Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 84

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2020, miðvikudaginn 14. október kl. 10:05, var haldinn 84. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð Ráðssal.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Sigurborg Ósk Haraldsdóttir Pawel Bartoszek, Aron Leví Beck, Ragna Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúarnir Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir og Daníel Örn Arnarsson.

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Þorsteinn Rúnar Hermannsson og Gréta Mar Jósepsdóttir.

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

  1. Arnarnesvegur, undirbúningur, kynning         Mál nr. US200363

    Kynnt staða undirbúnings Arnarnesvegar.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Tryggja þarf góðar tengingar fyrir gangandi og hjólandi milli sveitarfélaga, yfir áætlaðan Arnarnesveg. Samfelldur stígur þyrfti að liggja norðan og sunnan við veginn alla leið. Eins þyrfti viðbótarþverun á miðri leið, t.d. undirgöng sem fólk og dýr gætu nýtt.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áheyrnarfulltrúi sósíalista harmar og leggst algjörlega gegn því að fyrirhugaður Arnarnesvegur eigi að ganga inn í Elliðaárdalinn.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa skipulagsvaldið og geta farið fram á aðra útfærslu með lagningu 3. áfanga Arnarnesvegar. Flokkur fólksins og Vinir Vatnsendahvarfs hafa bent á að tengja má veg frá Arnarnesvegi-Rjúpnavegi í Kópavogi yfir í Tónahvarf. Hægt væri að leggja afrein frá Breiðholtsbraut inn í Víkurhvarf-Urðarhvarf í Kópavogi. Einnig stækka hringtorgin á þessum leiðum og að gera stórt og greiðfært hringtorg á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Vatnsendahvarfs. Vegurinn yrði þá að mestu innan bæjarmarka Kópavogs. Fulltrúi Flokks fólksins vill varðandi fyrirhugaða eyðileggingu Vatnsendahvarfs með hraðbraut höfða til betri vitundar og minna formann skipulagsráð á stefnu Pírata í umhverfismálum. Það er ekki langt síðan birtar voru yfirlýsingar Pírata sem hljóðuðu svona: „Við erum með bestu loftslagsstefnuna. Við höfum lagt fram öflugan Grænan sáttmála. Við höfum unnið mikla vinnu í átt að sjálfbærni í Reykjavíkurborg." Hvernig samræmist fyrirhuguð lagningu Arnarnesvegar gegnum Vatnsendahvarfið, sem leiða mun til stórfelldrar eyðileggingar á náttúru, hugmyndafræði Pírata og formanns skipulags- og samgönguráðs? Hvernig samræmist það grænum sjónarmiðum að ætla að leggja hraðbraut nánast ofan í fyrirhugaðan Vetrargarð og spengja fyrir hraðbraut þvert yfir grænt svæði með fjölbreyttri náttúru?

    (A) Skipulagsmál

  2. Vetrargarður í Breiðholti, kynning         Mál nr. SN200632

    Kynnt frumtillaga Landmótunar dags. í október 2020 að skipulagi og útfærslu vertrargarðs í Seljahverfi. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hugmynd um Vetrargarð er í uppnámi vegna fyrirhugaðrar lagningar hraðbrautar þvert yfir Vatnsendahvarf. Byggt er á úreltu umhverfismati. Er það siðferðislega verjandi fyrir svona "græna" borgarstjórn að fara ekki fram á nýtt umhverfismat, sérstaklega í ljósi þessara nýju áætlana með Vetrargarðinn? Það eru engin rök að segja að ekki sé „venja“ að fá nýtt umhverfismat þegar verk er hafið. Fulltrúa Flokks fólksins finnst skipulagsyfirvöld varpa allri ábyrgð ýmist á Vegagerðina, bæjarstjórn Kópavogs eða samgöngusáttmála. Allar forsendur hafa breyst. Þarna á að fórna dýrmætu grænu svæði, sem er varplendi ýmissa farfuglategunda fyrir úreltar áætlanir og allar áhyggjur íbúa hafa hingað til verið hunsaðar. Íbúar í Fellahverfinu hafa t.d. miklar áhyggjur af því að fá mislæg gatnamót ofan í garðana hjá sér og að þessar aðgerðir muni koma til með að lækka húsnæðisverð á svæðinu. Komi þessu vegur þar sem honum er ætlað mun það verða stórfellt umhverfisslys sem mun auka umferð og mengun í nálægð við íbúðahverfi og eyðileggja dýrmætt grænt svæði. Fulltrúi Flokks fólksins fer fram á að fá í hendur öll gögn um þetta mál, nýjustu uppdrætti svo sem varðandi tengingar við Breiðholtsbraut, nábýli við Vetrargarð, breidd geilarinnar sem sprengt er fyrir (40-50 m?), afvötnun upp af Jóruseli og göngu/reiðhjólabrú.

    Ævar Harðarson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  3. Línbergsreitur, Grandagarði, breyting á deiliskipulagi         Mál nr. SN190526

    430715-0970 Línberg ehf., Tjarnargötu 28, 101 Reykjavík

    420299-2069 ASK Arkitektar ehf., Geirsgötu 9, 101 Reykjavík

    Lögð fram að nýju umsókn ASK Arkitekta ehf., dags. 5. september 2019, varðandi breytingu á deiliskipulagi Örfiriseyjar - Vesturhafnar vegna lóðanna nr. 16-32 við Fiskislóð og nr. 39-93 við Grandagarð. Í breytingunni felst að skipta svæðinu upp í fimm lóðir, niðurrifi eldri bygginga og byggingu nýrra og hærri húsa eða 2-4 hæðir ásamt byggingu bílastæðahúss fyrir um 300 bíla, samkvæmt uppdráttum ASK Arkitekta ehf. dags. 18. ágúst 2018. Einnig er lögð fram húsakönnun fyrir Örfirisey og Granda dags. 2009, minnisblað teiknistofunnar Stiku dags. 28. maí 2019, minnisblað Eflu dags. 20. júní 2019, tvær skýringamyndir teiknistofunnar Stiku ódags., og kynningarhefti ASK Arkitekta ehf. dags. 5. september 2019. Jafnframt er lögð fram drög að viljayfirlýsingu dags. í júní 2019, umsögn Faxaflóahafna sf. dags. 17. september 2019, bréf Faxaflóahafna sf. dags. 20. september 2019 og minnisblað Faxaflóahafna fs. dags. 25. maí 2020. Tillagan var auglýst frá 17. júlí 2020 til og með 31. ágúst 2020. Eftirfarandi sendu inn athugasemdir/umsögn: Veitur dags. 31. ágúst 2020. Einnig lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 2. október 2020.

    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 2. október 2020.

    Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Enn eru engar íbúðir leyfðar í Örfirisey, þrátt fyrir að kjöraðstæður séu til staðar hvað varðar verslun og þjónustu sem væri þá í göngufæri fyrir íbúa. Betra jafnvægi í umferð næst með því að fjölga atvinnutækifærum í austurhluta borgarinnar og íbúðum í vestri. Hér er verið að fara í aðra átt. Þá er mikilvægt að framfylgja þeirri stefnumörkun borgarráðs að minnka umfang olíubirgðastöðvarinnar um helming fyrir 2025.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þeirri uppbyggingu sem hér er kynnt er fagnað en borgarfulltrúi Miðflokksins lýsir yfir miklum áhyggjum af því andvaraleysi sem virðist ríkja gagnvar olíutönkunum í Örfirisey. Þeir eru tifandi tímasprengja. Sífellt er verið að færa byggðina nær tönkunum/hættusvæðinu og öllum má vera ljóst hvað gerist ef eldur verður laus og/eða eitthvert óhapp verður sem leiðir til þess að tankarnir springa í loft upp. Í leiðinni er rétt að geta þess að sömu áhyggjum er lýst yfir vegna gríðarlegra olíuflutninga frá svæðinu á þröngum götum Reykjavíkur og þá sérstaklega í gegnum þrönga Geirsgötu og sífellt er verið að þrengja götur og aðgengi bíla í gegnum miðbæinn. Það er látið eins og þessi hætta sé ekki til staðar og hún er aldrei rædd. Það er gríðarlegt ábyrgðarleysi en varpar ljósi á að rýmingaráætlun fyrir Reykjavík vestan Elliðaáa er í algjöru skötulíki.

    Hildur Gunnarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Spöngin eining G, Spöngin 3-5/Móavegur 2 og 4, breyting á deiliskipulagi     (02.376)    Mál nr. SN200375

    560997-3109 Yrki arkitektar ehf, Mýrargötu 26, 101 Reykjavík

    Lögð fram umsókn Yrki arkitekta ehf. dags. 11. júní 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Spangarinnar einingu G vegna lóðanna nr. 3-5 við Spöngina og 2 og 4 við Móaveg. Í breytingunni felst að heimilt verði að girða fyrir sérafnotafleti íbúða á jarðhæð á alla vegu, samkvæmt tillögu Yrki arkitekta ehf. ódags. 

    Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur nú skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Lilja Grétarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  5. Kjalarnes, Nesvík, deiliskipulag         Mál nr. SN190734

    660504-2060 Plúsarkitektar ehf, Fiskislóð 31, 101 Reykjavík

    511202-3450 Íslenskar fasteignir ehf., Laugavegi 182, 105 Reykjavík

    Lögð fram að nýju tillaga +Arkitekta að deiliskipulagi fyrir Nesvík á Kjalarnesi, sem felst í uppbyggingu á ferðaþjónustu á jörðinni. Áformin eru að reisa hótel og heilsulind með allt að 100 herbergjum auk 12 stakstæðra húsa sem verða leigð út sem gistirými og þjónustuð af hótelinu. Hönnun og frágangur miðar að því að halda í staðaranda Nesvíkur og falla sem best að landi, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdr. +Arkitekta ehf. dags. 26. mars 2020 br. 8. október 2020. Einnig er lögð fram fornleifaskráning Fornleifastofnunar Íslands dags. 2019 og Húsakönnun Fornleifastofnunar Íslands dags. 2020. Tillagan var auglýst frá 27. maí 2020 til og með 8. júlí 2020. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Libra lögmenn, Ólafur Hvanndal Ólafsson, f.h. Bjarna Pálssonar dags. 7. júlí 2020. Einnig er lögð fram umsögn íbúaráðs Kjalarness dags. 19. júní 2020 og umsögn Minjastofnunar Íslands dags. 16. júlí 2020. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 8. október 2020.

    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 8. október 2020.

    Vísað til borgarráðs.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Nú á að afgreiða tillögu að deiliskipulagi fyrir Nesvík á Kjalarnesi, sem felst í uppbyggingu á ferðaþjónustu á jörðinni. Fram hafa komið athugasemdir og kvartanir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bókað um þetta mál þar sem lögð er áhersla á að vinna með íbúum. Það var ekki gert á fyrstu stigum. Segja má að komið hafi verið aftan að íbúunum. Þau rök sem skipulagsyfirvöld setja fram “að aðalskipulagið gerði ráð fyrir byggingum” halda ekki. Ekkert aðalskipulag er heilagt og stundum koma upp aðstæður sem krefjast breytinga. Það sættir sig enginn við að fá aðeins tilkynningu um hvað skuli gert á svæði eða reit. Með samtali þar sem íbúar eru þátttakendur frá byrjun hefði mátt draga úr að óánægja skapist síðar. Enn og aftur hafa skipulagsyfirvöld gengið of langt í yfirgangi. Hvað þetta svæði varðar vill fulltrúi Flokks fólksins benda á að þarna er verið að nema nýtt land og spyrja á hvort það sé vilji íbúa og annarra hagsmunaaðila hvort það sé vilji til að fórna þessu svæði undir hótel. Svona svæði eru takmörkuð auðlind. Sjávarlóðir sem snúa móti suðvestri eru ekki óendanlegar. Á öllum slíkum svæðum hefur einhvern tíma verið byggð og iðulega má þar rekja mannvistarþróun.

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Hraunbær 143, breyting á deiliskipulagi     (04.341.1)    Mál nr. SN200611

    590907-1030 GRÍMA ARKITEKTAR ehf., Hlíðarási 4, 221 Hafnarfjörður

    581281-0139 Húsvirki hf., Síðumúla 30, 108 Reykjavík

    Lögð fram umsókn Grímu arkitekta ehf. dags. 2. október 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Hraunbæjar-Bæjarháls vegna lóðar nr. 143 við Hraunbæ. Í breytingunni felst að kvöð um stíg í gegnum byggingarreit B3 verði felld niður, samkvæmt uppdr. Grímu arkitekta ehf. dags. 30. september 2020.

    Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur nú skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Guðlaug Jónsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    (B) Byggingarmál

    Fylgigögn

  7. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

    Fylgiskjal með fundargerð þessari er fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1086 frá 6. október 2020.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er algjört reginhneyksli að búið er að gera breytingar á 1. hæð Þjóðleikhússins í óleyfisframkvæmd. Húsið er friðað frá árinu 2004. Þetta kallast nútíma hroki fyrir sögu og gildi hússins. Að sækja um leyfi fyrir framkvæmd á breytingum á innra skipulag Þjóðleikhússins sem þegar er yfirstaðin er lögbrot. Þann 6. október hélt byggingarfulltrúinn í Reykjavík fund sinn til afgreiðslu mála án staðfestingar skipulags og samgönguráðs og lögbrotin voru samþykkt. Í fundargögnum frá byggingafulltrúa kemur fram: „að um er að ræða samþykkt á áður gerðri framkvæmd sem gerð var án byggingarleyfis. Óvissa kann því að vera um uppbyggingu og útfærslu framkvæmdar. Hvorki er skráð verktrygging á verkið né ábyrgðaraðilar.“ Nú er því borið við að ekki er hægt að bregðast við að hálfu borgarinnar því breytingarnar eru yfirstaðnar. Þegar einstaklingar fara í óleyfisframkvæmd er þeim gert að rífa allt niður. Í öðru erindi er sótt um leyfi til að breyta innra skipulagi á 1. hæð Þjóðleikhússins, m.a. koma fyrir handriðum í inngangströppum úti og inni, innrétta fatahengi í fyrrum miðasölu og innrétta bari og setsvæði í hliðarsölum Þjóðleikhússins. Ekkert er gert með að vernda upprunalegt útlit hússins og gæta að höfundarrétti Guðjóns Samúelssonar. Núverandi stjórnendur Þjóðleikhússins eiga ekki húsið – heldur þjóðin.

    (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  8. Ártúnshöfði, austurhluti, kæra 94/2020     (04.071)    Mál nr. SN200623

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 7. október 2020 ásamt kæru dags. 6. október 2020, þar sem kærð er ákvörðun borgarráðs frá 25. júní 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða eystri, afmörkun nýrrar lóðar fyrir allt að þrjú smáhýsi.

  9. Ásvallagata 21, kæra 88/2020         Mál nr. SN200613

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 1. október 2020 ásamt kæru dags. 28. september 2020 þar sem kærð er samþykkt byggingarfulltrúa frá 14. júlí 2020 sem felst í því að gaflar eru klæddir á húsi á lóð nr. 21 við Ásvallagötu ásamt stækkun svala.

    Fylgigögn

  10. Skólavörðustígur 31, kæra nr. 91/2020, umsögn     (01.182.2)    Mál nr. SN200615

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 5. október 2020 ásamt kæru dags. 4. október 2020 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja byggingarleyfisumsókn um viðbyggingu á eldri hluta í húsi á lóð nr. 31 við Skólavörðustíg. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 8. október 2020.

  11. Skólavörðustígur 31, kæra nr. 90/2020, umsögn     (01.182.2)    Mál nr. SN200614

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 5. október 2020 ásamt kæru dags. 5. október 2020 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja byggingarleyfisumsókn um viðbyggingu ásamt að gera inndregnar svalir á eldri hluta í húsi á lóð nr. 31 við Skólavörðustíg. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 8. október 2020.

  12. Íbúaráð Miðborgar og Hlíða, vaxandi umferð við grunnskóla í hverfum 101 og 105 - USK2020100014         Mál nr. US200357

    Lagt fram erindi íbúaráðs Miðborgar og Hlíða er varðar vaxandi umferð við grunnskóla í hverfum 101 og 105, dags. 22 sept. 2020. Lagt er til að farið verði í aðgerðir til að minnka umferð ökutækja við barnaskóla í hverfunum.

    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunnar. 

    Skipulags- og samgönguráð ásamt áheyrnarfulltrúum leggja fram svohljóðandi bókun:

    Skipulags- og samgönguráð tekur undir áhyggjur íbúaráðs Miðborgar og Hlíða. Umhverfis- og skipulagssviði er falið að fara í samstarf við skóla- og frístundasvið og íbúaráð Miðborgar og Hlíða um að minnka umferð við skóla í hverfinu.

    Fylgigögn

  13. Erindi Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur, reglur Bílastæðasjóðs - USK2020100016         Mál nr. US200358

    Lagt fram erindi Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur, dags. 1. október 2020, varðandi reglur Bílastæðasjóðs um úthlutun íbúakorta. 

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunnar. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér birtist forneskjuhugsun meirihlutans gagnvart fjölskyldubílnum, deilibílum, bílaleigubílum og aðgengi fatlaðra. Allt í sambandi við þá ákvörðun að gera hluta Laugavegarins og hluta miðbæjarins að göngugötum er algjörlega vanhugsuð og óskiljanleg ráðstöfun. Tekið er undir með stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur að nauðsynlegt er skoða svæðaskiptingu íbúakortanna og að gera reglur Bílastæðasjóðs nútímalegri og sveigjanlegri.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir með stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur en ábendingar hafa borist vegna stífra reglna Bílastæðasjóðs um úthlutun íbúakorta. Kvartað er yfir því að ekki sé hægt að fá íbúakort nema eiga bifreið og þeir sem eru með bílaleigubíla á langtímaleigu eða um stundarsakir t.d. vegna sérstakra aðstæðna eða viðgerða á eigin bifreið fái neitun við slíkum erindum. Nú reynir á að sýna lipurð og leysa mál af þessu tagi. Bærinn er gjörbreyttur og gera þarf nauðsynlegar aðlaganir. Það er bráðnauðsynlegt að gera reglur Bílastæðasjóðs nútímalegri og sveigjanlegri og horfa á þær út frá sjónarhorni þjónustuþegans og þörfum hans fyrst og fremst.

    Fylgigögn

  14. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, vegna fyrirhugaðrar legu Borgarlínu í gegnum Breiðhöfða, umsögn         Mál nr. US200183

    Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu skipulagsfulltrúa, dags. 12. október 2020.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Áætlað er að borgarlína eigi að liggja í gegnum Breiðhöfða í Reykjavík þar sem fyrir eru fjöldamörg fyrirtæki og þá einkum bílasölur. Ekki liggur enn fyrir deiliskipulag og óvissan því enn mikil sérstaklega vegna þess að ekki er um eitt heildar deiliskipulag er að ræða. Heildarmyndin er aldrei sýnd í skipulagsmálum Reykjavíkur heldur byggir skipulagið á salamiaðferðinni. Ein og ein sneið í einu til að villa um fyrir borgarbúum. Það er gagnrýnisvert að eingöngu er í gildi gilt deiliskipulag á Esjumelum fyrir atvinnusvæði. Esjumelar eru í mikilli fjarlægð við Reykjavík og í engu hefur verið sinnt að deiliskipuleggja atvinnulóðir á Úlfarsfellssvæðinu, þess hluta sem nefnist Hallar og Hamrahlíðarlönd eins og samþykkt var í aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024. Sú atvinnustarfsemi sem nú er á Breiðhöfðanum hefði passað mjög vel á þeim atvinnulóðum og væri meira miðsvæðis en á Esjumelum. Það rekur enginn bílasölu þar. Því er ljóst að verið er að flæma fyrirtækin í önnur sveitarfélög sem er ekki nýtt í sögu þeirra vinstri meirihluta sem hafa verið við völd. Ekki verður dregið úr bílanotkun Reykvíkinga með því að úthýsa bílasölum úr borginni ef það er stefnan.

    Fylgigögn

  15. Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um framkvæmdir við Háuhlíð - USK2020100019         Mál nr. US200359

    Lögð er fram fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem barst borgarráði 1. október 2020 og var vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

    Miklar framkvæmdir eru við Háuhlíð þar sem mikill trjágróður hefur verið tekinn. Þessar framkvæmdir hafa farið fram án þess að íbúar hafi verið upplýstir um framkvæmdirnar eða haft samráð við þá um breytingar á svæðinu. Hvaða framkvæmdir eiga sér stað þarna og hver er tilgangurinn með þeim? Lögð er áhersla á að haft sé samráð við íbúa og þeir upplýstir um breytingar og framkvæmdir í nágrenni við þá.

    Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

    Fylgigögn

  16. Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um áætluð lok framkvæmda við Suðurgötu - USK2020100020         Mál nr. US200362

    Lögð er fram fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem barst borgarráði 1. október 2020 og var vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

    Framkvæmdir hafa átt sér stað í a.m.k. tvö ár við Suðurgötu vegna vinnu við lagnir og endurnýjun götunnar. Þessar framkvæmdir hafa dregist úr hömlu og enn eiga miklar framkvæmdir sér stað við götuna sem hafa dregið úr umferðaröryggi gangandi, hjólandi og akandi og sem skapar mikið umferðaröngþveiti á álagstímum. Hvenær eru áætlað að þessum framkvæmdum ljúki.

    Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

    Fylgigögn

  17. Tillaga fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, um verklagsreglur vegna framkvæmda Reykjavíkurborgar

             Mál nr. US200150

    Skipulags- og samgönguráð samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að móta verklagsreglur vegna framkvæmda á vegum borgarinnar, sem eiga sér stað nærri verslun og þjónustu. Reglurnar tryggi aukið upplýsingaflæði og opið samtal milli borgar og rekstraraðila. Reglurnar tryggi að rekstraraðilum í nánasta umhverfi framkvæmdasvæðis hverju sinni, verði gert viðvart um fyrirhugaðar framkvæmdir með 12 mánaða fyrirvara. Komi framkvæmdaþörf upp skyndilega, t.d. vegna óvænts viðhalds, verði rekstraraðilum gert viðvart eins fljótt og auðið er. Jafnframt verði hlýtt á sjónarmið rekstraraðila um nánari útfærslur vegna framkvæmda, t.d. hvernig sé best að tryggja órofið aðgengi að verslun og þjónustu yfir framkvæmdatíma. Þegar verklagsreglurnar hafa verið mótaðar komi þær til endanlegrar afgreiðslu skipulags- og samgönguráðs. 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Skipulags- og samgönguráð samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að móta verklagsreglur vegna framkvæmda á vegum borgarinnar, sem eiga sér stað nærri verslun og þjónustu. Reglurnar tryggi aukið upplýsingaflæði og opið samtal milli borgar og rekstraraðila. Reglurnar tryggi að rekstraraðilum í nánasta umhverfi framkvæmdasvæðis hverju sinni, verði gert viðvart um fyrirhugaðar framkvæmdir með eins löngum fyrirvara og unnt er. Komi framkvæmdaþörf upp skyndilega, t.d. vegna óvænts viðhalds, verði rekstraraðilum gert viðvart eins fljótt og auðið er. Jafnframt verði hlýtt á sjónarmið rekstraraðila um nánari útfærslur vegna framkvæmda, t.d. hvernig sé best að tryggja órofið aðgengi að verslun og þjónustu yfir framkvæmdatíma. Þegar verklagsreglurnar hafa verið mótaðar komi þær til endanlegrar afgreiðslu skipulags- og samgönguráðs.

     

    Samþykkt.

  18. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins, er varðar greiðslur til sjálfstætt starfandi arkitekta-/verkfræðistofa s.l. 2 ár         Mál nr. US200365

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um greiðslur sem skipulags- og samgöngusvið hefur greitt sjálfstætt starfandi arkitekta-/verkfræðistofum svo og einyrkjum s.l. 2 ár? Hversu margir arkitektar starfa hjá skipulags- og samgöngusviði? Ef einhverjir, er ekki hægt að nota sérfræðiþekkingu þeirra, sem arkitekta til að sinna einhverjum af þeim verkefnum sem umhverfis- og skipulagssvið kaupir af sjálfstætt starfandi verkfræðistofum svo sem ráðgjöf, teikningar, utanumhald, hönnunarsamkeppni og hönnun bygginga?

    Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, skrifstofu sviðsstjóra.

  19. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, er varðar Arnarnesveg         Mál nr. US200366

    Fyrirhugað er að leggja Arnarnesveg og skal hann liggja þvert yfir Vatnsendahvarfið og kljúfa Vatnsendahæðina í tvennt. Þetta mun leiða til stórfelldrar eyðileggingar á náttúru og fallegs útsýnisstaðar þar sem byggja á Vetrargarð? Hvernig samræmist það grænum sjónarmiðum skipulagsyfirvalda að ætla að sprengja fyrir hraðbraut ofan í fyrirhugaðan Vetrargarð þvert yfir grænt svæði með fjölbreyttri náttúru?

    Vísað frá með fjórum atkvæðum, fulltrúa Samfylkingarinnar, fulltrúa Viðreisnar og fulltrúa Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Arnarnesvegur mun ekki skerða uppbyggingu Vetrargarðsins í Breiðholti. Formlegar fyrirspurnir eru til af afla gagna fyrir kjörna fulltrúa en ekki til að krefja aðra kjörna fulltrúa um pólitíska afstöðu til einstakra mála. Fyrirspurninni er því vísað frá.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar fyrirhugaðan Arnarnesveg og hvernig sú framkvæmd samræmist grænum sjónarmiðum skipulagsyfirvalda hefur verið vísað frá með þeim rökum að verið sé að spyrja um pólitíska afstöðu ráðsmanna til málsins. Spurningin varðar skipulagsmál borgarinnar og er mikið í húfi. Fyrirhuguð hraðbraut sem verður klesst ofan í Vetrargarðinn mun gjörbreyta þessu umhverfi enda örstutt á milli fyrirhugaðs Vetrargarðs og hraðbrautarinnar. Skipulagsyfirvöld hafa gefið sig út fyrir að vera náttúruunnendur og með grænar áherslur en ætla engu að síður að sprengja fyrir hraðbraut á grænu svæði með fjölbreyttri náttúru og fuglalífi. Það er sérkennilegt ef skipulagsyfirvöld treysta sér ekki til að standa fyrir svörum í svo umfangsmiklu máli sem hafa mun áhrif á fjöldann allan, bæði þá sem búa á svæðinu og aðra sem kjósa að njóta útivistar og útsýnis Vatnsendahvarfsins.

  20. Fyrirspurn áheyrnafulltrúi Flokks fólksins, er varðar lagfæringar á samgöngum í Norðanverðum Grafarvogi         Mál nr. US200367

    Fulltrúi Flokks fólksins vill spyrja hvernig gengur með lagfæringar á samgöngum í Norðanverðum Grafarvogi í tengslum við flutning skólahalds. Foreldrum var lofað þegar Korpuskóla var lokað að öryggi barna þeirra yrði að fullu tryggt. Það loforð hefur ekki verið efnt. Enn er vandamál með aðstæður við biðstöðina við Brúnastaði. Þarna er stærsti hópurinn á hverjum degi að bíða í einum hnapp. Börn á aldrinum 6-10 ára. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á þetta enn og aftur og það áður en að slys verður. Eftir því sem upplýsingar berast er ekki verið að hægja á umferð á þessum stað, fyrir utan hvað skýlið stendur nærri götunni. Umferðin og hraðinn þarna er stórhættulegur og vekur furðu að ekki sé búið að ganga í betrumbætur.

    Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

  21. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúi Miðflokksins, framkvæmdir í Esjuhlíðum         Mál nr. US200368

    1. Hvaða framkvæmdir eru í Esjuhlíðum? 2. Er framkvæmdaleyfi fyrir þessum umfangsmiklu framkvæmdum?

    Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

  22. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, um gögn vegna kaupa Reykjavíkurborgar á Varmadal         Mál nr. US200370

    Þann 3. september var lagt fram svar fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 23. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um gögn vegna kaupa Reykjavíkurborgar á Varmadal, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. júlí 2020. Það svar var á engan hátt fullnægjandi og fyrirspurninni var vísað til umhverfis- og skipulagssviðs til svars. Óskað er eftir öllum glærum, öðru kynningarefni, fundargerðum og önnur skrifleg gögn sem til eru í málinu. Fyrispurn þessi er hér með ítrekuð og óskað eftir svari sem fyrst.

    Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, skrifstofu skipulagsfulltrúa og til deildarstjóra aðalskipulags.

  23. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu

    Mál nr. US200372

    Lagt er til að Reykjavíkurborg komi upp sýnilegum hleðslustöðvum fyrir rafhjól. Margir nýta sér nú rafhjól til þess að komast leiða sinna og eru ekki með batterí í hjólinu sem dugar fyrir öllum ferðum dagsins. Það er því mikilvægt að tryggja aðgengi að hleðslustöðvum fyrir þau sem kjósa sér þennan samgöngumáta. Æskilegt væri að slíkt væri í nálægð við samgöngumiðstöðvar og verslunarkjarna og þar sem hægt er að bíða á meðan að batteríið á hjólinu er að hlaðast, fólki að kostnaðarlausu. 

    Frestað.

  24. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu

    Mál nr. US200373

    Skipulags- og samgönguráð samþykkir að beina því til stjórnar Strætó bs. að samþykkja að akstur á sunnudögum hefjist á sama tíma og á laugardögum. Flestir vagnarnir á laugardögum byrja að aka um átta að morgni til. Á sunnudögum hefst akstur ekki fyrr en um klukkan tíu. Áður fyrr hófst akstur strætó síðar á sunnudögum en mikilvægt er að hann byrji enn fyrr á morgnanna þar sem fólk þarf að koma sér til og frá vinnu, líka á sunnudagsmorgnum. 

    Frestað.

  25. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn

    Mál nr. US200374

    Árið 2018 var ákveðið að innleiða LEAN. Flokkur fólksins óskar að fá upplýsingar um hvar innleiðing LEAN aðferðarfræðinnar er stödd hjá sviðinu (USK), hvað hún hefur kostað nú þegar og hver verður endanlegur kostnaður hennar? Óskað er eftir sundurliðun á aðferðarfræðinni innan sviðsins eftir verkefnum. Einnig er spurt: Hefur LEAN verið innleitt formlega hjá borginni í heild? Ástæða fyrirspurnanna. Flokkur fólksins hefur áður spurt um LEAN og kom þá fram í svari að LEAN hafi ekki verið innleitt formlega hjá borginni í heild og engar ákvarðanir teknar um það. LEAN var um tíma mikið tískudæmi en fljótlega kom í ljós að aðferðarfræðin hentar ekki öllum starfsstöðvum auk þess sem hún er mjög dýr. Svo virtist a.m.k. um tíma sem borgin ætlaði að gleypa LEAN hrátt og því var og er enn ástæða til að spyrjast nú fyrir um stöðu málsins. 

  26. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn 

    Mál nr. US200375

    1. Er búið að ljósleiðaravæða Esjumela? 2. Ef svo er hver bar kostnaðinn af hverri tengingu inn á hverja lóð? 3. Ef búið er að ljósleiðaravæða Esjumela, hvað kostaði tengingin tæmandi talið? 4. Er búið að tengja ljósleiðara í fangelsið á Hólmsheiði? 5. Ef svo er hver greiddi fyrir ljósleiðarann og hvað kostaði tengingin tæmandi talið? 6. Var farið í útboð vegna beggja verka ef búið er að ljósleiðaravæða svæðin? 7. Hvaða verktaki sá um lagningu ljósleiðarana? 8. Hvenær voru ljósleiðarar lagðir til fyrirtækjanna/inn á svæðið?

  27. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn

    Mál nr. US200376

    Fyrirspurn Flokks fólksins um hvort fjölga eigi metanstöðvum í Reykjavík. Í dag er hægt að fá metan afgreitt á fjórum stöðum á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Dælur eru alls 10. Í áætlun er að byggja upp innviði til hleðslu rafbíla. Fjölga á stöðum um 20 á næsta ári. Stendur til að fjölga metanafgreiðslustöðum næsta ár og ef svo er hvað mörgum?

  28. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu

    Mál nr. US200377

    Tillaga um að embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa heyri undir Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að breytingar verði gerðar á skipuriti Umhverfis- og skipulagssviðs þannig að embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa heyri undir Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. Breytingin mun leiða til betra skipulags og hagræðingar. Eins og fyrirkomulagið er í dag eru þessar þrjár skrifstofur allar samhliða í skipuriti. Ljóst er að Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar er mikilvægasta skrifstofan og undir hana ættu embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa að heyra. Sumir embættistitlar eru lögbundnir en aðrir tilbúnir af borginni. Hægt er að hagræða og spara með því að fækka yfirmönnum og þar með einfalda kerfið, minnka flækjustig. Líklegt er að með þessari breytingu verði þjónusta við borgarbúa skilvirkari. Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar hefur undir höndum samgönguskipulag, framfylgir stefnumörkun, borgarhönnun, samgöngum og breytingum á samgöngumannvirkjum með öllu tilheyrandi.

    Frestað. 

    -    Kl 12:10 víkur Aron Leví Beck af fundi.

Fundi slitið klukkan 12:29

Pawel Bartoszek Hildur Björnsdóttir