No translated content text
Skipulags- og samgönguráð
Ár 2020, miðvikudaginn 18. nóvember kl. 09:02, var haldinn 89. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð Ráðssal.
Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Pawel Bartoszek, Alexandra Briem, Hjálmar Sveinsson, Ragna Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúarnir Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir og Daníel Örn Arnarsson.
Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björn Axelsson, Þorsteinn Rúnar Hermannsson og Jóhanna Guðjónsdóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.
Þetta gerðist:
Þetta gerðist:
-
Svæðisbundin náttúruvernd í Reykjavík, kynning Mál nr. US200411
Lögð fram greinargerð umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu umhverfisgæða, dags. 21. september 2020, um stöðu svæðisbundinnar náttúruverndar í Reykjavík ásamt tillögum um möguleg skref.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fjölmargar náttúruperlur eru innan Reykjavíkur. Mikilvægt er að auka vernd grænna svæða með heildstæðum hætti.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Náttúruvernd í Reykjavík er lítils virði ef græna höndin veit ekki hvað sú rauða er að gera. Það er tómt mál að tala um náttúruvernd þegar ruðst er inn á græn svæði og náttúruminjasvæði með landfyllingum, stórkostlegri íbúðabyggð, Bio Dome og ómarkvissri útplöntun laufskóga. Hér er einungis minnst á fá svæði Skerjafjörður, Elliðarárdalur, Esjan, Úlfarársdalur, Álfsnes, nýir malbikaðir stígar í Öskuhlíð, allar náttúrlegar fjörur sem eru að verða uppurnar í Reykjavík vegna landfyllinga, Árbæjarlón sem nú er búið að tæma. Listinn er ótæmandi. Þessa þróun verður að snúa við.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þessi kynning gefur góða mynd af því sem er að gerast á sviði umhverfismála með tilliti til skipulags. Galli er þó að lítill munur er gerður á ,,manngerði náttúru” og þeirri sem hefur að mestu þróast á sínum hraða án mikilla afskipta mannsins. Alveg ósnortin náttúra er varla til í borginni eða í umhverfi hennar. Elliðaárdalurinn telst varla náttúrulegt svæði, heldur er hann frekar garður þar sem framandi og stórvöxnum trjám hefur verið plantað. Tala ætti frekar um hann sem mikið raskað svæði frekar en náttúrulegt svæði. Gildi hans er þó vissulega mikið engu að síður. Náttúruleg þróun hans mun taka mið af þeim gróðri sem þar hefur verið plantað. Það sama gildir að verulegu leyti um önnur svokölluð náttúruleg svæði í borginni. Meira að segja hefur flestum fjörum verið spillt. Áberandi dæmi er Geirsnef. Þar hefði verið hægt að halda í lítt snortna náttúru. En það voru líf-fæðu-auðugar leirur eyðilagðar með landfyllingu. Fuglar sem þar höfðust við eru horfnir. Við framtíðarskipulag ætti því áfram að hugsa um svæðin í borginni sem ,,borgargarða” sem þarf að sinna og þá fer best á því að miða við þarfir borgarbúa. Hætta ætti að tala um ósnortna náttúru og líffræðilega fjölbreytni. Það á ekki við.
Snorri Sigurðsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
(A) Skipulagsmál
Fylgigögn
-
Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð Mál nr. SN010070
Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 6. nóvember 2020.
Ragna Sigurðardóttir víkur af fundi undir þessum lið.
(B) Byggingarmál
Fylgigögn
-
Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð Mál nr. BN045423
Fylgiskjal með fundargerð þessari er fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1090 frá 10. nóvember 2020.
Ragna Sigurðardóttir víkur af fundi undir þessum lið.
(A) Skipulagsmál
Fylgigögn
-
Lækjargata 1, deiliskipulag (01.17) Mál nr. SN200645
510391-2259 Framkvæmdasýsla ríkisins, Borgartúni 7, 105 ReykjavíkLögð fram umsókn Framkvæmdasýslu ríkisins dags. 14. október 2020 ásamt bréfi dags. 14. október 2020 um nýtt deiliskipulag fyrir lóðina nr. 1 við Lækjargötu, lóð forsætisráðuneytisins og stjórnarráðshússins, vegna áforma um viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið fyrir starfsemi forsætisráðuneytisins. Einnig er lögð fram vinningstillaga Kurt og Pí arkitekta frá árinu 2018 og umboð forsætisráðuneytisins dags. 14. október 2020. Jafnframt er lögð fram skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, dags. 10. nóvember 2020.
Samþykkt að taka Lækjargötu 1 á dagskrá.
Samþykkt að kynna lýsingu að deiliskipulagi í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun, Minjastofnun Íslands, Borgarsögusafni, Verkefnastofu Borgarlínu, OR/Veitum, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, íbúaráði og einnig skal kynna hana fyrir almenningi.
Ólafur Melsted verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Elliðaárdalur, deiliskipulag (04.2) Mál nr. SN190373
Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar að deiliskipulagi fyrir borgargarðinn í Elliðaárdal. Skipulagið byggir á grunni eldra deiliskipulags sem var samþykkt árið 1994 sem fellt er úr gildi. Í tillögunni eru afmörkuð og skilgreind hverfisverndarsvæði í dalnum, gerð grein fyrir helstu göngu- og hjólastígum ásamt nýjum þverunum yfir Elliðaárnar og skilgreind helstu útivistar- og áningarstaðir, samkvæmt uppdr. Landslags. ehf. dags. 10. febrúar 2020 síðast br. 16. nóvember 2020. Einnig er lögð fram greinargerð Landslags ehf. um forsendur deiliskipulags dags. 10. febrúar 2020 br. 16. nóvember 2020, greinargerð Landslags ehf. um stefnumörkun og skilmála dags. 10. febrúar 2020 br. 16. nóvember 2020, skýringarmynd Landslags ehf. dags. 10. febrúar 2020 og drög Borgarsögusafns Reykjavíkur að varðveislumati og húsaskrá fyrir Elliðaárdalinn. Einnig er lagður fram tölvupóstur stjórnar Hollvinasamtakanna dags. 19. mars 2020 og bréf Halldórs Páls Gíslasonar f.h. Hollvinasamtaka Elliðaárdals dags. 21. apríl 2020. Tillagan var auglýst frá 16. mars 2020 til og með 18. maí 2020. Eftirtaldir sendu inn athugasemdir/umsögn: Jón Þór Ólason f.h. Stangveiðifélags Reykjavíkur dags. 9. nóvember 2019, Bjarni V. Guðmundsson dags. 18. mars 2020, Vegagerðin dags. 19. mars 2020 og 19. maí 2020, Hörður Guðjónsson f.h. íþróttafélagsins Fylkis dags. 22. apríl 2020, Umhverfisstofnun dags. 22. apríl 2020, Hlín Sverrisdóttir dags. 7. maí 2020, Hestamannafélagið Fákur dags. 12. maí 2020, skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 14. maí 2020, Sædís Þorleifsdóttir dags. 17. maí 2020, Gunnar H. Guðmundsson dags. 18. maí 2020, Orkuveita Reykjavíkur dags. 18. maí 2020, Veitur dags. 18. maí 2020, Snorri Gunnarsson dags. 18. maí 2020, Ólafur Haraldsson f.h. Frisbígolffélags Reykjavíkur og Íslenska frisbígolfsambandsins dags. 18. maí 2020, Halldór Páll Gíslason f.h. Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins dags. 18. maí 2020, Jósep Valur Guðlaugsson dags. 19. maí 2020, íbúaráð Árbæjar og Norðlingaholts dags. 19. maí 2020, Minjastofnun Íslands dags. 4. júní 2020 og íbúaráð Breiðholts dags. 16. júní 2020. Einnig er lögð fram fornleifaskrá og húsakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur, skýrsla nr. 203, dags. 2020 og umsögn Minjastofnunar Íslands dags. 27. október 2020. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 16. nóvember 2020.
Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum
sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 16. nóvember 2020.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn tillögunni.
Vísað til borgarráðs.Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillagan myndar ramma utan um heildarskipulag dalsins. Stígakerfi er bætt og gert er ráð fyrir nýjum brúartengingum fyrir gangandi og hjólandi, hverfisvernd er aukin og rammi settur utan um starfsemi í dalnum. Eftir umsagnarferli eru gerðar ýmsar minniháttar breytingar til að koma til móts við athugasemdir og endurspegla í skipulagi þá starfsemi sem þegar er í dalnum (skíðabrekka, frísbígolfvöllur) eða er þar fyrirhuguð (OR-sýning). Breytingar vegna mögulegra útfærslna gatnamóta í Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar eru ekki hluti af þessari tillögu en kunna að vera nauðsynlegar í framhaldinu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókanir:
Mikilvægt er að Elliðaárdalurinn njóti verndar í heild, en lengi hefur staðið til að auka hana. Sú deiliskipulagstillaga sem hér er til samþykktar er útvötnuð útgáfa af því svæði sem sátt var um. Best væri að Elliðaárdalurinn nyti friðlýsingar að lögum og svæðið væri mun stærra en hér er gert ráð fyrir. Með þessu skipulagi er verið að ganga gegn þeirri sátt sem náðist í samráðshópi um „Sjálfbæran Elliðaárdal“ sem skilaði ítarlegri skýrslu í apríl 2016. Ljóst er að íbúar vilja að Elliðaárdalurinn njóti aukinnar verndar og svæðið sé stærra, en nýlega skrifuðu meira en níu þúsund undir áskorun um íbúakosningu vegna áforma um að byggja í jaðri dalsins.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Áheyrnarfulltrúi Sósíalista fagnar aukinni vernd Elliðaárdalsins og bættum tengingum fyrir hjólandi og gangandi en hefði viljað sjá þróunarsvæðin við Stekkjabakka og Suðurfell inni í skipulaginu. Einnig hefði fulltrúinn viljað sjá allan dalinn friðaðan en ekki bara svæðin á milli stíganna.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er kaldhæðnislegt að ræða ekki nýlega tæmingu Árbæjarlóns í umræðu um breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals, en stíflan eru friðuð og þar með lónið. Það er mjög sláandi að sjá að skipulagið taki skarpa beygju fram hjá þróunarreit Stekkjarbakka Þ73, þar sem fyrirhuguð gróðurhvelfing/Bio Dome á að rísa. Fyrri hugmyndir gengu út á að reiturinn væri innan þessa mikilvæga útivistar- og náttúrusvæðis sem Elliðarárdalurinn er. Mörk deiliskipulags á öðrum stöðum miðast við útlínur dalsins. Elliðarárdalurinn býr yfir afar fjölbreyttu lífríki. Það er mat borgarfulltrúa Miðflokksins að svæðið innan deiliskipulagsins ætti allt að njóta hverfisverndar í stað þess að marka það innan þeirra stíga sem liggja meðfram ánni á báða bóga. Ríkið verður að grípa inn í þessa atburðarás og friðlýsa svæðið strax eins og gert var með Akurey í Kollafirði 2019. Með friðun er tryggður réttur komandi kynslóða til að njóta náttúrugæðanna sem dalurinn býður uppá. Náttúra innan borgarmarka er takmörkuð auðlind. Elliðarárdalurinn er ein af stærstu auðlind Reykvíkinga.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Elliðaárdalurinn er mörgum afar kær jafnvel þótt varla sé hægt að tala um hann sem ósnortna náttúru lengur. Hann er manngerð náttúra. Þar með er þó ekki sagt að gildi hans sé ekki mikið, þvert á móti. En náttúruleg þróun hans mun taka mið af þeim gróðri sem þar hefur verið plantað. Furur og greni munu sá sér út og barrskógur verður líklega ríkjandi ef ekki verður að gert. Útsýni verður þá takmarkað við næstu metra. Kvartað hefur verið yfir ýmsu í ferlinu t.d. að áform voru ekki öll kynnt í vor þegar deiliskipulag í dalnum var kynnt. Mikil umræða hefur verið um lónið sem er greinilega mörgum kært. Um það vilja margir standa vörð. Tappann skal taka úr vegna þess að ein stofnun sagði að það væri gott fyrir lífríkið. En fulltrúi Flokks fólksins vill bóka um stífluna sem er friðlýst og ekki verður átt við hana án leyfis. Stíflan rífur sjónlínu milli efri og neðri hluta dalsins. Hún liggur yfir ána, bakka á milli og klýfur dalinn- farveginn- í tvennt sjónrænt séð. Tilgangur þessa mannvirkis er lokið. Með því að rífa hana er farið í átt að upprunalegu ástandi Elliðaárdals sem hlýtur að vera jákvætt.
Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
(E) SamgöngumálFylgigögn
-
Umferðarskipulag Kvosarinnar, tillaga Mál nr. US200417
Lögð fram svohljóðandi tillaga skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 13. nóvember 2020, ásamt fylgiskjölum:
Lagt er til að skipulags- og samgönguráð samþykki meðfylgjandi framtíðarsýn fyrir umferðarskipulag Kvosarinnar.
Samþykkt.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Hér er verið að stækka göngugötusvæðið í Kvosinni í samræmi við ákvörðun borgarstjórnar frá september 2018. Nálægar götur eru gerðar að vistgötum. Umhverfið verðu mannvænna og við fögnum því. Jafnframt telur meirihluti skipulags- og samgönguráðs að rétt sé að fara fram á það við löggjafann að umferðarlög verði skýrð á þann hátt að sveitarfélög fái aukin sveigjanleika varðandi akstur íbúa og að heimildir P-korta-hafa geti tekið mið af svæðisbundnum aðstæðum hverju sinni.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Enn er þrengt að bílaumferð í Reykjavík. Hér er kynnt að loka eigi allri Kvosinni. Þetta er löngu komið yfir eitthvert þráhyggjustig hjá borgarstjóra og meirihlutanum. Þetta er hrein ögrun gagnvart Reykvíkingum og landsmönnum öllum. Það er bæði sorglegt og óhuggulegt hvernig búið er að skemma miðbæinn undanfarin rúman áratug undir stjórn vinstri manna í borgarstjórn. Einnig er það ábyrgðarleysi að verið er að loka aðgengi að opinberum stofnunum ríkisins. Borgin ber skyldur gagnvart ríkinu. Sú skylda er hundsuð í þessu máli – enda mega að sjálfsögðu engir bílar vera fyrir góða fólkinu þegar verið er að flýta sér úr ráðhúsinu yfir á Vinnustofu Kjarvals.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Um er að ræða Kvosina sem einkennist af þrengslum. Fulltrúi Flokks fólksins minnir á rétt allra til að hafa aðgengi. Þá er átt við þá sem ýmist koma akandi, gangandi, hjólandi, í almenningssamgöngum og fatlað fólk og þeir sem losa vörur. Stór hluti svæðisins er nú þegar göngugötur eða vistgötur. Fyrst á að gera vistgötur og svo göngugötur? Stæðum mun fækka verulega. Væri ekki nær að leyfa vistgötum að vera áfram vistgötur og veður þá vissulega að merkja stæði íbúum og gestastæði auk stæða fyrir P merkta bíla? Best væri ef vistgötur væru fleiri og göngugötur færri þar sem gildandi umferðarlög setja veghaldara þröngar skorður um hvaða umferð er heimil á göngugötum. Með vistgötum helst þó aðgengi íbúa óbreytt frá því sem er í dag svo fremi sem stæði séu merkt þeim. Ekki liggur fyrir með hvaða hætti hægt er að tryggja íbúum innan göngugötusvæða áfram aðgengi að eignum sínum noti þeir bíl. Óttast er að þessi óvissa fæli fólk frá að vilja fjárfesta á þessu svæði og rekstraraðila að opna verslanir þar. Stæðum fyrir hreyfihamlaða á að fjölga sem er gott. Skipulagsyfirvöld sendu minnisblað til Alþingis og vildu ráða hvaða göngugötur P merktir bílar megi aka um. Svar hefur ekki borist og mun sennilega ekki gera.
Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir yfirverkfræðingur og Edda Ívarsdóttir deildarstjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
(D) Ýmis málFylgigögn
-
Ártúnshöfði, austurhluti, kæra 94/2020, umsögn (04.071) Mál nr. SN200623
701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 ReykjavíkLagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 7. október 2020 ásamt kæru dags. 6. október 2020, þar sem kærð er ákvörðun borgarráðs frá 25. júní 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða eystri, afmörkun nýrrar lóðar fyrir allt að þrjú smáhýsi. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 9. nóvember 2020.
-
Laugavegur, Bolholt, Skipholt,
kæra 61/2020, umsögn (01.251.1) Mál nr. SN200455
701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 ReykjavíkLagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 14. júlí 2020 ásamt kæru dags. 14. júlí 2020 þar sem kærð er samþykkt borgarráðs frá 19. mars 2020 á tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir reit sem afmarkast af Laugavegi til norðurs, Bolholti til Suðurs, Skipholti til suðurs og Laugavegi 174 og Skipholt 31. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 17. september 2020 og 10. nóvember 2020.
-
Mýrargata 21 og 23, breyting á deiliskipulagi (01.116) Mál nr. SN190436
Einar Ólafsson, Hvassaleiti 39, 103 Reykjavík
670901-2110 Söfnuður Moskvu-Patríarkatsins, Öldugötu 44, 101 ReykjavíkLagt fram bréf borgarstjóra dags. 12. nóvember 2020 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á breytingu á deiliskipulagi Nýlendureits, reitur 1.131, vegna lóðarinnar nr. 21-23 við Mýrargötu.
Fylgigögn
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn, Mál nr. US200412
Óskað er eftir að fá allar breytingar á skilmálum þeirra verkefna sem heyra undir Hagkvæmt húsnæði: https://reykjavik.is/hagkvaemt-husnaedi. Sérstaklega er óskað eftir að fá lista yfir ívilnandi breytingar á byggingarmagni, kröfum um húsnæði, bílastæði, sorphirðu og fjarlægðum þar að lútandi, aukningu byggingarmagns eða öðrum breytingum frá því að viðkomandi aðilar fengu vilyrði fyrir lóðum.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir, Mál nr. US200413
Reykjavíkurborg er með áætlanir um Vetrargarð fyrir íbúa Reykjavíkur og nágrennis, við skíðabrekkuna í Jafnaseli. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir svörum við eftirfarandi fyrirspurnum: 1. Vatnsendahvarf þar sem nýr Vetrargarður á að rísa er einn besti útsýnisstaður borgarinnar og býður upp á möguleika á heillandi útsýnishúsi eða útsýnispalli ásamt viðeigandi þjónustu. Hversu mikið telja skipulagsyfirvöld að hraðbraut, sem kljúfa á Vatnsendahvarf að endilöngu, dragi úr framtíðarmöguleikum Vetrargarðsins og svæðisins í heild? 2. Hver munu áhrif hraðbrautar svo nálægt fyrirhuguðum Vetrargarði verða? 3. Hvernig verða mengunarmál leyst þegar stór gatnamót verða alveg upp við leik og útivistarsvæði sem er að mjög miklu leyti notað af börnum? 4. Umhverfismat fyrir 3. áfanga Arnarnarnesvegar er eldra en 10 ára gamalt, eða frá 2002, og í ljósi þess er ekki enn útséð hvort Skipulagsstofnun fari fram á nýtt mat. Stendur til að fresta útboði þar til niðurstaða um það liggur fyrir? 5. Tenging við Breiðholtsbraut er nú áætluð með ljósastýrðum gatnamótum en ekki mislægum eins og upphaflega umhverfismatið gerði ráð fyrir. Þessi gatnamót munu tefja verulega umferð inn og úr Breiðholti, sem liggur um Breiðholtsbraut. Hvernig hyggjast skipulagsyfirvöld bregðast við því? 6. Vatnsendahvarfið, sem þessi 3. áfangi Arnarnesvegar á að liggja um, er mun grónara en fyrir 18 árum og virði þess sem útivistarsvæðis meira. Þar vex fjölbreyttur gróður og ýmsar tegundir farfugla, svo sem lóur, hrossagaukar og spóar verpa þar á hverju ári. Hvernig hyggjast skipulagsyfirvöld standa vörð um náttúru- og dýralífið á meðan á framkvæmdum stendur og í kjölfar þeirra?
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, Mál nr. US200414
Lagt er til að skipulags- og samgönguráð samþykki að farið verði í heildarendurskoðun skipulags í Mjódd. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að vinna drög að nýju skipulagi sem taki mið af bættri nýtingu lóða á þessu mikilvæga miðsvæði á höfuðborgarsvæðinu. Í vinnu að bættu skipulagi gefst tækifæri til að vinna að heildarskipulagi og góðum samgöngum á svæðinu ásamt því að efla þennan þjónustukjarna og styrkja þannig Breiðholtið til mikilla muna. Verkefnið verði unnið í samráði við núverandi lóðarhafa og rekstraraðila á skipulagsvæðinu. Stefnt er að því að drög að nýju skipulagi verði lagt fyrir skipulags- og samgönguráð mars 2021.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hinn 23 júlí lagði Flokkur fólksins fram tillögur er lúta að Mjódd og voru þær felldar. Lagt var til að skipulagsyfirvöld leggi sitt að mörkum til að efla starfsemi í Mjódd og endurgerð bílastæða í Mjódd. Til ársloka 2018 var í gangi samningur milli Reykjavíkur og Svæðisfélags v/ göngugötu í Mjódd. Sá samningur var þá fallinn úr gildi og hefur ekki verið endurnýjaður. Ekki er vitað til þess hvort hann hafi verið endurnýjaður nú. Jafnframt var lagt til að horft yrði til þess að gera svæðið nútímalegra umhverfis Mjódd og að það verði fært í nútímalegra horf sem henta hagsmunum borgarbúa í dag. Aðgengi er erfitt og oft er á bílastæðinu eitt kraðak, bílar að komast inn og út og reyna að sæta lagi til að komast út á götuna. Öryggi er ábótavant. Lagt var einnig til að snyrta grænu svæðin í kringum Mjódd með það að leiðarljósi að laða að þeim fólk. Einnig að hlutast til um uppsetningu hjólastæða fyrir rafhjól og hefðbundin hjól, setja upp hleðslustöðvar fyrir bíla og koma því húsnæði sem er í eigu borgarinnar á svæðinu í notkun. Ekkert af þessum tillögum náðu eyrum skipulagsyfirvalda.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, Mál nr. US200415
Nú eru mál Laugavegur sem göngugata, nýtt deiliskipulag og nærliggjandi reitir lokið í borgarstjórn. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að spyrja hvort borgaryfirvöld hyggjast bæta þeim rekstraraðilum sem urðu fyrir rekstrarlegu áfalli í kjölfar lokunar bílaumferðar á svæðinu? Minnt er á að yfirvöld ætluðu að opna aftur götur fyrir umferð eftir sumarlokun en það loforð var svikið. Allt þetta mál hefur verið erfitt og greiddi fulltrúi Flokks fólksins atkvæði gegn því, ekki vegna þess að hann er á móti göngugötum sem slíkum heldur vegna þeirrar aðferðafræði sem skipulagsyfirvöld í borginni hefur notað við að keyra áfram deiliskipulagið þrátt fyrir mótmæli stórs hóps hagaðila og einnig margra borgarbúa. Skipulagsyfirvöldum hefði verið í lófa lagið að hafa samstarf við hagaðila varðandi hugmyndir um göngugötur, lokun umferðar og hvort, hvenær og með hvaða hætti þessar breytingar gætu orðið þannig að þær myndu ekki skaða rekstur verslana á svæðinu eins og raun bar vitni. Bjóða hefði átt hagaðilum að vera þátttakendum í ákvarðanatöku og ferlinu frá byrjun enda miklir hagsmunir í húfi. Það sem eftir situr er galtómur miðbær með tugi lausra rýma. Aðeins brot af lausum rýmum má rekja til COVID-19.
Fyrirspurninni er vísað frá.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Fyrirspurnum er ætla að afla svara við spurningum um hluti sem varða stjórnkerfið en ekki um áform kjörinna fulltrúa. Spurningum um meinta skaðabótaábyrgð er ekki hægt að svara í skriflegri fyrirspurn, auk þess sem reynsla annarra borga gefur til kynna að þær framkvæmdir sem átt hafa sér stað í miðbænum verði virðisaukandi fyrir svæðið í heild.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fyrirspurn Flokks fólksins um hvort skipulagsyfirvöld muni bæta þeim rekstraraðilum skaðann sem urðu fyrir tjóni vegna lokunar bílaumferðar á Laugavegssvæðinu hefur verið vísað frá. Rökin eru m.a. þau „að spurningum um meinta skaðabótaábyrgð er ekki hægt að svara í skriflegri fyrirspurn“. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að skipulagsyfirvöld hefðu verið maður að meiri að viðurkenna mistök í máli Laugavegs/göngugötur gagnvart rekstraraðilum. Hinn 27. október 2015 leituðu Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir málsmeðferð Reykjavíkurborgar við ákvörðun um svokallaðar „Sumargötur 2015“. Í áliti hans er kveðið á um að tryggja skuli samráð við almenning við gerð skipulagsáætlana og að tryggja eigi að skoðanir og sjónarmið þeirra komi fram þannig að þau liggi ljós fyrir áður en sveitarfélög samþykkja viðkomandi skipulagsáætlun. Áhersla er lögð á að auka aðkomu almennings að gerð skipulags og að samráðsaðilar komi að skipulagsferlinu eins snemma og unnt er. Með því er ætlunin að vanda gerð skipulags og tryggja að hagsmunaaðilar hafi tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri við sveitarfélögin þannig að þau geti tekið upplýsta ákvörðun um skipulagsáætlun.“ (Alþt. 2009-2010, 138. löggj.þ., þskj. 742.) “Álit Umboðsmanns Alþingis er áfellisdómur fyrir skipulagsyfirvöld borgarinnar.
-
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, Mál nr. US200421
Ítrekuð er fyrirspurn þar sem spurt var um verð á þeim 12 lóðum sem leggja á undir Malbikunarstöðina Höfða sem eru 12 talsins og nema samanlagðar um 5 hekturum. Eins er óskað eftir upplýsingum hvað Malbikunarstöðin Höfði greiðir í byggingaréttar- og innviðagjöld. Hvað greiðir malbikunarstöðin í gatnagerðargjöld af þessum lóðum?
Frestað.
Fundi slitið klukkan 11:50
Pawel Bartoszek Alexandra Briem
Hjálmar Sveinsson Hildur Björnsdóttir