Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 86

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2020, miðvikudaginn 21. október kl. 10:10, var haldinn 86. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð Ráðssal.

 

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Pawel Bartoszek, Alexandra Briem, Hjálmar Sveinsson, Ragna Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúarnir Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir og Daníel Örn Arnarsson.

 

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Þorsteinn Rúnar Hermannsson, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson og Gréta Mar Jósepsdóttir.

 

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

 

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

  1. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

    Lagðar fram fundargerðir embættisafgreiðslufunda skipulagsfulltrúa frá 9. og 16. október 2020.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun við fundargerð frá 9. október, lið 3.:

    Við styðjum nauðsynlega uppbyggingu Velferðarsviðs og Félagsbústaða við Hagasel. Meirihlutinn áréttar að stefnur um þéttingu byggðar og félagslega blöndun eigi við í öllum hverfum.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun við fundargerð frá 9. október, lið 3.:

    Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa sem haldinn var 4. febrúar sl. var samþykkt að Félagsbústaðir fengju að byggja fjölbýlishús á lóð Hagasels 23, á tveimur hæðum með átta íbúðum. Stærð hússins að báðum hæðum meðtöldum var áætlað rúmir 580 fermetrar. Í tvígang hafa þær framkvæmdir verið úrskurðaðar ólöglegar af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála eftir andmæli nágranna. Enn á ný reiðir Reykjavíkurborg til höggs til uppbyggingar á þessari lóð sem er útivistarsvæði nágranna lóðarinnar að Hagaseli 23 og nú með áætlanir um byggingu minna húss upp á 550 fermetra. Félagsbústaðir eiga það inni hjá Reykjavíkurborg að fundin verði önnur lóð undir starfsemina sem vera á í húsinu. Reykvíkingar sem búa í hverfinu hafa marg lýst því yfir að þessi lóð er mikið notuð af íbúum jafnt að sumri sem vetri. Það er með öllu óskiljanlegt að borgin leggi slíka áherslu á að útrýma þessu græna svæði sem er hjartað í hverfinu með 550 fermetra byggingu. Ég hvet borgaryfirvöld að falla frá uppbyggingaráformum á þessum stað. Það er borginni ekki sæmandi að vera í stríði við íbúa út um alla borg og þrengingarstefna meirihlutans á ekkert erindi inn í þetta rótgróna hverfi.

    Fylgigögn

  2. Rökkvatjörn 2, breyting á deiliskipulagi     (05.052.5)    Mál nr. SN200532
    671113-0390 Urðarsel ehf., Logafold 35, 112 Reykjavík
    500191-1049 Arkþing - Nordic ehf., Bolholti 8, 105 Reykjavík

    Lögð fram umsókn Helga Mars Hallgrímssonar dags. 31. ágúst 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar nr. 2 við Rökkvatjörn. Í breytingunni felst að í stað einnar byggingar koma 3 punkthús með allt að 52 íbúðum, samkvæmt uppdr. Arkþing/nordic ehf. 14.október 2020.

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Vísað til borgarráðs.

    Hrafnhildur Sverrisdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Sjómannaskólareitur, breyting á deiliskipulagi     (01.254)    Mál nr. SN200654

    Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, að breyting á deiliskipulagi Sjómannaskólareits til minnkunar á samþykktu byggingarmagni úr 5.635m2 í 4.500m2 á lóð (reit E) ) sem úthlutað hefur verið til Leigufélags aldraðra til byggingar almennra íbúða á grundvelli laga nr. 52/2016, samkvæmt uppdr. Umhverfis- og skipulagssviðs dags. 16. október 2020. Ástæða breytingarinnar er m.a. sú að við lok deiliskipulagsferlisins var þrengt töluvert að fyrirhugaðri uppbyggingu án þess að byggingarmagn væri uppfært í samræmi við það. Mest íþyngjandi atriði voru rýmri afmörkun á verndarsvæði Vatnshólsins, afmörkun sleðabrekku við Vatnshólinn austanmegin og umfangsmiklar kröfur Veitna um framkvæmd ofanvatnslausna á reitnum. 

    Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur nú skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Deiliskipulagstillagan felur í sér að byggingamagn á lóð sem úthlutað hefur verið til Leigufélags aldraða hefur verið minnkað og er það gert í samræmi við breytingar á deiliskipulagi Sjómannaskólareitsins í heild. Við styðjum uppbyggingu á reitnum.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lýst er yfir mikilli ánægju að Félag eldri borgara sé að byggja fleiri íbúðir, en áheyrnarfulltrúi Miðflokksins mótmælir uppbyggingu á þessum stað. Fjölmargar athugasemdir bárust þegar Sjómannaskólareitur var til umræðu í ráðum borgarinnar og mikillar óánægju gætti hjá umsagnaraðilum. Voru flest allar umsagnirnar á einn veg að skorað var á borgaryfirvöld að falla frá fyrirhuguðum byggingaráformum á Sjómannaskólareit. Talið er að fyrirliggjandi skipulagstillögur veiti Sjómannaskólanum ekki það umhverfislega andrými sem skólanum ber sem friðlýstri byggingu. Gríðarlegt byggingarmagn með tilheyrandi skuggavarpi mun ekki aðeins rýra verðgildi þeirra eigna sem fyrir eru heldur einnig rýra gildi stakkstæðisins í Saltfiskmóanum og Vatnshólsins sem útivistarsvæðis. Samkvæmt úttekt Reykjavíkur er gróðurþekja Háteigshverfis of lítil og með þessum framkvæmdum ef af verða er gengið enn frekar á hana. Fórna á mikilvægu grænu útivistarsvæði, byggja fyrir sjónlínur friðlýstrar byggingar og tefla einstökum menningarminjum í hættu. Nú hefur Reykjavíkurborg viðurkennt mistök og ætlar að minnka byggingamagnið um 1.100 fermetra eða úr 5.600 fermetrum í 4.500.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins áttar sig ekki alveg á hvar þetta mál er statt í hugum íbúa og þeirra sem vilja standa vörð um þetta fallega svæði í borgarlandinu. Sú breyting sem hér er gerð hljómar kannski vel en eru íbúar í nágrenninu sáttir? Fulltrúi Flokks fólksins vill fá álit íbúa/borgarbúa á henni. Margar kærur bárust og bakkað var með ákveðna þætti en aðra ekki. Talað erum um ívilnandi ákvarðanir að minnka byggingarmagnið og er það vissulega gott. Málið er enn óljóst í huga fulltrúa Flokks fólksins. Eitt er vitað fyrir víst að þessi reitur hefur tilfinningagildi fyrir fjölmarga enda einn fallegasti reitur borgarinnar. Er búið að leysa úr öðrum málum, mögulegs skuggavarps sem deiliskipulagið mun leiða af sér og útsýnisskerðingar yfir Háteigsveg, Hallgrímskirkju? Það er ósk Flokks fólksins að málinu verði frestað þar til að búið er að kynna þessar breytingar fyrir íbúum í nágrenninu og öðrum sem vilja láta sig málið varða.

    (B) Byggingarmál

    Fylgigögn

  4. Hverfisgata 19 (Þjóðleikhúsið), óleyfisframkvæmd         Mál nr. US200379

    Lagt fram bréf byggingarfulltrúa til Ríkiseigna ehf., dags. 24. september 2020, ásamt yfirliti breytinga. Einnig er lögð fram umsögn Minjastofnunar, dags. 30. september 2020.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að afla leyfa fyrir framkvæmdum. Hér er um að ræða breytingar á friðuðu Þjóðleikhúsinu sem nýtur auk þess sérstakar verndar í lögum. Þá er þetta öryggismál þar sem fjöldi fólks kemur saman og verið er að breyta húsnæði og eldvarnarhólfum án leyfa fyrirfram. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þann 23. september framkvæmdi eftirlitsnefnd byggingafulltrúans í Reykjavík húsaskoðun á Þjóðleikhúsinu eftir harðort álit eldvarnareftirlitsins því búið var að gera gat á milli eldvarnarhólfa sem skapaði mikla hættu. Byggingafulltrúi sendi bréf til Ríkiseigna ehf. þess efnis að í ljós hafi komið að unnið væri að breytingum í húsinu og að ekki hafi verið sótt um byggingarleyfi fyrir þessum breytingum. Villur voru jafnframt í teikningum og voru aðilar að hanna breytingarnar sem ekki höfðu til þess leyfi. Að auki kom í ljós að ekki hafði farið fram öryggis- og lokaúttekt á byggingarleyfum og á þeim grunni væri óheimilt að hafa starfsemi í húsinu. Var eiganda gert að leggja inn nýjar og uppfærðar teikningar og sækja um lokaúttekt strax eftir umsókn hafi verið samþykkt. Að öðrum kosti yrði dagsektum beitt og Þjóðleikhússins lokað yrði ekki orðið við þessum fyrirmælum innan gefins tímafrests. Byggingafulltrúinn í Reykjavík samþykkti óleyfisframkvæmdirnar eftir á með þessum orðum: „Það athugist að um er að ræða samþykkt á áður gerði framkvæmd sem gerð var án byggingaleyfis. Óvissa kann því að vera um uppbygginu og útfærslu framkvæmdar. Hvorki er skráð verktrygging á verkið né ábyrgðaraðilar.“ Öll leyfi voru fengin eftir á og líka álit Minjastofnunar, öllum var stillt upp við vegg.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ekki er betur séð en að vel virðist hafa verið staðið að breytingum á Þjóðleikhúsinu. Verkið var unnið í samráði við Minjastofnun og reynt er að fylgja þeim tíðaranda sem var þegar húsið var byggt. Tími sem gafst þegar hlé var á sýningarhald vegna COVID var nýtt til þessara endurbóta. Breytingar eru afturkræfar. En það láðist að fá leyfi hjá byggingarfulltrúa. Miðað við aðstæður er hægt að fyrirgefa það. Það geta vissulega allir gert mistök sem slík og þar sem allar breytingar eru afturkræfar og Minjastofnun er sátt sér fulltrúi Flokks fólksins ekki ástæðu til að dvelja við þetta mál. Vissulega þurfa öll öryggismál s.s. brunamál að vera í lagi. 

    (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  5. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 19. júní 2020 ásamt kæru dags. 18. júní 2020 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja umsókn kærenda um að fá samþykktar tvær ósamþykktar íbúðir í kjallara fasteignarinnar að Hæðargarði 56. Einnig er lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 16. október 2020 vegna afturköllunar á kæru.

  6. Kjalarnes, Esjumelar, kæra 96/2020     (34.2)    Mál nr. SN200634
    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 9. október 2020 áamt kæru dags. 9. október 2020 þar sem kærð er ákvörðun borgarráðs frá 2. júlí 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi, sem öðlaðist gildi 11. september 2020.

    -    Pawel Bartoszek víkur af fundi undir þessum lið.

  7. Urðarbrunnur 16, kæra 100/2020     (05.056.2)    Mál nr. SN200653
    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 15. október 2020 ásamt kæru dags. 13. október 2020 þar sem kærð er neikvæð afgreiðsla skipulagsfulltrúa frá 28. ágúst 2020 um byggingu tvíbýlishúss á tveimur hæðum á lóð nr. 16 við Urðarbrunn.

  8. Gissurargata 4, kæra 101/2020     (05.113.8)    Mál nr. SN200655
    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 16. október 2020 ásamt kæru dags. 15. október 2020 þar sem kærðar eru framkvæmdir við byggingu húss að Gissurargötu 4 sem byggingarfulltrúi hefur samþykkt og varðar m.a. þakglugga, skorsteina o.fl.

  9. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, til strætó bs., umsögn - USK2020080100         Mál nr. US200259

    Lögð fram umsögn Strætó bs., dags. 13. október 2020.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Af hverju er ekki talið /metið hversu margir einstaklingar nota þjónustu Strætó bs. á hverjum degi. Hvers vegna er þessi leikur með innstig. Sami einstaklingurinn getur stigið inn í vagna 6-8 sinnum á dag ef langt er á milli heimilis og starfsstöðvar. Því er um blekkingar að ræða. Hvað sem því líður hefur notkun á Strætó hrunið og keyra vagnarnir nánast tómir um götunar daginn út og inn með tilheyrandi mengun. Borgarfulltrúi Miðflokksins er hlynntur almenningssamgöngum, en þær verða að vera raunhæfar. Einnig er ljóst að Strætó bs. er kominn í verulegar fjárhagslegar kröggur. Tekjurnar hafa hrunið og er ljóst að hátt í einn milljarð vantar inn í reksturinn 2020. Minnt er á að 2012 gerði fyrirtækið samning við ríkið að hið síðarnefnda legði til um milljarð á ári í 10 ár til að auka almenningssamgöngur og er því um algjöran forsendubrest að ræða. Ekkert af því hefur staðist. Það er ljóst að endurskoða þarf rekstur Strætó alveg upp á nýtt og allt tal um borgarlínu er fjarstæðukennt. Reykvíkingar kjósa að nota aðra samgöngumáta svo sem að ganga, hjóla og nota fjölskyldubílinn.

    Fylgigögn

  10. Dunhagi, Hjarðarhagi og Tómasarhagi, deiliskipulag         Mál nr. SN200207

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 15. október 2020 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að deiliskipulagi fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46.

    Fylgigögn

  11. Tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um greiningarvinnu vegna aukningar á skrifstofuhúsnæði í miðborg - R20090083         Mál nr. SN200587
    530269-7609 Reykjavíkurborg, Ráðhúsinu, 101 Reykjavík

    Lagt fram erindi skrifstofu borgarstjórnar dags. 18. september 2020 þar sem tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um greiningarvinnu vegna aukningar á skrifstofuhúsnæði í miðborg er send umhverfis- og skipulagssviði til umsagnar. Óskað er að umsögn berist innan 3 vikna. 

    Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, deildarstjóra aðalskipulags.

    Fylgigögn

  12. Áheyrnarfulltrúi Sósíalista flokksins leggur fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200372

    Lagt er til að Reykjavíkurborg komi upp sýnilegum hleðslustöðvum fyrir rafhjól. Margir nýta sér nú rafhjól til þess að komast leiða sinna og eru ekki með batterí í hjólinu sem dugar fyrir öllum ferðum dagsins. Það er því mikilvægt að tryggja aðgengi að hleðslustöðvum fyrir þau sem kjósa sér þennan samgöngumáta. Æskilegt væri að slíkt væri í nálægð við samgöngumiðstöðvar og verslunarkjarna og þar sem hægt er að bíða á meðan að batteríið á hjólinu er að hlaðast, fólki að kostnaðarlausu. 

    Vísað til meðferðar stýrihóps um Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025.

  13. Áheyrnarfulltrúi Sósíalista flokksins leggur fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200373

    Skipulags- og samgönguráð samþykkir að beina því til stjórnar Strætó bs. að samþykkja að akstur á sunnudögum hefjist á sama tíma og á laugardögum. Flestir vagnarnir á laugardögum byrja að aka um átta að morgni til. Á sunnudögum hefst akstur ekki fyrr en um klukkan tíu. Áður fyrr hófst akstur strætó síðar á sunnudögum en mikilvægt er að hann byrji enn fyrr á morgnanna þar sem fólk þarf að koma sér til og frá vinnu, líka á sunnudagsmorgnum. 

    Vísað til umsagnar Strætó bs.

  14. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200374

    Árið 2018 var ákveðið að innleiða LEAN. Flokkur fólksins óskar að fá upplýsingar um hvar innleiðing LEAN aðferðarfræðinnar er stödd hjá sviðinu (USK), hvað hún hefur kostað nú þegar og hver verður endanlegur kostnaður hennar? Óskað er eftir sundurliðun á aðferðarfræðinni innan sviðsins eftir verkefnum. Einnig er spurt: Hefur LEAN verið innleitt formlega hjá borginni í heild? Ástæða fyrirspurnanna. Flokkur fólksins hefur áður spurt um LEAN og kom þá fram í svari að LEAN hafi ekki verið innleitt formlega hjá borginni í heild og engar ákvarðanir teknar um það. LEAN var um tíma mikið tískudæmi en fljótlega kom í ljós að aðferðarfræðin hentar ekki öllum starfsstöðvum auk þess sem hún er mjög dýr. Svo virtist a.m.k. um tíma sem borgin ætlaði að gleypa LEAN hrátt og því var og er enn ástæða til að spyrjast nú fyrir um stöðu málsins. 

    Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs.

  15. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200375

    1. Er búið að ljósleiðaravæða Esjumela? 2. Ef svo er hver bar kostnaðinn af hverri tengingu inn á hverja lóð? 3. Ef búið er að ljósleiðaravæða Esjumela, hvað kostaði tengingin tæmandi talið? 4. Er búið að tengja ljósleiðara í fangelsið á Hólmsheiði? 5. Ef svo er hver greiddi fyrir ljósleiðarann og hvað kostaði tengingin tæmandi talið? 6. Var farið í útboð vegna beggja verka ef búið er að ljósleiðaravæða svæðin? 7. Hvaða verktaki sá um lagningu ljósleiðarana? 8. Hvenær voru ljósleiðarar lagðir til fyrirtækjanna/inn á svæðið?

    Vísað til umsagnar Orkuveitu Reykjavíkur.

  16. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200376

    Í dag er hægt að fá metan afgreitt á fjórum stöðum á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Dælur eru alls 10. Í áætlun er að byggja upp innviði til hleðslu rafbíla. Fjölga á stöðum um 20 á næsta ári. Stendur til að fjölga metanafgreiðslustöðum næsta ár og ef svo er hvað mörgum?

    Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, Skrifstofu umhverfisgæða.

  17. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200377

    Tillaga um að embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa heyri undir Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að breytingar verði gerðar á skipuriti Umhverfis- og skipulagssviðs þannig að embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa heyri undir Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. Breytingin mun leiða til betra skipulags og hagræðingar. Eins og fyrirkomulagið er í dag eru þessar þrjár skrifstofur allar samhliða í skipuriti. Ljóst er að Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar er mikilvægasta skrifstofan og undir hana ættu embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa að heyra. Sumir embættistitlar eru lögbundnir en aðrir tilbúnir af borginni. Hægt er að hagræða og spara með því að fækka yfirmönnum og þar með einfalda kerfið, minnka flækjustig. Líklegt er að með þessari breytingu verði þjónusta við borgarbúa skilvirkari. Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar hefur undir höndum samgönguskipulag, framfylgir stefnumörkun, borgarhönnun, samgöngum og breytingum á samgöngumannvirkjum með öllu tilheyrandi.

    Tillagan er felld.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að breytingar verði gerðar á skipuriti Umhverfis- og skipulagssviðs í hagræðingarskyni. Tillagan hefur verið felld. Skoða mætti að mati fulltrúa Flokks fólksins að setja embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa undir Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. Ekki er verið að tala um að leggja embættin niður enda lögbundin. Breytingin mun leiða til betra skipulags og hagræðingar. Með einfaldara skipulagi minnkar flækjustig og þjónusta verður betri. Nauðsynlegt er að einfalda kerfið sem mest ekki bara á þessu sviði heldur fleirum. Báknið í borginni hefur þanist út síðustu 20 ár. Nýlega kom svar um hvað margir stjórnendur eru í borgarkerfinu. Skrifstofustjórar eru sem dæmi 35 talsins.

  18. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200382

    Óskað er eftir að fá kynningu/glærur ásamt fylgigögnum tæmandi talið sem lágu til grundvallar kynningar á opnum fundi í Fólkvangi á Kjalarnesi þann 4. febrúar 2016 vegna tillögu um nýtt deiliskipulag fyrir athafnasvæði Esjumela. Jafnframt er óskað eftir fundargerð fundarins. Um var að ræða stækkun á því svæði sem liggur við Vesturlandsveg og gerði tillagan ráð fyrir fjölbreyttu framboði athafnalóða þar sem fyrst og fremst ætti að vera léttur iðnaður og önnur starfsemi sem ekki hefði teljandi mengunarhættu í för með sér, s.s. verkstæði, gagnaver og vörugeymslur samkvæmt aðalskipulagi 2010-2030.

    Frestað.

  19. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200385

    Tillaga Flokks fólksins um að hætt verði að birta upplýsingar (bæði nöfn og kennitölur) þeirra sem senda inn athugasemdir, kvartanir eða kærur í dagskrá umhverfis- og skipulagsráðs eða fundargerðir. Fólk sem sendir inn kvörtun/kærur á rétt á því að nöfn þeirra verði trúnaður. Nægjanlegt er að sviðið hafi þessar upplýsingar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi birting hvorki þörf né sanngjörn enda ekki víst að birtingin sé með vitund þessara einstaklinga. Fulltrúi fólksins sendi fyrirspurn um málið til Persónuverndar sem hljóðaði svona: Er leyfilegt að birta nöfn þeirra sem kvarta eða senda inn ábendingar í dagskrá skipulags- og samgönguráðs (birta þær opinberlega)? Eftirfarandi svar barst: Persónuvernd bendir á að þann 25. september sl. úrskurðaði Persónuvernd í máli er varðaði birtingu persónuupplýsinga í tengslum við deiliskipulagstillögu. Þar var talið að heimilt hefði verið að birta nafn en ekki kennitölu vegna athugasemda við deiliskipulagstillögu. Lagt var fyrir Reykjavíkurborg að afmá kennitölu kvartanda úr athugasemd hans við deiliskipulagstillögu sem birt er á vefsíðu borgarinnar. Þá var lagt fyrir Reykjavíkurborg að veita framvegis fræðslu í samræmi við 13. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018, vegna fyrirhugaðrar birtingar athugasemda við skipulagstillögur. 

    Frestað.

Fundi slitið klukkan 11:43

Pawel Bartoszek Alexandra Briem

Hjálmar Sveinsson Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
sks_2110_2.pdf