Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 63

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2020, miðvikudaginn 12. febrúar kl. 9:03 var haldinn 63. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð. Ráðssal. Viðstödd voru: Pawel Bartoszek, Alexandra Briem, Aron Leví Beck, Hjálmar Sveinsson, Hildur Björnsdóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúarnir Vigdís Hauksdóttir, Daníel Örn Arnarsson og Þór Elís Pálsson. Eftirtaldir embættismenn sátu fundinn: Glóey Helgudóttir Finnsdóttir, Ágústa Sveinbjörnsdóttir, Þorsteinn Rúnar Hermannsson, Hreinn Ólafsson, Nikulás Úlfar Másson og Gréta Mar Jósepsdóttir.
Fundarritari er Erna Hrönn Geirsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

    Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 7. febrúar 2020.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins bókar undir 7. lið fundargerðarinnar:

    Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur kemur fram að samþykkt var að gefa út framkvæmdaleyfi (Bústaðavegur /Kringlumýrarbraut), vegna m.a. gerðs fráreinar í akstursstefnu til austurs og breikkun rampa til suðurs á Kringlumýrarbraut ásamt breytingu á akstursleið inn á rampann frá norðurakbraut Bústaðavegar og setja ný umferðarljós á rampann. Fagnað er öllum framkvæmdum sem greiða umferð innan borgarinnar. Mjög illa var staðið að þessari framkvæmd. Íbúar Suðurhlíða Reykjavíkur urðu einn daginn varir við vinnuvélar og vörubíla á Bústaðavegi þar sem hann þverar Kringlumýrarbraut og vissu ekki hvað um var að vera á svæðinu. Við eftirgrennslan kom í ljós að búið var að ákveða tímabundna þrengingu á suðurhluta Bústaðarvegar vegna framkvæmda við afrein. Hefur þessi þrenging haft margvísleg óþægindi í för með sér fyrir íbúa þessa svæðis. Hér birtist enn og aftur algjört samráðsleysi við hlutaðeigandi aðila sem hafa mikilla hagsmuni að gæta.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata gagnbóka undir 7. lið fundargerðarinnar:

    Umrædd framkvæmd var á vegum Vegagerðarinnar ekki borgarinnar. Framkvæmdaleyfi var gefið út á grundvelli aðalskipulags. Ekki hafði tíðkast að grenndarkynna framkvæmdaleyfi fram að því. Úrskurður úrskurðarnefndarinnar er skýr og fordæmisgefandi að okkar mati. Rétt er að umferðaraukandi framkvæmdir á borð við þessa fari í grenndarkynningu héðan í frá.

    Fylgigögn

  2. Elliðaárdalur, deiliskipulag     (04.2)    Mál nr. SN190373

    Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar að deiliskipulagi fyrir borgargarðinn í Elliðaárdal. Skipulagið byggir á grunni eldra deiliskipulags sem var samþykkt árið 1994 sem fellt er úr gildi.  Í tillögunni eru afmörkuð og skilgreind hverfisverndarsvæði í dalnum, gerð grein fyrir helstu göngu- og hjólastígum ásamt nýjum þverunum yfir Elliðaárnar og skilgreind helstu útivistar- og áningarstaðir, samkvæmt uppdr. Landslags. ehf. dags. 10. febrúar 2020. Einnig er lögð fram greinargerð Landslags ehf. um forsendur deiliskipulags dags. 10. febrúar 2020, greinargerð Landslags ehf. um stefnumörkun og skilmála dags. 10. febrúar 2020, skýringarmynd Landslags ehf. dags. 10. janúar 2020 og drög Borgarsögusafns Reykjavíkur að varðveislumati og húsaskrá fyrir Elliðaárdalinn.

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með 4 atkvæðum fulltrúum Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði gegn tillögunni.

    Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata bóka:

    Með deiliskipulaginu sem nú verið að auglýsa stendur til að styrkja og festa í sessi stöðu Elliðarárdalsins sem borgargarðs, vernda og varðveita náttúrufar í dalnum um leið og tækifæri til útivistar í dalnum batna enn frekar. Endurbætt stígakerfi fjölgar fjölbreyttum göngu- og hjólaleiðum í dalnum og bætir þannig möguleika borgarbúa til að njóta dalsins á umhverfisvænan hátt. Ekki er gert ráð fyrir nýjum byggingum á svæðinu nema á rafstöðvarsvæðinu og þá aðallega í tengslum við mögulega og sögu- og tæknisýningu. Tillagan fer nú í auglýsingu og til umsagnar hagaðila. Við hlökkum til framhaldsins.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bóka:

    Nú eru liðin nærri sex ár frá því samþykkt var í borgarráði að vinna nýtt deiliskipulag fyrir Elliðaárdalinn. Lítið var um efndir. Á síðasta kjörtímabili var það ekki gert, en starfshópur borgarinnar skilaði af sér lokaskýrslu um Elliðaárdalinn í apríl 2016. Í þeirri skýrslu var gert ráð fyrir að Þ73 við Stekkjarbakka væri innan borgargarðsins. Í fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi fyrir Elliðaárdalinn er ekki gert ráð fyrir að þessi hluti dalsins tilheyri honum. Af þessum sökum greiðum við atkvæði gegn þessu deiliskipulagi.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins bókar:

    Það er mjög sláandi að við deiliskipulag fyrir Elliðarárdal að sjá að skipulagið taki skarpa beygju fram hjá þróunarreit Stekkjarbakka Þ73, þar sem fyrirhuguð gróðurhvelfing/Bio Dome á að rísa. Fjármagnsöflin þurfa sitt.  Fyrri hugmyndir gengu út á að reiturinn væri innan þessa mikilvæga útivistar- og náttúrusvæðis sem Elliðarárdalurinn er. Mörk deiliskipulags á öðrum stöðum miðast við útlínur dalsins. Farið var yfir afar fjölbreytt lífríki dalsins og því ljóst að mengunin frá gróðurhvelfingunni mun hafa gríðarleg áhrif á dalinn allan og þá sérstaklega ljósmengunin sem af henni hlýst. Það er mat borgarfulltrúa Miðflokksins að svæðið innan deiliskipulagsins ætti allt að njóta hverfisverndar í stað þess að marka það innan þeirra stíga sem liggja meðfram ánni á báða bóga. Verið er verið að fórna stærstu náttúruperlu Reykvíkinga kinnroðalaust. Hér birtist einbeittur vilji meirihlutans að úthluta óskilgreindum aðilum gæðum í formi borgarlands á kostnað náttúrunnar og lífsgæða Reykvíkinga. Ríkið ætti að friðlýsa svæðið strax og taka Elliðaárdalinn úr höndum Reykvíkinga til þess eins að koma dalnum úr klóm meirihlutans. Með friðun er tryggður réttur komandi kynslóða til að njóta ósnortinnar náttúru. Ósnortin náttúra er takmörkuð auðlind. Elliðarárdalurinn er stærsta auðlind Reykvíkinga – henni er fórnað í þessu deiliskipulagi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar:

    Áheyrnarfulltrúi Flokk fólksins fagnar nýju deiliskipulagi fyrir Elliðaárdalinn sem virðist í nær öllum liðum taka á verndun þeirrar náttúruperlu sem dalurinn er inn í borgarlandinu. Það stingur þó verulega í augu að Stekkjarbakkinn Þ.73 skuli vera undanskilinn. Þegar t.d. litið er á loftmynd af svæðinu sést það berlega að þessi landshluti ætti svo sannanlega að fylgja þarna með. Það er vitað mál hvers vegna meirihlutinn stingur þessum hluta landsvæðisins undan í furðulegum ásetningi sínum að reisa þar Aldin Biodome í kröftugri andstöðu við íbúa á svæðinu og jafnvel fjöldi borgarbúa. Því varar Flokkur fólksins alvarlega við því að skjóta undan landsvæði í deiliskipulagi fyrir prívat draumsýn borgarmeirihlutans og hvetur hann til að finna þessum glerhjúpi annan betri og raunsærri stað.

    Fulltrúi frá Landslagi ehf. Þráinn Hauksson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Grensásvegur 1, breyting á deiliskipulagi     (01.460.0)    Mál nr. SN190203

    690906-1390 Batteríið Arkitektar ehf., Hvaleyrarbraut 32, 220 Hafnarfjörður

    Lögð er fram, að lokinni auglýsingu, umsókn Sigurðar Einarssonar dags. 22. mars 2019 ásamt minnisblaði Batterísins dags. 21. febrúar 2019 varðandi breytingu á deiliskipulagi "Skeifan-Fenin" vegna lóðarinnar nr. 1 við Grensásveg. Í breytingunni felst aukning á byggingarmagni vegna uppbyggingar meðfram Skeifunni og breyting notkunar efri hæða fyrir íbúðir, samkvæmt uppdr. Batterísins arkitekta ehf. dags. 22. mars 2019, breytt 20.09.2019 síðast breytt 06.02.2020. Einnig er lagt fram minnisblað Mannvits dags. 15. mars 2019 um hljóðvist og Greinargerð - Samgöngumat Mannvits dags 17. september 2019. Tillagan var auglýst frá 14. október 2019 til og með 25. nóvember 2019. Eftirtaldir aðilar sendu athugasemdir: Samúel Torfi Pétursson dags. 15. október 2019, Sæmundur H. Sæmundsson, framkvæmdastjóri, f.h. Vesturgarðs ehf. dags. 25. nóvember 2019, Ágúst Valfells, stjórnarformaður f.h. Skeifunnar 13A dags. 25. nóvember 2019 og Friðjón Sigurðarson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs f.h. Reita fasteignafélags hf. dags. 25. nóvember 2019. Að loknum athugasemdarfresti barst athugasemd frá Ragnheiði M. Ólafsdóttur f.h. Reita - skrifstofa ehf. dags. 26. nóvember 2019 og  f.h. Reita - verslunar ehf. dags. 26. nóvember 2019. Einnig er lögð fram umsögn Veitna dags. 13. nóvember 2019. 

    Frestað.

    (B) Byggingarmál

  4. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

    Fylgiskjal með fundargerð þessari er fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1053 frá 4. febrúar 2020.

    Fylgigögn

  5. Ársskýrsla byggingarfulltrúa 2019          Mál nr. US200037

    Lögð er fram ársskýrsla byggingarfulltrúa fyrir árið 2019 dags. í janúar 2010. Í skýrslunni kemur fram tölulegt yfirlit yfir byggingarleyfisumsóknir, byggingarmagn, byggingarleyfi, úttektir, fasteignaskráningu o.fl. samkvæmt skráningum í málaskrá yfir árið. 

    Kynnt.

    (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  6. Umhverfis- og skipulagssvið, yfirlit yfir innkaup         Mál nr. US130118

    Lagt fram yfirlit yfir innkaup umhverfis- og skipulagssviðs á verkum yfir milljón í aðalsjóði og eignarsjóði frá janúar til september 2019.

    Fylgigögn

  7. Umhverfis- og skipulagssvið, 

    ellefu mánaða uppgjör         Mál nr. US200038

    Lagt er fram ellefu mánaða uppgjör umhverfis- og skipulagssviðs frá janúar til nóvember 2019.

    Fylgigögn

  8. Fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins, varðar stöðu framkvæmda á       Mál nr. US200040

            göngu- og hjólastíg upp Bryggjubrekku sunnan við Bryggjuhverfi. 

    Óskað er eftir upplýsingum um stöðu framkvæmda á göngu- og hjólastíg upp Bryggjubrekku sunnan við Bryggjuhverfi. Minnt er á að á fundi ráðsins þann 26. júní 2019 var samþykkt tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 7. maí 2019 um að ráðast í gerð göngustígsins. Hugmyndin hefur einnig verið sett fram í lýðræðisverkefninu Betri Reykjavík og Íbúasamtök Bryggjuhverfisins hafa einnig beitt sér fyrir málinu um árabil. Á aðalfundi Íbúasamtakanna þann 21. nóvember síðastliðinn fengu félagsmenn samtakanna þær upplýsingar frá starfsmanni borgarinnar að fyrsti áfangi í gerð stígsins ætti að byrja fyrir áramót og seinni áfangi næsta vor. Stígurinn er meðal annars nauðsynleg tenging fyrir íbúa hverfisins í þjónustu á Höfða og nágrenni, svo sem heilsugæslu, verslanir og veitingastaði svo ekki sé minnst á möguleika til útivistar í fallegu útsýni. Ekki er að sjá að framkvæmdir séu hafnar og er því óskað eftir upplýsingum um stöðu málsins.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

  9. Tillaga Sjálfstæðisflokksins,                          Mál nr. US200041

       sem varðar gönguþverun yfir Hringbraut         

    Lagt er til að umhverfis- og skipulagssvið, í samstarfi við Vegagerðina, vinni tillögur að öruggum gönguþverunum yfir Hringbraut. Slysatíðni er mikil á Hringbraut og fjöldi barna þverar götuna daglega á leið til skóla, íþrótta og tómstunda. Gera þarf viðeigandi breytingar á umhverfi Hringbrautar svo tryggt verði raunverulegt öryggi með réttum staðsetningum, götugögnum og búnaði. Skapa þarf öryggistilfinningu og jákvæða hegðun þar sem notendur lesa umhverfið og hætturnar rétt og bera virðingu hver fyrir öðrum. Tillögurnar verði unnar með hliðsjón af skýrslu um umferðaröryggi í Vesturbæ (febrúar 2016), og að höfðu samráði við íbúaráð og íbúasamtök Vesturbæjar.

    Frestað.

  10. Fyrirspurn Flokks fólksins,                              Mál nr. US200042

    vegna malbikunar í Grafarvogi og á Miklubraut         

    Nú þegar nokkuð er liðið á veturinn kemur í ljós lélegt viðhald á hluta af sumum götum borgarinnar. Má þar nefna hluta af Höfðabakka frá Stórhöfða að Bíldshöfða akstursstefna í suðurátt. Síðastliðið sumar var þó nokkuð af götum lagfærðar í Grafarvogi, sem er vel, en þessi partur skilinn eftir, sem nú er orðin hættulegur, enda aðal samgönguæðin út úr hverfinu. Sama má segja um hluta af Miklubraut/Vesturlandsvegi frá Grensásvegi að Höfðabakka þá sérstaklega akstursstefna í austur átt. Samkvæmt 11 mánaða uppgjöri Umhverfis- og skipulagssviðs þá var viðhalda gatna talsvert undir fjárheimildum eða 219 m.kr. á tímabilinu. Hvers vegna var þá ekki farið í viðhald þessara akstursbúta ásamt öðrum þegar bæði var til staðar fjármagn og einstaklega gott sumar?

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

  11. Fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins, 

    Ítrekun á svörum vegna tillögu frá fundi nr. 23 frá  23. janúar 2019.         Mál nr. US200046

    Óskað  er eftir svörum við tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um umferðaröryggi gangandi vegfarenda og skólabarna í Hamrahverfi í Grafarvogi sbr. 22. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 23. janúar 2019.          

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

  12. Fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins, 

    Ítrekun á svörum vegna tillögu frá fundi nr. 23 frá  23. janúar 2019.

             Mál nr. US200047

    Óskað  er eftir svörum  við tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um tímalengd götulýsingar sbr. 21. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 23. janúar 2019

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

  13. Fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins, 

    Ítrekun á svörum við tillögu frá fundi nr. 33 frá 3. apríl 2019         Mál nr. US200048

    Óskað eftir svörum við tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins  um lagfæringu á gatnamótum Strandvegar og Borgarvegar fyrir gangandi og hjólandi sbr. 33. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 3. apríl 2019.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

  14. Fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins, 

    Ítrekun á svörum vegna tillögu frá fundi nr. 38 frá 29. maí 2019         Mál nr. US200049

    Óskað  er eftir svörum við tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um skoðun á kaupum leiguskápa fyrir reiðhjól sbr. 44. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 29. maí 2019. 

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

  15. Fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins,

    Ítrekun á svörum vegna tillögu frá fundi nr. 42 frá 3. júlí 2019.          Mál nr. US200050

    Óskað  er eftir svörum við tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lagfæringu á gatnamótum Hallsvegur/Víkurvegur sbr. 44. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 3. júlí 2019.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

  16. Fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins, 

    Ítrekun á svörum vegna tillögu frá fundi nr. 15 frá 31. október 2018.          Mál nr. US200051

    Óskað  er eftir svörum við tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um grjótvegg við Miklubraut, Rauðagerði sbr. 20. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 31. október 2018.

    Vísað til meðferðar hjá umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar og Skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

Fundi slitið klukkan 10:35

Pawel Bartoszek Alexandra Briem

Hjálmar Sveinsson Hildur Björnsdóttir