Skipulags- og samgönguráð
Ár 2020, miðvikudaginn 20. maí kl. 09:04, var haldinn 73. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð Ráðssal. Viðstaddir voru: Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Pawel Bartoszek, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúarnir Daníel Örn Arnarsson, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Björn Axelsson, Ólöf Örvarsdóttir, Þorsteinn Rúnar Hermannsson, Ágústa Sveinbjörnsdóttir, Jóhanna Guðjónsdóttir og Gréta Mar Jósepsdóttir.
Fundarritari var Erna Hrönn Geirsdóttir.
Þetta gerðist:
-
Samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík, greining á ferðavenjum Mál nr. US200140
Lagt fram bréf skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 18. maí 2020 ásamt minnisblaði Eflu dags. 15. maí 2020 og minnisblaði sérfræðingahóps HR og HÍ dags.
5. apríl 2019 er varðar losun gróðurhúsalofttegunda í ReykjavíkFulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Loftslagsbreytingar af mannavöldum er eitt af stærstu málum samtímans. Til þess að Ísland geti staðið við alþjóðaskuldbindingar sínar líkt og Parísarsamkomulagið er ljóst að setja þarf metnaðarfyllri markmið um breyttar ferðavenjur þar sem hlutdeild einkabílsins getur ekki vaxið lengur. Fyrir liggur greining á gögnum úr ferðavenjukönnun meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins um hvaða breytingar á ferðavenjum þurfi að koma til ef minnka á losun gróðurhúslofttegunda frá umferð bifreiða um 5% á ári. Niðurstöðurnar sýna að draga þarf úr akstri á höfuðborgarsvæðinu um tæplega 190 þús. km. á hverjum virkum degi. Það jafngildir um 6,7 km akstri á hvern íbúa á viku. Meðallengd hverrar bílferðar skv. ferðavenjukönnun er 5,4 km og því má álykta að hver íbúi þyrfti að jafnaði að fækka bílferðum um eina til tvær í hverri viku og ferðast þess í stað með vistvænni samgöngumátum. Ljóst er að rafbílavæðing og aukin sparneytni bifreiða er langt frá því að vera nægjanleg til að mæta markmiðum Parísarsamkomulagsins. Þörf er á öðrum aðgerðum sem draga úr akstri til að ná settum markmiðum. Breyta þarf bæði Aðalskipulagi Reykjavíkur og Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til þess skipulag og fjárfesting í innviðum taki mið af því nýja markmiði að minnka akstur um 15%.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ein veigamesta aðgerðin svo minnka megi losun gróðurhúsaloftegunda í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu verður rafbílavæðing. Þróunin hefur verið jákvæð en henni mætti flýta enn frekar með því að gera borgarbúum auðveldara að nálgast innlenda hreina orkugjafa með heimahleðslu. Almenningssamgöngur verða að vera samkeppnishæfur kostur og áfram þarf að styðja við fjölgun þeirra sem kjósa hjólreiðar sem fararmáta. Mikilvægt verður að jafna borgarskipulag og fjölga stórum vinnustöðum austarlega í borginni, svo fleiri borgarbúar geti sótt vinnu nærri heimili sínu. Jafnframt mætti stuðla að aðgengi fyrir fleiri borgarhverfi að rafskutlum, leiguhjólum og öðrum umhverfisvænum fararmátum. Ekki síður gæti aukin fjarvinna og fjarkennsla dregið talsvert úr eknum kílómetrum og fært okkur nær markmiðum Parísarsamkomulagsins. Ávallt þarf að tryggja frelsi og val um fjölbreytta vistvæna samgöngumáta.
Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Loftslagsbreytingar eru stærsta vandamálið sem mannkynið þarf að takast á við og mikilvægt er að lönd heimsins taki höndum saman. Það er ljóst að orkuskipti á bílum duga ekki til að ná markmiðum parísarsáttmálans enda er það ljóst að aðeins lítill hluti Reykvíkinga hefur efni á nýjum rafmagnsbílum. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur áherslu á að mestu skiptir að byggja upp góðar, rafvæddar almenningssamgöngur sem mæta þörfum borgarbúa.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Reykjavíkurborg óskaði eftir að fá greiningu EFLU verkfræðistofu á gögnum úr ferðavenjukönnun meðal íbúa borgarinnar. Efla nefnir reyndar orkuskiptin og rafmagnsbíla í sinni skýrslu en segir að þrátt fyrir að hlutfall rafmagnsbíla eykst þá muni það taka langan tíma að breyta samsetningu bifreiðaflotans og skýrist það af löngum líftíma bíla. Ekkert er minnst á metan bíla. Hraða má orkuskiptum enn meira ef borgaryfirvöld myndu t.d. liðka enn meira um reglur og bjóða frekari ívilnanir. Því fleiri metan- og rafmagnsbílar sem koma á götuna því minni losun og hvað varðar metani, því meira sem það er nýtt því minna er sóað af því. Beinn eða óbeinn stuðningur frá borgaryfirvöldum til að hvetja fólk til að skipta yfir í rafmagn og metan myndi flýta skiptunum. Fólk væri frekar tilbúið til að skipta ef t.d. það gæti verið visst um að metanverðið haldist óbreytt sem nemur líftíma bíls. Bílum er að fjölga og nú eftir að slakað hefur verið á samkomubanni er umferðin orðin jafn þung og fyrir Covid-19. Allir streyma niður í bæ að morgni og úr bænum síðla dags. Engin umferð er á móti. Starfsstöðvar eru flestar miðsvæðis og á meðan ekki næst jafnvægi milli búsetu og vinnustaða þá leysist umferðarvandinn aldrei fyrir alvöru.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er kynntar niðurstöður um að hver íbúi þurfi að minnka bílaferðir sínar um 6,7 km á viku sem þýðir að hver og einn þarf að fækka ferðum sínum um eina eða tvær í hverri viku. Það er hreint með ólíkindum að úttektin nái bara yfir fjölskyldubílinn en ekki Strætó sem hendist galtómur um göturnar frá morgni til kvölds, knúinn áfram af díselolíu. Auðvitað eru vagnar Strætó mengunarvaldurinn í umferðinni í Reykjavík, ekki fjölskyldubíllinn sem er meira og minna að verða rafvæddur. Í bókun meirihlutans kemur fram að breyta þurfi bæði Aðalskipulagi Reykjavíkur og Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til þess skipulag og fjárfesting í innviðum taki mið af því nýja markmiði að minnka akstur um 15%. Við vitum hvað þetta þýðir. Frekari valdbeitingar til þrenginga gatna til að torvelda aðgengi fjölskyldubílsins.
Fylgigögn
-
Nagladekkjatalningar í Reykjavík veturinn 2019-2020, Mál nr. US200154
Kynntar niðurstöður mælinga á hlutfalli bifreiða á nagladekkjum í Reykjavík veturinn 2019-2020.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggja fram svohljóðandi bókun:
Þegar vetur eru langir er mikilvægt að vera á vel útbúnum bílum. Nagladekk eru ein leið til að minnka hemlunarvegalengd í erfiðri færð en vert er að benda á að ónegldir vetrarhjólbarðar og heilsársdekk geta veitt sama umferðaröryggi en hafa þann kost umfram nagladekk að þau slíta malbiki ekki í sama mæli. Kostnaður vegna skemmda á yfirborði gatna sem rekja má til nagladekkja er gríðarlegur. Það malbik sem naglarnir rífa upp er auk þess ein helsta uppspretta lífsógnandi svifryksmengunar á höfuðborgarsvæðinu og því til mikils að vinna að minnka hlutdeild nagladekkja. Borgin hefur ítrekað óskað eftir heimild til gjaldtöku vegna nagladekkja og gæti það verið sterkt tæki. Þangað til er mikilvægt að lögreglan nýti sína sektarheimildir utan nagladekkjatímabilsins.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Kynntar eru niðurstöður mælinga á hlutfalli bifreiða á nagladekkjum í Reykjavík veturinn 2019-2020. Gott hefði verið ef kynning hefði fylgt með í fundargögnum. En horfast þarf í augu við að vetur á Íslandi er oft mjög snjóþungir. Borgarbúar og landinn er mikið á ferðinni, borgarbúar eru e.t.v. upp til hópa á faraldsfæti vetur jafnt sem sumur. Líf og heilsa fólks skiptir aðal máli og staðreyndin er sú að sé ferðalangur að fara t.d. út fyrir borgina yfir hávetur dugar fátt annað en að vera á nagladekkjum. Að nagladekk spæni upp malbiki er ef til vill ofmetið? Sennilega fer það eftir tegund nagla? Gott væri að fá hlutlausa athugun á þessu og niðurstöður í kjölfarið. Leiða má líkur á því að nákvæmlega sami hluti bíla sé á negldum dekkjum í Hvalfjarðargöngum og í Reykjavík. En malbikið í Hvalfjarðargöngum þarf aðeins að endurnýja á um 20 ára fresti, en endingartími malbiks í Reykjavík er mun styttri. Mismunurinn hefur verið skýrður með mismunandi malarsteinum í malbikinu. En Reykjavík hefur ekki nýtt þessa reynslu eftir því sem næst er komist. Negldur dekkjabúnaður hefur bjargað mörgum lífum. Fólk er ekki að leika sér að því að vera á nagladekkjum, bara til að skemma malbik.
-
Hjólreiðaáætlun 2021-2025, stýrihópur Mál nr. US200139
Lagt er fram til staðfestingar erindisbréfi samgöngustjóra varðandi stýrihóp um Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025.
Samþykkt.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það sem sá stýrihópur sem hér um ræðir verður að gera er að huga að reglum á blönduðum stígum. Oft hefur legið við stórslysum á blönduðum stígum. Að leggja stíga, blandaða stíga sérstaklega fylgir ábyrgð að öryggi þeirra sem eiga að nota hann verði sem best tryggt. Setja þarf hámarkshraði hjóla á göngu- og hjólastígum og aðliggjandi gangstéttum til að tryggja öryggi hjólandi og gangandi. Flokkur fólksins bendir jafnframt á að tilefni kann að vera til að auka eftirlit með umferð á blönduðum stígum vegna t.d. mikillar umferðar á rafknúnum vespum, raf-hlaupahjólum og öðrum minni vélknúnum faratækjum. Á sínum tíma var lögð lína þar sem gangandi fengu tvo metra og hjól einn metra. Sú lína er ekki lengur þar sem umferð á stígum hefur aukist mikið. Í hjólreiðaáætlun er markmiðið að aðskilja gangandi og hjólandi umferð frá meginstofnleiðum borgarinnar. Þetta tekur mörg ár. Nú myndast iðulega vandræða- og hættuástand á blönduðum stígum. Fólk er hvatt til að hjóla en aðstæður fyrir hjólandi og gangandi eru bara víða ekki góðar. Þar sem hægt er að hafa línu til að aðskilja gangandi og hjólandi þá ætti hún að vera til staðar. Skipulagsyfirvöld voru of fljót á sér að fræsa línuna í burtu og halda að skilti duga. Sums staðar hefur línan verið látin eyðast.
(A) Skipulagsmál
Fylgigögn
-
Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð Mál nr. SN010070
Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 15. maí 2020.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hvernig má það vera að veitt sé framkvæmdaleyfi á svo stóru máli á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur samkvæmt viðauka 2.4 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar, þann 15. maí sl. án staðfestingar skipulags- og samgönguráðs? Í fundargerðinni stendur: „Bústaðavegur 151-153, framkvæmdaleyfi. Lögð fram umsókn skrifstofu framkvæmda og viðhalds dags. 8. maí 2020 um framkvæmdaleyfi vegna m.a. byggingu undirganga fyrir gangandi og hjólandi umferð undir Bústaðaveg, gerð hringtorgs á Bústaðaveg, hækkun Bústaðavegar, gerð nýrrar götu frá Bústaðavegi til norðurs vestan við Sprengisand og hesthús, gerð göngu- og hjólreiðastígs frá Miklubraut meðfram rampa að Reykjanesbraut, gerð tengistíga o.fl. Einnig er lagt fram teikningasett dags. í maí 2020. Vísað til umsagnar verkefnisstjóra.“ Hér er borgarstjóri og meirihlutinn kominn langt langt fram úr öllu sem eðlilegt getur talist í löggiltu borgarskipulagi. Ekki er gefið upp hvað framkvæmdin kostar, hvenær framkvæmd eigi að hefjast og ljúka og hvort sé búið að kynna framkvæmdina fyrir íbúum svæðisins.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Fulltrúar meirihlutans árétta að ekkert í þeim áformum sem hér hafa verið rædd gengur gegn samgöngusáttmála. Hringtorg við Bústaðaveg brýtur ekki gegn sáttmálanum enda er það hannað í samráði við Vegagerðina. Framkvæmdin er í fullu samræmi við deiliskipulag sem hefur verið samþykkt af skipulags- og samgönguráði og heimild til útboðs sem hefur verið samþykkt af borgarráði. Meirihlutinn fagnar þessar mikilvægu framkvæmd sem er mikilvæg fyrir bæði hjólandi vegfarendur og þá uppbyggingu sem áætluð er við Bústaðarveg.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Heildarsýn á þessar meiriháttar breytingar og röskun svo stórs svæðis var aldrei kynnt fyrir minnihlutanum, einungis einn og einn bútur sem snerist aðallega um göngu- og hjólastíga. Nú fyrst liggur fyrir hversu stórtækar breytingar eru fyrirhugaðar. Undirgöng undir Bústaðaveg, hringtorg á Bústaðavegi, hækkun á Bústaðavegi, ný gata frá Bústaðavegi til norðurs vestan við Sprengisand, hjólastígur frá Miklubraut að Reykjanesbraut, gerð tengistíga og fl. Meirihlutinn stundar blekkingar í skipulagsmálum. Stórkostlegar blekkingar með því að sýna ekki heildar yfirsýn á þeim svæðum sem verið er að breyta.
Fylgigögn
-
Njálsgata 56, breyting á deiliskipulagi (01.190.3) Mál nr. SN180702 140168-2039 James Matthew Fletcher, Njálsgata 56, 101 Reykjavík 460902-2150 K.J. hönnun ehf, Kringlunni 7, 123 Reykjavík
Lögð fram umsókn Kjartans Hafsteins Rafnssonar, dags. 6. október 2018, varðandi breytingu á deiliskipulagi Njálsgötureits, reitur 1.190.3, vegna lóðarinnar nr. 56 við Njálsgötu. Í breytingunni felst að heimilt er að hækka og stækka núverandi byggingu og setja kvisti á þak, breyta byggingarreit til suðurs og byggja þar nýja viðbyggingu sem yrði kjallari og ein hæð með svölum á þaki byggingarinnar, rífa núverandi bílgeymslu og byggja nýja bílgeymslu og færist sú bygging u.þ.b. 5,8 metra inn á lóðina svo útbúa megi bílastæði á lóð, samkvæmt uppdr. K.J. hönnunar ehf. dags. 19. september 2018 br. 14. maí 2020. Einnig eru lagðir fram skuggavarpsuppdr. ódags. Erindið var grenndarkynnt frá 4. júní 2019 til og með 4. júlí 2019. Eftirtaldir aðilar sendu athugasemdir: Guðrún Ólafsdóttir dags. 3. júlí 2019 og Kristinn Júlíusson dags. 3. júlí 2019. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 6. maí 2020.
Samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 6. maí 2020.
Guðlaug Erna Jónsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Vogabyggð svæði 1, breyting á skilmálum deiliskipulags (01.45) Mál nr. SN200248
440703-2590 THG Arkitektar ehf., Faxafeni 9, 108 Reykjavík
680717-1090 U 14-20 ehf., Katrínartúni 2, 105 ReykjavíkLögð fram umsókn THG Arkitekta ehf., dags. 22. apríl 2020, varðandi breytingu á skilmálum deiliskipulags Vogabyggðar svæðis 1. Í breytingunni felst fjölgun á B fermetrum í Stefnisvogi fyrir lóðir 1-2, 1-3, 1-4 og 1-5, samkvæmt tillögu THG Arkitekta ehf., dags. 20. apríl 2020. Einnig er lagður fram tölvupóstur Bjargs íbúðafélags, dags. 12. maí 2020, þar sem ekki eru gerðar athugasemdir við breytinguna.
Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur nú skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lögð er fram umsókn THG Arkitekta ehf. dags. 22. apríl 2020 varðandi breytingu á skilmálum deiliskipulags Vogabyggðar svæðis 1.
Flokkur fólksins telur að hafi þessi breyting ekki neikvæð áhrif á gæði eigna nágranna er hún í lagi. Breytingin mun eflaust auka gildi þeirra eigna sem um ræðir. En það væri gott að fá útskýringu á hvað er átt við með B-fermetrum?Fylgigögn
-
Vogabyggð svæði 3, deiliskipulag miðsvæði sunnan Tranavogar og norðan Súðarvogar að Sæbraut Mál nr. SN140216
Kynnt eru drög að kynningu fyrir nýtt deiliskipulag á svæði 3 í Vogabyggð, dags. 14. maí 2020.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Samkvæmt þeim teikningum sem hér eru sýndar er ekki að sjá að þetta séu mjög þróaðar hugmyndir en grunnhugmyndin er sannarlega góð. Það er spurning hvort áhersla ætti að vera svona mikil á að halda í hverfisímynd iðnaðarhverfis sem er ekki er beinlínis hrífandi sem íbúabyggð. Einhvern milliveg þarf að fara en auðvitað fer þetta eftir því hvers kona iðnaðstarfssemi fólk velur að hafa þarna, smá- eða stórgerðan iðnað. Húsin munu aðlöguð að nýju hlutverki og við þá aðlögun er óumflýjanlegt og einfaldlega eðlilegt að upprunaleg heildarmynd svæðisins breytist og ásýndin þar með að einhverju leyti. Fulltrúa Flokks fólksins finnst vanta möguleika fyrir þá sem vilja hugsanlega einbýli, fyrir þá sem vilja reka stórgerðari iðnað sem þyrfti meira rými og stærra svæði fyrir utan hjá sér. Af myndum að sjá eru þetta smávegis eins og verið sé að stafla fjölskyldum saman, fólk sem þarf að koma sér saman eins og fram kom í kynningu, en um hvað? Verið er að koma sem flestum fyrir á sem minnsta blettinum en engu að síður á fólk að geta haft atvinnustarfssemi þarna. Sýnt þykir að deiliskipulagið hlýtur að vera á frumstigi og vonandi eiga margir eftir að koma að frekari þróun þess.
Sigríður Magnúsdóttir frá Teiknistofunni Tröð tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Hraunbær 103A, breyting á deiliskipulagi (04.331.1) Mál nr. SN200055
610786-1629 Dverghamrar ehf., Lækjarbergi 46, 221 Hafnarfjörður
120944-2669 Kristinn Ragnarsson, Skaftahlíð 27, 105 ReykjavíkLögð fram umsókn Kristins Ragnarssonar dags. 23. janúar 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Hraunbæjar 103-105 vegna lóðarinnar nr. 103A við Hraunbæ. Í breytingunni felst að heimilt verður að hafa þakgarða á hluta þaks yfir 5. og 7. hæð, samkvæmt uppdr. Kristins Ragnarssonar dags. 19. desember 2019. Erindinu var vísað til meðferðar hjá verkefnisstjóra og er nú lagt fram að nýju ásamt umsögn skipulagsfulltrúa dags. 24. apríl 2020.
Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur nú skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er verið leggja fram umsókn aðila um að fá að hafa þakgarða á hluta þaks yfir 5. og 7. hæð. Þetta er athyglisverð og jákvæð breyting. Benda má á að þarna ætti að skrá reynslu af þakgörðum, sem gætu nýst í framtíðinni. Fulltrúi Flokks fólksins í skipulags- og samgönguráði hvetur til þess að ef verið er að búa til þak með gróðri ofan á mun það þak verða þungt og gott væri að skrá niður reynslu af slíku með nákvæmum hætti sem gætu nýst til framtíðar fyrir þá sem vilja gera sambærilega hluti.
Fylgigögn
-
Grensásvegur 1, (fsp) uppbygging (01.460.0) Mál nr. SN200267
190554-3419 Guðmundur Gunnlaugsson, Naustabryggja 56, 110 Reykjavík
670614-1310 Fasteignafélagið G1 ehf., Hlíðasmára 17, 201 KópavogurLögð fram fyrirspurn Guðmunds Gunnlaugssonar dags. 5. maí 2020 um uppbyggingu á lóð nr. 1 við Grensásveg þar sem fyrirhugaðað er að byggja ca. 175 íbúðir og skrifstofubyggingu út að Suðurlandsbraut. Einnig er lögð fram kynning/tillöguhefti Rýma arkitekta ehf. ódags. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 15. maí 2020.
Guðmundur Gunnlaugsson frá Archus og Jón Þór Hjaltason taka sæti á fundinum undir þessum lið.
(B) Byggingarmál
Fylgigögn
-
Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð Mál nr. BN045423
Fylgiskjal með fundargerð þessari er fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1067 frá 12. maí 2020.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Verið er að sækja um leyfi til að breyta notkun, skráðri stærð og útliti Náðhússinns á Nauthólsvegi 100/Bragginn. Reykjavíkurborg á byggingarnar á Nauhólsvegi 100 og búið er að gera upp Braggann fyrir um hálfan milljarð. Búið er að skrifa 47 milljónir á náðhúsið en það stendur enn fokhelt. Grunnstoð ehf. sem er í eigu Háskólans í Reykjavík og bakjarla hans. Ævintýri í kringum Braggann eiga sér engan endi. Minnt er á að framúrkeyrsla og dularfull notkun á fjármagni sem reikningar voru skrifaðir fyrir á viðfangsefnið Nauthólsvegur 100, upp á fleiri hundruð milljónir eru nú til meðferðar hjá héraðssaksóknara og lögreglu.
(D) Ýmis mál
Fylgigögn
-
Langholtsvegur 136, kæra 35/2020 (01.441) Mál nr. SN200298
701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 ReykjavíkLagt fram erindi frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála dags. 11. maí 2020 ásamt kæru dags. 8. maí 2020 þar sem kærð er útgáfa byggingarleyfis dags. 29. apríl 2020 um byggingu bílskúrs og svala á fasteigninni Langholtsvegur 136.
-
Sjómannaskólareitur, kæra 21/2020, umsögn (01.254) Mál nr. SN200184
701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 ReykjavíkLagt fram erindi frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála dags. 13. mars 2020 ásamt kæru dags. 13. mars 2020 þar sem kærð er ákvörðun borgarráðs frá 13. febrúar 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Sjómannaskólareit. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 15. maí 2020.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það var vitað að það kæmu kærur vegna Sjómannaskólareitsins. Bakkað var með ákveðna þætti sem var gott en áfram þarf að finna leiðir með fólki til að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þessi reitur hefur tilfinningagildi fyrir fjölmarga enda einn fallegasti reitur borgarinnar. Hagsmunir eru að þessu sinni vegna mögulegs skuggavarps sem deiliskipulagsbreytingin mun leiða af sér og útsýnisskerðingar yfir Háteigsveg, Hallgrímskirkju og Sjómannaskólann. Í ljósi neikvæðra reynslu af hvernig komið hefur verið fram við hagsmunaaðila miðbæjar í sambandi við götulokanir vill Flokkur fólksins hvetja skipulagsyfirvöld til að hlusta á raddir hagsmunaaðila í þessu máli og frekar að staldra við en að ana áfram á móti straumnum. Enda þótt meirihlutinn hafi bitið í sig að gera ákveðna hluti þá er hann maður að meiri að bakka þegar ákvörðun stríðir augljóslega gegn hagsmunum, hvort heldur fjárhagslegum og tilfinningalegum, fjölda manns.
-
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, Mál nr. US200142
Stefnt var að því að fluglest myndi byrja að ganga á milli Keflavíkur og Reykjavíkur árið 2025 og var áætlaður kostnaður 100 milljarðar. Áætlað var að lestin myndi mögulega tengjast borgarlínu. Árið 2017 var búið að veita 300 milljónum í verkefnið. Á fundi borgarráðs þann 19. maí 2016 lagði borgarstjóri fram tillögu um að Reykjavíkurborg yrði stofnaðili og hlutafjáreigandi í hlutafélagi um þróun og byggingu mögulegar "hraðlestar." Lagði borgarstjóri jafnframt til að Reykjavíkurborg myndi eignast 3% hlut í félaginu með því að leggja inn sem stofnfé þegar framlagðan kostnað við frumskoðun verkefnisins. 1. Hvað hefur Reykjavíkurborg lagt þessu verkefni/Fluglestin þróunarfélag, til mikið fjármagn tæmandi talið? 2. Hvernig er eignarhlutur Reykjavíkurborgar færður í bókhaldi borgarinnar? 3. Af hvaða kostnaðarlið var það fjármagn sem lagt var í verkefnið tekið? 4. Hver er framkvæmdastjóri félagsins í dag? 5. Hverjir skipa stjórn félagsins í dag? 6. Hvenær var síðasti aðalfundur félagsins haldinn?
Framsent til skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.
-
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, Mál nr. US200143
Á fundi skipulagsráðs þann 13. maí var óskað eftir breytingu á deiliskipulagi um að koma fyrir almenningssalernum í borgarlandinu m.a. í landi Mógilsár og Kollafjarðar á Kjalarnesi við Esjurætur og á skilgreindu útivistarsvæði Gufuness. Erindinu fylgdu einnig uppdrættir að almenningssalerni við Bernhöftstorfu, Esjumela, Hljómskálagarð, Ingólfstorg, Lokastíg og Vegamótastíg. 1. Hvað kostar hvert almenningssalerni? 2. Hvað kostar að koma hverju almenningssalerni fyrir?
3. Hver er kostnaður Veitna í hverju almenningssalerni? 4. Voru almenningssalernin boðin út? 5. Ef ekki, hvers vegna var það ekki gert? 6. Eru húsin íslensk smíði eða erlend?Vísað til umsagnar Umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, Mál nr. US200144
Skipulags- og samgönguráð samþykkir að breyta akstursstefnu milli Klapparstígs og Frakkastígs aftur til fyrra horfs, þannig fari öll umferð um Laugaveg í sömu stefnu.
Fellt með 4 greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata gegn 3 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Samþykkt var áfangaskipting fyrir Laugaveg göngugötur í skipulags- og samgönguráði fyrr í vetur, þar var þetta svæði skilgreint sem 2.áfangi. Í sumar er ætlunin að breyta svæðinu i sumargötur 2020 og í framhaldinu breyta deiliskipulagi fyrir varanlega göngugötu. Allt í þágu öflugs miðbæjar og í takt við samþykkt borgarstjórnar. Því er þessi tillaga felld.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Öfug akstursstefna upp Laugaveg, milli Vatnsstígs og Frakkastígs, hefur leitt til þess að bílar streyma nú niður Frakkastíg úr þremur ólíkum akstursstefnum. Fyrirkomulagið hefur skapað ringulreið á svæðinu, aukið bílaumferð um Frakkastíginn og skapað slysahættu fyrir gangandi vegfarendur á svæðinu. Rétt er að taka fram að jafnvel þó svæðið verði að endingu skilgreind göngugata mun tiltekin akandi umferð enn eiga leið um vegkaflann, svo sem handhafar stæðiskorta hreyfihamlaðra og umferð vegna vörulosunar. Mikilvægt er því að snúa akstursstefnunni aftur til fyrra horfs svo jafna megi umferðarálag á svæðinu og tryggja aukið öryggi vegfarenda í miðborginni.
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, Mál nr. US200145
Skipulags- og samgönguráð samþykkir að byggja upp leikaðstöðu fyrir börn á völdum stöðum í miðborg svo gera megi umhverfið fjölskylduvænna. Hér mætti nefna Hjartatorg sem tilvalinn stað.
Vísað til meðferðar Umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu sviðsstjóra.
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, Mál nr. US200146
Skipulags- og samgönguráð samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að koma fyrir gróðri á Hafnartorgi svo færa megi torginu aukið líf.
Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs að hafa samband við lóðarhafa um að koma fyrir gróðri innan sinna lóða.
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, Mál nr. US200147
Skipulags- og samgönguráð samþykkir að koma fyrir skyggnum? á stöku stöðum í miðborg. Skyggnin yrðu strengd yfir bekkjum eða annarri setaðstöðu á vegum borgarinnar. Þannig mætti draga úr neikvæðum veðuráhrifum og skapa vænlegra umhverfi til útiveru, þrátt fyrir regn eða aðrar veðuróværur. Tryggt yrði að skyggnin yrðu auðveld í uppsetningu svo hæglega mætti setja þau upp, eða fjarlægja, eftir hentugleik.
Samþykkt.
Vísað til meðferðar Umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framvæmda og viðhalds. -
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, Mál nr. US200148
Skipulags- og samgönguráð samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að kanna möguleika á rekstri kaffihúss í Hljómskálagarði. Kannaðir verði möguleikar á æskilegum útfærslum, svo sem því hvort réttast væri að veita leyfi til að reisa smáhýsi undir slíka starfsemi eða hvort æskilegra væri að starfsemin væri í formi götu- og torgsölu (t.d. matarvagnar). Rekstur verði ætíð í höndum einkaaðila.
Samþykkt.
Vísað til meðferðar Umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.- Kl. 12:19 víkur Daníel Örn Arnarsson af fundi.
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu Mál nr. US200149
Skipulags- og samgönguráð samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að taka saman tæmandi lista yfir þau skilyrði sem þarf að uppfylla, í réttri tímaröð, svo rekstrarleyfisskyld starfsemi geti hlotið leyfi til sölu gistingar, veitinga og skemmtanahalds í Reykjavík. Allt umsóknarferlið verði gert að fullu rafrænt í samstarfi við sýslumann, undirskriftir verði að fullu rafrænar og leyfisveitingin sjálf verði rafræn. Einnig verði umsóknarferli fyrir tækifærisleyfi gert að fullu rafrænt. Þannig verði allt umsóknarferlið, listi yfir skilyrði og allir eftirfarandi ferlar gerðir rafrænir og aðgengilegir í sömu rafrænu gátt:
• Umsóknareyðublöð um leyfi til sölu gistingar, veitinga eða skemmtanahalds í Reykjavík.
• Umsóknareyðublöð fyrir hvers kyns tækifærisleyfi í Reykjavík.
• Umsögn Reykjavíkurborgar um rekstrarleyfi til sýslumanns.
• Staðfesting byggingarfulltrúa um að rekstrarleyfisskyld starfsemi sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála.
• Staðfesting byggingafulltrúa á því að lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu.
• Staðfesting skipulagsfulltrúa á því að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag Reykjavíkur segja til um.
• Staðfesting Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur á því að starfsemi sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um matvæli.
• Staðfesting og mat heilbrigðisnefndar á grenndaráhrifum starfseminnar, þ.m.t. hljóðvist.
• Staðfesting slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins á því að kröfum um brunavarnir sé fullnægt samkvæmt mati slökkviliðs.
• Starfsleyfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.
• Rekstrarleyfi og tækifærisleyfi frá sýslumanni.Framsent til skrifstofu borgarstjórnar.
-
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, Mál nr. US200152
1. Hvaða skipulag er í gildi varðandi svæðið frá Gufunesbæ að Sorpu, væntanlegri Sundabraut og nýju deiliskipulagi við Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi? 2. Eru öll mannvirki Skemmtigarðsins og Reykjavik Domes inni á gildandi skipulagi. 3. Hverjir aðrir en Skemmtigarðurinn hafa aðstöðu og eru með vinnslu á þessu svæði? 4. Hver er staðan á nýju skipulagi fyrir svæðið og hvaða áform eru í vinnslu hvað það varðar? 5. Hvernig verður með þá starfsemi og notkun sem er þarna núna fram að nýju deiliskipulagi?
Vísað til umsagnar Umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu skipulagsfulltrúa.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, Mál nr. US200153
Flokkur fólksins leggur til að settur verði hámarkshraði hjóla á göngu- og hjólastígum og aðliggjandi gangstéttum til að tryggja öryggi hjólandi og gangandi. Flokkur fólksins bendir jafnframt á að tilefni kann að vera til að auka eftirlit með umferð á gangstígum vegna t.d. mikillar umferðar á rafknúnum vespum, raf-hlaupahjólum og öðrum minni vélknúnum faratækjum. Hjólreiðar hafa aukist og er það vel. Hins vegar hafa kvartanir einnig aukist sem lúta að hættu sem stafar af hjólreiðamönnum sem hjóla fram hjá gangandi vegfaranda eða hjólreiðamanni á mikilli ferð. Heimilt er að hjóla á gangstétt, göngustíg eða göngugötu, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum eða liggi sérstakt bann við því. Hjólreiðamaður skal gæta ýtrustu varkárni og ekki hjóla hraðar en svo að hann geti vikið úr vegi fyrir gangandi vegfarendum. Skort hefur á að borgaryfirvöld birti og minni á reglur um hjólreiðar. Skortur er á viðeigandi fræðslu og viðvörunum svo varast megi óhöpp og slys. Slys hafa orðið og enn oftar legið við slysum þar sem hjólandi ekur fram hjá á miklum hraða og rekur sig í hjólreiðamann, eða gangandi vegfaranda.
Fellt með 4 greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Ekki er fallist á þau rök að auka þurfi eftirlit með hjólreiðafólki. Ekki er minnst á hámarkshraða á hjólastígum í nýjum umferðarlögum og því ekki ljóst hvort sú heimild sé til staðar, hver ætti að fylgja henni eftir eða hver viðurlögin yrðu. Í nýjum leiðbeiningum sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins og Vegagerðarinnar fyrir hjólastíga kemur fram að hönnunarhraði hjólastíga sé 20 til 40 km á klst.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga Flokks fólksins um hámarkshraða á hjólastígum hefur verið felld í skipulagsráði með þeim rökum að ekki þurfi að auka eftirlit með hjólreiðafólki og að ekki sé minnst á hámarkshraða á hjólastígum í nýjum umferðarlögum og að ekki sé því ljóst hvort sú heimild sé til staðar eða hver ætti að framfylgja henni. Flokkur fólksins vill benda á að nýju umferðarlögin setja ákveðnar almennar reglur um ökuhraða. Þær reglur gilda gagnvart ökumanns ökutækis. Reiðhjól teljast til ökutækja, en ökutæki eru skilgreind sem svo: Tæki á hjólum, beltum, völtum, meiðum eða öðru sem ætlað er til aksturs á landi og eigi rennur á spori. Það er því ljóst að almennur 50 km/h hámarkshraði ökutækja gildir um reiðhjól, sbr. 2. mgr. 37. gr. Sá hámarkshraði gildir um ökutæki en ekki ákveðna vegi. Það ber að virða þennan hámarkshraða og það ber að hafa eftirlit með því að hann sé virtur. Það virðist sem svo að hjólastígar sem ekki liggja samhliða götum falli utan skilgreiningar nýju umferðarlaganna um vegi og því gildi heimild veghaldara til að ákveða hámarkshraða ekki um hjólastíga. Eflaust er um yfirsjón að ræða. Eftir stendur þó að veghaldara er heimilt að ákvarða hámarkshraða á göngustígum. Huga þarf betur að öryggi hjólandi og gangandi á blönduðum stígum.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, Mál nr. US200158
Flokkur fólksins fýsir að fá upplýsingar um hvort það sé reglulega borinn saman kostnaður við að nota sterk steinefni t.d. frá Noregi eða veikari íslenska steinablöndu í malbik í Reykjavík? Það er mikilvægt að gæði malbiks séu ávallt þau bestu og ef til vill ætti víðar að notast við sterkari gerð steinefnis í malbikið það sem flutt er inn frá Noregi. Venjulega er notast við sterkara malbik aðeins á mestu umferðargötunum eftir því sem fram kemur í kynningu. Nota ætti sterkara malbikið miklu víðar. Þá verður minna um slit og auknar líkur eru á að dregið verði úr svifryksmengun af völdum slits.
Frestað.
-
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, Mál nr. US200159
Þann 15. maí sl. var tekið fyrir framkvæmdaleyfi fyrir Bústaðaveg 151-153. Framkvæmdaleyfið veitir heimildir fyrir m.a. byggingu undirganga fyrir gangandi og hjólandi umferð undir Bústaðaveg, gerð hringtorgs á Bústaðaveg, hækkun Bústaðavegar, gerð nýrrar götu frá Bústaðavegi til norðurs vestan við Sprengisand og hesthús, gerð göngu- og hjólreiðastígs frá Miklubraut meðfram rampa að Reykjanesbraut, gerð tengistíga o.fl. 1. Hvað kostar þessi framkvæmd samkvæmt kostnaðaráætlun tæmandi talið? 2. Er búið að kynna þessa framkvæmd fyrir íbúum hverfisins? 3. Er búið að kynna þessa framkvæmd fyrir íbúaráði hverfisins? 4. Hvenær er áætlað að framkvæmdir hefjast? 5. Hvenær er gert ráð fyrir verklokum? 6. Á að bjóða verkið út? 7. Er búið að tilkynna ríkinu/Vegagerðinni um framkvæmdirnar vegna mikillar hættu á að þær eyðileggi/girði fyrir möguleika á uppbyggingu mislægra gatnamóta Bústaðavegar/Reykjanessbrautar? 8. Er þessi framkvæmd hluti af samgöngusáttmála ríkisins við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu?
Frestað.
-
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, Mál nr. US200160
1. Er búið að grenndarkynna þær framkvæmdir sem nú standa yfir í Gufunesi fyrir íbúum Grafarvogs? 2. Er búið að taka framkvæmdirnar fyrir í íbúaráði Grafarvogs, áður hverfisráði Grafarvogs? 3. Hvað er áætlað að koma eigi fyrir mörgum húsum fyrir heimilislausa á þessu svæði sem er bæði innan deiliskipulags og utan deiliskipulags og er í veghelgunarsvæði Sundabrautar?
Frestað.
-
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, Mál nr. US200162
1. Óskað er eftir að skipulags- og samgönguráð fái afhent svar borgarstjóra/Reykjavíkurborgar sem sent var vegamálastjóra/Vegagerðinni sem viðbragð við bréfi um legu Sundabrautar. Í bréfinu segir: "Í erindi Vegagerðarinnar til skipulagssviðs borgarinnar dagsett 26. febrúar 2014 er m.a. vakin athygli borgarinnar á ákvæði 2. mgr. 28. greinar Vegalaga nr. 80/2007, en þar segir: "Ákveða skal legu þjóðvega í skipulagi að fenginni tillögu Vegagerðarinnar að höfðu samráði Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda. Fallist sveitarfélag ekki á tillögu Vegagerðarinnar skal það rökstyðja það sérstaklega.". 2. Óskað er eftir tímalínu/sögulegu yfirliti skýrslna og greininga um Sundabraut frá upphafi ásamt því hverjir sátu í hverjum hópi/nefnd fyrir sig.
Frestað.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, Mál nr. US200161
Fulltrúi Flokks fólksins hefur tekið eftir því að skipulagsyfirvöld skipta mikið við Eflu, verkfræðistofu. Hér er um að ræða milljónir árlega. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort öll þessi verk hafi verið boðin út? Athuga ber að ekki þarf að ná viðmiði um útboðsreglur innkauparáðs til að geta boðið verk út. Eina sem ávallt ber að hafa í huga er að fara vel með fé borgarbúa. Eins veltir fulltrúi Flokks fólksins því fyrir sér hvort allur sá aragrúi af hámenntuðu starfsfólki borgarinnar geti ekki sinnt einhverjum af þeim verkum sem Efla fær inn á sitt borð? Til hvers er að ráða starfsfólk, hámenntað og fært í flestan sjó ef það fær svo ekki að nýta færni sína vegna þess að verkefni á þeirra sviði eru boðin út? Fyrir þá sem ekki vita og lesa fundargerð skipulags- og samgönguráðs þá er Efla alhliða verkfræði- og ráðgjafarfyrirtæki sem veitir fjölbreytta þjónustu á öllum sviðum verkfræði, tækni og tengdum greinum. En þetta er einmitt lýsing á starfsgetu og færni margra sérfræðinga á skipulagssviði sem gætu án efa sinnt fjölmörgum verkum sem Eflu er falið.
Frestað.
-
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, Mál nr. US200163
Óskað er eftir að samgöngu- og skipulagsráð fái bréf frá hönnuði dags. 14. apríl. 2020 fylgir erindi þess efnis að sótt er um leyfi til að breyta notkun, skráðri stærð og útliti Náðhússins á lóð nr. 100 við Nauthólsveg/Bragginn.
Frestað.
-
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, Mál nr. US200164
Fyrirspurn um Nauthólsveg 100/Braggann,. Verið er að sækja um leyfi til að breyta notkun, skráðri stærð og útliti Náðhússins á Nauthólsvegi 100/Bragginn. Reykjavíkurborg á byggingarnar á Nauthólsvegi 100 og búið er að gera upp Braggann fyrir um hálfan milljarð. Búið er að skrifa 47 milljónir á náðhúsið en það stendur enn fokhelt. 1. Hver borgar þessar breytingar og hver er fyrirhuguð notkun á húsinu? 2. Ef HR borgar breytingarnar stenst það þá framleigusamning Reykjavíkur til HR? 3. Hvað er áætlað að þessar breytingar kosti tæmandi talið? 4. Hvað borgar HR í leigu fyrir allar húsaþyrpingarnar á mánuði til Reykjavíkur?
Frestað.
- Kl. 12:25 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundi.
- Kl. 12:29 víkur Hjálmar Sveinsson af fundi.
- Kl. 12:40 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundi.
Fundi slitið klukkan 12:59
Pawel Bartoszek Hildur Björnsdóttir