Skóla- og frístundaráð
Ár 2018, 27. júní, var haldinn 141. fundur skóla- og frístundaráðs. Fundurinn hófst í Hofi á Höfðatorgi, Borgartúni 12-14 í Reykjavík kl. 11.03. Fundinn sátu Skúli Helgason (S) formaður, Alexandra Briem (P), Katrín Atladóttir (D), Kolbrún Baldursdóttir (F), Líf Magneudóttir (V), Pawel Bartoszek (C) og Örn Þórðarson (D). Auk þeirra sátu fundinn eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Anna Metta Norðdahl, starfsfólk í leikskólum; Guðrún Gunnarsdóttir, leikskólastjórar; Guðrún Kaldal, framkvæmdastjórar frístundamiðstöðva, Hrefna Björk Jóhannsdóttir, foreldrar barna í grunnskólum og Jón Ingi Gíslason, kennarar í grunnskólum. Jafnframt sátu fundinn Helgi Grímsson sviðsstjóri, Aðalbjörg Dísa Guðjónsdóttir, Eygló Traustadóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Ragnheiður E. Stefánsdóttir, Soffía Pálsdóttir og Soffía Vagnsdóttir. Guðrún Sigtryggsdóttir ritar fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf borgarstjórans í Reykjavík, dags. 19. júní 2018, þar sem greint er frá því að á fundi borgarstjórnar 19. júní 2018 hafi eftirtaldir fulltrúar verið kosnir í skóla- og frístundaráð: Skúli Helgason, Pawel Bartoszek, Líf Magneudóttir, Alexandra Briem, Valgerður Sigurðardóttir, Katrín Atladóttir, Örn Þórðarson og til vara: Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, Diljá Ámundadóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Rannveig Ernudóttir, Marta Guðjónsdóttir, Kolbrún Baldursdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir. Formaður var kjörinn Skúli Helgason. SFS2018060287
Fylgigögn
-
Pawel Bartoszek er kosinn varaformaður skóla- og frístundaráðs með 4 atkvæðum.
Örn Þórðarson hlýtur 3 atkvæði.
Kl. 11:12 tekur Kristján Gunnarsson sæti á fundinum.
-
Lagt fram yfirlit sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. júní 2018, yfir áheyrnarfulltrúa í skóla- og frístundaráði. SFS2018060295
Fylgigögn
-
Lagt fram yfirlit sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 25. júní 2018, yfir fundi skóla- og frístundaráðs frá ágúst til desember 2018. SFS2017050059
Fylgigögn
-
Lagður fram meirihlutasáttmáli Viðreisnar, Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna fyrir borgarstjórn Reykjavíkur kjörtímabilið 2018 til 2022. Fram fer kynning Pawel Bartoszek og Lífar Magneudóttur. SFS2018060092
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks árétta að málaflokkur skóla- og frístundaráðs er langumsvifamesti og mikilvægasti þáttur í rekstri Reykjavíkurborgar og snertir flesta borgarbúa. Því er mikilvægt að grunnþjónusta sviðsins séu í algjörum forgangi varðandi áherslur og fjárútlát. Önnur verkefni sem ekki heyra beint undir grunnþjónustu sviðsins verði sett tímabundið til hliðar á meðan bætt er úr allra brýnustu grunnverkefnum skóla- og frístundasviðs, s.s. mannaráðningum, styttingu biðlista, bættri aðstöðu og starfsumhverfi starfsmanna og skólabarna.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Að skóla- og frístundasvið leiti upplýsinga um börn hælisleitenda. Hver er staðan þeirra núna hvað varðar líðan og skólagöngu og félagsleg samskipti við önnur börn. Flokkur fólksins hvetur ráðið til að sjá til þess að þessum börnum verði sinnt á öllum sviðum, að þau fái fullnægjandi þjónustu, fái leik- og grunnskólapláss þegar þau koma til landsins og þess sé gætt í hvívetna að þau einangrist ekki félagslega. Sem samfélag ber okkur skylda til að halda vel utan um börn og foreldra þeirra á meðan þau bíða eftir svari Útlendingastofnunar um hvort þau fái dvalarleyfi hér. Virða skal Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í hvívetna.
Áheyrnarfulltrúi starfsfólks í leikskólum leggur fram svohljóðandi bókun:
Síðastliðið vor var lögð fram skýrsla frá stýrihóp um bættar vinnuaðstæður og nýliðun í leikskólum. Skýrslan varpaði skýru ljósi á hvað þarf að gera til þess að bæta vinnuaðstæður í leikskólum Reykjavíkur. Bættar vinnuaðstæður er ein farsælasta leiðin til að fjölga kennurum í leikskólum borgarinnar. Reykjavíkurborg tekur tvö ár í þær aðgerðir sem samþykktar voru. Þessar aðgerðir þótt góðar séu, bæta ekki bága vinnuaðstöðu starfsfólks í dag. Það þarf að ráðast í stórátak í vinnuumhverfismálum kennara og starfsfólks leikskóla. Það þarf að gera starfsumhverfi leikskólakennara sambærilegt öðrum skólastigum og laun kennara í leikskólum verða að vera samkeppnisfær við aðra sérfræðinga. Við lýsum yfir áhyggjum okkar á starfsmannamálum í leikskólum Reykjavíkur. Fjölgun ungra barna í leikskólum kallar á fleiri starfsmenn sem við fáum ekki ef ekki verður gert átak í vinnuumhverfismálum leikskóla. Allir flokkar sem eiga sæti hér í skóla- og frístundaráði og í borgarstjórn voru með stórfenglegar yfirlýsingar um hvað þyrfti að gera fyrir leikskólann og starfsmenn fyrir kosningar. Nú viljum við sjá að ykkur hafi verið alvara og að flokkarnir vinni saman að eflingu leikskólastigsins, það er okkur öllum til hagsbóta.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Nýr meirihluti Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggur af stað með metnaðarfulla stefnu í skóla- og frístundamálum þar sem forgangsmálin eru bætt starfsumhverfi og faglegt frelsi starfsfólks, mótun, samþykkt og innleiðing nýrrar menntastefnu, fjölbreytt og krafmikil uppbygging í leikskólamálum til að brúa bilið frá fæðingarorlofi fyrir ungbarnafjölskyldur, betri samþætting skóla- og frístundastarfs í samfelldum degi barna og ungmenna og aukinn stuðningur við börn með annað móðurmál en íslensku. Meirihlutinn vill bæta þjónustu við foreldra leikskólabarna með því að hafa einn leikskóla í hverju hverfi opinn yfir sumartímann í tilraunaskyni. Frá og með áramótum 2019 munu barnafjölskyldur einungis borga námsgjald fyrir eitt barn, þvert á skólastig. Frá og með áramótum 2021 skulu barnafjölskyldur mest greiða fæðisgjöld fyrir tvö börn, þvert á skólastig. Síðast en ekki síst verður lögð áhersla á aukið samstarf við velferðarsvið um skipulag skólaþjónustu með það í huga að efla þjónustu við nemendur með fjölþættar þarfir og fjölskyldur þeirra og tryggja forvarnarstarf og snemmtæka íhlutun óháð greiningum.
Kl. 12:34 tekur Magnús Þór Jónsson sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Starfsemi skóla- og frístundasviðs. Fram fer kynning framkvæmdastjórnar skóla- og frístundasviðs. SFS2018060296
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg er mikið bákn og telur Flokkur fólksins að leggja ætti enn meiri vinnu í að einfalda kerfi, fækka flækjustigum, fjarlægja millistig „millistykki“ þar sem þau eru óþörf og samhliða því er verið að valdefla stofnanir enn frekar. Til þess að skýra þetta nánar er hér tekið dæmi um að ef sálfræðingar verði ráðnir beint af skólum, hafi aðsetur í skólum og fá verkefnabeiðnir frá nemendaverndarráði, þá þurfa þjónustumiðstöðvar ekki lengur að vera svokallað millistykki milli skóla og skólasálfræðinga. Með þessum hætti eru sterkar líkur á að þjónustan verði skilvirkari, biðlistar styttist með því markmiði að þeir hverfi alveg og aðgengi notendanna að þjónustunni, barna, foreldra og kennara verði betri.
-
Lögð fram skýrslan Endurskoðun, þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu Reykjavíkurborgar, dags. í maí 2018.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs er falið að vinna áætlun um innleiðingu tillagna úr skýrslu starfshóps um endurskoðun, þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu Reykjavíkurborgar. Áætlunin feli í sér forgangsröðun, kostnaðarmat og áfangaskiptingu og verði lögð fram á fundi skóla- og frístundaráðs í ágúst 2018.
Samþykkt. SFS2018010109
Kl. 14:15 víkur Hrefna Björk Jóhannsdóttir af fundinum.
Þórlaug Ágústsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti skóla- og frístundaráðs þakkar formanni starfshóps um eflingu dagforeldraþjónustu í borginni, Þórlaugu Ágústsdóttur, fyrir góða kynningu og starfshópnum fyrir greinargóða vinnu og skýrslu. Í henni koma fram fjölmargar tillögur til úrbóta fyrir daggæslukerfið sem gagnast bæði dagforeldrum og ungum börnum og foreldrum þeirra. Þar má nefna aukið öryggi í starfsumhverfi dagforeldra, hækkun á niðurgreiðslum til að jafna aðstöðumun ungra barna hjá dagforeldrum og í leikskólum, stofn- og aðstöðustyrki, aðgerðir til að auka öryggi t.d. með öryggishnappi, námsstyrki, símenntun og faglegan stuðning við dagforeldra og ríkari upplýsingagjöf um þjónustu dagforeldra. Meirihlutinn leggur áherslu á að nú verði unnin hratt og vel áætlun um forgangsröðun og innleiðingu þessara tillagna sem verði lagðar fyrir fund skóla– og frístundaráðs í ágúst.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka áhugaverða og lausnamiðaða skýrslu starfshópsins. Tekið er undir niðurstöður og tillögur starfshópsins, sérstaklega þar sem tekið er undir tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokks frá apríl 2017 um hækkun á niðurgreiðslu til dagforeldra um 25%. Sömuleiðis er tekið undir athyglisverðar ábendingar um að þróun íbúðaverðs í borginni séu stór þáttur í minnkandi framboði þjónustu dagforeldra. Fækkun framboðs í vestari hverfum og tilfærsla í austari hverfi leiðir til aukins samgönguvanda og óþæginda fyrir alla þjónustunotendur, það er börn og foreldra þeirra.
Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi kennara í grunnskólum leggur fram svohljóðandi tillögu:
Skóla- og frístundaráð fagnar þeim mikilvæga áfanga sem náðst hefur fyrir skólastarf á komandi skólavetri að samþykktur hefur verið með 74% atkvæða kjarasamningur grunnskólakennara við sveitarfélögin. Vel heppnuð og jákvæð innleiðing kjarasamningsins er lykilatriði fyrir jákvæða þróun skólastarfs í Reykjavík. Skóla- og frístundaráð beinir því til skólastjóra í Reykjavík að sérstaklega verði gætt að eftirfarandi þáttum við innleiðingu kjarasamnings skólaárið 2018-2019 í Reykjavík. Í kjarasamningi er „vinnumat“ fellt út. Álag í starfi og skortur á sveigjanleika hefur verið einn helsti orsakavaldur óánægju í starfi kennara ásamt lágum launum. Mikilvægt er að minnka álag í skipulagi skólastarfsins og auka sveigjanleika. Undirbúningur og úrvinnsla kennslu á að vera í algerum forgangi. Eðli slíkrar vinnu er þannig að hún kallar á mikinn sveigjanleika enda oft unnið í törnum. Því þarf bundin viðvera að miðast við það að sem fæstir dagar séu með sérstaka bundna viðveru. Nokkrir skólar hafa gert árangursríkar tilraunir með að minnka þessa miðstýrðu bindingu mikið og miða bundna viðveru við 1-2 daga í viku. Heildarvinnutími kennara á ársgrundvelli helst eftir sem áður hinn sami. Þá er í kjarasamningi minnkaður sá tími sem skólastjóri ráðstafar og eru skólastjórar hvattir til að minnka þann tíma meira, eins og frekast er unnt. Eins og skýrt er kveðið á um í kjarasamningi þá skal greiða aukalega fyrir þau verk sem ekki rúmast innan vinnuramma eða verksviðs kennara. Kennsla, undirbúningur og úrvinnsla hefur forgang í starfi kennara. Því verða önnur sértæk viðbótarverkefni sem ekki rúmast að greiðast aukalega. Vinna við nýtt námsmat hefur reynst alltof mikil og verið víðast unnin án aukagreiðslu til kennara. Áleitnar spurningar hafa komið fram um skýrleika og raunverulega gagnsemi þessa kerfis. Gæta þarf að því næsta vetur að þetta endurtaki sig ekki með sama hætti. Auka lýðræðisþátttöku kennara í ákvörðunum skóla um skólastarf, skólaþróun og endurmenntun í anda nýrrar lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar. Hver skóli kappkosti við að bæta allt starfsumhverfi kennara og hafi aukna vellíðan kennara í starfi sem meginmarkmið. Það eitt eykur námsárangur nemenda umtalsvert eins og rannsóknir hafa leitt ítrekað í ljós.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:
Skóla- og frístundaráð fagnar þeim mikilvæga áfanga sem náðst hefur fyrir skólastarf á komandi skólavetri að samþykktur hefur verið með 74% atkvæða kjarasamningur grunnskólakennara við sveitarfélögin. Vel heppnuð og jákvæð innleiðing kjarasamningsins er lykilatriði fyrir jákvæða þróun skólastarfs í Reykjavík. Skóla- og frístundaráð leggur til að settur verði á fót sameiginlegur samráðsvettvangur fulltrúa stjórnar Kennarafélags Reykjavíkur, stjórnar Skólastjórafélags Reykjavíkur og skóla- og frístundasviðs um farsæla innleiðingu nýs kjarasamnings m.a. með hliðsjón af nýrri menntastefnu Reykjavíkurborgar og vinnu við bætt vinnuumhverfi grunnskólakennara. Skóla- og frístundaráð beinir því til fyrirhugaðs samráðsvettvangs að sérstaklega verði gætt að eftirfarandi þáttum við innleiðingu kjarasamnings skólaárið 2018-2019 í Reykjavík. Mikilvægt er að minnka álag í skipulagi skólastarfsins og auka sveigjanleika. Eins og skýrt er kveðið á um í kjarasamningi þá skal greiða aukalega fyrir þau verk sem ekki rúmast innan vinnuramma eða verksviðs kennara. Kennsla, undirbúningur og úrvinnsla hefur forgang í starfi kennara. Því verða önnur sértæk viðbótarverkefni sem ekki rúmast innan kjarasamnings að greiðast aukalega. Vinna við nýtt námsmat hefur reynst mikil. Mikilvægt er að greina og draga lærdóm af vinnu við innleiðingu nýs námsmats til að tryggja að nýtt námsmat verði raunverulega námi og kennslu til framdráttar. Auka lýðræðisþátttöku kennara í ákvörðunum skóla um skólastarf, skólaþróun og endurmenntun í anda nýrrar lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar. Hver skóli kappkosti að bæta allt starfsumhverfi kennara og hafi aukna vellíðan kennara í starfi að leiðarljósi.
Samþykkt. SFS2018060297
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihluti skóla- og frístundaráðs þakkar áheyrnarfulltrúa kennara í grunnskólum fyrir mikilvæga tillögu um hvernig megi stuðla að vandaðri innleiðingu kjarasamnings grunnskólakennara við samninganefnd sveitarfélaganna. Mikilvægt er að borgaryfirvöld og forysta kennara og skólastjórnenda taki höndum saman um þetta þjóðþrifamál með það fyrir augum að minnka álag, auka sveigjanleika og bæta starfsumhverfi kennara þar sem lögð er áhersla á að kennsla, undirbúningur og úrvinnsla hennar hafi forgang í starfi kennara. Meirihlutinn leggur áherslu á að þessir aðilar eigi með sér formlegt samráð um farsæla innleiðingu kjarasamningsins þar sem m.a. verði tekið mið af nýrri menntastefnu Reykjavíkurborgar og vinnu við bætt vinnuumhverfi grunnskólakennara.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. júní 2018, um staðfestingu skóladagatala grunnskóla í Reykjavík skólaárið 2018-2019 ásamt útdrætti úr skóladagatölum grunnskóla í Reykjavík skólaárið 2018-2019. SFS2017020126
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. júní 2018, um samning við Landakotsskóla vegna reksturs frístundaheimilis ásamt drögum að þjónustusamningi skóla- og frístundasviðs og Landakotsskóla um framlag vegna barna í Landakotsskóla sem nýta frístundaheimili skólans og eiga lögheimili í Reykjavík og fósturbarna ef fósturforeldrar eiga lögheimili í Reykjavík. Jafnframt lögð fram tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs varðandi framlag Reykjavíkurborgar til sjálfstætt rekinna grunnskóla vegna reksturs frístundaheimila ásamt greinargerð, dags. 6. október 2017, minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um framlag Reykjavíkurborgar til sjálfstætt rekinna grunnskóla vegna reksturs frístundaheimila, dags. 4. janúar 2018 og bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga um áhrif breytinga á grunnskólaögum nr. 76/2016 á kostnað sveitarfélaga, dags. 23. ágúst 2017. SFS2017100036
Samþykkt að gera samning við Landakotsskóla vegna reksturs frístundaheimilis og vísað til borgarráðs.
Fylgigögn
-
Lögð fram svohljóðandi tillaga sviðsstjóra skóla- og frístundaráðs, dags. 21. júní 2018, ásamt bréfi International School of Iceland, dags. 12. júní 2018, þar sem óskað er eftir hækkun á viðmiði um hámarksfjölda reykvískra nemenda sem greitt er framlag með vegna náms í International School of Iceland fyrir skólaárið 2018-2019:
Lagt er til að viðmið um hámarksfjölda reykvískra nemenda sem greitt er framlag vegna til International School of Iceland í Garðabæ skólaárið 2018-2019 verði 30 reykvískir nemendur.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt og vísað til borgarráðs með 6 atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Sjálfstæðisflokksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Vinstri grænna situr hjá.
Ákvörðun um viðmið er tímabundin til 1. júlí 2019, fyrir þann tíma verður tekin ákvörðun um framlengingu eða endurskoðun á fyrirkomulaginu. SFS2016040020
Kl. 15:05 víkur Guðrún Kaldal af fundinum.
Fylgigögn
-
Lögð fram drög að samningi skóla- og frístundasviðs og SAMLEIK-R ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 20. júní 2018, um endurnýjun styrktar- og samstarfssamnings SAMLEIK-R og skóla- og frístundasviðs, samningur skóla- og frístundasviðs og Félags foreldra leikskólabarna í Reykjavík, dags. 10. maí 2017 og tölvubréf SAMLEIK-R, dags. 4. desember 2017, þar sem óskað er eftir samningi. SFS2015060051
Samþykkt og vísað til borgarráðs.
Fylgigögn
-
Lögð fram drög að viðauka við samning mennta- og menningarmálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar vegna Námsflokka Reykjavíkur ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 19. júní 2018, viðauki við samning milli mennta- og menningarmálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar vegna Námsflokka Reykjavíkur, dags. 22. febrúar 2017 og samningur mennta- og menningarmálaráðuneytisins við Reykjavíkurborg vegna Námsflokka Reykjavíkur, dags. 15. september 2013. SFS2018060298
Samþykkt og vísað til borgarráðs.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 21. júní 2018, um stöðu innritunar í leikskóla Reykjavíkurborgar fyrir haustið 2018. SFS2018060172
Eyrún Einarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Kl. 15:15 víkja Magnús Þór Jónsson og Kristján Gunnarsson af fundinum.
Kl. 15.35 víkur Guðrún Gunnarsdóttir af fundinum.
Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er gleðiefni að staða innritunar barna á leikskóla hefur gengið vel í vor og eru horfurnar betri en í fyrra. Öll börn fædd 2016 hafa fengið boð um leikskólavist frá hausti og stefnir í að börn fædd á fyrstu mánuðum ársins 2017 fái einnig boð og komist því fyrr að í leikskóla í haust en verið hefur. Nú eru 187 börn fædd í janúar til maí 2017 á bið eftir leikskólavist en þar sem laus pláss verða um 268 stefnir í að hægt verði að bjóða öllum þessum börnum leikskólavist í haust. Staðan er betri en í fyrra en þá voru 141 barn á bið um miðjan maí en eingöngu 83 laus pláss. Það er sérstaklega ánægjulegt að mikill árangur hefur náðst í að tryggja systkinum rými á sama leikskóla og er þegar búið að tryggja 98% systkina vist á sama leikskóla. Áfram verður unnið að því að tryggja þeim sem eftir standa vist á sama leikskóla.
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að skólar verði valdefldir með þeim hætti að þeir ráði sjálfir til sín skólasálfræðinga sem hafa skulu aðsetur í skólum og taka við verkbeiðnum frá nemendaverndarráðum. Í lögum segir að hver skólasálfræðingur skuli vera í hverjum grunnskóla og að börn skuli hafa aðgang að sérfræðiþjónustu þar á meðal sálfræðiþjónustu. Gert skal ráð fyrir því að hver skóli fái nægjanlegt fjármagn til að hafa í það minnsta sálfræðing í 40% starfshlutfalli.
Greinargerð fylgir.
Frestað. SFS2018060303
Fylgigögn
-
Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að öll börn fái fríar skólamáltíðir. Eins og vitað er búa mörg börn við mismunandi aðstæður hvað varðar efnahag foreldra. Sum búa við sára fátækt og eru því svöng í skólanum. Eina leiðin til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum er að þau fái fríar skólamáltíðir.
Frestað. SFS2018060304
Kl. 15:40 víkja Soffía Vagnsdóttir, Soffía Pálsdóttir, Ingibjörg M. Gunnlaugsdóttir, Anna Metta Norðdahl og Ragnheiður E. Stefánsdóttir af fundinum.
Fundi slitið klukkan 15:52
Skúli Helgason Alexandra Briem
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir Líf Magneudóttir
Pawel Bartoszek