Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 74

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2020, miðvikudaginn 27. maí kl. 12:06, var haldinn 74. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð Ráðssal.

Viðstaddir voru: Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Pawel Bartoszek, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir.

 

Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Þorsteinn Rúnar Hermannsson, Jóhanna Guðjónsdóttir og Gréta Mar Jósepsdóttir.

 

Fundarritari er Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

 

 

 

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

  1. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200179

    Flokkur fólksins leggur til  sem tilraunaverkefni að rekstraraðilar við þær götur sem nú hafa verið gerðar að göngugötum varanlega eða tímabundið fá að ráða sjálfir hvort götu sé lokað fyrir umferð eða ekki.  Skiptar skoðanir eru á þessum lokunum og fjöldinn allur er alfarið á móti þeim. Það hafa kannanir sýnt svo ekki verði um villst. Til að ná lendingu til bráðabirgðar í það minnsta, væri hægt að prófa leið eins og þessa. Á sólardegi geta rekstraraðilar ákveðið að hafa opið að hluta til eða allan daginn og á öðrum dögum geta bílar ekið göturnar.  

    Vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tillagan Flokks fólksins að rekstraraðilar við þær götur sem nú hafa verið gerðar að göngugötum varanlega eða tímabundið, fái að ráða sjálfir hvort götu sé lokað fyrir umferð eða ekki hefur verið vísað frá af skipulagsyfirvöldum. Sjálfstæðismenn sátu hjá. Þetta eru kaldar kveðjur frá meirihlutanum til rekstraraðila Er þeim ekki treyst til að fá í skamman tíma að stjórna því sjálfir hvort hentar að hafa götur opnar eða lokaðar? Málið er alvarlegt, hér er valtað yfir fólk, fólk sem á hagsmuna að gæta og fram hefur margs sinnis komið fram í könnunum að hér er gengið gegn vilja meirihluta borgarbúa og rekstraraðila. Verslun hefur hrunið í kjölfar lokana nema veitingastaðir og minjagripaverslanir þ.e. þegar ferðamenn voru til staðar.

  2. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200181

    Lagt er til að fá álit/umsögn frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og almannavörnum höfuðborgarsvæðisins hvað varðar þá ákvörðun að loka Laugaveginum frá Frakkastíg að Lækjargötu. 

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þessari tillögu var vísað frá af meirihlutanum. Öryggissjónarmið eru að engu höfð. Það er grafalvarleg staðreynd. Margbúið er að vara borgaryfirvöld við aðgengisleysi þessara aðila í lokunarþráhyggju meirihlutans. Ekki er hlustað á þær raddir en rétt er að geta þess að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri er formaður stjórnar Slökkviliðslins á höfuðborgarsvæðinu.

    (E) Samgöngumál

    Fylgigögn

  3. Sumargötur 2020         Mál nr. US200121

    Lagt fram bréf Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 12. maí 2020, tillaga um sumargötur þ.e. tímabundnar göngugötur í miðborginni frá 5. júní til 1. október.  Bréf til rekstraraðila og athugasemdir þeirra kynntar.

    Samþykkt með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins Eyþór Laxdal Arnalds greiðir atkvæði gegn tillögunni, Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir sitja hjá.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það stefnir í bjart sumar á Laugaveginum fyrir gesti og gangandi. Nú í ár mun göngusvæðið ná alla leið upp að Frakkastíg. Við lestur umsagna hagaðila kemur fram að á hinum nýja kafla milli Klapparstígs og Frakkastíg eru rekstraraðilar sem við telja göngugötur ekki nýtast sér en jafn margir aðilar telja að göngugötur styrki sinn rekstur og eru með hugmyndir um hvernig þeir munu nýta sér þær. Við sendum öllum þeim frábæru aðilum sem reka verslanir, veitingastaði og aðra þjónustu við Laugaveg hlýjar kveðjur og vonumst jafnframt til að sjá troðfullan miðbæ í sumar, með tilheyrandi mannlífi og viðskiptum.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Veruleikafyrring meirihlutans er algjör – það upplýsist vel í þessari bókun. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Það eru ekki góðir stjórnsýsluhættir að senda út bréf og ætlast til að svar berist fáeinum dögum síðar. Vel má skilja ef rekstraraðilum finnist þetta vanvirðing.  Gera hefði átt stuttar tilraunir með ýmis konar útfærslu. Enn á eftir að gera  mælingar á hvort mannlíf og verslun hafi aukist með fleiri göngugötum eins og haldið er fram af meirihlutanum svo hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir. Skoðanakannanir er hægt að hártoga og meirihlutinn túlkar  niðurstöður, sama hvernig þær eru í sína þágu. Vel kann að vera að veitingamenn telji að  göngugötur henti. Komi sól, þá er hægt að sitja úti og leiða má líkum að því að fólk sem ætlar einungis á bari komi jafnvel ekki á bíl eða sé tilbúið að leggja bíl sínum fjær bar/veitingastaðnum sem þeir ætla að dvelja kannski næstu 2 tíma.  Þeir sem fara í verslanir dvelja þar ekki endilega lengi og vilja þ.a.l. ekki þurfa að leggja bíl sínum langt frá verslun. Minjagripaverslanir hafa það vissulega ágætt þegar ferðamenn eru til staðar. Best fer á því að setja það í hendur  rekstraraðila að stýra því hvenær gata er opin eða lokuð . Spurt er aftur  um heimild nýrra umferðalaga en þar segir að fatlað fólk geti ekið  göngugötur og lagt þar Ætlar meirihlutinn að hunsa þetta og að brjóta þar með á fötluðu fólki?

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins Eyþór Laxdal Arnalds leggur fram svohljóðandi bókun:

    Í tillögunni "Sumargötur 2020" er gert ráð fyrir að tvöfalda það svæði göngugatna sem lokað verður fyrir bílaumferð frá síðasta ári. Þetta er gert þrátt fyrir mikla andstöðu rekstaraðila. Þá er ámælisvert hvernig staðið var að samráði þar sem sent var út erindi um málið 18. maí með skilafresti þann 22. maí. í sumum tilfellum fengu rekstraraðilar bréfið sama dag og skilafresturinn rann út. Í umsögnum rekstaraðila er ljóst að margt er aðfinnsluvert varðandi aðkomu og aðgengi. Rekstrarumhverfi í miðborginni hefur versnað mikið og þarf borgin að kappkosta að létta undir með rekstaraðilum og vinna í góðri samvinnu. Þessi vinnubrögð hafa valdið neikvæðri umræðu auk þess sem lokanir gatna hafa minnkað áhuga almennings á að sækja miðborgina heim.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þann 18. maí sl. var send „könnun“/bréf um tilkynningu lokunar Laugavegarins til allra rekstraraðila á þeim stóra kafla sem á að loka. Bréfið barst rekstraraðilum 20. maí, 21. maí var rauður dagur og því sáu margir bréfið ekki fyrr en á skiladegi athugasemda 22. maí. Þetta er fráleit stjórnsýsla. Á fundi skipulags- og samgönguráðs þann 13. maí átti að keyra málið í gegn. Fékk minnihlutanum málinu frestað um viku og sagði ég að ekki væri hægt að keyra valdboð í gegn og fara svo í sýndarsamráð. Á fundinum var því lofað að starfsmenn ráðsins færu og tækju tali hvern og einn rekstraraðila áður en málið kæmi aftur fyrir ráðið 20. maí. Málið var ekki á dagskrá ráðsins þá og var því borið við að ekki hafi unnist tími til að vinna það nægilega vel. Greinilega brast kjarkurinn að hitta rekstraraðila og brugðið á það ráð að senda bréf. Ekkert samtal – ekkert samráð. Nú þegar búið er að rústa miðbænum er boðuð rústabjörgun með peningum upp á 50 milljónir sem eiga að fara í að markaðsetja miðborgina sem eftirtektarverðan og spennandi áfangastað. Ekki hafa komið neinar lausnir hvað varðar öryggismál og aðgengi sjúkrabíla og slökkviliðs að þessu svæði.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Nú hefur meirihlutinn samþykkt að stækka göngugötusvæðið. Bréf var sent til rekstraraðila þann 18.5. og þeir beðnir að svara fyrir 22.5 hvort þeir væru jákvæðir eða neikvæðir að loka Laugavegi frá Frakkastíg og niður að Lækjargötu. Þetta kallar meirihlutinn að hafa samráð.  Þetta eru óásættanleg vinnubrögð og ekki í samræmi við góða stjórnsýslu. Þetta heita sýndarvinnubrögð.  Hér er tekin ákvörðun sem ekki er byggð á upplýsingum. Mikilvægt er að gera  einhverja lágmarks rannsóknarvinnu t.d. mæla umferð, kanna hvaða áhrif lokun Laugavegarins hefur haft á  umferð um íbúagöturnar í kring. Gera þarf alvöru mælingar á hvort mannlíf og verslun hafi aukist með fleiri göngugötum eins og haldið er fram. Rekstraraðilar hafa sent margar athugasemdir. Þeir eru uggandi yfir að vegfarendum muni fækka enn meira við þessa breytingu. Bent hefur verið á að bæta megi ástandið með því að hafa t.d. frítt í bílastæðahús um helgar eins og Flokkur fólksins hefur lagt til. Ekki verður ferðamönnum fyrir að fara á árinu að heitið geti svo nægt er nú plássið. Göngugötur laða ekki að fólk nema úti sé sól og blíða. Niðurstöður rannsókna eru afgerandi. Meirihluti svarenda eru ekki hlynntur göngugötum og munu forðast miðborginni verði um frekari göngugötur að ræða. Miðbær Reykjavíkur er orðinn að hálfgerðum draugabæ. 

    (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  4. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200177

    Nýlega hafa götur verið endurnýjaðar og þörf er víða á slíkum framkvæmdum. Áætlanir hafa oft alls ekki staðist. Tímamörk hafa heldur ekki staðist og óvæntir og kostnaðarliðir bæst við.  Svo virðist að það tengist oft gömlu lagnakerfi. Flokkur fólksins vill spyrja  að hvaða marki kostnaðaráætlanir hafi staðist á þessu kjörtímabili og hvaða þættir valda mestum frávikum?

    Frestað.

  5. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200178

    Það hefur verið mikil óánægja með hvernig meirihlutinn hefur gengið fram í að loka ákveðnum götum fyrir umferð í miðbænum. Nú er liðið á annað ár frá því að það kom í ljós að lokun umferðar hafði verulega slæm áhrif á verslun í miðbænum. Heimsóknum Íslendinga sem búa annars staðar í miðbænum hefur snarfækkað. Framkvæmdir og breytingar á aksturstefnu Laugavegar settu strik í reikninginn. Á meðan ferðamannastraumur var mikill þrifust barir, veitingastaðir og minjagripi vel en verslanir sem höfðuðu meira til landans fundu áþreifanlega fyrir vaxandi áhugaleysi á komum í miðbæinn. Einar þrjár kannanir hafa verið gerðar og allar sýna þær sama mynstur. Spurningar voru m.a. hvort viðkomandi var hlynntur göngugötum og hvort hann væri minna eða meira líklegur að heimsækja miðbæinn eftir að loka væri fyrir umferð.  Niðurstöður eru skýrara. Fólki líkar ekki þessar breytingar. Í framhaldinu vill fulltrúi Flokks fólksins leggja fram fyrirspurnir: 1. Hefur verið gerð rannsókn á því hvaða áhrif lokun Laugavegarins hefur á  umferð um íbúagöturnar í kring, Grettisgötu, Njálsgötu og Bergþórugötu? 2. Hefur umferð um þessar götur verið mæld? 3. Liggja fyrir einhver töluleg gögn sem styðja þá fullyrðingu um að mannlíf og verslun aukist með fleiri göngugötum?

    Frestað.

  6. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200180

    Fulltrúi Flokks fólks leggur til að meirihlutinn endurskoði þéttingarstefnu sína með það í huga að hlífa grænum svæðum,  skólalóðum og útivistarsvæðum. Hér er aftur staðfest, og nú í ályktun íbúasamtaka í vesturhluta Reykjavíkur,   hvernig samráð er hunsað. Fólki er boðið upp á að koma með tillögur og athugasemdir sem síðan er varla litið á. Í ályktuninni  er lýst áhyggjum af hvernig þéttingastefna meirihlutans er farin að ganga á græn svæði borgarinnar. Segir í ályktuninni að  "íbúar hafi ítrekað bent á þessa þróun í gegnum athugasemdir sínar við deiliskipulagsvinnu borgarinnar. Málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga ber þess merkis að vera eingöngu formlegs eðlis þar sem íbúum gefst í reynd ekki tækifæri til að hafa raunveruleg áhrif. Réttur til athugasemda er lítils virði ef einungis er tekið mark á athugasemdum frá opinberum aðilum en látið hjá líða að taka mark á athugasemdum íbúa. Samráðsleysið við borgarbúa sem ítrekað benda á hvernig auka megi gæði almenningsrýma er áberandi." Svo virðist sem engin takmörk séu þegar þétta á byggð. Ofuráhersla á þéttingu byggðar má aldrei vera gerð á kostnað grænna svæða í borginni.

    Frestað.

  7. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200182

    Frágangi við vitann við Sæbraut var lokið á árinu 2019 og var áætlaður kostnaður við hann í upphafi 50 milljónir, sem síðan var breytt í 75 milljónir. Endanlegur kostnaður varð hins vegar 175 milljónir. Nú bar það við að í yfirliti um innkaup Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar í eignasjóði yfir 1. mkr. fyrir tímabilið janúar - desember 2019 sem lagt hefur verið fram kemur fram greiddar hafi verið rúmar 30 milljónir út á liðinn gatnamál í miðborginni vegna vitans við Sæbraut. 1. Eru þetta greiðslur sem ekki var gert ráð fyrir í endanlegum kostnaði sem kynntur hefur verið? 2. Óskað er eftir yfirliti yfir alla sem skilað hafa reikningi inn vegna viðfangsefnisins "vitinn við Sæbraut" og sundurliðun á verkþáttum. 3. Einnig er óskað eftir útboðsgögnum ef einhver eru vegna þessa verkefnis.

    Frestað.

  8. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200183

    Kynnt hefur verið að borgarlína eigi að liggja í gegnum Breiðhöfða í Reykjavík.
    1. Hvenær er áætlað að deiliskipuleggja þetta svæði? 2. Er búið að ræða við rekstraraðila á þessu svæði um fyrirhugaðar breytingar? 3. Er Reykjavíkurborg búin að skipuleggja nýjar lóðir fyrir þá aðila sem reka bílakjarnann við Breiðhöfða og sambærilega starfssemi, ef þeir þurfa að víkja vegna borgarlínu? 4. Er Reykjavíkurborg búin að bjóða þessum aðilum nýjar lóðir fyrir rekstur sinn?

    Frestað.

  9. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200184

    Í yfirliti um innkaup Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar í eignasjóði yfir 1. mkr. fyrir tímabilið janúar - desember 2019 kemur fram að Smith og Norland hf. hafi fengið greiddar tæpar 104 milljónir á árinu vegna ýmissa kostnaðarliða er snúa að umferðarljósum. 1. Var farið í útboð vegna þessara verkþátta? 2. Ef ekki - hvers vegna var það ekki gert? 3. Eru samningar til á milli fyrirtækisins og Reykjavíkurborgar um þessa verkþætti?

    Frestað.

  10. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200185

    Miklar framkvæmdir standa nú yfir í Álfalandi, á lóðinni gengt/á móti Álfalandi 6 þar sem Reykjavíkurborg rekur skammtímavistun. 1. Hvað er verið að byggja upp þarna? 2. Eru þessar framkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar, B-hluta fyrirtækja borgarinnar eða einkaaðila? 3. Hvenær var veitt leyfi fyrir þessum framkvæmdum? 4. Fóru framkvæmdirnar í grenndarkynningu? 5. Voru framkvæmdirnar lagðar fyrir íbúaráðið?

    Frestað.

  11. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200186

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að íbúaráð Grafarvogs verði fengið til að gefa umsögn vegna byggingu fjögurra smáhýsa í Gufunesi. Mikilvægt er að íbúaráð Grafarvogs fái að senda inn umsögn vegna smáhýsanna og í raun hefði í upphafi átt að vísa málinu til umsagnar íbúaráðsins þó svo að samkvæmt skipulagslögum þurfi ekki að grendarkynna það. Íbúaráð Grafarvogs hefur þegar fjallað um smáhýsi við Stórhöfða milli húsa nr. 17 og 21.

    Frestað.

  12. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200187

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska eftir upplýsingum um kostnað við uppsetningu og frágang smáhýsa við Gufunesveg, meðal annars vegna lagningar hitalagna, rafmagns og veitna. Í ljósi þess að til greina kemur að staðsetning smáhýsanna sé í eða miklu návígi við vegstæði Sundabrautar, og þau gæti því þurft að fjarlægja í náinni framtíð, er einnig óskað eftir mati á ætluðum kostnaði við að fjarlægja húsin og innviði þeim tengdum.

    Frestað.

    -    Kl. 13:06 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundi. 
    -    Kl. 13:24 víkur Katrín Atladóttir af fundi.

Fundi slitið klukkan 13:29

Pawel Bartoszek Hjálmar Sveinsson

Hildur Björnsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir