Skipulags- og samgönguráð
Ár 2020, föstudaginn 8. maí kl. 09:18 var haldinn sameiginlegur fundur skipulags- og samgönguráðs (71. fundur) og umhverfis- og heilbrigðisráðs (36. fundur) Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð. Ráðssal. Viðstödd voru: Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Pawel Bartoszek, Dóra Magnúsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Katrín Atladóttir, Líf Magneudóttir, Sabine Leskopf, Arnaldur Sigurðarson, Egill Þór Jónsson, Björn Gíslason, Baldur Borgþórsson, fulltrúi Samtaka atvinnulífsins Ólafur Jónsson og áheyrnarfulltrúarnir Daníel Örn Arnarsson, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Þorsteinn Rúnar Hermannsson, Þórólfur Jónsson, Árný Sigurðardóttir, Hreinn Ólafsson, Ásdís Ásbjörnsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Hjalti Jóhannes Guðmundsson, Jóhanna Guðjónsdóttir og Gréta Mar Jósepsdóttir.
Fundarritari er Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.
Þetta gerðist:
-
Tillaga um heimild til notkunar fjarfundarbúnaðar. Mál nr. US200127
Lagt fram erindi skrifstofu borgarstjórnar dags. 29. apríl 2020 um heimildir til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi - notkun fjarfundabúnaðar.
Fylgigögn
-
Umhverfis- og skipulagssvið, Fjárhagsáætlun 2021-2025, skuldbindingar og áhættur í rekstri umhverfis- og skipulagssviðs. Mál nr. US190148
Kynntar skuldbindingar og áhættur í rekstri umhverfis- og skipulagssviðs.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lögð er fram fjárhagsáætlun og kemur fram að lækkun verður á eftirlitsgjaldi vegna minna eftirlits í fyrirtæki sem veita þjónustu. Fulltrúi Flokks fólksins spyr í þessu sambandi hvort ekki eigi að lækka hundaeftirlitsgjaldið þar sem umfangi verkefna hefur fækkað svo um munar. Fulltrúi Flokks fólksins er að starfa fyrir tugi hundaeigenda og ítrekað er spurt af hverju er rekstrarkostnaður hundaeftirlitsins er eins hár og raun ber vitni? Verkefnum hundaeftirlits hefur fækkað margfalt undanfarin ár, en starfsgildin breytast ekkert í samræmi við það. Bæði tölur frá borginni og frá félögum hundaeigenda sýna mikla fækkun verkefni. Sem dæmi voru fjöldi hunda í hundageymslum árið 2010, 89 og 209 í lausagöngu en árið 2016 voru 11 í geymslu og 62 í lausagöngu. Í fyrra 2019 voru þessar tölur enn lægir. Ekkert sanngirni er í því að halda gjaldinu jafn háu þegar ekki er sama þörf fyrir þjónustuna og verkefnin færri.
Fulltrúar Vinstri grænna, Pírata, Samfylkingarinnar og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Gjöldum fyrir hundaleyfi er samkvæmt samþykktum Reykjavíkurborgar um hundahald Nr. 478 ætlað að standa undir kostnaði borgarinnar af hundahaldinu og framkvæmd þessarar samþykktir en allur rekstur við hundaeftirlitið hefur verið opinber á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um árabil. Starfsfólk Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er ráðið til að vinna í umboði heilbrigðisnefndar (umhverfis- og heilbrigðisráðs) og vinnur þau störf í samræmi við lög og reglur. Vinna hófst í byrjun árs við að einfalda og uppfæra þjónustu við dýraeigendur með því að sameina hana innan borgarinnar. Niðurstaða þeirra vinnu verður lögð fyrir umhverfis- og heilbrigðisráð.
-
Umhverfis- og skipulagssvið, Áætlun um greiningu þjónustuþátta út frá kynjaðri fjárhags- og starfsáætlun Mál nr. US190150
Lögð fram áætlun um greiningu þjónustuþátta út frá kynjaðri fjárhags- og starfsáætlun, til staðfestingar.
Samþykkt með 7 atkvæðum fulltrúa Vinstri grænna, Pírata, Viðreisnar og Samfylkingarinnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Miðflokksins sitja hjá.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar:
Sviðum/skrifstofum er falið að gera áætlun um greiningu þjónustuþátta skv. aðferðafræði kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar og skila inn. Talað er um djúpgreiningu sem felst í því að myndaðir eru hópar um greininguna sambærilegir þeim sem unnið hafa að greiningum á þjónustuþáttum KFS. Fulltrúi Flokks fólksins skilur ekki til hlítar þá aðferðarfræði sem reynt er að lýsa hér, djúpgreining vs. greining? Hver er kostnaður við t.d. djúpgreiningaraðferðir annars vegar og hins vegar bara greiningaaðferð? Sagt er að í djúpgreiningu felist að listaðir verði upp þeir þjónustuþættir sem eru ógreindir og gerð tímaáætlun um hvenær greiningin skuli fara fram. Er það eini munurinn? Fulltrúi Flokks fólksins finnst afar mikilvægt að gæta að jafnrétti í hvívetna og fylgjast þarf grannt með að það sé gert. En gæta þarf einnig að því að flækja ekki aðferðarfræðina umfram það sem nauðsynlegt er. Kynjuð fjárhags- og starfsáætlun er eitthvað sem ekki allir vita hvað er. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvort ekki þyrfti að kynna almenningi hana betur enda frekar ný til komin í umræðuna?
Fylgigögn
-
Umhverfis- og skipulagssvið, ársuppgjör 2019. Mál nr. US190139
Lagðar fram greinargerðir Umhverfis- og skipulagssviðs í aðal- og eignasjóði. Einnig er lögð fram skýrsla um verkstöðu nýframkvæmda ódags.
Flokkur fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Lagt er fyrir ársuppgjör. Ávallt þegar fjármál borgarinnar eru til umfjöllunar vill fulltrúi Flokks fólksins velta upp þeim spurningum hvort vel sé farið með fé borgarbúa, hvort það sé notað skynsamlega, hvort gætt sé að hagræðingu og sparnaði og að fólkið og þjónusta við það sé ávallt höfð í fyrirúmi. Frávik hafa sínar ástæður og orsakir, þau koma til vegna þess að það hefur ýmist verið vanáætlað, eitthvað óvænt komið upp á eða verið er að reka einingu/stofnun með óskynsamlegum hætti. Of mörg frávik eru í þessu uppgjöri og er það áhyggjuefni þótt margt sé vissulega í góðu lagi. Fulltrúi Flokks fólksins vill staldra við liði sem lúta að framkvæmdum í miðborginni en þar má sjá ýmis frávik. Verið er að setja fé í framkvæmdir sem auk þess eru í óþökk margra, sumar sem ekki eru samþykkjanlegar stórum hópum. Verið er að setja gríðarmikið fé í torg og endurgerð gatna sem lokað hefur verið fyrir umferð sem leitt hefur til þess að verslun hefur hrunið og verslunareigendur flúið svæðið í unnvörpum. Vissulega þarf að halda götum við en einnig þarf að þrífa götur með það að markmiði að draga úr svifryksmengun og bæta loftgæði í borginni. Tillaga Flokks fólksins um götuþvott þar sem götur eru bleyttar áður en þær eru sópaðar til að draga úr svifryksmengun og bæta loftgæði í borginni var lögð fram í borgarráði í gær og er þess vænst að hún verði samþykkt í umhverfis- og heilbrigðisráði.
Fylgigögn
-
Umhverfis- og skipulagssvið, Yfirlit ferðakostnaðar. Mál nr. US190306
Lagt er fram yfirlit yfir ferðakostnað starfsmanna Umhverfis- og skipulagssviðs frá október- desember 2019.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar:
Það fer gríðarmikið fé í ferðir erlendis hjá þessum sviðum, oft fara heilu hóparnir á ráðstefnur og e.t.v. í skoðunarferðir. Eiginlega er þetta ekki boðlegt enda allt á kostnað borgarbúa. Dagpeningar er stór hluti þessa kostnaðar og hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt til að þeir verði lagðir af og í staðin tekið upp notkun viðskiptakorts eins og mörg fyrirtæki hafa tekið upp og er slíkt fyrirkomulag með ákveðnu hámarki eðlilega. Nú má vænta þess að ferðum snar fækki vegna þess að með Covid-19 lærði fólk að nota fjarfundakerfi. Ferðalög á kostnað útsvarsgreiðenda ættu því að geta orðið alger undantekning. Í tilfelli þessa sviðs er upphæðin 12.139.972. fyrir árið 2019. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hversu mikið borgarbúar hafa grætt á að þessar ferðir voru farnar?
Fylgigögn
-
Umhverfis- og skipulagssvið, innkaup sem fara yfir milljón. Mál nr. US190305
Lagðar eru fram innkaupaskýrslur frá janúar - desember 2019 fyrir eignasjóð á kaupum sem fara yfir milljón.
Fylgigögn
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu. Mál nr. US200136
Lagt til að umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar fari í vinnu við að setja leiðbeinandi yfirborðsmerkingar á sameiginlega stíga sem notaðir eru af gangandi og hjólandi vegfarendum. Síðustu mælingar borgarinnar á umferð hjólandi og gangandi vegfaranda hefur sýnt stóraukna umferð á stígum borgarinnar til að mynda í Elliðaárdal, Nauthólsvík og á Ægissíðu. Nokkrir af þessum stígum eða hluti þeirra eru mjóir og hafa skapast mikil vandræði og slysahætta á þeim. Leiðbeinandi yfirborðsmerkingar eru því nauðsynlegar.
Frestað.
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn. Mál nr. US200137
Óskað er eftir útskýringum á því af hverju vorþrif borgarinnar fari jafn seint af stað og raun ber vitni. Hvað veldur því að ekki sé byrjað fyrr. Til að mynda eru vorþrif í Grafarvogi að klárast um miðjan júní mánuð.
Frestað.
Fundi slitið klukkan 10:44
Pawel Bartoszek Hjálmar Sveinsson
Hildur Björnsdóttir Líf Magneudóttir
Sabine Leskopf