Skipulags- og samgönguráð
Ár 2021, miðvikudaginn 10. nóvember kl. 09:03, var haldinn 120. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Pawel Bartoszek, Hjálmar Sveinsson, Sara Björg Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Ólafur Kr. Guðmundsson og áheyrnarfulltrúarnir Baldur Borgþórsson og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúinn Daníel Örn Arnarsson.
Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Björn Axelsson, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson og Sigurjóna Guðnadóttir. Eftirtalinn starfsmaður tók sæti með fjarfundarbúnaði: Inga Rún Sigurðardóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.
Þetta gerðist:
Þetta gerðist:
-
Reglur um notkun stöðureita í Reykjavík og gjaldtöku, tillaga - USK2021100099 Mál nr. US210320
Lögð fram svohljóðandi tillaga skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 2. nóvember 2021:
Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar leggur til að skipulags- og samgönguráð samþykki meðfylgjandi reglur um notkun stöðureita í Reykjavík og gjaldtöku. Reglurnar hafa verið bornar undir og samþykktar af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.
Samþykkt.
Vísað til borgarráðs.Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar leggur til að skipulags- og samgönguráð samþykki meðfylgjandi reglur um notkun stöðureita í Reykjavík og gjaldtöku. Gott er að áhersla er lögð á að stæðin verði vel merkt sem gjaldskyld svæði, en á því hefur stundum verið misbrestur, einkum þegar aðrar framkvæmdir standa yfir. Tækniþróun hefur vissulega orðið á gjaldtöku en samt sem áður á ekki að gera ráð fyrir að allir geti nýtt sér nýjustu tækni við greiðslu. Fyrir suma eru þessir mælar flóknir og ekki allir treysta sér til að nota síma app eins til að greiða fyrir bílastæði. Nú er þannig komið að eldra fólk, Íslendingar sem búa utan miðbæjar koma hreinlega ekki lengur niður í bæ. Þetta hafa margar kannanir sýnt. Þetta er sorgleg þróun. Fyrir kynslóðina sem nú er komin yfir sextugt var miðbærinn vinsæll hér áður og þótti skemmtilegur heim að sækja.
Fylgigögn
-
Stöðubann á Frakkastíg milli Hverfisgötu og Laugavegar, tillaga - USK2021020121 Mál nr. US210322
Lögð fram svohljóðandi tillaga skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 5. nóvember 2021:
Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar leggur til að skipulags- og samgönguráð samþykki eftirfarandi sérákvæði fyrir umferð: 1. Að óheimilt verði að leggja ökutækjum við vesturkant Frakkastígs, milli Hverfisgötu og Laugavegar. Ofangreint sé merkt með viðeigandi umferðarmerkjum og yfirborðsmerkingum, í samræmi við reglugerð nr. 289/1995 um umferðarmerki og notkun þeirra, með síðari breytingum. Jafnframt er lagt til að þau bifreiðastæði sem nú eru í vesturkanti Frakkastígs á sama kafla, verði aflögð.
Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Þetta er líklega nauðsynlegt þar sem Frakkastígur er orðinn mikilvæg samgönguæð þar sem því allri umferð af Laugavegi er beint norður Frakkastíg. Það er samt gagnrýnisvert hversu erfitt er að leggja á þessu svæði og er þá horft til þeirra sem treysta sér í bílastæðahús. Það voru mistök að hafa ekki sett fleiri bílastæði á svæði norðan megin við Hverfisgötu, á milli Hverfisgötu og sjávar að mati fulltrúa Flokks fólksins.
Fylgigögn
-
Stangarholt 11 - Nóaborg,
tillaga - USK2021020121 Mál nr. US210323Lögð fram svohljóðandi tillaga skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 1. nóvember 2021:
Lagt er til að skipulags- og samgönguráð samþykki að við leikskólann Nóaborg við Stangarholt verði bílastæði merkt sérstaklega fyrir hreyfihamlaða, vegna einstaklings sem þarf aðgengi að leikskólanum. Meðfylgjandi er teikning af staðsetningu. Stæðið yrði skv. staðli 3,8 metrar á breidd, staðsett uppá hellulögn, sem er með niðurtekt. Stæðið verði merkt með D01.21 og viðeigandi yfirborðsmerkingu.
Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.
(A) Skipulagsmál
Fylgigögn
-
Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð Mál nr. SN010070
Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 5. nóvember 2021.
Fylgigögn
-
Borgarlína, deiliskipulag - Steinahlíð að Katrínartúni, skipulagslýsing Mál nr. SN210755
Lögð fram deiliskipulagslýsing fyrir borgarlínu frá Steinahlíð að Katrínartúni. Í lýsingunni felast megin áherslur/atriði í gerð deiliskipulags fyrir göturými borgarlínunnar í samræmi við fyrstu framkvæmdalotu borgarlínunnar.
Samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar, Pírata og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Katrínu Atladóttur. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Laxdal Arnalds og Ólafur Kr. Guðmundsson greiða atkvæði á móti skipulagslýsingunni.
Samþykkt er að kynna lýsingu að deiliskipulagi í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Minjastofnun Íslands, Borgarsögusafni Reykjavíkur, Vegagerðinni, OR/Veitum, Svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins, Framkvæmdanefnd Vatnsverndar á höfuðborgarsvæðinu, Strætó bs., Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Eftirtöldum deildum og sviðum Reykjavíkurborgar: Heilbrigðiseftirlitinu, skóla og frístundasviði, skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, skrifstofu Samgöngustjóra og Borgarhönnunar, skrifstofu umhverfisgæða, skrifstofu framkvæmda og viðhalds og skrifstofu rekstrar og umhirðu borgarlands Einnig skal kynna hana fyrir lóðarhöfum og eigendum fasteigna við Suðurlandsbraut, íbúaráði Háaleitis- og Bústaðahverfis, íbúaráði Laugardals, íbúaráði Hlíðahverfis og íþróttasamböndum og -félögum með aðstöðu í Laugardal: sérsamböndum ÍSÍ með aðstöðu í Laugardal, Þrótti, Ármanni og TBR. Jafnframt skal kynna hana fyrir almenningi.
Vísað til borgarráðs samkvæmt beiðni þriggja fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 2. mgr. 1. gr. Viðauka 1.1. um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs
Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Við fögnum næsta áfanga í skipulagsvinnu vegna Borgarlínu sem snýst um að skapa græna borg með valfrelsi í ferðamátum. Skipulag og samgönguinnviðir geta mótað venjur íbúa að miklu leyti og þar sem loftslagsmálin eru stærsta áskorun okkar tíma verður hið opinbera að axla sína mikilvægu ábyrgð, meðal annars með uppbyggingu hágæða almenningssamgangna og innviða fyrir virka ferðamáta. Skipulagslýsingin er undanfari deiliskipulags Borgarlínu eftir Suðurlandsbraut. Umræddur kafli gegnir lykilhlutverki í því að Borgarlínan í heild sinni verði hágæða BRT-kerfi. Mikilvægt er að leggja ríka áherslu þau gæðaviðmið í deiliskipulagsvinnunni framundan. Við leggjum mikla áherslu á að Borgarlínan á að njóta forgangs þegar kemur að plássnotkun, í borgarrými og við gatnamót.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Katrín Atladóttir, leggur fram svohljóðandi bókun:
Skipulagslýsing er stigið á undan deiliskipulagi og til þess fallið að lýsa verkefninu framundan og gefa borgarbúum og hagaðilum tækifæri til að leggja fram athugasemdir sem gætu komið að gagni við gerð skipulagsins. Fram kemur í skipulagslýsingunni að fækkun akreina við Suðurlandsbraut hefur ekki verið útkljáð í frumdragaskýrslu Borgarlínu og að eftir eigi að skýra hvaða valkostir eru til staðar. Gera má ráð fyrir að hægt verði að taka upplýsta afstöðu til þess á síðari stigum. Einnig kemur fram að samráð verður ítarlegt á öllum stigum framundan en Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt mikla áherslu á gott samráð. Borgarlínan er ekki hafin yfir gagnrýni og það verður mikilvægt fyrir íbúa og hagaðila að fá tækifæri til að gera athugasemdir bæði nú og þegar deiliskipulagstillagan verður kynnt í febrúar á næsta ári. Þar sem eingöngu er um að ræða lýsingu á ferli framundan, verið að bjóða upp á aukið samráð, og ég tel rétt að vinna áfram að framgangi Samgöngusáttmála sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur samþykkt í sveitarfélögunum í kringum okkur og í ríkisstjórn, þá sé ég enga ástæðu til annars en að samþykkja skipulagslýsinguna.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Laxdal Arnalds og Ólafur Kr. Guðmundsson, leggja fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að stórbæta samgöngur í Reykjavík, ekki síst almenningssamgöngur í borginni. Sú útfærsla sem hér er boðuð mun þrengja verulega að almennri umferð og þannig lengja ferðatíma fólks. Rétt væri að skoða aðrar útfærslur á sérrýmum sem þrengja ekki að almennri umferð. Hætta er á að þessi útfærsla á Suðurlandsbrautinni muni beina almennri umferð inn í íbúahverfi og skerða mjög aðgengi að Laugardal og atvinnu- og þjónustusvæðum svo sem í Ármúla og Síðumúla. Þessar róttæku breytingar munu hafa þau áhrif að umferð sem nú fer um Suðurlandsbraut mun flytjast annað og auka umferðarþunga á Miklubraut og Sæbraut auk annara gatna. Lengja ferðatíma fólks. Þá liggja en ekki fyrir endanleg drög að 1. áfanga borgarlínu, eingöngu frumdrög og því ekkert kallar á þessar þrengingar sem hér eru lagðar fram.
Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:Uppbygging samgöngumannvirkja á ávallt að vera með þeim hætti að öllum ferðamátum sé gert jafn hátt undir höfði. Hér er slíku ekki fyrir að fara. Í tillögunni er gróflega er gengið á rými bíla, hvort heldur um ræðir fjölskyldu-, einka eða atvinnubíla, en þar er um að ræða valkosti sem langflestir landsmenn kjósa. Bíllinn er í dag lífsgæði. Lífsgæði sem hartnær 90% landsmanna kjósa að njóta. Borgarlína í þeirri mynd sem hér getur að líta er ekki framþróun heldur skerðing á valfrelsi almennings. Lagt er til að mál tengd Borgarlínu og stórar ákvarðanir hennar tengdar verði settar á ís fram yfir komandi sveitastjórnarkosningar. Þannig fær almenningur tækifæri til að koma sínum vilja á framfæri með afgerandi hætti. Þannig virðum við lýðræðið.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Efast má um að lýsing á fyrirhugaðri borgarlínu sé nákvæm þegar sagt er ,, að byggt verði upp nýtt hágæðakerfi almenningssamgangna, Borgarlína, sem flytur fjölda fólks á milli helstu kjarna og valinna þróunarsvæða. Auk þess verði kerfi strætisvagna „aðlagað að og samþætt við leiðakerfi Borgarlínunnar, þótt strætisvagnar og önnur farartæki sem þjóna almenningssamgöngum eiga að njóta forgangs”. Að leggja sérakreinar, þar sem þeim verður við komið sem hafa forgang á ljósastýrðum gatnamótum segja ekki að þetta sé hágæðakerfi. Í raun er þetta gamaldags kerfi þar sem er gert ráð fyrir að akreinum fyrir aðra akandi umferð fækki. Ekki er hugsað um nýjungar í ferðatækni svo sem léttlestir á teinum tengdum rafmagni, stundum fyrir ofan aðra umferð stundum fyrir neðan, og sem ekki skerða aðra umferðarmöguleika, nokkuð sem borgir í nágrannalöndum hafa innleitt eða eru að innleiða. Reykjavík er sem nátttröll í þessu samhengi. Svona áætlanir hafa engin áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda eða leggja grunninn að markmiði stjórnvalda um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040. Bílar halda áfram að aka þessar götur og þeim mun jafnvel fara áfram fjölgandi þrátt fyrir komu borgarlínulestar.
Birkir Ingibjartsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.
Fylgigögn
-
Hverfisskipulag, Hlíðar, kynningaráætlun Mál nr. US210325
Lögð fram kynningaráætlun fyrir vinnutillögur að hverfisskipulagi fyrir borgarhlutann BH3, Hlíðar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér er lögð fram kynningaráætlun fyrir vinnutillögur, hvar og hvenær kynna eigi íbúum og borgarbúum þessar tillögur að hverfisskipulagi fyrir borgarhlutann BH3, Hlíðar. Fulltrúi Flokks fólksins telur að íbúar og aðrir sem vilja hefðu átt að koma að mótun þessara tillagna. Strax frá byrjun er rétt að hafa samráð við fólk og gefa því færi á að segja til um hvernig þeir sjá fyrir sér þróun þessa hverfis. Jafnvel þótt hér sé aðeins um vinnutillögur að ræða er nú þegar búið að leggja grunnlínur af þröngum hópi og sem tilkynna á nú borgarbúum. Það eru þessum grunnlínum sem yfirvöld ein og sér hafa lagt drög að sem síðan oft er vonlaust að fá breytt nema með látum og ekki einu sinni með látum eða undirskriftalistum. Þetta sýnir reynslan.
Ævar Harðarson deildarstjóri hverfisskipulags tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Vogabyggð svæði 5,
breyting á deiliskipulagi (01.45) Mál nr. SN210675Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Vogabyggðar svæði 5. Breytingin felst í því að smábátahöfn Snarfara er stækkuð og dýpkuð. Hluti hafnargarðs, sem liggur í austur-vesturstefnu er fjarlægður og hafnargarður sem liggur í norður-suðurstefnu er lengdur til norðurs. Flotbryggjur lengjast og bátastæðum fjölgar úr 152 í 250. Lóð smábátahafnar á landi stækkar sem nemur láréttu svæði hafnargarðs, samkvæmt uppdr. Teiknistofu Traðar dags. 29. september 2021. Einnig er lögð fram greinargerð og skilmálar, útgáfa 03 dags. 29. september 2021, þar sem lagt er til að greinargerð og skilmálar fyrir allt skipulagssvæðið verði uppfærðir í heild samhliða breytingu á deiliskipulagi.
Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Vísað til borgarráðs.Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Skipulags- og samgönguráði leggja ríka áherslu á að fullt samráð verði haft við Hafrannsóknarstofnun og Veiðimálastofnun vegna lengingar á hafnargarði við smábátahöfninni í Elliðaárvogi með tilliti til áhrifa á laxagengd í Elliðaánum.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Skipulagsyfirvöld kynna breytingar sem felast m.a. í að stækka og dýpka smábátahöfn og ýmist fjarlægja, stækka eða lengja hafnargarða. Ef horft er til náttúru og náttúrulegs umhverfis þá er verið að skerða þetta strandsvæði og umhverfi árósa smátt og smátt. Þessi svæði eru einna mikilvægustu hlutar af náttúru við Reykjavík. Ferill skipulagsyfirvalda er að skerða lítið í einu, einingar sem ekki er tekið eftir en að lokum verður umhverfið allt annað en náttúrulegt. “Lítil” landfylling hér og þar, aðeins fleiri bryggjur o.s.frv. en að lokum er allt umhverfið manngert og þá er vísast sagt að planta eigi í einhver beð og það stuðli að líffræðilegri fjölbreytni og náttúran megi vel við una. Fram kemur sem mótrök frá skipulagsyfirvöldum að þetta sé manngert fyrir og með þessu sé verið að auka og bæta aðgengi til útivistar.
Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.
Fylgigögn
-
Krókháls, GR reitur G1,
breyting á deiliskipulagi Mál nr. SN210583Lögð er fram tillaga KRADS arkitekta, f.h. umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 28. október 2021, að breytingu á deiliskipulagi fyrir Grafarlæk - Stekkjarmóa - Djúpadal. Um er að ræða nýja lóð þar sem er gert ráð fyrir tveimur skrifstofubyggingum sem grafa sig inn í hæðina að hluta til að falla betur inn í umhverfið og halda hæð og ásýnd bygginga lægri út að golfvallarsvæði GR. Hæðarmunur á lóð er nýttur til að koma fyrir bílakjallara undir byggingunum og skýla útivistarsvæði GR frá bílastæðasvæði.
Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Vísað til borgarráðs.Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.
Fylgigögn
-
Sæbraut í stokk, kynning Mál nr. SN210529
Kynntar tillögur og hugmyndaleit um uppbyggingu í og við áætlaðan stokk á Sæbraut frá Steinahlíð að Skeiðarvogi.
Ólafur Melsted verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundabúnaði.
(B) Byggingarmál
-
Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð Mál nr. BN045423
Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1138 frá 2. nóvember 2021.
(C) Ýmis mál
Fylgigögn
-
Garðastræti 11A, kæra 150/2021, umsögn (01.136.1) Mál nr. SN210671
701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 ReykjavíkLagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 24. september 2021 ásamt kæru dags. 23. september 2021 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa um að heimila skúr á lóð Hákots, Garðastræti 11A. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 2. nóvember 2021.
-
Úlfarsárdalur - Úlfarsbraut 100-104 og 106-110, kæra 151/2021, umsögn (02.6) Mál nr. SN210673
701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 ReykjavíkLagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 27. september 2021 ásamt kæru dags. 27. september 2021 þar sem kærð er breyting á deiliskipulagi vegna lóðanna Úlfarsbraut 100-110. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 3. nóvember 2021.
-
Reykjavíkurvegur 31B, kæra 69/2021, umsögn, úrskurður (06.355) Mál nr. SN210432
701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 ReykjavíkLagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 28. maí 2021 ásamt kæru dags. 27. maí 2021 þar sem kærð er staðfesting borgarráðs á synjun skipulags- og samgönguráðs frá 5. maí 2021 um skiptingu lóðarinnar nr. 31 við Reykjavíkurveg. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 29. júní 2021. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 29. október 2021. Úrskurðarorð: Felld er úr gildi ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 20. maí 2021 um að synja um skiptingu lóðarinnar að Reykjavíkurvegi 31.
-
Breiðholtsbraut - Skógarsel - Árskógar, kæra 142/2021, umsögn, úrskurður (04.911.3) Mál nr. SN210639
701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 ReykjavíkLagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 8. september 2021 ásamt kæru dags. 7. september 2021 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúans þann 6. júní 2021 um að synja Íþróttafélagi Reykjavíkur um leyfi til að koma fyrir starfrænu skilti í stað flettiskiltis við Gatnamót Breiðholtsbrautar. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 14. september 2021. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 29. október 2021. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. júlí 2021 um að synja umsókn um leyfi til að koma fyrir stafrænu skilti við Gatnamót Breiðholtsbrautar og Skógarsels/Stekkjarbakka.
-
Aðalskipulag Reykjavíkur 2040, íbúðarbyggð og blönduð byggð, tillaga Mál nr. SN190323
Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 20. október 2021 vegna samþykktar borgarstjórnar frá 19. október 2021 á tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 vegna endurskoðunar stefnu um íbúðabyggð og blandaða byggð og tæknilega uppfærslu aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, með lengingu skipulagstímabils til ársins 2040.
Fylgigögn
-
Laugardalur - austurhluti, breyting á deiliskipulagi vegna smáhýsa (01.39) Mál nr. SN200070
Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 20. október 2021 vegna samþykktar borgarstjórnar frá 19. október 2021 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi austurhluta Laugardals vegna afmörkunar nýrrar lóðar fyrir smáhýsi.
Fylgigögn
-
Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um úttekt á aðgengi gönguþverunum hjá Hörpu,
umsögn - USK2021100080 Mál nr. US210276Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 5. nóvember 2021.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Bókun við umsögn vegna fyrirspurnar fulltrúa Flokks fólksins um ljósastýringar við Hörpu. Í svari kemur fram að um var að ræða tímabundnar samtengingar á ljósastýringum sem virðast hafa bæði verið flóknar og ekki hafa virkað vel en hljóta þó að hafa miðast við að lágmarka slysahættu. Búið er að afnema þessa tímabundnu samtengingu svo ekki kemur lengur grænt ljós fyrir gangandi vegfarendur þegar ökutæki ekur út af vinnusvæðinu. Málið er sagt úr sögunni en það er einkennilegt að mati fulltrúa Flokks fólksins að nú er staðan þannig að ekki kemur lengur grænt ljós fyrir gangandi vegfarendur þegar ökutæki ekur út af vinnusvæðinu eins og sagt er í svarinu. Skapar það ekki slysahættu?
Fylgigögn
-
Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um brú yfir Bústaðaveg/Kringlumýrarbraut,
umsögn - USK2021090130 Mál nr. US210225Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 5. nóvember 2021.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það var vakin athygli fulltrúa Flokks fólksins á að þær breytingar sem verið er að gera á aksturs-, hjóla og gönguleiðum við Kringlumýrarbraut/ Bústaðaveg gætu leitt til mikillar þrengsla og skapað hættu. Verkið er m.a. á ábyrgð umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar. Fram kemur í svari að allt sé samkvæmt reglum. Fulltrúi Flokks fólksins leggur nú til að Skrifstofan athugi þetta nánar jafnvel þótt ekki hafi verið gerðar athugasemdir við fyrirkomulagið á brúnni. Nú hafa hjólandi bæst við þarna svo spurning er hvernig þetta er ef bílandi, hjólandi og gangandi eru á ferð samhliða. Er þetta rými þá ekki of lítið?
Fylgigögn
-
Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, varðandi samráð við lögreglu og slökkvilið vegna breytinga á Laugavegi og Skólavörðustíg, umsögn - USK2021100002 Mál nr. US210237
Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 5. nóvember 2021.
Fylgigögn
-
Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um hvenær könnun Maskínu var keypt, umsögn - USK2021100081 Mál nr. US210277
Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 5. nóvember 2021.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Svarið kemur ekki á óvart. Fulltrúi Flokks fólksins gat vissulega sagt sér að þessi könnun var keypt áður en niðurstöður lágu fyrir. Samgöngustjóri ákveður að kaupa niðurstöðurnar 16. júní 2021 en könnunin fór fram 3. -. 30. júní 2021. Niðurstöðurnar eru líklega keyptar í þeirri von að þær sýndu breyttar ferðavenjur sem renna myndi stoðum undir umdeildar aðgerðir borgarinnar sem snúa að ferðamáta borgarbúa. Það hljóta að hafa verið vonbrigði fyrir borgaryfirvöld að niðurstöður sýndu fram á aukna notkun einkabílsins en skipulagsyfirvöld hafa notað ýmsar leiðir til að gera fólki erfitt með að fara um á bíl í borginni. Fulltrúa Flokks fólksins finnst, þar sem borgin fjárfesti í þessari könnun, að skipulagsyfirvöld ættu þá líka að taka mark á niðurstöðum hennar og bregðast við samkvæmt því, t.d. með því að losa um umferðarteppur, með því að bæta ljósastýringar, hvetja til breytilegs vinnutíma og að hafa samræmi milli íbúafjölda og atvinnutækifæra í einstökum hverfum.
Fylgigögn
-
Fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, varðandi umferðarspegil við Markarveg við Fossvogsveg, umsögn -USK2021100079 Mál nr. US210242
Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 5. nóvember 2021.
Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um samráðsferli hverfisskipulags Mál nr. US210294
Tillaga fulltrúa Flokks fólksins að haft verði sérstakt samráð við börn og unglinga í samráðsferli hverfisskipulags. Börn fara um hverfið sitt, þekkja það og stunda ýmsa afþreyingu þar utan skóla. Umhverfið og skipulag hverfis skiptir börn miklu máli og á því skilyrðislaust að hafa sérstakt samráð við þau eftir því sem aldur þeirra og þroski leyfir og gefur tilefni til. Hvað þau hafa að segja um samgöngur, græn svæði, umferðina og göngu- og hjólastíga er dæmi um samráð sem hafa skal við börn og unglinga. Þeirra skoðanir og álit um þessi mál skiptir miklu máli. Að hafa börn með í ráðum við skipulag á umhverfi þeirra hefur jákvæð áhrif á hvernig þeim líður í hverfinu sínu, hvernig þau skynja og upplifa hverfið sitt og hefur einnig áhrif á hvort þau skynja hverfi sitt sem öruggt og gott hverfi.
Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu.
Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:
Í samráðsferli vegna hverfisskipulags hefur verið notast við hugmyndafræði "Skapandi samráðs" (e. Planning for Real). Hluti af því er vinna þar sem börn smíða módel af hverfinu sínu. Í Háaleiti og Bústöðum tóku meðal annars yfir 150 börn þátt á sínum tíma. Sama aðferðarfræði hefur verið notuð í öðrum hverfum og verður notuð í vinnunni framundan til dæmis í Laugardal. Samráð við börn er því þegar óaðskiljanlegu hluti af ferlinu og er tillögunni vísað frá.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga Flokks fólksins um sérstakt samráðsferli við börn og unglinga þegar verið er að skipuleggja hverfi hefur verið vísað frá með þeim rökum að það sé nú þegar gert. Fulltrúi Flokks fólksins hefur reyndar ekki orðið var við að þetta sé gert kerfisbundið og ítrekað. Tillögu sem þessari á ekki að vísa frá heldur samþykkja og taka alvarlega. Það má alltaf gera betur þegar kemur að samtali við börn og unglinga. Bestu hugmyndirnar gætu einmitt komið frá börnum sem náð hafa þeim aldri að hugsa sjálfstætt, móta hugmyndir og ályktanir og koma þeim frá sér í orðum eða teikningum Börnin þekkja hverfið sitt vel og kannski best af öllum. Umhverfi á þess utan að vera barnvænt eins og framast er unnt. Börn gætu haft mikið að segja um samgöngur, umferðina og göngu- og hjólastíga sem þau sjálf fara hvað mest um. Þeirra skoðanir og álit um þessi mál skiptir miklu máli og ekki dugir að segja bara “þetta er nú þegar gert”. Að hafa börn með í ráðum við skipulag á umhverfi þeirra hefur jákvæð áhrif á hvernig þeim líður í hverfinu sínu, hvernig þau skynja og upplifa hverfið sitt og hefur einnig áhrif á hvort þau skynja hverfi sitt sem öruggt og gott hverfi.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,
um skotsvæðið í Álfsnesi Mál nr. US210288Fyrirspurn Flokks fólksins um hvort sé verið að leita að nýrri staðsetningu með virkum hætti og þá hvar, innan eða utan dyra? Skotsvæðinu í Álfsnesi var lokað án fyrirvara? Fram hefur komið að lokunin hafi komið meirihlutanum á óvart sem er sérkennilegt því málið hefur verið a.m.k. tvisvar rætt í borgarstjórn. Margir voru búnir að hafa uppi varnaðarorð og hneykslast á aðgerðarleysi heilbrigðisnefndar. Þegar loks er lokað er það ekki vegna mengunar heldur skipulagsmála. Halda mætti að "skipulagsmál" séu notuð sem átylla fyrir að loka. Finna þarf aðra lausn fyrir þá 1.500 félagsmenn og aðra sem stunda skotæfingar. Erfitt getur reynst að finna svæði þar sem ekkert mannlíf er í nágrenninu og þar sem blýmengun veldur ekki skaða og/eða þar sem skotæfingar skaða ekki náttúru. Ef utandyra er þarf það svæði að vera einangrað eða afskekkt og sem ekki er metið mikils virði út frá náttúru. Fyrirspurn Flokks fólksins lýtur að hvort verið sé að leita að nýrri staðsetningu og þá hvar, innan eða utan dyra?
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um aðstæður hjólandi vegfarenda í Úlfarsárdal Mál nr. US210289
Fulltrúi Flokks fólksins var fyrir nokkrum vikum með fyrirspurn um aðstæður hjólandi vegfarenda í Úlfarsárdal þar sem eru tröppur á göngustígum. Þarna fer fólk einnig um með barnakerrur. Í hverfinu eru tröppur víða og hafa börn sem hjóla í skólann þurft að bera hjól sín upp og niður tröppurnar eða leiða þau auk þess sem hjólastígar eru víða með krappar beygjur. Sendar voru myndir með fyrirspurninni til að sýna aðstæður. Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir endurskoðun á þessu en fékk engin viðbrögð önnur en þau að þetta væri í lagi við Urðarbrunn. Með þessari fyrirspurn sem hér er lögð fram er aftur sýnd mynd sem sýnir hvernig börn reyna að redda sér þegar aðstæður bjóða ekki upp á að hjóla á stíg. Hér má sjá hvernig þau einfaldlega hjóla á grasbakka með fram göngustígnum til að þurfa ekki að bera eða leiða hjól sín. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skipulagsyfirvöld vilja ekki reyna að lagfæra þetta þannig að börn komist leiðar sinnar hjólandi án erfiðleika og einnig að fólk geti farið um með barnakerrur bæði þrí- og fjórhjóla? Það ástand sem þarna ríkir getur verið hættulegt. Stígarnir eiga að þjóna börnum á hjólum og hlaupahjólum sem og fólki með vagna og kerrur.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn, um gatnaframkvæmdir í Gufunesi Mál nr. US210316
Óskað er eftir upplýsingum um allar breytingar sem hafa verið gerðar vegna gatnaframkvæmda í Gufunesi frá árinu 2019 og upplýsingar um kostnað við gatnaframkvæmdir frá árinu 2019. Ennfremur upplýsingar um kostnað vegna hönnunar og eftirlits í Gufunesi frá árinu 2019 vegna framkvæmda og gatnagerðar.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, um borð og bekki fyrir hjólastólanotendur Mál nr. US210317
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að bekkir og borð sem henta einstaklingum er nýta hjólastóla verði settir upp á völdum stöðum í borgarlandinu (sjá myndir). Lagt er til að leitað verði til Sjálfsbjargar varðandi val og staðsetningu á þessum bekkjum og borðum.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu um borð og bekki fyrir hjólastólanotendur heils hugar. Sjálfsagt er að setja borð og bekki sérhannaða fyrir hjólastólanotendur á völdum stöðum. Velja þarf þessa staði í fullu samráði við notendur. Þeir eiga að hafa r allt um það að segja hvar þessi borð og bekkir verða settir. Hafa þarf samráð við hagsmunafélög í þessu sambandi, ÖBÍ, Sjálfsbjörg. Þetta er einfalt að framkvæma og ekki ætti að felast í þessum aðgerðum mikill kostnaður.
Fylgigögn
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, vegna ástands í Úlfarsárdal. Mál nr. US210330
Fyrirspurnir frá Flokki fólksins vegna ástands víða í Úlfarsárdal. Öll höfum við, borgarfulltrúar og skipulagsyfirvöld fengið þær myndir sem fylgja með þessum fyrirspurnum Flokks fólksins, frá búanda í Úlfarsárdal. Myndir sýna óbyggðar lóðir í Úlfarsárdal í september 2021 sem eru 40 sérbýlislóðir. Einnig má sjá rusl og drasl á víðavangi og órækt í hverfi sem ætti eftir 15 ár að vera fullklárað og sjálfbært. Fulltrúi Flokks fólksins hefur oft minnst á byggingarefni sem liggur á víð og dreif um hverfið. Umræðuna um lóðarskort þarf ekki að kynna. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvenær borgar- og skipulagsyfirvöld hyggjast bregðast við þessu ástandi í Úlfarsárdal og hvernig? Einnig er spurt hvað eru borgar- og skipulagsyfirvöld að gera til að vinna að sjálfbærni þessa hverfis? Á sama tíma og fólk er hvatt til að leggja bílnum er staðan þannig í Úlfarsárdal að aka verður í næsta hverfi til að kaupa matvöru. Það er vissulega ekki langt í næsta hverfi og þar eru myndarlegar verslanir. Engin þjónusta er í hverfinu og hvað þá sú sjálfbærni sem lofað var þeim sem þar byggðu. Í Úlfarsárdal þarf fólk að eiga bíl bæði til að sækja vistir og til að komast í vinnu því engin atvinnutækifæri eru í hverfinu. Með þessum fyrirspurnir fylgja myndir til að sýna hvernig ástandið er víða í Úlfarsárdal.
-
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um matvöruverslun í Úlfarsárdal Mál nr. US210331
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgar- og skipulagsyfirvöld beiti sér fyrir að matvöruverslun/verslanir komi í Úlfarsárdal og séu helst staðsettar þannig að þær séu í göngu- eða hjólafæri fyrir sem flesta. Einnig eru borgaryfirvöld hvött til að beita sér fyrir því að matvöruverslun komi nálægt Bauhaus en þar eru næg bílastæði fyrir hendi. Nú er þetta hverfi um 15 ára og var lofað að það yrði fljótt sjálfbært. Það loforð hefur ekki verið efnt. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld beiti sér í þessum efnum. Í hverfinu er ekki ein einasta matvöruverslun hvað þá veitingastaður.
Frestað.
Fundi slitið klukkan 12:00
Pawel Bartoszek Hjálmar Sveinsson
Sara Björg Sigurðardóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
skipulags-_og_samgongurad_1011.pdf