Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 75

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2020, miðvikudaginn 3. júní kl. 09:11, var haldinn 75. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð Ráðssal. Viðstödd voru: Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Pawel Bartoszek, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Eyþór Laxdal Arnalds, Marta Guðjónsdóttir, Ólafur Kr. Guðmundsson og áheyrnarfulltrúarnir Ásta Dís Guðjónsdóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Björn Axelsson, Ólöf Örvarsdóttir, Þorsteinn Rúnar Hermannsson, Jóhanna Guðjónsdóttir og Gréta Mar Jósepsdóttir. 
Fundarritari var Erna Hrönn Geirsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Kosning í skipulags- og samgönguráð,          Mál nr. US200173

    Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 5. maí 2020, þar sem tilkynnt er að Kristín Soffía Jónsdóttir taki sæti í skipulags- og samgönguráði í stað Arons Levís Becks. Jafnframt var samþykkt að Aron Leví taki sæti sem varamaður í stað Ásmundar Jóhannssonar. 

    Einnig var tilkynnt að Kolbrún Baldursdóttir taki sæti sem áheyrnarfulltrúi í skipulags- og samgönguráði í stað Þórs Elís Pálssonar. 

    (A) Skipulagsmál

    Fylgigögn

  2. Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Stefna um íbúðabyggð, breyting á aðalskipulagi         Mál nr. SN200328

    Lögð fram drög að tillögu umhverfis- og skipulagssviðs dags. í maí 2020 að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er varðar stefnu um íbúðabyggð. Breytingin tekur til eftirfarandi reita, sem verða skilgreindir sem sérstakir byggingarreitir, sbr. stefnu um íbúðabyggð, sem sett er fram á mynd 13 í kaflanum Borgin við Sundið: Arnarbakka, Eddufells-Völvufells.

    Rangársels, Háaleitisbrautar-Miklabrautar, Furugerðis-Bústaðavegar og Vindáss-Brekknaáss.

    Samþykkt með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata að kynna fyrirliggjandi drög að aðalskipulagsbreytingu, sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. Gögn verða send til skilgreindra hagsmunaaðila og kynnt opinberlega. Drögin verða auglýst í fjölmiðli og gerð aðgengileg á vef borgarinnar. Tillagan verður send til eftirfarandi umsagnaraðila: Svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins, Kópavogs, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Seltjarnarnesbæjar, Mosfellsbæjar, Kjósarhrepps, annarra nágrannasveitarfélaga, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Veitna, Borgarsögusafns, Íbúaráða og íbúasamtaka í viðkomandi borgarhlutum.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er í nafni aukins upplýsingaflæðis og opinnar stjórnsýslu er mikilvægt að allir íbúar séu vel upplýstir um að hvaða skipulagsbreytingum er að vinna. Það yrði góður bragur á slíkum vinnubrögðum enda geta breytingar í grónum hverfum verið viðkvæmar og breytingarnar haft áhrif á þá byggðaþróun sem fyrir er. Þá ber að hafa dagskrá skýra þannig að fram komi hvað sé til kynningar og hvað sé til afgreiðslu.

    Haraldur Sigurðsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, Elliðaárvogur - smábátahöfn, breyting á aðalskipulagi - Strandsvæði ST9 - breyting á hafnargarði.         Mál nr. SN200326

    Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs dags. í maí 2020 ásamt umhverfisskýrslu varðandi breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er varðar Elliðaárvog, smábátahöfn. Í breytingunni felst minniháttar breyting á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulagsins er varðar hafnargarð við smábátahöfn Snarfara við Naustavog, í Elliðaárdal.

    Samþykkt að kynna fyrirliggjandi drög að aðalskipulagsbreytingu, sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga. Gögn verða send til skilgreindra hagsmunaaðila og kynnt opinberlega. Drögin verða auglýst í fjölmiðli og gerð aðgengileg á vef borgarinnar. Tillagan verður send til eftirfarandi umsagnaraðila: Svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins, Kópavogs, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Seltjarnarnesbæjar, Mosfellsbæjar, Kjósarhrepps, annarra nágrannasveitarfélaga, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar, Hafrannsóknastofnunar, Orkustofnunar, Veðurstofu Íslands, Veitna, Borgarsögusafns, Íbúaráðs Laugardals, Stangveiðifélags Reykjavíkur og Umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur.

    Haraldur Sigurðsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Sértæk búsetuúrræði, breyting á aðalskipulagi         Mál nr. SN200329

    Lögð fram drög að tillögu umhverfis- og skipulagssviðs dags. í maí 2020 að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er varðar sértæk búsetuúrræði og landnotkun. í breytingunni felst að sérákvæði um búsetuúrræði er bætt við undir liðnum Íbúðabyggð (ÍB) í kaflanum Landnotkun (bls. 205 (sjá adalskipulag.is).

    Samþykkt með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata að kynna fyrirliggjandi drög að aðalskipulagsbreytingu, sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. Gögn verða send til skilgreindra hagsmunaaðila og kynnt opinberlega. Drögin verða auglýst í fjölmiðli og gerð aðgengileg á vef borgarinnar. Tillagan verður send til eftirfarandi umsagnaraðila: Velferðarráðs/Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Íbúaráða í öllum borgarhlutum, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og lögbundinna umsagnaraðila vegna aðalskipulagsbreytinga.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hér er tækifæri fyrir aðila að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegna þessara breytingar á aðalskipulagi sértækra búsetuúrræða. Íbúasamtök og íbúaráð munu nú geta komið athugasemdum á framfæri. Framkvæmd sértækra búsetuúrræða hefur tafist um langa hríð vegna staðsetninga og skorts á heimildum. Kaup á smáhýsum fyrir hundruði milljóna króna hafa ekki nýst þeim sem þau þurfa. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lagt var af stað í þá vegferð að bjóða út smáhýsi fyrir heimilislausa en skyndilega var hætt við og farið í nýtt útboð. Eyða á 450 milljónum í kaup á 25 smáhýsum. Nú hefur komið í ljós að ekki er hægt að koma húsunum fyrir. Eins og staðan er núna er ljóst að mikill kostnaður á eftir að bætast við bæði að hálfu borgarinnar og Veitna. Nú er verið að gera tillögu að "skerpa" á landnotkunarheimildum í aðalskipulagi um hvar heimilt er að staðsetja búsetuúrræði innan borgarinnar, því breyta þarf deiliskipulagi fyrir þessi hús. Verið er að búa til nýtt sérákvæði um sérstök búsetuúrræði og verði þessi skipulagsbreyting keyrð í gegn þá er verið að opna pandórubox í skipulagsmálum sem ekki sér fyrir endann á. Samkvæmt þessari breytingu verður hægt að drita niður smáhýsum, kofum, tjöldum, hjólhýsum, húsbílum og öllu því sem kallast getur íverustaður út um allt borgarlandið án þess að nokkur fái við það ráðið. Þessi breyting stenst ekki lög og nauðsynlegt er að fá álit/úrskurð samgöngu - og umhverfisráðuneytanna á fyrirhuguðum breytingum. Varað er við þessum vinnubrögðum og hvatt til þess að málefni húsnæðislausra verði leyst með öðrum hætti s.s. með kaupum á gistiheimilum eða hótelum.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Í Pandóruboxinu er ekkert annað að finna en heimili fyrir fólk sem í dag er heimilislaust.

    Haraldur Sigurðsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  5. Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Nýi Skerjafjörður. Breytt landnotkun, breyting á aðalskipulagi         Mál nr. SN200325

    Lögð fram drög að tillögu umhverfis- og skipulagssviðs dags. í maí 2020, ásamt umhverfisskýrslu, að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er varðar skipulag byggðar í Skerjafirði. Í breytingunni felst breytt landnotkun, breytingar á byggingarmagni, lega stofn- og tengistíga er fest niður og tekið er tillit til umferðatenginga ásamt því að umfang landfyllinga er minnkað.

    Samþykkt með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata að kynna fyrirliggjandi drög að aðalskipulagsbreytingu, sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga, ásamt umhverfisskýrslu sbr. 7. gr. laga nr. 105/2006. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. Gögn verða send til skilgreindra hagsmunaaðila og kynnt á opnum fundi. Drögin verða auglýst í fjölmiðli og gerð aðgengileg á vef borgarinnar. Tillagan verður send til eftirfarandi umsagnaraðila: Svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins, Kópavogs, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Seltjarnarnesbæjar, Mosfellsbæjar, Kjósarhrepps, annarra nágrannasveitarfélaga, Umhverfisstofnunar, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Minjastofnunar Íslands, Vegagerðarinnar, Samgöngustofu, Isavia, Náttúrufræðistofnunar, Hafrannsóknarstofnunar, Orkustofnunar, Veðurstofu Íslands, Veitna, Borgarsögusafns, Skóla- og frístundaráðs, skóla- og frístundasviðs, Umhverfis- og heilbrigðisráðs, Íbúaráðs Vesturbæjar, Íbúasamtaka Vesturbæjar, Íbúasamtaka Skerjafjarðar og Prýðisfélagsins Skjaldar.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Breytingin er í samræmi við stefnu gildandi aðalskipulags um uppbyggingu á svæðinu og í samræmi við samning ríkisins og Reykjavíkur frá 2013. Í nýrri byggð í Skerjafirði er gert ráð fyrir þéttri lágreistri og nútímalegri strandbyggð. Staðsetningin býður upp á fallegt náttúrulegt umhverfi við fallega strandlengju sem gefur frábæra möguleika til útivistar og umhverfisvænna samganga. Íbúðirnar verði fjölbreyttar að stærð og eignarformi og nýr grunnskóli mun þjóna hverfinu öllu. Við fögnum þessari löngu tímabærri uppbyggingu og hlökkum til framhaldsins.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er með ólíkindum að deiliskipulagsgerð fyrir nýja byggð í Skerjafirði sé komin á fulla ferð án vitundar og án nokkurs samráðs við íbúa í Skerjafirði og að búið sé að gefa lóðarvilyrði og úthluta lóðum á svæðinu án þess að nokkuð samráð hafi verið haft við íbúasamtök Skerjafjarðar en lóðarhöfum hins vegar boðið að koma að deiliskipulagsgerðinni. Það er augljóst mál að borgarstjórnarmeirihlutinn hefur meiri áhuga á samráði við verktaka en íbúa borgarinnar. Íbúar í Skerjafirði hafa margítrekað mótmælt fyrirhugaðri byggð og bent á að hún sé ekki í samræmi við þá byggðaþróun sem fyrir er í hverfinu og aðeins ein umferðartenging við hverfið. Verði þetta deiliskipulag að veruleika mun Skerjafjörðurinn verða stærsta botnlangabyggð landsins með hátt í 5000 íbúum með tilheyrandi umferðarþunga. Þá er með ólíkindum að deiliskipulag sé keyrt í gegn áður en fram hefur farið umhverfismat vegna landfyllingar og olíumengaðs jarðvegs á svæðinu og vegna samkomulags ríkis og borgar um að Reykjavíkurflugvöllur geti þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til nýr flugvöllur er fullbúinn. Sömuleiðis liggur fyrir að fara á í gerð hverfisskipulag 2022 sem kallar á mikið samráð við íbúa varðandi skipulag hverfisins. Augljóst er að allt tal borgarstjórnarmeirihlutans um íbúalýðræði og umhverfisvernd er eingöngu til að skreyta sig með á tyllidögum.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þann 29. nóvember 2019 gerðu ríkið og Reykjavíkurborg samkomulag um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni og á þeirri vinnu að vera lokið fyrir árslok 2024. Samkvæmt samkomulaginu á að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar meðan unnið væri að undirbúning og byggingu nýs flugvallar ef hann hugsanlega kæmi. Í samkomulaginu lýsir borgarstjóri yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi til að tryggja flugvöllin í Vatnsmýrinni. Nú er ljóst að samningurinn er ekki pappírsins virði því bæði kemur fram í greinargerð með frumvarpi um fjárhagsáætlun Reykjavíkur til 2024 og nú kynningu að gerð deiliskipulags fyrir nýjan Skerjafjörð að málið er keyrt áfram af fullum þunga og þar með er kominn forsendubrestur. Ég hef þegar tilkynnt stjórn umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis brot á samkomulaginu. Búið er að viðurkenna að mikil mengun er í jarðvegi á þessu svæði og ekki hefur verið fundin lausn á því hvernig á að fjarlægja hann. Nú hefur verið upplýst að líklega á að beina þeim þungaflutningum hringinn í kringum flugvöllinn og upp á Menntabraut hjá HR. Þetta eru fordæmalaus vinnubrögð og sýnir glöggt hversu borgarstjóri og meirihlutinn er veruleikafirrtur, ósvífinn og óheiðarlegur og láta sig engu skipta umhverfimál.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í breytingunni er varðar skipulag byggðar í Skerjafirði felst m.a. að umfang landfyllinga er minnkað. Fram kemur í gögnum engu að síður að seinni áfangi er háður stærð landfyllinga. Að eyðileggja íslenskar fjörur með landfyllingum er skerðing á náttúrulegu útivistarsvæði. Það eru fá náttúruleg svæði sem er hægt að nýta árið um kring, en fjörur má alltaf nýta. Í langflestum tillögum meirihlutans sem fjalla um landnýtingu við ströndina er farið fram á landfyllingu. Fjörur við Reykjavík eru að verða af skornum skammti. Talað hefur verið um að sjávaryfirborð eigi eftir að hækka. Fram kemur að matið sem byggt er á, er frá 2013. Í því segir að hætta á hækkun sjávaryfirborðs sé um 4.5 m. til 6 m. á 100 ára tímabili og eina leiðin til að tryggja öryggi er með landfyllingu. Óvissa er með flugvöllinn. Borgarstjóri segir að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni a.m.k. í 15 ár og allsendis óvíst hvort hann fari yfir höfuð enda langt í land með að ljúka mælingum (veður- og flugmælingum) í Hvassahrauni. Fresta ætti sem mest byggingaráformum í nágrenni flugvallarins að mati fulltrúa Flokks fólksins. Við brotthvarf flugvallarins verður einfaldlega allt annað umhverfi í boði og lítil ef nokkur þörf verður þá á landfyllingum.

    Haraldur Sigurðsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Nauthólsvík, breyting á deiliskipulagi     (01.68)    Mál nr. SN180788

    Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, að breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur vegna aðkomutengingar við fyrirhugaða Fossvogsbrú á um 350 m kafla nýrrar tveggja akreinar akbrautar fyrir almenningssamgöngur sem fellur innan deiliskipulagsins. Kaflinn er hluti af stærri framkvæmd sem er brú yfir Fossvog fyrir almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi vegfarendur. Samhliða breytingunni eru gerðar nokkrar fleiri breytingar á skipulaginu og það uppfært miðað við núverandi ástand. Lagðir eru fram uppdr. Landmótunar dags. 11. nóvember 2019 br. 15. maí 2020. Einnig er lögð fram greinargerð Landmótunar dags. 11. nóvember 2019 br. 15. maí 2020. Jafnframt er lögð fram fornleifaskrá og húsakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur dags. 2019. Tillagan var auglýst frá 16. desember 2019 til og með 29. janúar 2020. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Veitur dags. 23. janúar 2020, Isavia dags. 29. janúar 2020 og íbúaráð Miðborgar og Hlíða dags. 29. janúar 2020. Einnig er lagt fram minnisblað Borgarlínunnar dags. 30. apríl 2020 og umsögn skipulagsfulltrúa dags. 15. maí 2020.

    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 15. maí 2020.

    Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að gæta vel að umhverfismálum við ströndina vegna þessarar samgöngutengingar, en fjármögnun hennar er óljós, ekki síst þegar nú er skollin á COVID-kreppa. Gæta þarf að haft verði fullt samráð við ISAVIA við útfærslu á helgunarsvæði og hæðarpunktum. Í fyrirliggjandi tillögu er gert ráð fyrir að Fossvogsbrú nýtist eingöngu fyrir almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi. Gera verður ráð fyrir þeim möguleika í framtíðinni að fjölbreyttir ferðamátar geti nýst í þessa samgöngutengingu ef af yrði. Samflot fólksbíla kæmi því til greina sem og aðrir þeir ferðamátar sem fólk kann að nýta sér í framtíðinni. 

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Við teljum það ekki koma til greina að opna Fossvogsbrú fyrir almennri bílaumferð.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Aldrei er heildarmyndin sýnd. Hér er verið að færa öryggisgirðingu flugvallarins og því verið að minnka svæðið í kringum flugvöllinn sem nemur tæpum 4.500 fermetrum. Er þetta gert til að koma fyrir 270 metra langri og 15 metra breiðri brú sem áætlað er að komi yfir Fossvoginn, á að kosta 2,4 milljarða og ekkert fjármagn fyrirliggjandi. Allt í sambandi við brúnna er í uppnámi vegna ólöglegs útboðs. Eyðileggingin heldur áfram. Isavia varar við að helgunarsvæði aðflugsbúnaðar sé raskað og að ekki megi rjúfa hindrunarflöt flugvallarins. Flugvöllurinn er í mikilli hættu, þetta er gróf aðför að honum og öryggissjónarmiða er ekki gætt. Gert er ráð fyrir að brúin liggi frá flugbrautarenda Reykjavíkurflugvallar, vestan Nauthólsvíkur, yfir á norðausturhluta Kársnestáar en þar eru 340 metrar á milli bakka. Landfyllingar verða gerðar báðum megin við sitt hvorn brúarendann. Sífellt er verið að bútasauma Nauthólsvíkina og Skerjafjörðinn með nýjum og nýjum landfyllingum og passað er upp á að þær séu ekki af þeim stærðarskala að þær falli undir lög um skyldu til umhverfismats. Þetta svæði hefur að geyma mjög viðkvæmt lífríki en það er að engu haft.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skipulagsyfirvöld leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi í Nauthólsvík og Reykjavíkurflugvallar. Færa á flugvallargirðingu til austurs til móts við Nauthólsvík vegna aðkomutengingar við Fossvogsbrú. Fulltrúi Flokks fólksins vill aftur minna hér á fyrirhugaðar skemmdir á fjörum sem allt þetta ætlar að hafa í för með sér. Til að geta lagt umferðartengingu milli Nauthóls og Fossvogsbrúar þarf landfyllingu. Veitur gera athugasemd og segja að fyrirhuguð landfylling sem kynnt er í breytingunni á deiliskipulagi raski útrásarenda fyrir regnvatn vestan við Nauthólsvík. Er ekki hægt að skipuleggja þetta öðruvísi? Flugvöllurinn er ekki á förum. Breytingartillagan ber með sér óvissuna sem felst í því hvort flugvöllurinn verður eða fer. Uppbygging með flugvöllinn á staðnum er bara allt önnur en uppbygging sem yrði, fari flugvöllurinn úr Vatnsmýrinni. Hér eru lagðar fram ábendingar frá Isavia og íbúaráði Miðborgar og Hlíða, báðar afar mikilvægar. Sú síðari lýtur að aðgengismálum og að í öllu deiliskipulagi sé liður þar sem algild hönnun og aðgengi fyrir alla sé tekið fyrir eins og segir í athugasemdinni/ábendingunni. Það vantar alveg að gera grein fyrir aðgengismálum í tillögum að breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur og Reykjavíkurflugvallar. Eftir því sem fulltrúa Flokks fólksins skilst á að bregðast við þessum athugasemdum.

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  7. Reykjavíkurflugvöllur, breyting á deiliskipulagi     (01.6)    Mál nr. SN190682

    Lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, að breytingu á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar. Í breytingunni felst breyting á deiliskipulagsmörkum og færslu á flugvallargirðingu til austurs til móts við Nauthólsvík, vegna aðkomutengingar við Fossvogsbrú, samkvæmt uppdr. T.ark arkitekta dags. 13. nóvember 2019 br. 13. maí 2020. Tillagan var auglýst frá 16. desember 2019 til og með 29. janúar 2020. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Isavia dags. 29. janúar 2020 og

    íbúaráð Miðborgar og Hlíða dags. 29. janúar 2020. Einnig er lagt fram minnisblað Borgarlínunnar dags. 30. apríl 2020. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 15. maí 2020.

    Samþykkt með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 15. maí 2020. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn tillögunni.

    Vísað til borgarráðs

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skipulagsyfirvöld leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi í Nauthólsvík og Reykjavíkurflugvallar. Færa á flugvallargirðingu til austurs til móts við Nauthólsvík vegna aðkomutengingar við Fossvogsbrú. Fulltrúi Flokks fólksins vill aftur minna hér á fyrirhugaðar skemmdir á fjörum sem allt þetta ætlar að hafa í för með sér. Til að geta lagt umferðartengingu milli Nauthóls og Fossvogsbrúar þarf landfyllingu. Veitur gera athugasemd og segja að fyrirhuguð landfylling sem kynnt er í breytingunni á deiliskipulagi raski útrásarenda fyrir regnvatn vestan við Nauthólsvík. Er ekki hægt að skipuleggja þetta öðruvísi? Flugvöllurinn er ekki á förum. Breytingartillagan ber með sér óvissuna sem felst í því hvort flugvöllurinn verður eða fer. Uppbygging með flugvöllinn á staðnum er bara allt önnur en uppbygging sem yrði, fari flugvöllurinn úr Vatnsmýrinni. Hér eru lagðar fram ábendingar frá Isavia og íbúaráði Miðborgar og Hlíða, báðar afar mikilvægar. Sú síðari lýtur að aðgengismálum og að í öllu deiliskipulagi sé liður þar sem algild hönnun og aðgengi fyrir alla sé tekið fyrir eins og segir í athugasemdinni/ábendingunni. Það vantar alveg að gera grein fyrir aðgengismálum í tillögum að breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur og Reykjavíkurflugvallar. Eftir því sem fulltrúa Flokks fólksins skilst á að bregðast við þessum athugasemdum.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Aldrei er heildarmyndin sýnd. Hér er verið að færa öryggisgirðingu flugvallarins og því verið að minnka svæðið í kringum flugvöllinn sem nemur tæpum 4.500 fermetrum. Er þetta gert til að koma fyrir 270 metra langri og 15 metra breiðri brú sem áætlað er að komi yfir Fossvoginn, á að kosta 2,4 milljarða og ekkert fjármagn fyrirliggjandi. Allt í sambandi við brúnna er í uppnámi vegna ólöglegs útboðs. Eyðileggingin heldur áfram. Isavia varar við að helgunarsvæði aðflugsbúnaðar sé raskað og að ekki megi rjúfa hindrunarflöt flugvallarins. Flugvöllurinn er í mikilli hættu, þetta er gróf aðför að honum og öryggissjónarmiða er ekki gætt. Gert er ráð fyrir að brúin liggi frá flugbrautarenda Reykjavíkurflugvallar, vestan Nauthólsvíkur, yfir á norðausturhluta Kársnestáar en þar eru 340 metrar á milli bakka. Landfyllingar verða gerðar báðum megin við sitt hvorn brúarendann. Sífellt er verið að bútasauma Nauthólsvíkina og Skerjafjörðinn með nýjum og nýjum landfyllingum og passað er upp á að þær séu ekki af þeim stærðarskala að þær falli undir lög um skyldu til umhverfismats. Þetta svæði hefur að geyma mjög viðkvæmt lífríki en það er að engu haft.

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  8. Borgartún 34-36, breyting á deiliskipulagi     (01.232.0)    Mál nr. SN200261

    450913-0650 Atelier Arkitektar slf., Skaftahlíð 16, 105 Reykjavík

    410166-0389 Guðmundur Jónasson ehf., Vesturvör 34, 200 Kópavogur

    Lögð fram umsókn Björns Skaptasonar dags. 30. apríl 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 34-36 við Borgartún. Í breytingunni felst aukning á byggingarmagni, hækkun á nýtingarhlutfalli og fjölgun íbúða um 5 úr 86 í 91, samkvæmt uppdr. Atelier Arkitekta ehf. dags. 30. apríl 2020. 

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

    Vísað til borgarráðs.

    Lilja Grétarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Fegrunarviðurkenningar 2020, tilnefningar          Mál nr. SN200308

    Lögð fram tillaga Umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu skiplagsfulltrúa, 

    dags. 19. maí 2020, að skipan fulltrúa í vinnuhóp sem gerir tillögu að fegrunarviðurkenningum fyrir lóðir fjölbýlishúsa og fyrirtækja/stofnana og vegna endurbóta á eldri húsum árið 2020.

    Samþykkt. 

    Sólveig Sigurðardóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    (B) Byggingarmál

  10. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

    Fylgiskjal með fundargerð þessari er fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1068 frá 19. maí 2020 og fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1069 frá 26. maí 2020.

    (E) Samgöngumál

    Fylgigögn

  11. Umferðarljósastýringar í Reykjavík, kynning         Mál nr. US200156

    Yfirlitskynning á fyrirkomulagi umferðarljósastýringa í Reykjavík.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að stórbæta ljósastýringar í Reykjavík, ekki síst að snjallvæða stýringu með notkun hreyfiskynjara fyrir gangandi, hjólandi og akandi. Ljósastýring við Geirsgötu er dæmi um slæma ljósastýringu þar sem óþarfa umferðatafir verða vegna ljósastýringa. Þegar svo bætist við þrengingar vegna þess að stoppistöð fyrir strætó er nú farin að teppa aðra akrein Geirsgötu til vesturs hefur ástandið versnað enn frekar. Það á að vera forgangsmál að bæta úr þessum málum sem allra fyrst. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flest umferðarteppumál myndu leysast sjálfkrafa ef ljósastýringarmál höfuðborgarsvæðisins væru í lagi. Skorað er á samgöngustjóra Reykjavíkur og formann skipulags- og samgönguráðs að virkja forgangsákvæði samgöngusáttmálans um ljósastýringar. Flækjum ekki einföld mál. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Samkvæmt kynningu á ljósastýringu er miðlæg stýring og búið að vinna að samtengingu undanfarin ár að hluta til. Á 113 stöðum er ný útfærsla en á 100 stöðum er eldri útfærsla. Eldri útfærslan hlýtur að vera á þeim stöðum þar sem mesta álagið er því slíkar eru umferðartafirnar og umferðarflæði slakt? Það er vont að enn eigi eftir að nútímavæða ljósabúnað á 100 stöðum. Umferðaröngþveiti er víða í borginni og á hverjum morgni bíða röð bíla eftir grænu ljósi og leiðin löngu orðin greið. Gamaldags umferðarljósastýringarkerfi er ein stærsta ástæða þess að umferðin er í svo miklum ólestri sem raun ber vitni. Af hverju hefur þetta skref ekki verið tekið til fulls? Leiðrétta þarf einnig gangbrautarljós. Sú staðreynd að rauð ljós loga á gangbraut þótt enginn sé að fara yfir er ekki til að bæta útblástursvanda. Til að draga úr mengun hafa skipulagsyfirvöld viljað draga verulega úr bílaumferð í bæinn í stað þess að vinna með markvissum hætti að flýtingu orkuskipta. Öll vitum við metani sem ofgnótt er af er brennt á báli í stað þess að brenna þessari vistvænu, innlendu grænu orku á bílum. Þessum málum þarf að koma í lag og umfram allt finna leiðir til að hvetja til orkuskipta.

  12. Grafarvogur norður, samgöngubætur         Mál nr. US200191

    Kynntar eru fyrirhugaðar samgöngubætur í norðurhluta Grafarvogshverfis og lagt fram bréf Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags 29. maí þar sem lagðar eru til gangbrautir á 10 gönguþverunum og lækkun hámarkshraða í í tveimur götum í samræmi við 1. og 3. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

    Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur nú skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Það er fagnaðarefni að fara í eigi í samgöngubætur í norðanverðum Grafarvogi enda eru þær í samræmi við þær samgöngubætur sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins íbúasamtök Grafarvogs og hverfaráðið hafa kallað eftir svo árum skiptir til að tryggja umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kynntar eru fyrirhugaðar samgöngubætur í norðurhluta Grafarvogshverfis. Þetta eru meðal atriða sem íbúum var lofað þegar ráðist var í að leggja af skólahald í einu húsi þverrt gegn vilja foreldar barna skólans. Þau óttuðust um öryggi barna sinna á leið í og úr skólann. Er hér búið að tryggja að fullu, eins og hægt er, trausta og örugga samgönguleið á milli Staðahverfis og Víkurhverfis? Fram kemur í kynningu að þetta hafi verið kynnt foreldrum en fulltrúi Flokks fólksins veit ekki hvort foreldrar séu sáttir upp til hópa og hvort þeir upplifi að börn þeirra séu örugg á leið úr og í skóla.

    Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  13. Umsögn Reykjavíkurborgar um, Frumvarp til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir         Mál nr. US200166

    Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 19. maí 2020, um frumvarp til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir, 662. mál, þingskjal 1122 sem lagt var fram á 150. löggjafarþingi 2019–2020.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins vara við tvísköttun með vegtollum, eða fram komi sérstakur höfuðborgarskattur á umferð. Álögur á íbúa Reykjavíkur eru nú þegar í hæstu hæðum og gæta verður þess að frekari skattar og gjöld leggist ekki enn frekar á fólk og fyrirtæki

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Veggjöld í Reykjavík gætu falið í sér tugþúsunda kostnaðarauka á mánuði vegna ferða borgarbúa. Vegtollar eru aðför að borgurunum að mati fulltrúa Flokks fólksins. Nú vilja skipulagsyfirvöld leggja sérstaka áherslu á að rukka þá sem aka um á ákveðnum tímum, á álagstímum, á þeim tíma sem þeim er ætlað að mæta í vinnu. Það er vissulega fagnaðarefni að bæta eigi samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ekki hefur verið brugðist við fólksfjölgun og auknum umferðarþunga. Gert er ráð fyrir að vegtollar á notendur fjölskyldubíla standi undir helmingi kostnaðar. Vegtollahugmyndirnar hafa verið gagnrýndar harkalega. FÍB hefur bent á að setja þyrfti upp myndavélar á 160 gatnamótum á höfuðborgarsvæðinu til að innheimta vegtolla á helstu stofnbrautum. Vegtollar eru mjög dýr leið til að hafa tekjur af umferðinni. Kostnaður við vegtolla felst m.a. í dýrum tækjabúnaði, hugbúnaði, tengingum, innheimtukostnaði, viðhaldi, endurnýjun og almennum rekstri. Að auki greiða vegfarendum 11% virðisaukaskatt af veggjöldum. Veggjöld leggjast með mestum þunga á lágtekjufólk, sem þarf að nota bíl til að sækja vinnu og koma börnum á leikskóla og í frístundastarfsemi. Láglaunafólk sem flytur í úthverfi til að komast í ódýrara húsnæði tapar þeim ávinningi komi til innheimtu veggjalda. Veggjöld eru flöt krónutala og mun hærra hlutfall launa láglaunafólks samanborið við laun hálaunafólks. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Miðflokkurinn hafnar öllum hugmyndum af vegatollum. Ekki er hægt að girða höfuðborgarsvæðið af með þessum hætti og nú þegar er skattheimta af bílum í hæstu hæðum.

    Fylgigögn

  14. 10. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 um göngugötur, minnisblað Umhverfis- og skipulagssviðs         Mál nr. US200192

    Lagt fram minnisblað umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, dags. 3. apríl 2020.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Reykjavíkurborg hefur ekki lagasetningarvald – það vald er hjá Alþingi. Reykjavíkurákvæði nýrra umferðarlaga fjallar um göngugötur. Í 10. gr. laganna kemur fram að umferð vélknúinna ökutækja um göngugötur er óheimil en umferð vélknúinna ökutækja í akstursþjónustu fatlaðra, handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða, lögreglu, slökkviliðs og sjúkraflutninga er heimil. Skilja má á erindi þessu frá meirihlutanum að verið sé að fetta fingur út í það að Alþingi hafi breytt frumvarpinu í meðförum þingsins þar sem bætt var við upptalninguna „handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða“ á eigin bílum. Nær öruggt er að þessi breytingatillaga hafi komið eftir ábendingu frá Öryrkjabandalaginu. Reykjavíkurborg gagnrýnir þetta undanþáguákvæði því það býður ekki upp á sveigjanleika eða aðlögun að mismunandi aðstæðum og er því ill- eða óframkvæmanlegt í framkvæmd eins og segir í erindinu. Tæplega 8.000 stæðiskort eru í gildi fyrir hreyfihamlaða á landinu öllu og tæplega 5.300 kort á höfuðborgarsvæðinu. Allir þessir aðilar mega því keyra um göngugötur í Reykjavík. Aðgengi þessa viðkvæma hóps er mótmælt og talið að þessir aðilar hafi ekkert erindi að göngugötum þar sem ekki eru bílastæði þar. Þessar skoðanir eru fordæmafullar. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lagt er fram minnisblað umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingi og Samgöngu- og Sveitarstjórnaráðuneytisins dags. 3. apríl 2020. Fulltrúi Flokks fólksins finnst að skipulagsyfirvöld eigi að leyfa þessu að standa eins og þetta er og ekki að vera að skipta sér frekar að þessu orðalagi að sinni. Það er ástæða fyrir því að löggjafinn orða hlutina með þessum hætti í nýjum umferðarlögum og má ætla að mikil vinna liggi þarna að baki. Hér er mikilvægt að huga að þeim sem eiga við hreyfivanda að stríða og að tryggja þeim sem þurfa aðgengi upp að dyrum að þeir komist greiðlega. Flokkur fólksins vill leggja áherslu á að bílastæði séu í göngugötum í neyðartilvikum fyrir þann sem þarf akstur upp að dyrum og greið leið þarf að vera fyrir fatlaða að fara inn á göngugötur t.d. í hjólastólum.

    Fylgigögn

  15. Leiguskápar fyrir reiðhjól, umsögn um tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins         Mál nr. US200193

    Lögð fram tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins af fundi skipulags- og samgönguráðs, dags. 29. maí 2019, er varðar kaup á leiguskápum fyrir reiðhjól. Einnig er lögð fram umsögn Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 28. maí 2020.

    Vísað til umfjöllunar stýrihópi um hjólreiðaáætlun 2021-2025.

    Fylgigögn

  16. Lagfæringar á gatnamótum Hallsvegar/Víkurvegar, umsögn um tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins         Mál nr. US200194

    Lögð fram tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins af fundi skipulags- og samgönguráðs, dags. 3. júlí 2019, er varðar lagfæringar á gatnamótum Hallsvegar/Víkurvegar. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 28. maí 2020.

    Tillagan felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulag- og samgönguráði telja orðið löngu tímabært að bæta umferðaröryggi á gatnamótum Hallsvegar og Víkurvegar. Þar eru ekki sérmerktar sebragangbrautir né gönguljós og því bráðnauðsynlegt að umferðaröryggi verði bætt þar hið fyrsta.

    Fylgigögn

  17. Laugavegur sem göngugata, umsögn um fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins í borgarráði         Mál nr. US200195

    Lögð fram fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins af fundi borgarráðs dags. 20. febrúar 2020. Einnig er lögð fram umsögn Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 28. maí 2020.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta svar er alger þoka. Því var ekki svarað hvernig umferð verður háttað þegar og ef Laugaveginum verði lokað frá Hlemmi. Verði það gert skapast mikið umferðaröngþveiti sem á eftir að leysa vegna aðkomu og frákeyrslu Störnuports. Sjá má á svarinu að ekki hefur verið hugsað út í þessa hluti.

    Fylgigögn

  18. Aðgengi eldri borgara um göngugötur, Umsögn um fyrirspurn Flokks fólksins         Mál nr. US200196

    Lögð fram fyrirspurn Flokks fólksins af fundi skipulags- og samgönguráðs, dags. 15. janúar 2020 er varðar aðgengi eldri borgara um göngugötur. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 20. maí 2020.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um aðgengi fatlaðra um göngugötur sbr. 10. gr. 2019 nr.77 25. júní í nýjum umferðarlögum og hvort borgaryfirvöld vilji ganga enn þá lengra en lagasetningin segir til og veita eldri borgurum sem erfitt eiga með gang og hreyfingar sama aðgengi og fötluðum er veitt í þessum lögum. Einnig kemur fram að sviðið hafi þann 3. apríl sl. sendi umhverfis- og skipulagssvið minnisblað til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, „þar sem lýst var yfir áhyggjum af framkvæmd undanþáguákvæðis 1. mgr. 10. gr. laganna. Undanþágan felur í raun í sér að stórum hópi fólks, þ.e. um 8.000 handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða, er heimilað að keyra um göngugötur með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á öryggi annarra vegfarenda.“ Vissulega getur Reykjavíkurborg sem veghaldari séð til þess að aldraðir hafi gott aðgengi þótt ekki sé kveðið á um það sérstaklega í lögunum. Af þessu má sjá viðhorf skipulagsyfirvalda til aðgengismála fatlaðra og aldraðra. Varla eru áhyggjur af því að 8000 handhöfum stæðiskorta mæti allir í bæinn íeinu og aki á göngugötum. Vissulega getur Reykjavíkurborg sem veghaldari séð til þess að aldraðir hafi gott aðgengi þótt ekki sé kveðið á um það sérstaklega í lögunum. 

    (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  19. Grensásvegur 1, kæra 40/2020     (01.460.0)    Mál nr. SN200330

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 26. maí 2020 ásamt kæru dags. 26. maí 2020 þar sem kærð er samþykkt borgarráðs frá 12. mars 2020 á breytingu á deiliskipulagi "Skeifan-Fenin" vegna lóðarinnar nr. 1 við Grensásveg.

    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu sviðsstjóra.

  20. Langholtsvegur 136, kæra 35/2020, umsögn     (01.441)    Mál nr. SN200298

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála dags. 11. maí 2020 ásamt kæru dags. 8. maí 2020 þar sem kærð er útgáfa byggingarleyfis dags. 29. apríl 2020 um byggingu bílskúrs og svala á fasteigninni Langholtsvegur 136. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 27. mars 2020.

  21. Blesugróf 34, kæra 2/2020, umsögn, úrskurður     (01.885.5)    Mál nr. SN200046

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 17. janúar 2020 ásamt kæru dags. s.d. þar sem kærð er samþykkt borgarráðs frá 14. nóvember 2019 á breytingu á deiliskipulagi Blesugrófar vegna lóðarinnar nr. 34 við Blesugróf. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 13. febrúar 2020. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 28. maí 2020. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 14. nóvember 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Blesugrófar 34.

  22. Furugerði 23, kæra 11/2020, umsögn, úrskurður     (01.807.4)    Mál nr. SN200119

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 17. febrúar 2020 ásamt kæru dags. 16. febrúar 2020 þar sem kærð er breyting á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 23 við Furugerði sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 22. janúar 2020. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 12. mars 2020 og minnisblað deildarstjóra aðalskipulags dags. 2. apríl 2020. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 20. maí 2020. Úrskurðarorð: Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

  23. Furugerði 23, kæra 12/2020, umsögn, úrskurður     (01.807.4)    Mál nr. SN200120

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 17. febrúar 2020 ásamt kæru dags. 16. febrúar 2020 þar sem kærð er breyting á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 23 við Furugerði sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 22. janúar 2020. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 12. mars 2020 og minnisblað deildarstjóra aðalskipulags dags. 2. apríl 2020. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 20. maí 2020. Úrskurðarorð: Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

  24. Blesugróf 34, kæra 134/2019, umsögn, úrskurður     (01.885.5)    Mál nr. SN200039

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 15. janúar 2020 ásamt kæru dags. 27. desember 2019 þar sem kærð er samþykkt borgarráðs frá 14. nóvember 2019 á breytingu á deiliskipulagi Blesugrófar vegna lóðarinnar nr. 34 við Blesugróf. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 13. febrúar 2020. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 28. maí 2020. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 14. nóvember 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Blesugrófar 14.

  25. Tangabryggja 13, kæra 54/2019, umsögn, úrskurður     (04.023.1)    Mál nr. SN190439

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 8. júlí 2019 ásamt kæru dags. 1. júlí 2019 þar sem kærð er útgáfa byggingarfulltrúa Reykjavíkur á lokaúttekt vegna Tangabryggju 13 og 15, útgefin þann 21. júní 2019. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 25. október 2019. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 28. maí 2020. Úrskurðarorð: Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 21. júní 2019 um að gefa út vottorð um lokaúttekt vegna Tangabryggju 13-15.

  26. Yfirlit yfir verkefni innkaupaskrifstofu Umhverfis- og skipulagssviðs, mars og apríl 2020         Mál nr. US200172

    Lagt fram yfirlit yfir verkefni innkaupaskrifstofu f.h. Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, fyrir mars og apríl 2020.

    Fylgigögn

  27. Elliðaárdalur, deiliskipulag     (04.2)    Mál nr. SN190373

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 6. mars 2020 vegna samþykktar borgarstjórnar frá 3. mars 2020 á 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. febrúar 2020 um auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Elliðaárdal.

    Fylgigögn

  28. Færsla Hringbrautar, Skógarhlíð, breyting á deiliskipulagi vegna smáhýsa         Mál nr. SN190658

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 14. maí 2020 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Færslu Hringbrautar vegna afmörkunar nýrrar lóðar fyrir smáhýsi við Skógarhlíð.

    Fylgigögn

  29. Ártúnshöfði, austurhluti, breyting á deiliskipulagi vegna smáhýsa     (04.071)    Mál nr. SN200134

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 12. mars 2020 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða-Eystri.

    Fylgigögn

  30. Borgartúnsreitur Vestur 1.216, Guðrúnartún, breyting á deiliskipulagi vegna smáhýsa         Mál nr. SN190657

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 7. maí 2020 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits vestur, reitur 1.216, vegna afmörkunar nýrrar lóðar fyrir smáhýsi, Guðrúnartún.

    Fylgigögn

  31. Suður Mjódd, breyting á deiliskipulagi lóðar nr. 12 við Skógarsel     (04.91)    Mál nr. SN200204

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 7. maí 2020 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Suður Mjóddar vegna lóðarinnar nr. 12 við Skógarsel, íþróttasvæði ÍR.

    Fylgigögn

  32. Frakkastígur - Skúlagata, breyting á deiliskipulagi     (01.15)    Mál nr. SN200208

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 7. maí 2020 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Frakkastíg - Skúlagötu, varðandi fyrirhugaða nýbyggingu við Frakkastíg 1.

    Fylgigögn

  33. Bústaðavegur 151-153, breyting á deiliskipulagi     (01.826.1)    Mál nr. SN200074

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 7. maí 2020 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Bústaðavegar 151-153.

    Fylgigögn

  34. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um leigubílasstarfsemi, umsögn         Mál nr. US200031

    1. Á fundi skipulags- og samgönguráðs þann 25. september s.l. var samþykkt að öllum aðilum í leigubílastarfsemi yrði heimilt að leggja á bílastæðum í borgarlandinu sem merkt eru fyrir leigubíla en hafa hingað til haft ákveðnar leigubílastöðvar haft þau til afnota. Hvers vegna er þess krafist að sérmerkingar á umræddum stæðum verði fjarlægðar fyrir 17. febrúar n.k. þegar í gildi er leyfi til 24. júní 2020? 2. Hvers vegna er aðilum ekki veittur eðlilegur andmælaréttur sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993? 3. Hvers vegna stendur Reykjavíkurborg í bréfaskriftum við aðila og krefur þá um gögn sem sýna fram á rétt aðila eða heimildir þeirra til atvinnureksturs í stað þess að afla þessara gagna í sínu gagnasafni? 4. Er ekki verið að snúa sönnunarbirgði við í þessu máli? 5. Boðuð er ný gjaldtaka ef og þegar borgin yfirtaki umrædd stæði og skal hún taka mið af skráðri losun gróðurhúsalofttegunda viðkomandi leigubíls. Hvar má finna í lögum heimild fyrir þessari gjaldtöku? 6. Viðurkennir Reykjavíkurborg að leigubílar eru hluti af almenningssamgöngum? 7. Býður Reykjavíkurborg leigubílaakstur til eigin nota út? 8. Skiptir Reykjavíkurborg við allar leigubílastöðvar sem starfræktar eru í borginni? 9. Er Reykjavíkurborg í reikningsviðskiptum við leigubílastöðvar?

    Frestað.

  35. Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um ruslastampa, umsögn (USK2020040043)         Mál nr. US200107

    Lögð fram fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins af fundi skipulags- og samgönguráðs, dags. 22. apríl 2020, er varpar losun ruslastampa í borgarlandinu. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu reksturs og umhirðu borgarlands, dags. 12. maí 2020.

    Fylgigögn

  36. Tillaga Sjálfstæðisflokksins, sem varðar gönguþverun yfir Hringbraut (USK2020020038)         Mál nr. US200041

    Lagt er til að umhverfis- og skipulagssvið, í samstarfi við Vegagerðina, vinni tillögur að öruggum gönguþverunum yfir Hringbraut. Slysatíðni er mikil á Hringbraut og fjöldi barna þverar götuna daglega á leið til skóla, íþrótta og tómstunda. Gera þarf viðeigandi breytingar á umhverfi Hringbrautar svo tryggt verði raunverulegt öryggi með réttum staðsetningum, götugögnum og búnaði. Skapa þarf öryggistilfinningu og jákvæða hegðun þar sem notendur lesa umhverfið og hætturnar rétt og bera virðingu hver fyrir öðrum. Tillögurnar verði unnar með hliðsjón af skýrslu um umferðaröryggi í Vesturbæ (febrúar 2016), og að höfðu samráði við íbúaráð og íbúasamtök Vesturbæjar.

    Frestað.

  37. Áheyrnarfulltrúið Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200151

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um fjölda stæða og sleppistæða við leikskóla og grunnskóla borgarinnar og hvað mörg eru yfirbyggð. Í ljósi þess að borgarmeirihlutinn er að fækka stæðum við einstaka leikskóla í ákveðnu deiliskipulagi er vísað í Reglur um fjölda bílastæða í Reykjavík. Í þeim segir m.a. að gera eigi ráð fyrir 0,2 - 0,5 bílastæði á starf, og gera þarf ráð fyrir mun fleirum stæðum eða sleppistæðum við leikskóla og lægri deildir grunnskóla þar sem meiri líkur eru á að börnum í neðri deildum er skutlað í skólann. Mælt er með því að helmingur stæða sé yfirbyggð. Fjöldi stæða skal vera 0,4 stæði/starfsmann og 20 stæði/100 börn. Við Grunnskóla er stæði fyrir starfsmenn plús sleppistæði allt að 60 á 100 nemendur. Fulltrúa Flokks fólksins hefur borist ábendingar frá foreldrum um að stæði fyrir framan suma leikskóla eru of fá og stundum myndist vandræðaástand á álagstímum. 

    Frestað.

  38. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200158

    Flokkur fólksins fýsir að fá upplýsingar um hvort það sé reglulega borinn saman kostnaður við að nota sterk steinefni t.d. frá Noregi eða veikari íslenska steinablöndu í malbik í Reykjavík? Það er mikilvægt að gæði malbiks séu ávallt þau bestu og ef til vill ætti víðar að notast við sterkari gerð steinefnis í malbikið það sem flutt er inn frá Noregi. Venjulega er notast við sterkara malbik aðeins á mestu umferðargötunum eftir því sem fram kemur í kynningu. Nota ætti sterkara malbikið miklu víðar. Þá verður minna um slit og auknar líkur eru á að dregið verði úr svifryksmengun af völdum slits.

    Frestað.

  39. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200159

    Þann 15. maí sl. var tekið fyrir framkvæmdaleyfi fyrir Bústaðaveg 151-153. Framkvæmdaleyfið veitir heimildir fyrir m.a. byggingu undirganga fyrir gangandi og hjólandi umferð undir Bústaðaveg, gerð hringtorgs á Bústaðaveg, hækkun Bústaðavegar, gerð nýrrar götu frá Bústaðavegi til norðurs vestan við Sprengisand og hesthús, gerð göngu- og hjólreiðastígs frá Miklubraut meðfram rampa að Reykjanesbraut, gerð tengistíga o.fl. 1. Hvað kostar þessi framkvæmd samkvæmt kostnaðaráætlun tæmandi talið? 2. Er búið að kynna þessa framkvæmd fyrir íbúum hverfisins? 3. Er búið að kynna þessa framkvæmd fyrir íbúaráði hverfisins? 4. Hvenær er áætlað að framkvæmdir hefjast? 5. Hvenær er gert ráð fyrir verklokum? 6. Á að bjóða verkið út? 7. Er búið að tilkynna ríkinu/Vegagerðinni um framkvæmdirnar vegna mikillar hættu á að þær eyðileggi/girði fyrir möguleika á uppbyggingu mislægra gatnamóta Bústaðavegar/Reykjanessbrautar? 8. Er þessi framkvæmd hluti af samgöngusáttmála ríkisins við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu?

    Frestað.

  40. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200160

    1. Er búið að grenndarkynna þær framkvæmdir sem nú standa yfir í Gufunesi fyrir íbúum Grafarvogs? 2. Er búið að taka framkvæmdirnar fyrir í íbúaráði Grafarvogs, áður hverfisráði Grafarvogs? 3. Hvað er áætlað að koma eigi fyrir mörgum húsum fyrir heimilislausa á þessu svæði sem er bæði innan deiliskipulags og utan deiliskipulags og er í veghelgunarsvæði Sundabrautar?

    Frestað.

  41. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200161

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur tekið eftir því að skipulagsyfirvöld skipta mikið við Eflu, verkfræðistofu. Hér er um að ræða milljónir árlega. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort öll þessi verk hafi verið boðin út? Athuga ber að ekki þarf að ná viðmiði um útboðsreglur innkauparáðs til að geta boðið verk út. Eina sem ávallt ber að hafa í huga er að fara vel með fé borgarbúa. Eins veltir fulltrúi Flokks fólksins því fyrir sér hvort allur sá aragrúi af hámenntuðu starfsfólki borgarinnar geti ekki sinnt einhverjum af þeim verkum sem Efla fær inn á sitt borð? Til hvers er að ráða starfsfólk, hámenntað og fært í flestan sjó ef það fær svo ekki að nýta færni sína vegna þess að verkefni á þeirra sviði eru boðin út? Fyrir þá sem ekki vita og lesa fundargerð skipulags- og samgönguráðs þá er Efla alhliða verkfræði- og ráðgjafarfyrirtæki sem veitir fjölbreytta þjónustu á öllum sviðum verkfræði, tækni og tengdum greinum. En þetta er einmitt lýsing á starfsgetu og færni margra sérfræðinga á skipulagssviði sem gætu án efa sinnt fjölmörgum verkum sem Eflu er falið.

    Frestað.

  42. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200163

    Óskað er eftir að samgöngu- og skipulagsráð fái bréf frá hönnuði dags. 14. apríl. 2020 fylgir erindi þess efnis að sótt er um leyfi til að breyta notkun, skráðri stærð og útliti Náðhússins á lóð nr. 100 við Nauthólsveg/Bragginn. 

    Frestað.

  43. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200164

    Fyrirspurn um Nauthólsveg 100/Braggann. Verið er að sækja um leyfi til að breyta notkun, skráðri stærð og útliti Náðhússins á Nauthólsvegi 100/Bragginn. Reykjavíkurborg á byggingarnar á Nauthólsvegi 100 og búið er að gera upp Braggann fyrir um hálfan milljarð. Búið er að skrifa 47 milljónir á náðhúsið en það stendur enn fokhelt. 1. Hver borgar þessar breytingar og hver er fyrirhuguð notkun á húsinu? 2. Ef HR borgar breytingarnar stenst það þá framleigusamning Reykjavíkur til HR? 3. Hvað er áætlað að þessar breytingar kosti tæmandi talið? 4. Hvað borgar HR í leigu fyrir allar húsaþyrpingarnar á mánuði til Reykjavíkur? 

    Frestað.

  44. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200178

    Það hefur verið mikil óánægja með hvernig meirihlutinn hefur gengið fram í að loka ákveðnum götum fyrir umferð í miðbænum. Nú er liðið á annað ár frá því að það kom í ljós að lokun umferðar hafði verulega slæm áhrif á verslun í miðbænum. Heimsóknum Íslendinga sem búa annars staðar í miðbænum hefur snarfækkað. Framkvæmdir og breytingar á akstursstefnu Laugavegar settu strik í reikninginn. Á meðan ferðamannastraumur var mikill þrifust barir, veitingastaðir og minjagripi vel en verslanir sem höfðuðu meira til landans fundu áþreifanlega fyrir vaxandi áhugaleysi á komum í miðbæinn. Einar þrjár kannanir hafa verið gerðar og allar sýna þær sama mynstur. Spurningar voru m.a. hvort viðkomandi var hlynntur göngugötum og hvort hann væri minna eða meira líklegur að heimsækja miðbæinn eftir að loka væri fyrir umferð. Niðurstöður eru skýrara. Fólki líkar ekki þessar breytingar. Í framhaldinu vill fulltrúi Flokks fólksins leggja fram fyrirspurnir: 1. Hefur verið gerð rannsókn á því hvaða áhrif lokun Laugavegarins hefur á umferð um íbúagöturnar í kring, Grettisgötu, Njálsgötu og Bergþórugötu? 2. Hefur umferð um þessar götur verið mæld? 3. Liggja fyrir einhver töluleg gögn sem styðja þá fullyrðingu um að mannlíf og verslun aukist með fleiri göngugötum?

    Frestað.

  45. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200180

    Fulltrúi Flokks fólks leggur til að meirihlutinn endurskoði þéttingarstefnu sína með það í huga að hlífa grænum svæðum, skólalóðum og útivistarsvæðum. Hér er aftur staðfest, og nú í ályktun íbúasamtaka í vesturhluta Reykjavíkur, hvernig samráð er hunsað. Fólki er boðið upp á að koma með tillögur og athugasemdir sem síðan er varla litið á. Í ályktuninni er lýst áhyggjum af hvernig þéttingastefna meirihlutans er farin að ganga á græn svæði borgarinnar. Segir í ályktuninni að "íbúar hafi ítrekað bent á þessa þróun í gegnum athugasemdir sínar við deiliskipulagsvinnu borgarinnar. Málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga ber þess merkis að vera eingöngu formlegs eðlis þar sem íbúum gefst í reynd ekki tækifæri til að hafa raunveruleg áhrif. Réttur til athugasemda er lítils virði ef einungis er tekið mark á athugasemdum frá opinberum aðilum en látið hjá líða að taka mark á athugasemdum íbúa. Samráðsleysið við borgarbúa sem ítrekað benda á hvernig auka megi gæði almenningsrýma er áberandi." Svo virðist sem engin takmörk séu þegar þétta á byggð. Ofuráhersla á þéttingu byggðar má aldrei vera gerð á kostnað grænna svæða í borginni.

    Frestað.

  46. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200183

    Kynnt hefur verið að borgarlína eigi að liggja í gegnum Breiðhöfða í Reykjavík. 1. Hvenær er áætlað að deiliskipuleggja þetta svæði? 2. Er búið að ræða við rekstraraðila á þessu svæði um fyrirhugaðar breytingar? 3. Er Reykjavíkurborg búin að skipuleggja nýjar lóðir fyrir þá aðila sem reka bílakjarnann við Breiðhöfða og sambærilega starfssemi, ef þeir þurfa að víkja vegna borgarlínu? 4. Er Reykjavíkurborg búin að bjóða þessum aðilum nýjar lóðir fyrir rekstur sinn?

    Frestað.

  47. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200186

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að íbúaráð Grafarvogs verði fengið til að gefa umsögn vegna byggingu fjögurra smáhýsa í Gufunesi. Mikilvægt er að íbúaráð Grafarvogs fái að senda inn umsögn vegna smáhýsanna og í raun hefði í upphafi átt að vísa málinu til umsagnar íbúaráðsins þó svo að samkvæmt skipulagslögum þurfi ekki að grenndarkynna það. Íbúaráð Grafarvogs hefur þegar fjallað um smáhýsi við Stórhöfða milli húsa nr. 17 og 21.

    Frestað.

  48. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,         Mál nr. US200187

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um kostnað við uppsetningu og frágang smáhýsa við Gufunesveg, meðal annars vegna lagningar hitalagna, rafmagns og veitna. Í ljósi þess að til greina kemur að staðsetning smáhýsanna sé í eða miklu návígi við vegstæði Sundabrautar, og þau gæti því þurft að fjarlægja í náinni framtíð, er einnig óskað eftir mati á ætluðum kostnaði við að fjarlægja húsin og innviði þeim tengdum.

    Frestað.

  49. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn

    Mál nr. US200197

    Fram hefur komið í drögum á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er varðar skipulag byggðar í Skerjafirði að umfang landfyllinga er minnkað. Samt eru forsendur landfyllingar fyrir annan áfanga uppbyggingar á svæðinu eftir því sem fram kemur í drögum. Fyrir liggur að flugvöllurinn verður á þessum stað næstu 15 árin samkvæmt því sem borgarstjóri segir. Fulltrúi Flokks fólksins spyr eftirfarandi: Er ekki ástæða til að fresta öllum byggingaráformum í nágrenni flugvallarins þar til hann fer? Þá verður hægt að hanna byggingar án takmarkana á hæð, öryggissvæðis og margt fleira. Við brotthvarf flugvallarins verður einfaldlega allt annað umhverfi í boði, og lítil ef nokkur þörf verður þá á landfyllingum. 

    Frestað.

  50. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu

    Mál nr. US200199

    Lagt er til að frítt verði í bílastæðishús og í öll bílastæði í sumar (frá 10. júní - 15. september) í miðbænum til að laða fólk að því svæði. Er þessi tillaga liður í því kynningarátaki sem farið er af stað, sem kostar útsvarsgreiðendur 50 milljónir og gengur út á að auðga miðbæinn lífi. 

    Frestað.

  51. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn

    Mál nr. US200201

    Vegna gríðarlegrar uppbyggingar í Vatnsmýrinni er ljóst að rennsli til vatnasvæðis tjarnarinnar hefur minnkað svo að það ógnar fuglalífi. Skerjafjörðurinn er uppeldisstöð bæði sjávar og fuglalífs ásamt öðrum mikilvægum lífverum í firðinum sjálfum. Því er mikilvægt að fyrirhuguð byggð í Skerjafirði fari í umhverfismat áður en hreyft verður við svæðinu. 1. Verður það gert? 2. Mikil mengun hefur fundist í jarðvegi á þessu svæði, hvaða eiturefni fundust tæmandi talið? 3. Hvað er áætlað að kostnaðurinn verði við það að fjarlægja þennan mengaða jarðveg? 4. Hvað spannar mengunin yfir stórt svæði? 5. Hvert á að flytja þennan mengaða jarðveg?

    Frestað.

  52. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn

    Mál nr. US200200

    Borgarstjóri hefur kynnt að Reykjavíkurborg fari í rekstur hafnarstrætó. 1. Þarf ekki að lögskrá áhöfn á bátinn þ.e. skipstjóra, vélstjóra og stýrimann? 2. Hvernig verður öryggismálum háttað? 3. Hverjar eru stoppistöðvar hafnarstrætósins? 4. Hvenær er áætlað að strætóinn fari að ganga á milli hafna?

    Frestað.

  53. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu

    Mál nr. US200202

    Lagt er til að opnað verði fyrir umferð um þær akreinar við Lækjargötu og Vonarstræti sem lokaðar hafa verið vegna framkvæmda. 

    Með tillögunni fylgir greinargerð.

    Frestað.

    Fylgigögn

  54. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn

    Mál nr. US200203

    Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvað séu mörg verslunarrými við göngugötur í miðbænum, sem losnað hafa sl. eitt og hálft ár. Spurt er um rými sem hafa losnað við bæði varanlegar göngugötur og tímabundnar? Spurt er vegna þess að fjölmargir rekstraraðilar sem ráku verslanir við þessar götur hafa flutt verslanir sínar annað eða lagt niður rekstur sinn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhuga á að vita hvað mörg rými þar sem áður voru verslanir á þessu tímabili standa nú auð.

    Frestað.

    -    Kl. 13:20 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundi.

    -    Kl. 13:26 víkur Kolbrún Baldursdóttir af fundi.

Fundi slitið klukkan 13:32

Pawel Bartoszek Hjálmar Sveinsson

Marta Guðjónsdóttir