Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 66

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2020, miðvikudaginn 11. mars kl. 09:03 var haldinn 66. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð. Ráðssal. Viðstödd voru: Pawel Bartoszek, Hjálmar Sveinsson, Aron Leví Beck, Valgerður Árnadóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Örn Þórðarson og áheyrnarfulltrúarnir Daníel Örn Arnarsson, Vigdís Hauksdóttir og Þór Elís Pálsson. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Ágústa Sveinbjörnsdóttir, Þorsteinn Rúnar Hermannsson, Sigurjóna Guðnadóttir og Gréta Mar Jósepsdóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Kirkjusandur 2, Íslandsbanki, forsögn     (01.345.1)    Mál nr. SN180773
    040574-5229 Jónas Þór Jónasson, Krókamýri 72, 210 Garðabær

    Lögð fram skipulagslýsing ("Forsögn") Íslandssjóða dags. 13. febrúar 2020 vegna breytinga á lóð nr. 2 við Kirkjusand. Íslandssjóðir hafa óskað eftir samstarfi við Reykjavíkurborg um ferli um deiliskipulagsbreytingu þar sem m.a. verður skoðað að breyta landnotkun og auka byggingarmagn á lóðinni m.v. gildandi deiliskipulag. Skipulagslýsingin er unnin í samstarfi við umhverfis- og skipulagssvið og munu Íslandssjóðir kaupa hugmyndir af nokkrum arkitektastofum um hönnun lóðarinnar og tengsl hennar við nærliggjandi umhverfi og atvinnusögu svæðisins. 

    Bjargey Björgvinsdóttir og Jónas Þór Jónasson frá Íslandssjóði og Sólveig Sigurðardóttir verkefnastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Leiðrétt bókun frá fundi dags. 4. mars 2020: Samþykkt. Vísað til borgarráðs. 
    Leiðrétt bókun er: Samþykkt.

  2. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

    Lagðar fram fundargerðir embættisafgreiðslufunda skipulagsfulltrúa frá 28. febrúar 2020 og 6. mars 2020.

    -    Kl. 9:07 tekur Hildur Björnsdóttir sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  3. Hlemmur, reitur 1.240.0, nýtt deiliskipulag     (01.2)    Mál nr. SN190145

    Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, að nýju deiliskipulagi fyrir reit 1.240.0, Hlemmur. Skipulagið felur í sér endurskipulagningu svæðisins fyrir forgangsakreinar hágæða almenningssamgangna, ný gatnamót við Snorrabraut/Bríetartún, nýtt torg og göngugötur, afmörkun byggingarreits fyrir flutningshúsið Norðurpól og ný létt mannvirki fyrir verslun og þjónustu og ný afmörkun deiliskipulagsreita á svæðinu, samkvæmt uppdr. Yrki arkitekta ehf. dags. 27. nóvember 2019 br. 5. mars 2020. Einnig er lagður fram skuggavarpsuppdr. dags. 27. nóvember 2019, greinargerð Yrki arkitekta ehf. dags. 27. nóvember 2019 br. 5. mars 2020 og umferðarskýrsla Eflu dags. 29. nóvember 2019. Tillagan var auglýst frá 16. desember 2019 til og með 29. janúar 2020. Eftirtaldir aðilar sendu athugasemdir/umsögn: Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur dags. 15. janúar 2020, Jón Rúnar Pálsson dags. 15. janúar 2020, Minjavernd dags. 20. janúar 2020, Ingólfur Kristjánsson dags. 27. janúar 2020, Ólafía Einarsdóttir dags. 27. janúar 2020, Samúel Torfi Pétursson dags. 29. janúar 2020, Íbúaráð Miðborgar og Hlíða dags. 29. janúar 2020, Landssamtök hjólreiðamanna dags. 29. janúar 2020, Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu dags. 29. janúar 2020, skrifstofa umhverfisgæða dags. 29. janúar 2020, Bifreiðafélagið Frami dags. 29. janúar 2020, Jón Rúnar Pálsson dags. 29. janúar 2020 og Mörkin lögmannsstofa hf. f.h. Hreyfils dags. 29. janúar 2020. Einnig eru lögð fram minnisblöð Veitna annars vegnar um Stofnlögn fráveitu dags. 30. janúar 2020 og hins vegar um athugasemdir Veitna við tillögu að deiliskipulagi fyrir Hlemm dags. 31. janúar 2020. Jafnframt er lagt fram minnisblað Veitna dags. 3. mars 2020 með athugasemdum og fundargerð umhverfis- og skipulagssviðs dags. 26 febrúar 2020 vegna fundar 19. febrúar 2020 með fulltrúum frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, LRH. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 6. mars 2020.
    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 6. mars 2020.
    Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Hugmyndin um endurskipulag Hlemmtorgs á sér nokkuð langa sögu. Reykjavíkurborg bauð fyrir þremur árum nokkrum arkitektastofum að taka þátt í hugmyndaleit með það markmiði að gera nýtt heildarskipulag sem gerði Hlemm að miðpunkti mannlífs, samgangna og samskipta í austurborginni. Nýtt deiliskipulag, byggt á tillögum hugmyndaleitarinnar, gerir Hlemmtorg að aðlaðandi og öruggara umhverfi fyrir gangandi vegfarendur og um leið að kjörstað fyrir iðandi mannlíf. Það stuðlar að bættum aðstæðum fyrir skilvirkar almenningssamgöngur og tryggir samhangandi kerfi hjólastíga. Tekið var tillit til athugasemda lögreglunnar við endanlega útfærslu tillögunnar. Við tökum undir jákvæða umsögn íbúaráðs Miðborgar og Hlíða og leggjum áherslu á aðgengi fyrir alla og að það verði gaman fyrir krakka að koma á Hlemm. 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að aðstaða fyrir leigubíla verði tryggð áfram og merkingar þeirra verði skýrar og sjáanlegar á torginu. Unnið verði að útfærslu fyrir leigubíla í góðu samráði við hagaðila. Þá er rétt að endurskoða framtíðarstaðsetningu lögreglustöðvarinnar í tengslum við þessar breytingar. Mögulega með öðrum öryggis- og viðbragðsaðilum. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þó að meirihlutinn hafi ekki á neinu stigi tekið tillit til athugasemda almennings eða hagsmunaaðila t.d. á Laugaveginum í ákvörðunum sínum, þá er það skylda þeirra að hlusta á athugasemdir lögreglunnar hvað varðar öryggissjónarmið í breytingu deiliskipulags. Í umsögn frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögreglustarfsemin geti ekki nýtt borgarlínu – að mati borgarfulltrúa Miðflokksins er þarna um mikla kaldhæðni að ræða – og því skapi tillagan í núverandi mynd vandkvæði fyrir þjónustu lögreglu og fyrir neyðarakstur til og frá lögreglustöð. Einnig bendir lögreglan á að slysahætta geti skapast við útakstur af athafnasvæði lögreglustöðvarinnar inn á Snorrabraut vegna sérreinar fyrir hjólandi þvert á neyðarakstur lögreglu. Bendir lögreglan á að þetta valdi vandkvæðum þar sem fangageymsla LHR er á Hverfisgötu og aðgengi sjúkrabíla þangað þarf að vera mjög greitt. Leysa á það mál með því að koma fyrir blikkljósum við hjólreiðastíg sem yrðu virkjuð við neyðarútkall – það er brandari. Svarið er alltaf eitt: „Tekið verður tillit til útfærslu við fullnaðarhönnun verkefnisins.“. Upphaflega stóð til að fækka bílastæðum í kringum lögreglustöðina um rúm 30 stæði. Nú standa eftir 11 bílastæði. Samtals hverfa 85 bílastæði af Hlemmsvæðinu. Lögreglan er þjónustustofnun og er þetta bein aðför að aðgengi að henni. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Vegna nýs deiliskipulags fyrir Hlemm, Snorrabraut og nærliggjandi umhverfi lýsir Flokkur fólksins yfir áhyggjum þegar skipulagsyfirvöld borgarinnar vinna að deiliskipulagi og senda án samráðs við fólk í auglýsingu. Hlemmur er okkar allra, eitt af þeim svæðum sem flestir borgarbúa þekkja, því er ánægjulegt að það hafi verið skoðað í heild sinni. Það vekur athygli að gengið er út frá drauminum um borgarlínu, þannig að nýja skipulagið gerir aðeins ráð fyrir að borgalínan fari um svæði. Ekki er fullljóst með stoppistöðvar Strætó, en bent á Snorrabraut. Það er varhugavert því stöðvar við þá götu hefðu veruleg áhrif á umferð sem þegar verður illa teppt vegna lokunnar Rauðarárstígs. Aldar gamalli hefð leigubílastands á Hlemmi verður fórnað og óljóst hvar verður, frekar á að flytja til baka Norðurpólinn. Sumt úr sögunni á að undirstrika, en annað sem enn lifir þarf að hverfa eins og leigubílastaurinn, sem þjónar þó fólkinu í nánasta umhverfi. Útiloka á öll ökutæki af svæðinu og þar með aðgengi fatlaðra og eldri borgara. Engin aðkoma bíla leyfð, ekki einu sinni P merkt stæði? Ljóst að borgarbúar munu hafa lítið um skipulagið að segja. Flokki fólksins finnst að borgarbúar eigi að koma meira að hönnun og skipulagi á fyrstu stigum skipulags. Forðumst vondar endurtekningar.

    Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Laugavegur, Bolholt, Skipholt, nýtt deiliskipulag     (01.251.1)    Mál nr. SN190527
    560997-3109 Yrki arkitektar ehf, Mýrargötu 26, 101 Reykjavík
    570480-0149 Reykjavíkurborg - eignasjóður, Borgartúni 10-12, 105 Reykjavík

    Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga Yrki arkitekta ehf. að nýju deiliskipulagi fyrir reit sem afmarkast af Laugavegi til norðurs, Bolholti til austurs, Skipholti til suðurs og Laugavegi 174 og Skipholti 31 til vesturs. Gert er ráð fyrir uppbyggingu á lóðinni Laugavegur 176 vegna fyrirhugaðs hótels, en aðrar lóðir á skipulagsreitnum verða skilgreindar sem óbreyttar lóðir þar sem núverandi ástand er óbreytt samkvæmt uppdráttum Yrki arkitekta ehf. dags. 6. september 2019 br. 3. mars 2020. Tillagan var auglýst frá 16. desember 2019 til og með 29. janúar 2020. Eftirtaldir aðilar sendu athugasemdir/umsögn: Ingibergur Sigurðsson dags. 15. janúar 2020, Local lögmenn f.h. Tannlækninga ehf., Tannheils ehf., Laser-Tannlæknastofu ehf og Sigfúsar Haraldssonar dags. 24. janúar 2020, Logos lögmannsþjónusta f.h. Vallhólma ehf., Dyrhólma ehf. og Hraunhólma ehf. dags. 28. janúar 2020, Veitur dags. 28. janúar 2020 og Íbúaráð Miðborgar og Hlíða dags. 29. janúar 2020. Einnig er lögð fram eignaskiptayfirlýsingu vegna bílastæðahúss dags. 18. desember 2008 og framsal samkomulags frá Vallhólma til Dyrhólma til byggingar bílastæðahúss dags. 26. janúar 2009. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 6. mars 2020.
    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 
    Vísað til borgarráðs.

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  5. Hádegismóar, skipulagslýsing - nýtt deiliskipulag     (04.41)    Mál nr. SN200054
    440169-2879 Bandalag íslenskra skáta, Hraunbæ 123, 110 Reykjavík
    250864-4859 Gunnar Bergmann Stefánsson, Mánatún 3, 105 Reykjavík

    Lögð er fram umsókn f.h. Bandalags íslenskra skáta, dags. 22. janúar, ásamt skipulags- og matslýsingu ódags. vegna gerðs nýs deiliskipulags við Hádegismóa. Um er að ræða deiliskipulag fyrir nýjar höfuðstöðvar Bandalags íslenskra skáta. 
    Samþykkt er að kynna lýsingu að deiliskipulagi í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun, Minjastofnun, Borgarsögusafni Reykjavíkur, Strætó bs., OR/ Veitum, Íbúaráði Árbæjar og Norðlingaholts, Íþróttafélaginu Fylki og einnig kynna hana fyrir almenningi. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hádegismóar, höfuðstöðvar íslenskra skáta. Frábært verkefni fyrir frábæra starfsemi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Til stendur að Bandalag íslenskra skáta fái til afnota reit í Hádegismóum til að reisa sínar bækistöðvar. Um er að ræða lítt snortna náttúru sunnan við Morgunblaðshöllina. Skátar á Íslandi eru þekktir fyrir jákvæða umgengni við náttúru landsins og eru víða með bækistöðvar sem eru bæði til prýði og hafa gefið mörgu ungmenninu tækifæri til að kynnast náttúru svæðanna betur, svo ekki sé minnst á þá jákvæðu starfsemi sem skátahreyfingin iðkar. Ef af verður að Skátahreyfingin reisi sínar bækistöðvar á Hádegismóum mælist Flokkur fólksins til að hönnuðir húsakynnanna taki tillit til náttúrunnar og geri þau þannig úr garði að allt falli vel að umhverfinu. Jafnframt má ætla að starfsemi Skátanna, svona rétt við Rauðavatn styrki þetta fallega útivistarsvæði í jaðri höfuðborgarinnar og gæði það enn meira lífi. 

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Skólavörðustígur 16, breyting á deiliskipulagi     (01.181.0)    Mál nr. SN200114
    120369-5479 Kristján Bjarnason, Flúðasel 66, 109 Reykjavík
    671006-0540 Skólavörðustígur 16,húsfélag, Skólavörðustíg 16, 101 Reykjavík

    Lögð fram umsókn Kristjáns Bjarnasonar dags. 15. febrúar 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi reits 1.181.0 vegna lóðarinnar nr. 16 við Skólavörðustíg. Í breytingunni felst stækkun á byggingarreit 1. hæðar hússins í krika á baklóð, tala nýtingarhlutfalls er lagfærð og hlutfall A- og B- rýmis er betur skilgreint, samkvæmt uppdr. Arkitektastofunnar Austurvöllur dags. 2. febrúar 2019 br. 5. mars 2020.
    Samþykkt að falla frá grenndarkynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2.ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs nr. 1020/2019.

    Sólveig Sigurðardóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  7. Gufunes áfangi 1, Jöfursbás 11, breyting á deiliskipulagi     (02.2)    Mál nr. SN200145
    560997-3109 Yrki arkitektar ehf, Mýrargötu 26, 101 Reykjavík

    Lögð fram umsókn Yrki arkitekta ehf. dags. 2. mars 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi fyrir Gufunes áfanga 1 vegna lóðarinnar nr. 11 við Jöfursbás. Í breytingunni felst fjölgun íbúða á lóð úr 130 í 137 og að bætt er við kvöð um aðkomu körfubíla slökkviliðs (neyðarbíla), samkvæmt uppdr. Yrki arkitekta ehf. dags. 2. mars 2020. 
    Samþykkt að falla frá grenndarkynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2.ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs nr. 1020/2019.

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    (B) Byggingarmál

    Fylgigögn

  8. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

    Fylgiskjal með fundargerð þessari er fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1058 frá 3. mars 2020.

    (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  9. Gerðarbrunnur 44, málskot     (05.054.7)    Mál nr. SN200149
    230853-3719 Gísli Gíslason, Gerðarbrunnur 44, 113 Reykjavík

    Lagt er fram málskot dags. 1. mars 2020 vegna neikvæðrar afgreiðslu skipulagsfulltrúa frá 18. október 2020 um að gera aukaíbúð á neðri hæð hússins á lóð nr. 44 við Gerðarbrunn, stækka bílgeymslu/geymslu, fjarlægja stiga á milli hæða og færa inngang efri hæðar á vesturhlið, samkvæmt uppdr. Arkamon ehf. ódags. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 17. október 2019.
    Frestað.

  10. Rauðagerði 54, málskot     (01.823.1)    Mál nr. SN200152
    131082-4369 Lilja Sigríður Gunnarsdóttir, Rauðagerði 54, 108 Reykjavík

    Lagt er fram málskot Lilju Sigríðar Gunnarsdóttur og Stefáns Sturlu Stefánssonar dags. 3. mars 2020 vegna neikvæðrar afgreiðslu skipulagsfulltrúa frá 31. janúar 2020 um að gera innkeyrslu og bílastæði á lóð nr. 54 við Rauðagerði. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 31. janúar 2020.
    Staðfest er niðurstaða skipulagsfulltrúa sbr. umsögn dags. 31. janúar 2020.

    (A)    Skipulagsmál

  11. Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, íbúðarbyggð og blönduð byggð, breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur         Mál nr. SN190323

    Kynning á stöðu vinnu, frumdrög.

    -    Kl. 10:39 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundi.
    -    Kl. 10:39 tekur Björn Gíslason sæti á fundinum.

    Haraldur Sigurðsson deildarstjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  12. Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, borgarlína, breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur vegna borgarlínu milli Ártúnshöfða og Hamraborg         Mál nr. SN200153

    Lögð fram verk- og matslýsing Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar dags. í febrúar 2020 vegna breytingu á Aðalskipulagi vegna fyrstu lotu Borgarlínu, sem liggur á milli Ártúnshöfða í Reykjavík og Hamraborgar í Kópavogi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:    

    Nú stendur til að hefja fyrstu áætlun um byggingu borgarlínu um Reykjavík og yfir í Kópavog. Flokkur fólksins er í sjálfum sér ekki á móti borgarlínu, en lýsir efasemdum um ágæti hennar vegna ört vaxandi tæknibreytinga sem gætu gert borgalínuna óþarfa þá loks hún verður tilbúin, því er beint þeim tilmælum að aðrir og ódýrar samgöngukostir verði skoðaðir af borginni en þessi rándýra framkvæmd. Hverjir eiga svo að not borgarlínuna? Við lestur umræddrar skýrslu virðist eins og aðeins sé gert ráð fyrir að hjólandi og gangandi borgarbúar noti borgarlínuna samt er litið til þess að bílum fækki. Lítum á dæmi: Gert er ráð fyrir að við stöðvar borgarlínu verði hjólastæði fyrir hjólreiðamenn sem vilja nýta borgarlínuna. Ekki er gert ráð fyrir bílastæðum svo bíleigendur geti nýtt sér borgarlínuna. Hvers vegna á ekki einmitt að höfða til þeirra sem vilja nota einkabílinn nánast í allar sínar ferðir? Það er alþekkt erlendis að við endastöðvar almenningslesta eru bílastæði fyrir bifreiðareigendur svo þeir sleppi að aka alla leið til vinnu, heldur nýti sér almennings samgöngur líkt og aðrir. Hvað varðar kolefnisjöfnuð þá má gera ráð fyrir að meirihluti bílaflotans verð knúinn vistvænni orku 2040. Verður því fækkun einkabílsins eins mikil og til er ætlast? 

    Stefán Gunnar Thors og Hrafnkell Proppé frá Borgarlínustofu kynna matskýrslu.

    (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  13. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, í tengslum við endurnýjun Óðinstorgs         Mál nr. US200064

    Fulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju var svo nauðsynlegt að endurnýja þetta Óðinstorg umfram annað torg/svæði í Reykjavík en rúmlega 300 milljónum hefur verið varið í að endurgera Óðinstorg? Flokkur fólksins óskar eftir að fá yfirlit yfir svæði sem þarf að endurnýja á næstu árum.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

  14. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, vegna Óðinstorgs         Mál nr. US200067

    1. Eru einhverjar minjar sem fundust þegar endurgerð Óðinstorgs stóð yfir? 2. Hefur Minjastofnun haft afskipti af reitnum? 3. Ef svo er hver er kostnaðarþátttaka borgarinnar vegna vinnu við minjar á verndarsvæðinu? 4. Var gerð krafa um að fornleifafræðingur fylgdist með framkvæmdum við torgið vegna hugsanlegra bæjartófta sem þar kynnu að finnast? 

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

  15. Fyrirspurn frá áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, ósk um gögn         Mál nr. US200066

    Óskað er eftir samningsmarkmiðum Reykjavíkurborgar um uppbyggingu og úthlutum lóða þar sem kveðið er á um að ef stækkun fer yfir 800 fermetra á hverri lóð þá beri lóðarhafa að greiða aukagjald til borgarinnar.

    Framsent til borgarráðs.

  16. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, metanbílar verði aftur teknar á lista yfir visthæfa bíla. 
    Mál nr. US200073

    Með nýjum reglum sem tóku gildi 1. janúar 2020 voru metanbílar teknir af lista vistvænna bíla og geta ökumenn ekki lagt gjaldfrjálst í 90 mínútur í gjaldskyld stæði. Þetta er bagalegt og ekki til þess fallið að hvetja til orkuskipta. Það eru því engar ívilnanir frá borginni fyrir eigendur metanbíla lengur. Rök formanns skipulagsráðs voru að ekki væri hægt að tryggja að eigendur metanbíla aki á vistvæna orkugjafanum þegar þeir koma í bæinn og leggja í gjaldskyld stæði. Með þessum orðum er verið að gera lítið úr eigendum metanbíla. Það blasir við að sá sem kaupir sér metanbíl noti einungis bensín sem varaafl. Flokki fólksins finnst mikilvægt að allt sé gert til að flýta orkuskiptum og því fleiri sem sjái hag í að kaupa metanbíl því betra. Offramboð er á metani sem brennt er á báli í stórum stíl á söfnunarstað því Sorpu hefur mistekist að koma því á markað. Metan ætti að gefa eða selja á kostnaðarverði. Allt er betra en að sóa því. Væri metan selt á kostnaðarverði mundi hópur metanbíleigenda stækka hratt. Flokkur fólksins vill með þessari tillögu leggja áherslu á mikilvægi orkuskipta. Það voru regin mistök að fjarlægja metanbíla af þessum lista.

    Frestað.

  17. Fyrirspurnir áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, vegna búningsklefa Sundhallarinnar.
    Mál nr. US200074

    Sundhöll Reykjavíkur hefur verið í endurgerð og endurbyggingu og var nýr kvennaklefi byggður vegna þess að sá eldri þótt ekki viðunandi. Mörgum kvengestum Sundhallarinnar finnst staðsetning nýrra búningsklefa bagaleg þar sem ganga þarf frá klefum langa leið utandyra til að komast inn í Sundhöllina. Karlar hafa nú fengið klefa sína aftur endurgerða. Klefar kvenna eru enn í endurbyggingu sem lýkur á þessu ári en munu ekki vera ætlaðir konum til frambúðar heldur viðbót ef með þarf. Margir kvengestir vilja fá aftur aðgang að eldri búningsklefum þegar endurbótum þeirra er lokið. Þær sætta sig ekki við að hafa verið úthýst og að þurfa að ganga langar leiðir á blautum sundfötum, frá klefa að laug. Það stóð aldrei annað til en að karlar fengju sína gömlu klefa aftur. Flokkur fólksins veltir einnig fyrir sér hvort jafnréttisjónarmið kunni að hafa verið fótum troðið hér og hvort farið hafi verið á sveig við jafnréttislög? Fulltrúi Flokks Fólksins óskar eftir skýringu, af hverju kvennabúningsklefinn í Sundhöll Reykjavíkur var tekinn af konunum bæði á meðan klefarnir voru endurgerðir, en einnig til frambúðar? Af hverju konum var vísað úr sínum gömlu klefum en ekki körlum? Hvað hindrar það að konur fái aftur aðgang að klefunum, tilbúnum?

    Frestað.

  18. Fyrirspurnir áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, Fyrirspurnir í framhaldi af bókun meirihlutans í borgarstjórn við tillögu Flokks fólksins um að selja metan á kostnaðarverði
    Mál nr. US200075

    1. Hver er kostnaður við að framleiða metan og geyma og leiða það að brennslustað? 2. Hver er kostnaður við viðeigandi yfirbyggingu við að safna metani á urðunarstað, geyma og brenna síðan á báli? 3. Hve mörgum kg af metani er brennt árlega á báli? (nota má aðrar einingar svo sem lítra undir ákveðnum þrýstingi, eða rúmmetra undir ákveðnum þrýstingi). 4. Hefur stjórn Sorpu kannað hvort það brjóti á bága við samkeppnislög að selja metan fyrir þeim kostnaði sem fylgir því að koma því til neytenda?

    Frestað.

  19. Fyrirspurn frá áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, vegna Aðalskipulags 2010 – 2030
    Mál nr. US200076

    1. Hvað hefur vinna við nýjan viðauka við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010 - 2030, endurmat á stefnu um íbúðarbyggð/blandaða byggð og forgangsröðun og þéttleiki uppbyggingar á grundvelli markmiða um breyttar ferðavenjur, uppbyggingu Borgarlínu og stefnu í loftslagsmálum kostað til 1. mars 2020? 2. Hvað er áætlað að endanlegur kostnaður verði? 3. Hvað er aðkeypt vinna stór hluti af vinnunni? 4. Hvað hafa margir komið að vinnunni? 5. Hvað hafa margir fundir verið haldnir? 6. Hvenær er áætlað að vinnu við viðaukann verði lokið?

    Frestað.

  20. Fyrirspurn frá fulltrúa Samfylkingarinnar, vegna aðgengismála strætóstoppistöðva í Reykjavík.
    Mál nr. US200077

    1. Eru allar stoppistöðvar aðgengilegar fyrir alla (t.d. fólk í hjólastólum, barnavagna o.s.f.) og er aðkoma að stoppistöðvum ásættanleg? 2. Eru til landupplýsingagögn (GIS) þar sem búið er að taka saman hvaða stoppistöðvar eru aðgengilegar og hverjar ekki? 3. Er til aðgerðaráætlun sem miðar að því að laga aðgengi við stoppustöðvar? 4. Hvaða kröfur voru gerðar varðandi aðgengi í nýju skýlunum?

    Frestað.

Pawel Bartoszek Hjálmar Sveinsson