Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 127

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2022, miðvikudaginn 2. febrúar kl. 9:03, var haldinn 127. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Pawel Bartoszek, Alexandra Briem, Hjálmar Sveinsson, Ragna Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds og Ólafur Kr. Guðmundsson, Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúarnir Anna Maria Wojtynska, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir.

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Björn Axelsson, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson og Jóhanna Guðjónsdóttir. Eftirtalinn starfsmaður sat fundinn með rafrænum hætti: Inga Rún Sigurðardóttir.

 

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir sem tók sæti á fundinum með rafrænum hætti.

 

 

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

 1. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

  Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 28. janúar 2022.

  Fylgigögn

 2. Laugardalur, tillögur um skipulags- og mannvirkjamál, umsagnarbeiðni     (01.39)    Mál nr. SN220057

  Lögð fram umsagnarbeiðni skrifstofu borgarstjórnar, dags. 31. janúar 2021 þar sem óskað er eftir umsögn skipulags- og samgönguráðs um tillögu borgarstjóra, dags. 27. janúar 2022, um tillögur starfshóps um skipulags- og mannvirkjamál í Laugardal, dags. í janúar 2022. Einnig er lögð fram viljayfirlýsing Knattspyrnufélagsins Þróttar, Glímufélagsins Ármanns og Reykjavíkurborgar, dags. 24. janúar 2022 og erindisbréf starfshóps um skipulags- og uppbyggingarmál Þróttar og Ármanns, dags. 24. janúar 2022.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Laugardalur er eitt mikilvægasta útivistarsvæði borgarinnar. Fram hafa komið fjölmargar hugmyndir að nýjum byggingum í dalnum. Má til dæmis nefna nýja aðstöðu fyrir Þrótt og Ármann, nýja þjóðarleikvanga í knattspyrnu, innigreinum og frjálsum íþróttum, viðbyggingu við skautahöll, tennishús auk fræðsluaðstöðu í fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Mikilvægt er þó að huga að grænni ásýnd dalsins um leið um farið er í uppbyggingu. Við fögnum þannig hugmyndum um að lengja trjágöngin, taka burt stór bílastæðaflæmi og loka Engjavegi fyrir bílaumferð og áréttum mikilvægi þess að ganga ekki á hjóla- og göngustíga í dalnum.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Ég styð alla íþróttauppbyggingu í Reykjavík. Laugardalurinn er eitt af flaggskipum borgarinnar hvað varðar græn svæði. Það er afleitt að blanda saman íþróttauppbyggingu, umræðu um græn svæði og samgöngumál. Hér er verið að kynna stórfellda uppbyggingu við Suðurlandsbraut vegna borgarlínu á kostnað Laugardalsins. Orðrétt segir í tillögunni: „Í tillögunum er mælt með því að endurskoða áform um uppbyggingu samfelldrar byggðar meðfram Suðurlandsbraut og bent á að hún geti farið vel á völdum afmörkuðum stöðum, s.s. við stöðvar borgarlínu.“ Hér er verið að stilla öllum upp við vegg. Loka á Engjavegi fyrir umferð sem þýðir það eitt að umferðin fer út í hverfin sem liggja að vellinum. Boðað er að taka eigi akreinar af Suðurlandsbrautinni vegna borgarlínu. Svæðið verður ein umferðarstappa. Ég mótmæli því harðlega að þessi mál séu sett fram sem sama tillagan sem hælkrókur á alla.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Sem betur fer er ekki hér um fullmótaðar tillögur að ræða. En oft er það samt þannig að það sem ratar inn sem fyrstu hugmyndir, hangir inni allt út í gegn sama hvað hver segir. Áður hefur fulltrúi Flokks fólksins nefnt að verið er að þrengja ansi mikið af Dalnum, taka græn svæði undir byggingar og taka bílastæði ýmist undir byggingar eða græna bletti. Gengið er á græn svæði. Síðan er það umræðan um aðgengi. Ef aðgengi er erfitt gengisfellir það svæðið mikið. Huga þarf að góðum samgöngum fyrir alla hvernig svo sem þeir kjósa að ferðast. Loka á Engjateigi. Með því að fækka bílastæðum í og við Dalinn leggur fólk í nærliggjandi götur. Íbúar á Teigum munu kannski ekki geta lagt bílum sínum vegna þess að gestir Dalsins hafa tekið stæðin t.d. þegar mannmargir viðburðir eru í gangi. Foreldrar sem búa fjarri Dalnum þurfa einnig að geta komið ungum börnum sínum í þær íþróttir sem þarna eru og verða stundaðar. Íþróttaástundun í Dalnum er ekki aðeins bundin við nærliggjandi skóla. Fulltrúi Flokks fólksins vill að íbúar og foreldrar á hverfinu komi að þessum hugmyndum nú þegar.

  Ómar Einarsson, sviðsstjóri íþrótta- og tómstundasviðs, tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  Fylgigögn

 3. Klambratún (Flókagata 24), stofnun lóðar     (01.248)    Mál nr. SN200608

  Lögð fram að nýju umsókn skrifstofu framkvæmda og viðhalds dags. 29. september 2020 um að gerð verði lóð í kringum grenndarstöð/djúpgáma sem verður staðsett inni á bílastæði Kjarvalsstaða að Klambratúni, samkvæmt uppdr. dags. 8. júní 2020. Tillagan var grenndarkynnt frá 16. júní 2021 til og með 4. ágúst 2021. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Margrét Unnarsdóttir dags. 22. júní 2021, Veitur dags. 25. júní 2021, Jón Hálfdanarson dags. 1. júlí 2021, Gísli Gíslason f.h. Flókagötu 21, húsfélag dags. 14. júlí 2021, Jón Hálfdánarson dags. 29. júlí 2021, og Pétur Ástvaldsson og Elísabet Jónasdóttir að Flókagötu 23 dags. 4. ágúst 2021. Einnig er lagður fram tölvupóstur Péturs Ástvaldssonar og Elísabetar Jónasdóttur dags. 12. ágúst 2021 þar sem athugasemdir eru dregnar til baka. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 28. janúar 2022 þar sem lagt er til að málinu verði vísað til frekari úrvinnslu við gerð hverfisskipulags Hlíða.

  Samþykkt að vísa til frekari úrvinnslu við gerð hverfisskipulags Hlíða.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Verið er að stofna lóð fyrir grenndargáma. Það hlýtur að vera mikilvægt í því sambandi að huga að foki á pappír og drasli sem mun þá dreifa sér á nærliggjandi lóðir. Hér er mjög mikilvægt að nota hentuga gáma sem auðvelt er að losa í.

  Fylgigögn

 4. Vesturbæjarsundlaug, 
  breyting á deiliskipulagi     (01.526.1)    Mál nr. SN220054

  Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Vesturbæjarlaugar. Í breytingunni felst að lóðarmörk við Einimel 18-26 eru færð út sem nemur 3,1 m og minnkar lóð Vesturbæjarlaugar sem því nemur, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdr. Eflu dags. 27. janúar 2022. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.

  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 
  Vísað til borgarráðs.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Með þessari breytingu þá stækkar túnið miðað við raunverulega stöðu seinustu áratuga. Töluverðar deilur hafa staðið um girðingar og lóðarmörk á svæðinu og er deiliskipulagstillagan er niðurstaða sátta í þeirri deilu. Ánægjulegt er að sú sátt sé að nást.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Lögð fram tillaga meirihlutans að minnka lóðarmörk við Einimel 18-26 sem nemur 3,1 m og minnkar lóð Vesturbæjarlaugar sem því nemur. Eftir því sem næst kemst af kynningu er um þetta sátt eftir miklar deilur um girðingar og lóðamörk á svæðinu. Ef almenn sátt er þá er það mjög gott.

  Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti.

  Fylgigögn

 5.     Háaleitisbraut 1, breyting á deiliskipulagi     (01.252.1)    Mál nr. SN210571

  Lögð fram umsókn Ragnars Auðuns Birgissonar dags. 11. ágúst 2021 varðandi breytingu á deiliskipulagi fyrir Háaleitisbraut 1. Í breytingunni felst að í stað skrifstofuhúsnæðis í suðaustur hluta lóðarinnar kemur nýtt íbúðarhús með 29 íbúðum. Íbúðir á reitnum verða því samtals 76. Bíla- og hjólastæðakröfur breytast m.t.t. fjölda íbúða og núverandi byggingar, Valhallar, en skilgreiningar per íbúð/fm helst óbreytt. Byggingarreitur nýs íbúðarhúss er skipt upp í ytri og innri byggingarreit ásamt því að byggingarmagn eykst o.fl., samkvæmt. uppdrætti THG arkitekta ehf. dags. 26. júlí 2021. Einnig er lögð fram breytt tillaga THG arkitekta, móttekið dags 18. nóvember 2021, m.a. hefur húsformi verið breytt og íbúðum fækkað. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.

  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fulltrúi Samfylkingarinnar, Hjálmar Sveinsson, situr hjá.
  Vísað til borgarráðs. 

  Lilja Grétarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti.

  Fylgigögn

 6. Geirsgata 9, breyting á deiliskipulagi     (01.117.3)    Mál nr. SN220038

  Lögð fram umsókn ASK Arkitekta ehf. dags. 18. janúar 2022 varðandi breytingu á deiliskipulagi Slippa- og Ellingsenreits vegna lóðarinnar nr. 9 við Geirsgötu. Í breytingunni felst að skipulagssvæði Vesturbugtar er stækkað þannig að Geirsgata 9 verði hluti af reit 8 á skipulagssvæðinu ásamt því að gert er ráð fyrir nýjum byggingarreit í anda verbúðanna við Geirsgötu 3-7 í samræmi við gildandi rammaskipulag Graeme Massie arkitekta um þéttingu byggðar í Gömlu höfninni, samkvæmt uppdr. ASK Arkitekta ehf. dags. 18. janúar 2022. Lagt er til að tillagan verði afgreidd í auglýsingu.

  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. 
  Vísað til borgarráðs.

  (B) Byggingarmál

  Fylgigögn

 7. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

  Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1148 frá 25. janúar 2022.

  (D) Ýmis mál

  Fylgigögn

 8. Skýrsla um úttekt á undirgöngum Reykjavíkur, umsagnarbeiðni - R21100397         Mál nr. US220029

  Lögð fram umsagnarbeiðni mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 29. nóvember 2021, þar sem óskað er umsagnar skipulags- og samgönguráðs um skýrslu um úttekt á undirgöngum Reykjavíkur, dags. 5 nóvember 2022.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Lögð er fram umsagnarbeiðni þar sem óskað er eftir umsögn skipulags- og samgönguráðs um skýrslu um úttekt á undirgöngum Reykjavíkur. Úttektin leiddi í ljós að í nokkrum fjölda undirganga var þörf á úrbótum. Skortur á aðgengi stafar oft af bröttum brekkum í göngum eða stigum sem fólk með fötlun getur ekki gengið um og er einnig óþægilegt fyrir hjólreiðafólk. Bæta aðstæður þeirra sem eru með sérþarfir, t.d. þeir sem ekki sjá vel eða eiga erfitt um gang. Víða er skortur á almennu viðhaldi. Innkoma í göngin eru oft illa merkt, fólk sér ekki auðveldlega hvar á að fara inn. Undirgöng og viðhald þeirra eru kannski þess leg að auðvelt er að gleyma þeim. Fólk fer í gegn en gerir kannski ekki mikið úr því þótt allt sé útkrotað eða sóðalegt. Mikilvægt er að gera einnig úttekt af þessu tagi á vetrartímanum þegar farið er að rökkva því þá sjást aðrir hlutir betur. Fulltrúi Flokks fólksins vill láta skoða hvort setja ætti öryggismyndavélar í undirgöng. Margir eru hræddir við að nota þau en ef myndavélar væru gæti það skapað öryggiskennd. Myndavélar hafa líka fælingarmátt og gerist eitthvað er hægt að skoða atburðarás í myndavél og hver var aðili/aðilar í málinu.

  Fylgigögn

 9. Loftlagsstefna fyrir höfuðborgarsvæðið, sóknaráætlun 2020-2024, umsagnarbeiðni - USK22010115         Mál nr. US220028

  Lögð fram umsagnarbeiðni skrifstofu borgarstjórnar, dags. 28. janúar 2022, þar sem óskað er eftir umsögn skipulags- og samgönguráðs um loftslagsstefnu fyrir höfuðborgarsvæðið. Einnig er lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 20. janúar 2022, ásamt fylgigögnum. 

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stefnumótunar og greiningar.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Lögð er fram umsagnarbeiðni þar sem óskað er eftir umsögn skipulags- og samgönguráðs um loftslagsstefnum fyrir höfuðborgarsvæðið. Umtalsverður hluti af loftslagsstefnu höfuðborgarsvæðis er innihaldslaus texti að mati fulltrúa Flokks fólksins. Tvískinnungur á ekki að vera í stefnu og það þarf að meta hvern kost með tillit til framlags. Þessi texti frá stjórnendum á höfuðborgarsvæðinu er athyglisverður: ,,Mikilvæg tækifæri liggja í breyttri meðhöndlun búfjáráburðar þannig að áburðarefnin nýtist sem best og takmarka megi notkun tilbúins áburðar. Sömuleiðis er mögulegt að vinna metangas úr búfjáráburði og nýta það sem eldsneyti. Ef gasið kemur í stað jarðeldsneytis er um leið dregið úr losun vegna orkunotkunar”. En staðreynd er að metani er t.d. brennt á báli á höfuðborgarsvæðinu í stað þess að nota það í stað jarðefnaeldsneytis. Eru stjórnendur á höfuðborgarsvæðinu ekki meðvitaðir um hversu orkunýting er lítil við framleiðslu vetnis með rafgreiningu? Það þýðir að þetta er dýr aðgerð.

  Fylgigögn

 10. Framtíðarlausn brennanlegs úrgangs í stað urðunar, umsagnarbeiðni - USK22010137         Mál nr. US220027

  Lögð fram umsagnarbeiðni skrifstofu borgarstjórnar, dags. 25. janúar 2022, þar sem óskað er eftir umsögn skipulags- og samgönguráðs varðandi skýrslu stýrihóps varðandi Forverkefni um framtíðarlausn til meðhöndlunar brennanlegs úrgangs í stað urðunar, dags. 15. desember 2021.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Byggja á eina sorpbrennslustöð fyrir landið allt og málið dautt. Það verkefni á fyrst og fremst að vera á vegum ríkisins í samvinnu við öll sveitarfélögin í landinu. Það er ófært að hvert sveitarfélag fyrir sig sé að búa til heimatilbúnar lausnir við förgun brennanlegs úrgangs. Þingmenn Miðflokksins hafa ítrekað lagt fram þessar hugmyndir í formi þingsályktunartillögu – sjá hér: https://www.althingi.is/altext/150/s/0086.html. Það er mikil þröngsýni að hún hafi ekki löngu verið samþykkt. Að auki þarf staðarval að vera vel ígrundað því við brennslu verður til orka sem nota má til húshitunar. Það er því einboðið að koma hátæknibrennslustöð sem þjónar öllu landinu á köldu svæði.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins hefur leitað eftir upplýsingum um brennanlegan úrgang hjá sérfræðingum og hefur fengið þau svör að það að brenna úrgang sé flókið mál og að hugsa þarf það vel til að við fáum ekki nýja GAJA með öllum þeim mistökum sem henni fylgdi. Ef að vel á að vera þá ætti Reykjavíkurborg að fá til sín sérfræðinga í þessu máli til að kynna þeim kosti og galla.

  Fylgigögn

 11. Samræming úrgangsflokkunar á höfuðborgarsvæðinu 2020 - 2024, umsagnarbeiðni - USK22010136         Mál nr. US220030

  Lögð fram umsagnarbeiðni skrifstofu borgarstjórnar, dags. 28. janúar 2022, þar sem óskað er eftir umsögn skipulags- og samgönguráðs varðandi samræmingu úrgangsflokkunar á höfuðborgarsvæðinu. Einnig er lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 20. janúar 2022, ásamt fylgigögnum.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Það er löngu orðið tímabært að samræma reglur um úrgangsflokkun og því hið allra besta mál. Fulltrúa Flokks fólksins sýnist þetta sé vel unnið í fljótu bragði og verður spennandi að sjá framhaldið. Aðalatriðið er að flokka sorp þar sem það verður til, þ.e. myndast.

  Fylgigögn

 12. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, 
  vegna umsóknar um leyfi til rekstrar         Mál nr. US210315

  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að sá sem sækir um leyfi til rekstrar af hvers lags tagi í Reykjavík þurfi aðeins að setja sig í samband við einn aðila í borgarkerfinu, einn tengilið í stað þess að þurfa að tala við marga. Eins og staðan er núna þá er þetta umsóknarferli óþarflega flókið. Fram kemur á vefnum að umsagnarferlið getur tekið allt að 45 daga. Á þessu er allir gangur eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins hefur heyrt og er heildarumsóknarferli iðulega mikið lengra. Enda þótt ferlið virki einfalt í einhverjum fimm skrefum á vef borgarinnar hafa fjölmargir lýst þessu ferli sem göngu milli Pontíusar og Pílatusar. Í þessari tillögu er lagt til að einn aðili, tengiliður, annist þessi mál þannig að hann haldi utan um gögnin. Með því að hafa samband við tengiliðinn er hægt að fá uppgefið strax hvar hvert og eitt gagn er statt. Tengiliðurinn safnar síðan gagnapakkanum saman og gerir hann kláran fyrir umsækjanda. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að þetta sé gert með þessum hætti þar til stafrænar lausnir eru komnar sem leysi tengiliðinn af hólmi. Slíkar stafrænar lausnir ættu að geta komið fljótt ef leitað er samstarfs við aðra sem komnir eru lengra með stafrænar lausnir.

  Vísað til umsagnar þjónustu og nýsköpunarsviðs, skrifstofu þjónustuhönnunar.
   

 13. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn, um lýsingu við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar         Mál nr. US220025

  Við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar við Kirkjusand eru birtuskilyrði fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur slæm sem kann að hafa leitt hafa til alvarlegra slysa. Í einu slysinu hjólaði ökumaður á rafskútu sem lá þvert á hjólastíginn og sást illa í myrkrinu. Stendur til að bæta öryggi hjólandi og gangandi á þessum slóðum með bættri lýsingu til að tryggja öryggi hjólandi og gangandi vegfarenda? 

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 14. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, 
  um kostnað vegna skýrslu         Mál nr. US220022

  Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um heildarkostnað greiningarvinnu og skýrslugerðar umhverfis- og skipulagssviðs um áhrif hámarkshraðaáætlunar Reykjavíkur á ferðatíma Strætó. Um var að ræða innanhúsvinnu. Óskað er eftir upplýsingum um tímafjölda sem fór í verkið og annan kostnað sem og heildarkostnað. Beðið var um verkið af meirihlutanum og Strætó sem hafði áhyggjur af því að lækkun hámarkshraða myndi hægja á Strætó. 

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 15. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, 
  um hæð byggingar á Ægissíðu         Mál nr. US220021

  Í samningsmarkmiðum Reykjavíkurborgar á uppbyggingarsvæðum sem samþykkt er af borgarstjóra er sagt að leggja skuli áherslu á gæði og gott umhverfi og varðveita staðaranda og yfirbragð byggðar. Telja skipulagsyfirvöld í borginni að allt að 5 hæða fjölbýli í lágstemmdari byggð Ægissíðu falli undir þessi samningsmarkmið Reykjavíkurborgar?

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

  (A)    Skipulagsmál

 16. Miklabraut í stokk, hugmyndaleit, kynning     (01.82)    Mál nr. SN210481

  Lögð fram til kynningar tillaga Yrki arkitekta, Dagný Land Design og Hnit verkfræðistofu úr hugmyndaleit um uppbyggingu í og við vegstokk á gatnamótum Miklubrautar og Bústaðavegar / Snorrabrautar. 

  Kynnt.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fantasíuhugmyndir er það orð sem lýsir þessu best. Lýst er yfir miklum áhyggjum af umferðarflæði og aðkomu að Landsspítalanum, hverfinu sjálfu og almennri umferð á framkvæmdatíma þegar og ef Miklabraut verður lögð í stokk. Engar lausnir eru kynntar varðandi þau mál. Áætlað er að stokkurinn verði 1,4 km. langur. Það sjá það allir í hendi sér að þetta verður gríðarlega flókið verkefni ef af verður. Hér er ekki gætt að öryggissjónarmiðum og er það mikið ábyrgðarleysi. Hvergi er útfært hvernig neyðarakstri að Landspítalanum verði háttað. Kjarnastöð borgarlínu á að koma ofan á gatnamót Snorrabrautar og Miklubrautar. Kynntar voru hugmyndir um „nýja Snorrabraut“. Nú er smám saman að koma í ljós hvers vegna áætlað er að leggja á milljarð í lagfæringu Snorrabrautar og á glansmyndunum sem fylgja með kynningunni er grænn litur sýndur ásamt einhverjum vögnum sem líklega á að vera borgarlína og keyrir hún fyrir miðju götunnar. Mér er stórlega til efs að hægt sé að koma þriðju akreininni fyrir.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Umfang verkbeiðninnar til arkitektanna er óljós. Svo virðist sem lítil takmörk hafi verið sett og teygja tillögurnar sig langt umfram „Miklubraut í stokk“ og nærliggjandi umhverfi. Hér er kynnt risastórt verkefni þar sem byggja á yfir stórt svæði, byggt yfir slaufur, yfir Miklubrautina. Heilt nýtt hverfi á að rísa samkvæmt hugmyndunum. Ekki er mikið minnst á stokkinn sjálfan t.d. loftræstingu sem fulltrúi Flokks fólksins hefur miklar áhyggjur. Ef ekki eru gerðar ráðstafanir við báða enda stokksins mun umferðarflæði ekki aukast heldur munu biðraðir aðeins færast til. Inni í stokknum munu hundruð bíla bíða. Bílvélar í hægagangi menga loft sem einhvers staðar mun þurfa að vera, en bílarnir komast á sama tíma ekkert áfram. Biðraðir bíla eru stór mengunarþáttur sem ekki er hægt að líta framhjá. Þess vegna verða að vera til áætlanir um hvert á þetta mjög mengaða útblástursloft á að fara. Myndir eru sýndar af kassalöguðum byggingum með flötum þökum. Vissulega er ekkert ákveðið í þessum efnum. Fulltrúi Flokks fólksins vill þó vara við flötum þökum sem samkvæmt reynslu munu leka, mismikið, með tilheyrandi mygluvandamálum. Talað eru um hágæðabyggingar? Þarna er sýnt vindakort en ekki sýnt hvernig vindur dregst niður og slengist milli húsa. Hvað með rannsóknir í vindgöngum?

  Ásdís Helga Ágústsdóttir og Gunnar Ágústsson frá Yrki arkitektum taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  -    Kl. 11:05 víkur Ólafur Kr. Guðmundsson af fundi.
  -    Kl. 11:05 tekur Marta Guðjónsdóttir sæti á fundinum.

  Fylgigögn

 17. Sæbraut í stokk, hugmyndaleit, kynning         Mál nr. SN210529

  Lögð fram til kynningar tillaga Arkís arkitekta, Landslags og Mannvits úr hugmyndaleit um uppbyggingu í og við vegstokk á Sæbraut til móts við Vogabyggð og Steinahlíð. 

  Kynnt.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fallast má á þessa nálgun en mikið vantar upp á til að hægt verði að taka afstöðu til byggingaframkvæmda svo sem um kostnað og á hverjum hann lendir. Athyglisvert að hús eru sýnd með flötum þökum sem hætta er á að leki eða hreinlega má bara segja að munu leka. Og svo hafa teiknara verðið mjög heppnir með veður þegar þeir teiknuðu myndirnar. Gras eru sett á þök, sem náttúrulega sjást ekki frá götu. Þetta hlýtur að þýða að þökin verði að vera býsna massíf, þung.

  Björn Guðbrandsson frá Arkís arkitektum tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  Fylgigögn

 18. Sæbraut og Miklabraut í stokk, 
  tillögur til frekari úrvinnslu         Mál nr. SN220059

  Lögð fram samantekt Alta ráðgjafastofu dags. 31. janúar 2022 um val á tillögum til frekari úrvinnslu í hugmyndaleit um skipulag í og við stokka á Miklubraut og Sæbraut.

  Samþykkt að vísa til frekari úrvinnslu umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Við þökkum öllum þeim teymum sem skiluðu inn tillögum í hugmyndaleit vegna Miklubrautar- og Sæbrautarstokka. Tillögurnar voru settar í rýni hjá umhverfis- og skipulagssviði sem kallaði til breiðan hóp samstarfsaðila, sér í lagi verkefnastofu Borgarlínu, Vegagerðina, Betri samgöngur og Strætó. Niðurstaða þeirrar rýni að að leggja til að unnið verði áfram með tillögu Arkís ofl. vegna Sæbrautarstokks og tillögu Yrkis ofl. vegna Miklubrautarstokks. Við leggjum áherslu á að við áframhaldandi vinnu verði lögð áherslu á forgang gangandi og hjólandi og Borgarlínu á svæðunum tveimur. Þannig verði litið til lausna þar sem vegir á Miklubrautarstokk séu einungis vegna Borgarlínu en ekki hugsaðir fyrir gegnumakstursumferð. Loks ber að huga að því að Borgarlína sé ávallt höfð í hæsta gæðaflokki, liggi í sérrými og að borgarlínustöðvar veiti farþegum fullt skjól fyrir veðri og vindum.

  (D) Ýmis mál 

  Fylgigögn

 19. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, um skoðanakönnun á meðal íbúa Skerjafjarðar         Mál nr. US220024

  Lagt er til að gerð verði skoðanakönnun meðal íbúa Skerjafjarðar vegna fyrirhugaðrar landfyllingar og uppbyggingaráforma á flugvallarsvæðinu. Skapað hefur verið fordæmi fyrir slíkri könnun á viðhorfi íbúa til skipulagsáforma með Gallup könnun sem gerð var nýlega meðal íbúa í Háaleitis- og Bústaðahverfi. Til að gæta jafnræðis meðal íbúa borgarinnar er rétt að slík könnun fari einnig fram vegna skipulagsáforma í Skerjafirði.

  Tillögunni fylgir greinargerð.

  Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Árið 2001 samþykkti meirihluti reykvískra kjósenda í atkvæðagreiðslu að flugvöllurinn skuli víkja úr Vatnsmýri. Síðan þá hefur sú afstaða borgarinnar að flugvöllurinn skuli víkja fyrir íbúðabyggð verið staðfest í fjölmörgum atkvæðagreiðslum í skipulagsráði, borgarráði og borgarstjórn. Aðalskipulag Reykjavíkur gerir ráð fyrir brottflutningi flugvallarins og byggð í Skerjafirði. Búið er að semja við ríkið um svæðið í Nýja-Skerjafirði fari undir nýja íbúðarbyggð og búið er að samþykkja deiliskipulag fyrir fyrsta áfangann. Óeðlilegt væri að gefa þau fyrirheit að afstaða borgarstjórnar í jafn veigamiklu máli og uppbygging í Vatnsmýri myndi breytast í megindráttum vegna skoðanakönnunar íbúa í afmörkuðum hverfishluta. Deiliskipulagsvinna og samráð við hana fer eftir lögbundnu ferli. Uppbygging í Skerjafirði varðar hagsmuni borgarinnar í heild sinni, hagsmuni framtíðaríbúa svæðisins og þeirra sem sækjast eftir búsetu á svæðinu en komast ekki að. Eðlilegt er að borgarfulltrúar taki afstöðu í málinu í takt við eigin sannfæringu.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Áform um landfyllingu og þétta byggð í Skerjafirði hafa verið umdeild af íbúum og umsagnaraðilum. Nú hefur borgin látið gera skoðanakönnun um breytt skipulag í Bústaða- og Háaleitishverfi. Það sama á að gilda um umdeild uppbyggingaráform í Skerjafirði, enda væri slík könnun í takt við umræðu um samráð við íbúa.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Lýst er yfir fullum stuðningi við tillögu Sjálfstæðisflokksins um skoðanakönnun á meðal íbúa Skerjafjarðar.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins styður tillögu Sjálfstæðisflokksins að gerð verði skoðanakönnun meðal íbúa Skerjafjarðar vegna fyrirhugaðrar landfyllingar og uppbyggingaráforma á flugvallarsvæðinu. Skapað hefur verið fordæmi fyrir slíkri könnun á viðhorfi íbúa til skipulagsáforma með Gallup könnun sem gerð var nýlega meðal íbúa í Háaleitis- og Bústaðahverfi eins og segir í tillögunni. Það er eðlilegt og sanngjarnt að gæta jafnræðis meðal íbúa borgarinnar er rétt að slík könnun fari einnig fram vegna skipulagsáforma í Skerjafirði. Fulltrúa Flokks fólksins finnst átakanlegt að horfa upp á hvernig fylla eigi land og skemma náttúrulegar fjörur. Þessum aðgerðum hefur verið mótmælt harðlega af fulltrúa Flokks fólksins alveg frá upphafi kjörtímabilsins. Þetta eru skemmdarverk sem eru unnin víða í Reykjavík. Þétting byggðar tekur of mikinn toll af náttúru. Það má sjá á Geirsnefi og bökkum Elliðaáa, austan- og vestanverðum ósasvæðum hennar. Allt of mikið er manngert, búin til gerviveröld. Af hverju mega ekki fágætir fjörubútar fá að vera í friði? Fáar ósnortnar fjörur eru eftir í Reykjavík.

  (B)    Byggingarmál
   

  Fylgigögn

 20. Ársskýrsla byggingarfulltrúa 2020,          Mál nr. US200037

  Lögð fram ársskýrsla byggingarfulltrúa fyrir árið 2021, dags. í janúar 2022. 

  Kynnt.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Þessi samantekt staðfestir þann vanda sem borgin glímir við í húsnæðismálum. Um 61% byggingarleyfisumsókna er frestað vegna athugasemda og eða ófullnægjandi gagna. Af þessu má sjá og skilja pirring margra umsækjenda sem kvarta yfir að ferlið allt taki óheyrilegan tíma ef eitthvað þarf að bæta í gögn eða laga. Búið er að samþykkja 223 þúsund fermetra og 805 þúsund rúmmetra fyrir allt húsnæði. Af 1285 íbúðum samþykktum eru 95% í fjölbýli. Megnið er sem sagt fjölbýli og af þeim 1065 nýjum íbúðum er 93% í fjölbýli. Þörf er á þrefalt fleiri íbúðum nú strax. Í skýrslu HMS 2021 segir að fjölgun íbúða á síðasta ári nemi rúmlega þrjú þúsund íbúðum á landsvísu, sem er sambærileg fjölgun og á árinu 2019. Samtök Iðnaðarins bendir á að samdráttur er framundan og líkur á uppsafnaðri íbúðaþörf. Samkvæmt talningunni nú í haust mældist um 18% samdráttur á fjölda íbúða í byggingu og 41% samdráttur í fjölda íbúða á fyrstu byggingarstigum. Það vantar almennt meira framboð af nýjum íbúðum og þess vegna hefur verðbólgan rokið upp. Verðhækkanir eru m.a. tilkomnar vegna framboðsskorts. Húsnæðisvandinn er heimagerður vandi. Færri íbúðir eru að koma inn á markað nú en sl. tvö ár.

  Nikulás Úlfar Másson byggingarfulltrúi tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

  (E) Samgöngumál

  Fylgigögn

 21. Heimild til áframhaldandi undirbúnings og verkhönnunar borgargatna í Árbæ, tillaga         Mál nr. US220006

  Lögð fram svohljóðandi tillaga skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 31. janúar 2022:

  Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar leggur til að skipulags- og samgönguráð samþykki að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna borgargatnanna Rofabæjar og Bæjarbrautar.

  Samþykkt. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

  Skipulags- og samgönguráð leggur fram svohljóðandi bókun:

  Skipulags- og samgönguráð leggur til að tillögurnar verði kynntar í íbúaráði Árbæjar og Norðlingaholts.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins styður að venjulegar götur verði gerðar að borgargötum ef það er gert í fullu samráði við íbúa við göturnar og nærliggjandi götur. Að gera götu að borgargötu má ekki þrengja að eða hefta aðgengi fólks að heimilum sínum eða gera gestum aðgengi erfitt. Séu aðstæður góðar fyrir borgargötu þá eru þær vissulega aðlaðandi og geta stuðlað að góðri hverfismenningu. Í gögnum er að finna mörg atriði sem eru til bóta. Fulltrúi Flokks fólksins rekur aftur augun í skrif um „blágrænar lausnir“. Ekki er fallist á að blágrænar lausnir eigi við þarna enda þó það sé í tísku núna að setja það í flestar kynningar. Í gögnum segir: ,, Blágrænar lausnir og gróður: Gegndræpi aukið og svæði verður grænna”. Er það líklegt? Fulltrúi Flokks fólksins spyr nú bara hvort skipulagsyfirvöldum finnst að vanti úrkomu í Árbænum í þeim mæli að gróður visni?

  Eva Þrastardóttir frá Eflu og Bjarni Rúnar Ingvarsson ráðgjafaverkfræðingur taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti.

  (C)    Ýmis mál 

  Fylgigögn

 22.     Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir, 
  vegna lóða og byggingarrétta
           Mál nr. US220033
  1.    Hafa olíufélögin og þau félög sem fengu gefins lóðir í bensínstöðvasamningnum kynnt fyrir skipulagsyfirvöldum hugmyndir sínar að uppbygginu á lóðunum og tillögur að breyttu deiliskipulagi?
  2.    Hvenær er áætlað að hefja vinnu við deiliskipulagsgerð þessara lóða?
  3.    Hvenær er áætlað að deiluskipulagsgerð lóðanna ljúki?
  Lóðirnar sem um ræðir eru:
  a)    Álfheimar 49
  b)    Álfabakki 7
  c)    Egilsgata 5
  d)    Ægisíða 102
  e)    Hringbraut 12
  f)    Stóragerði 40
  g)    Skógarsel 10
  h)    Elliðabraut 2
  i)    Rofabær 39
  j)    Birkimelur 1
  k)    Skógarhlíð 16
  1.    Suðurfell 4. 
  Hafa einhverjir aðilar sem sjá um minjavernd átt í viðræðum við Reykjavíkurborg vegna mannvirkja á einhverri þessara lóða?
  2.    Ef svo er hvaða stofnun hefur gert athugasemdir?
  3.    Ef svo er – mannvirki á hvaða lóðum er um að ræða?
  4.    Ef svo er – hefur viðkomandi stofnun minjaverndar óskað eftir að fyrirhugað niðurrif verði stöðvað?

Fundi slitið klukkan 12:27

Pawel Bartoszek Alexandra Briem

Hjálmar Sveinsson Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
127._fundargerd_skipulags-_og_samgongurads_fra_2._februar_2022.pdf