og frístundastarfi en á sama tíma í fyrra. Um miðjan september var búið að manna 97,5% stöðugilda í leikskólum, 99% stöðugilda í grunnskólum og 82% stöðugilda í frístund. Þá átti eftir að manna 39 stöðugildi í leikskólum samanborið við 96 á sama tíma í fyrra. Fjölmargar aðgerðir sem gripið hefur verið til frá sumri 2017 eru farnar að skila árangri og talsverð breyting verður milli mælinga í rétta átt. Sterk viðbrögð eru við nýjasta úrræðinu, Afleysingastofu fyrir leikskóla og eru nú komnar inn 125 umsóknir eftir tæplega tveggja vikna starfsemi. Fækkað hefur mjög í hópi barna sem fengið hafa boð um leikskólavist en ekki fasta dagsetningu á inntöku en þau eru nú 50 og hefur fækkað í þessum hópi um meira en helming á tæpum mánuði. Þá hefur einnig fækkað um helming á biðlista í frístundastarfinu á hálfum mánuði og eru þar þriðjungi færri börn en á sama tíma í fyrra. Áfram verður unnið af miklum krafti við að tryggja öllum börnum fulla þjónustu sem allra fyrst.

    Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skóla- og frístundaráði þakka starfsfólki fyrir góða vinnu við að ráða í lausar stöður í leikskólum, skólum og frístundaheimilum en betur má ef duga skal. Ótækt er að enn séu 532 börn á biðlista í frístund og 59 börn sem lofað hefur verið plássi á leikskóla hafi ekki enn fengið dagsetningu til innritunar. Fulltrúarnir leggja áherslu á að þung vinna verði áfram lögð í að klára ráðningar svo biðlistum verði eytt.

    Fylgigögn

  11. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Flokkur fólksins vill leggja til að inntökureglur í svokallaðan þátttökubekk verði rýmkaðar til muna. Til stóð að bekkirnir yrðu 4 í borginni. Fjölgi umsóknum í „þátttökubekk“ er lagt til að þeim verði fjölgað eftir þörfum. Eins og staðan er í dag eru inntökuskilyrði í þátttökubekkina þau sömu og í Klettaskóla. Þetta eru of ströng og stíf skilyrði að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og fælir mögulega foreldra frá að sækja um fyrir börn sín sem gætu notið góðs af því að stunda nám í þátttökubekk. Fram hefur komið að nú fyrst er sá eini þátttökubekkur sem er rekinn fullur en lengi vel var aðsókn ekki mikil. Ástæðan gæti verið sú að inntökuskilyrðin eru of ströng og að foreldrar barna sem ekki ná þessum viðmiðunum sækja þar að leiðandi ekki um. Vitað er að hópur barna (ekki vitað hve mörg) eru að berjast í bökkum í almennum bekk með eða án stuðnings eða sérkennslu. Það er skylda okkar að gera allt sem við getum til að sjá til þess að hverju einasta barni líði vel í skólanum og finni sig meðal jafninga. Að rýmka inntökuskilyrðin í þátttökubekk og fjölga þeim eftir þörfum gæti verið byrjun á að mæta enn frekar ólíkum náms- og félagslegum þörfum barna. 

    Frestað. SFS2018080157

  12. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir upplýsingum vegna ráðningar í stöðu ráðgjafa foreldra og skóla. Var starfið auglýst? Hversu margir sóttu um? Hvaða kröfur voru gerðar til umsækjenda?

    SFS2018090146

Fundi slitið klukkan 16:09

Skúli Helgason Alexandra Briem

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Líf Magneudóttir

Pawel Bartoszek