Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 112

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2021, miðvikudaginn 1. september kl. 09:03, var haldinn 112. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Pawel Bartoszek, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Sara Björg Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Marta Guðjónsdóttir, Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúarnir Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir.

Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: áheyrnarfulltrúinn Daníel Örn Arnarsson.

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn Ólöf Örvarsdóttir, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Ólafur Melsted, Lilja Grétarsdóttir, Gunnar Hersveinn Sigursteinsson og Jóhanna Guðjónsdóttir.

 

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

 

Dagskrá:

Þetta gerðist:

 1. Breyting á fundadagatali, tillaga         Mál nr. US210074

  Lagt er til að sameiginlegur fundur skipulags- og samgönguráðs og umhverfis- og heilbrigðisráðs sem halda átti þann 15. september 2021 verði færður til 22. september 2021 og að bætt verði inn sameiginlegum vinnufundi ráðanna föstudaginn 10. september 2021. 

  Samþykkt.

  (E) Samgöngumál

 2. Laugavegur í 9 skrefum, kynning         Mál nr. US210213

  Kynning á niðurstöðum forhönnunar.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Tillögurnar gera ráð fyrir hönnun með árstíðabundnum görðum þar sem hverri árstíð eru gerð skil á Skólavörðustíg og neðsta hluta Laugavegar með áherslu á gróður og lýsingu sem nýtur sín allan ársins hring. Lögð er áhersla á aðgengi fyrir alla og algilda hönnun en enn frekari rýning á þeim atriðum er lykilatriði í vinnu framundan sem og samráð við aðgengis- og samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks og hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Eðlilegt er að framkvæma hugmyndirnar í skrefum á næstu 2-3 árum. Æskilegt væri að freista þess að reyna samræma útlit yfirborðs og götugagna enn frekar til að skapa heildstæða upplifun fyrir vegfarendur á götunum.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Mikilvægt er að gott samráð verði við rekstraraðila, neyðarbíla og aðra hagaðila vegna þessara fyrirætlana. Ljóst er að aðgengi mun breytast mikið við þessa framkvæmd og því nauðsynlegt að fá sjónarmið þeirra sem þurfa að komast um.

  Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi sósíalista fagnar þessari hönnun og er ánægður með áhersluna á aðgengi fyrir alla.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  „Laugavegur í 9 skrefum“ og niðurstaða forhönnunar var kynnt á fundinum. Þarna fá arkitektar, ljóshönnuðir og fleiri að leika sér með útsvarstekjur Reykjavíkur þráðbeint út um gluggann. Í kynningunni kemur fram að „von er um að framtíðar göngugötur fái sterka staðarsjálfmynd, staðaranda og ímynd og aukið aðdráttarafl fyrir ferðamenn, fyrirtæki, fjárfesta og nýja íbúa með aðgengi fyrir alla í fyrirrúmi.“ Já einmitt – þessar tillögur ganga út á að loka alfarið á bílaumferð, umgegni þeirra sem komast ekki leiðar sinnar nema í hjólastól og skapa mikla hættu fyrir blinda og sjónskerta því verið er að setja blómaker, bekki og annað hist og her. Ekkert samráð var haft við verslunareigendur og rekstraraðila á svæðinu og er það mjög ámælisvert. Einnig er lýst yfir miklum áhyggjum af aðgengi slökkviliðs- og lögreglubíla að svæðinu. Ekki verður betur séð en að þessar aðgerðir þrengi verulega að aðkomu öryggisaðila í hættuástandi.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flestum hugnast göngugötur sem hluti af borgarstemningu þar sem þær eiga við en þær mega þó ekki vera á kostnað aðgengis og umfram allt þarf að skipuleggja þær í sátt og samlyndi við borgarbúa, íbúa í nágrenni og hagaðila. Aðgengi er sagt vera fyrir alla en það er ekki rétt sbr. kanta og kantsteina og óslétta fleti sem eru víða í göngugötum. Aðgengi er erfitt fyrir þá sem nota hjálpartæki, hjólastóla og hækjur. Taka má undir að skreytingar eru fínar og ekkert er yfir lýsingu,  blómum eða bekkjum að kvarta. Þó eru áhyggjur af því að sjónskertir detti um allt þetta götuskraut. Hvað sem öllum 9 skrefum Laugavegsins líður þá  stendur eftir sú staðreynd að svæðið sem um ræðir er einsleitara en áður var hvað varðar verslun. Tugir verslana hafa flúið af þeim götum sem nú eru göngugötur. Eftir eru barir og veitingahús. Verslanir fóru vegna þess að viðskipti snarminnkuðu af orsökum sem við þekkjum vel. Eldar í kringum Laugaveg og Skólavörðustíg hafa logað í meira 3 ár og loga enn.  Kannski átti engin von á að svo sterkt orsakasamhengi myndi vera milli lokunar fyrir umferðar og hruns fjölda verslana. En þegar það blasti við átti að staldra við og eiga tvíhliða samtal við hagaðila.

  Rebekka Guðmundsdóttir deildarstjóri borgarhönnunar tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 3. Niðurstöður könnunar um ferðavenjur, kynning         Mál nr. US210205

  Kynning á niðurstöðum könnunar um ferðavenjur íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Líkt og undanfarin ár kemur í ljóst að það eru miklu fleiri sem ferðast með bíl heldur en þau sem vilja helst ferðast með bíl. Þó flest ferðast til og frá vinnu á einkabíl eru mörg innan allra hverfa sem myndu gjarnan vilja nýta annan kost en einkabílinn. Flest vilja helst nota aðra fararmáta en einkabílinn til að ferðast til og frá vinnu og myndu velja það sem sinn fyrsta kost eða ríflega helmingur í heildina. Heil 40% þeirra sem fara oftast til vinnu með bíl myndu helst vilja nýta annan fararmáta. Það eru mikilvæg skilaboð sem borgin þarf að hlusta á. Forvitnilegt er að sjá að yfir 8 prósent segjast oftast ferðast á rafmagnshlaupahjólum en þetta er í skipti sem það er mælt sérstaklega.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

  Hvaða útúrsnúningar og vitleysisgangur eru hér á ferðinni í bókun meirihlutans. Tæp 80% Reykvíkinga nota fjölskyldubílinn til að komast til og frá vinnu. Að pína fólk í könnun til að svara því í öðru og þriðja lagi hvernig það vilji ferðast ef fjölskyldubíllinn væri ekki til staðar skekkja staðreyndir í kollum meirihlutans og nota þau þær afleiddu upplýsingar til að draga úr vægi fjölskyldubílsins. En það er þeim líkt. Séu upplýsingar þeim í óhag þá afvegaleiða þau umræðuna.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Athygli vekur að hlutdeild einkabílsins eykst milli ára. Rafmagnshlaupahjól koma sterk inn með um 4% ferða til vinnu, auk þess sem margir vilja nota þennan ferðamáta til að komast til vinnu. Hlutfall hjólreiða er hátt, en hlutfall ferða í Strætó hefur ekki verið lægra í fjögur ár! Þá er hlutfall gangandi einnig lægra en það hefur verið í fjögur ár. Ætla má að innkoma rafhjóla hafi áhrif á aðra ferðamáta, enda eru þau mjög vinsæl. Bættir samgönguinnviðir auka frelsi fólks til að velja sér fararmáta og er mikilvægt að farið verði í víðtækar úrbætur í samgöngum fyrir alla í Reykjavík.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Það er ánægjulegt að sjá þessa ferðakönnun sem staðfestir að Reykvíkingar eru ekki að yfirgefa fjölskyldubílinn og 78,7% ferðast til og frá vinnu á bíl. Athygli vekur að einungis 4% ferðast með strætó sem er ekki í samræmi við uppbólgnar farþegatölur sem berast frá Strætó bs. Það er sama hvað meirihlutinn hamast á móti fjölskyldubílnum og leggi í mikinn kostnað við að útrýma bílastæðum í miðborginni þá tekur fólk ekki við þeim kúgunartilburðum sem betur fer. Reykjavíkurborg liggur á stóru landsvæði og fólk einfaldlega verður að sinna daglegu lífi á bílum. Það er mál að linni hjá meirihlutanum og viðurkenni að stefna þeirra í umferðarmálum hefur magalent út í skurði. Þau geta ekki þröngvað sínum lífsstíl og hugarórum upp á Reykvíkinga í átt að þröngsýni, einsleitni, rörsýn.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Eins og þessi könnun og margar aðrar sýna þá ferðast meira en 80% Íslendinga á bíl í vinnu. Þetta hefur ekki breyst þótt skipulagsyfirvöld hafa lagt mikið á sig til að koma hlutdeild einkabílsins niður undir 50%. Hjól sem samgöngutæki eru greinilega ekki eins vinsæl og halda mætti en rafmagnshjólin kunna að vera að koma sterkt inn. Ekki er að sjá að ferðabreytingar séu í aðsigi enda þótt fólk vilji sjá  fleiri möguleika. Helstu mistök þessa meirihluta er að hafa nánast stillt þessum tveimur valkostum, bíll og hjól sem andstæðum. Huga þarf að þörfum allra og hafa það að markmiði að draga úr töfum hvernig svo sem fólk kýs að koma sér milli staða. Enn er langt í borgarlínu, a.m.k. 2-3 ár í 1. áfanga. Vandinn er að það eru engar öflugar almenningssamgöngur sem val fyrir þá sem aka bíl. Notendum strætó hefur fækkað, margir farnir að nota rafhjól frekar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt forræðishyggju skipulagsyfirvalda, og hvernig reynt hefur verið að þrýsta fólki til að leggja bíl sínum, fólk sem geta e.t.v. ekki annað en verið á bíl vegna aðstæðna sinna. Þrýstiaðgerðir meirihlutans eru í formi þess að gera tilveru bílnotenda erfiða s.s. með því að leysa ekki umferðarteppur og laga ljósastýringar.

  Birgir Rafn Baldursson frá Maskínu tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  (A)    Skipulagsmál

  Fylgigögn

 4. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

  Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 27. ágúst 2021.

  Fylgigögn

 5. Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2021, tilnefningar, trúnaðarmál         Mál nr. SN210449

  Kynntar tillögur til fegrunarviðurkenninga fyrir árið 2021 vegna lóða fjölbýlishúsa og stofnana og vegna endurbóta á eldri húsum.

  Samþykkt.
  Vísað til borgarráðs.

  Bókun Flokks fólksins færð í trúnaðarbók.

  Sólveig Sigurðardóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  (B)    Byggingarmál

 6. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

  Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1128 frá  24. ágúst 2021. 

  (C)    Ýmis mál

  Fylgigögn

 7. Bárugata 5, málskot     (01.136.3)    Mál nr. SN210471
  Steinunn Marta Önnudóttir, Bárugata 5, 101 Reykjavík

  Lagt fram málskot Steinunnar Önnudóttur dags. 24. júní 2021 vegna afgreiðslu skipulagsfulltrúa frá 11. júní 2021 um að setja svalir 2. og 3. hæð hússins á lóð nr. 5 við Bárugötu. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 11. júní 2021.

  Umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 11. júní 2021, samþykkt.

  Hrafnhildur Sverrisdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 8. Gufunes, niðurstaða dómnefndar og álit, kynning     (02.2)    Mál nr. SN210564

  Lagðar eru fram tillögur í hugmyndaleit Spildu ehf. í samstarfi við AÍ um framtíðaruppbyggingu og skipulag átta lóða í eigu Spildu ehf. við sjávarsíðuna í Gufunesi. Niðurstöður hugmyndaleitar voru kynntar í júní. Í hugmyndaleitinni var óskað eftir að heildarmynd væri á uppbyggingu lóða með góðri tengingu við göngustígakerfi Reykjavíkurborgar. Leitast var eftir tillögum sem myndu sýna ákveðið heildaryfirbragð; vönduð og góð byggingarlist sem yrði aðlöguð að umhverfinu með áherslu á yfirbragð svæðisins og að nýbyggingar uppfylli á hagkvæman hátt kröfur og hugmyndafræði forsagnar. Niðurstaða dómnefndar var að tillaga frá JVANTSPIJKER & PARTNERS, ANDERSEN & SIGURDSSON og FELIXX LANDSCAPE ARCHITECTS yrði verðlaunatillagan í hugmyndaleitinni.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Lagðar eru fram tillögur í hugmyndaleit Spildu ehf. um framtíðaruppbyggingu og skipulag 8 lóða í eigu Spildu við sjávarsíðuna í Gufunesi. Byggðin er bílalaus og allt eru þetta fjölbýlishús eins og þessu er stillt upp nú. Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir fjölbreyttum íbúðagerðum þar sem nú er mikill skortur bæði á stærra húsnæði og hagkvæmu húsnæði. Hvað með atvinnutækifæri í hverfinu þar sem fólk sem er hvorki á bíl (engin bílastæði við húsin) né hjóli myndi þurfa að vinna í hverfinu og sækja alla sína þjónustu í hverfinu. Á mynd má sjá margra hæða hús, 10 hæða blokk, sem hlýtur að skerða sýn margra til fjalla þar sem  háhýsið stendur nærri strandlengju. Væri ekki nær að það stæði frekar í miðju til að skerða ekki útsýni og klárlega vera lægra? Þarna er oft án efa mikil veðurhamur? Bent er á að áhrif húsa á vindstrengi er hægt að kanna í vindgöngum-líkantilraunum.

  Þórhallur Sigurðsson frá Andersen & Sigurdsson Architects, Orri Steinarsson frá Jvantspijker & partners og Gísli Reynisson frá Spildu ásamt Birni Inga Edvardssyni verkefnastjóra taka sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 9. Heilsuborgin Reykjavík, Lýðheilsustefna Reykjavíkurborgar til 2030 - USK2021050116         Mál nr. US210154

  Lögð fram umsagnarbeiðni borgarráðs dags. 27. maí 2021 ásamt bréfi borgarstjóra, dags. 17. maí 2021, þar sem óskað er umsagnar skipulags- og samgönguráðs um drög að lýðheilsustefnu Reykjavíkur til 2030.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Meirihluti skipulags- og samgönguráðs gerir ekki athugasemdir við lýðheilsustefnu borgarinnar til 2030 en áréttar ráðið að borgarskipulag er nátengt lýðheilsu.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Þau drög sem hér eru lögð fram, Heilsuborgin, Lýðheilsustefna er oflof. Betra er að vera nær jörðinni og vera raunsær. Vissulega er margt gott almennt séð á Íslandi og í sveitarfélögum þ.m.t. því stærsta. En því miður er ansi mikið sem þarf að laga og sem hefði átt að vera löngu búið að taka á. Heilsa og hamingja byggir á svo mörgu t.d. að eiga fæði, klæði og húsnæði og þurfa ekki að hafa áhyggjur af börnum sínum. Nú er vaxandi fátækt, biðlistar barna eftir nauðsynlegri aðstoð í sögulegu hámarki og hefur samkvæmt nýjum könnunum andleg heilsa barna versnað. Viðvörunarljós loga á rauðu en engin viðbrögð eru af hálfu borgarmeirihlutans. Umferðartafir valda mengun þar sem ljósastýringar eru í ólestri. Ekkert af þessu tengist góðri heilsu og hamingju. Þetta hefði fulltrúi Flokks fólksins vilja sjá ávarpað í stefnunni og hvenær ætti að bæta þessa hluti. Hver er tímalínan og hvaðan kemur fjármagnið? Víða þarf  að taka þarf til hendinni og er það alfarið á valdi meirihlutans í borgarstjórn. Góð stefna er fín byrjun en það gengur ekki að láta síðan þar við sitja. 

  Fylgigögn

 10. Leifsgata 30, málskot     (01.195.3)    Mál nr. SN210424
  Erla Stefánsdóttir, Leifsgata 30, 101 Reykjavík

  Lagt fram málskot Erlu Stefánsdóttur dags. 31. maí 2021 vegna neikvæðrar afgreiðslu skipulagsfulltrúa frá 11. ágúst 2017 um að byggja ofan á viðbyggingu á lóð nr. 30 við Leifsgötu.

  Umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 11. ágúst 2017, synjað með þremur atkvæðum fulltrúa Viðreisnar og Samfylkingarinnar gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

  Fulltrúi Pírata, Dóra Björt Guðjónsdóttir, víkur af fundi undir þessum lið. 

  Fylgigögn

 11. Suðurgata 13, kæra 104/2021, umsögn     (01.141.3)    Mál nr. SN210493
  701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 30. júní 2021 ásamt kæru dags. 29. júní 2021 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar um að aðhafast ekki varðandi ólögmæta íbúð í kjallara hússins að Suðurgötu 13. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 20. ágúst 2021. 

 12. Skerjafjörður Þ5, kæra 134/2021, umsögn         Mál nr. SN210580
  701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 10. ágúst 2021 ásamt kæru dags. 8. ágúst 2021 þar sem kærð er niðurstaða borgarstjórnar frá 20. apríl 2021 varðandi tillögu að deiliskipulagi fyrir Skerjafjörð. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 25. ágúst 2021. 

 13. Blesugróf 30 og 32, kæra 33/2021, umsögn, úrskurður     (01.885.3)    Mál nr. SN210231
  701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 19. mars 2021 ásamt kæru dags. 19. mars 2021 þar sem kærð er breyting á deiliskipulagi fyrir Blesugróf 30 og 32 sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 25. febrúar 2021. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 19. apríl 2021 og úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 20. ágúst 2021. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfur kæranda um ógildingu borgarráðs Reykjavíkur frá 4. febrúar 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Blesugrófar vegna lóða nr. 30 og 32. 

 14. Nauthólsvegur 87, breyting á deiliskipulagi     (01.755.2)    Mál nr. SN210569
  Steinselja ehf., Laugarnesvegi 92, 105 Reykjavík
  Bak-Hjallar ehf., Vífilsstaðavegi 123, 210 Garðabær

  Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 22. júlí 2022 vegna samþykktar borgarráðs s.d. varðandi breytingu á deiliskipulagi fyrir Nauthólsveg 87.

  -    Kl. 11:38 víkur Dóra Björt Guðjónsdóttir af fundi.
  -    Kl. 11:39 tekur Alexandra Briem sæti á fundinum.

  Fylgigögn

 15. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, 
  um aðgengi fyrir hreyfihamlaða að Naustabryggju 31-33, umsögn - USK2021080057         Mál nr. US210197

  Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. ágúst 2021.

  Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði með tillögunni.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Tillagan er felld með vísan til umsagnar sviðsins.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

  Samkvæmt úrskurði ÚUA í máli 15/2020 ber að bæta úr aðgengi hreyfihamlaðra við Naustabryggju. Það hefur ekki verið gert.

  Fylgigögn

 16. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um birtingu persónuupplýsinga, umsögn - USK2020110093         Mál nr. US200385

  Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu sviðsstjóra dags. 13. júlí 2021.

  Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði með tillögunni.

  Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Kennitölur eru ekki lengur birtar í fundargerðum en líkt og fram kemur í umsögn sviðsins er heimilt að birta nöfn þeirra sem senda erindi til borgarinnar. Það er jafnframt talið hluti af gagnsærri stjórnsýslu.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að látið verði af birtingu nafna þeirra sem senda inn kæru eða athugasemdir  til skipulagsyfirvalda. Tillagan hefur verið felld með þeim rökum að  heimilt sé að birta nöfn þeirra sem senda erindi til borgarinnar. Það er jafnframt talið hluti af gagnsærri stjórnsýslu. Fulltrúi Flokks fólksins sér þann eina tilgang með birtingu sem þessari að afhjúpa eigi nöfn þeirra sem kæra, þeirra sem skipulagsyfirvöldum finnst vera með “vesen”. Fólk hefur orðið fyrir aðkasti þar sem mál eru iðulega umdeild enda geta þau verið viðkvæm. Þótt birting nafna sé í  samræmi við lög þá finnst fulltrúa Flokks fólksins þetta ósmekklegt og telur að með þessu sé verið að reyna að koma þeim sem senda inn kærur illa. Þegar fólk veit að nöfn þeirra verði opinber með kærunni hugsar það sig kannski tvisvar um áður en það kærir eða sendir inn athugasemdir. Að birta nöfn þeirra sem senda inn athugasemdir eða kærur hefur ekkert að gera með gegnsæja stjórnsýslu né gegnsætt samráðsferli. Skipulagsyfirvöld hafa þessi nöfn hjá sér og er því engin þörf að opinbera þau.

  Fylgigögn

 17. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um birtingu persónuupplýsinga, umsögn - USK2020050071         Mál nr. US200135

  Lögð fram umsögn, dags. 13. júlí 2021, frá umhverfis- og skipulagssviði, skrifstofu sviðsstjóra.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Svar sem hér er birt við fyrirspurn Flokks fólksins er frá því í maí 2020 er nú loksins lagt fram. Betra seint en aldrei. Spurt var um hvort það samræmdist persónuverndarlögum að birta nöfn þeirra sem senda inn kærur og kvartanir til skipulagsyfirvalda. Athuga ber að kærur eru merktar sem trúnaðargögn. Segir í svari að birting nafna sé í samræmi við lög. Hvað sem því þá líður finnst fulltrúa Flokks fólksins þetta ósmekklegt og óttast að með þessu sé verið að reyna að koma þeim sem senda inn kærur illa? Dæmi eru um að fólk hafi orðið fyrir aðkasti vegna þess eins að tjá sig um sínar skoðanir á stundum viðkvæmum málum þar sem nöfn þeirra eru borin á torg af skipulagsyfirvöldum. Er þetta leið til þöggunar og til að refsa þeim sem hafa aðrar skoðanir en skipulagsyfirvöld?  Að birta nöfn þeirra sem senda inn athugasemdir eða kærur hefur ekkert að gera með gegnsæja stjórnsýslu né gegnsætt samráðsferli. Skipulagsyfirvöld hafa þessi nöfn hjá sér og er því engin ástæða til að birta þau opinberlega

  Fylgigögn

 18. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, um hlaupavísa í Laugardal         Mál nr. US210198

  Á Klambratúni eru hlaupavísar sem sýna 100m vegalengdir. Lagt er til að settir verði upp álíka á viðeigandi stöðum í Laugardalnum. Slíkt myndi styrkja Laugardalinn enn frekar sem útivistarsvæði fyrir almenning.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs. 

 19. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um aðkomu hjólandi vegfarenda þar sem eru tröppur á göngustígum - R21070166, USK2021080010         Mál nr. US210215

  Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarráði 22. júlí 2021 og var vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs, dags. 12. ágúst 2021:

  Í Úlfarsárdal eru tröppur víða og hafa börn sem koma hjólandi í skólann þurft að bera hjól sín upp og niður tröppur auk þess sem hjólastígar eru víða krappir. Taka þarf hjólastíga á þessu svæði til endurskoðunar og gera þá þannig að þeir séu aflíðandi og ekki með krappar beygjur. Fulltrúi Flokks fólksins vill taka dæmi frá Nönnubrunni og niður að Dalskóla. Hér er um að ræða tiltölulega nýtt hverfi og er afar óheppilegt að hönnun sé ekki betri en þetta þegar horft er til barna sem fara um hjólandi. Þetta þarf að endurskoða. Tröppur eru auk þess erfiðar fyrir marga aðra t.d. þá sem eru með skerta hreyfigetu, þá sem eru með börn í kerrum og hjólreiðafólk.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 20. Fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um uppsetningu snjallgangbrauta - R19050070, USK2021080020         Mál nr. US210217

  Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram í borgarráði 12. ágúst 2021 og var vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs, dags. 12. ágúst 2021:

  Hvenær lýkur uppsetningu snjallgangbrauta sem samþykktar voru að tillögu sjálfstæðismanna í borgarstjórn?

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

 21. Fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um áætluð verklok vegna framkvæmda við Tryggvagötu - R20120087, USK2021080022         Mál nr. US210218

  Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram í borgarráði 12. ágúst 2021 og var vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs, dags. 12. ágúst 2021: Framkvæmdir við Tryggvagötu sem hófust í fyrra er enn ólokið og gatan verið lokuð allri umferð síðan. Hvenær má vænta að verklok verði og gatan opnuð á ný.

  Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

 22. Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um strætó í Gufunesi         Mál nr. US210206

  Nú eru íbúar farnir að flytja inn í nýja "vistþorpið" í Gufunesi en strætó tengingar þangað eru virkilega slæmar. Stendur til að bæta tengingar niður í þetta nýja hverfi?

  Vísað til umsagnar Strætó bs.

 23. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu, um samráðsfund vegna skipulagshugmynda við Arnarbakka         Mál nr. US210238

  Vegna áformaðra skipulagshugmynda við Arnarbakka er lagt til að haldinn verði samráðsfundur sem fyrst með íbúum í Stekkja- og Bakkahverfi. Íbúar hafa nú þegar mótmælt fyrirhuguðum hugmyndum um  uppbyggingu við Arnarbakka sem þau telja ekki vera í samræmi við þá byggðaþróun sem fyrir er í hverfinu. Mikilvægt er að sátt skapist um skipulag og þéttingu í grónum hverfum og er alvöru samráð við íbúa þar lykilatriði.

  Frestað.

 24. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi yfirlýsingu JVANTSPIKER & PARTNERS, dags. 25. ágúst 2021         Mál nr. US210235

  Samkvæmt yfirlýsingu JVANTSPIKER & PARTNERS frá 25. ágúst sl. er staðfest að hæðarkótar sem gefnir voru út í Gufunesi voru rangir, eða eins og segir í yfirlýsingunni; Eitthvað hefur farið úrskeiðis því fyrirhugaðir hæðarkótar í landinu umhverfis lóð Loftkastalans eru ekki samræmi við þessar rekstrarforsendur, né eru þeir í samræmi við þá samráðsfundi, né kynningar sem haldnar voru með Loftkastalanum. Hlutaðeigandi aðilar hafa kvartað yfir þessu lengi vel og því mikilvægt að bugðist sé við þessum mistökum sem allra fyrst. 
  Hvernig verða þessi mistök leiðrétt gagnvart hlutaðeigandi?

  Frestað.

  Fylgigögn

 25. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi samráð við lögreglu og slökkvilið vegna breytinga á Laugavegi og Skólavörðustíg         Mál nr. US210237

  Hefur verið haft samráð við lögreglu og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, vegna lokunar og breytinga við Laugaveg og Skólavörðustíg? Hefur verið kannað hvort breytingarnar komi niður á neyðarakstri og hvort þær muni lengja viðbragðstíma slökkviliðs og lögreglu? Sömuleiðis er óskað svara við því hvort samráð hafi verið haft við samtök hreyfihamlaða í ljósi þess að ekki verður aðgengi fyrir þá á svæðinu milli 7-11 á morgnana.

  Frestað.

 26. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi endurbætur á Fossvogsskóla         Mál nr. US210241

  Framkvæmdir við endurbætur á Fossvogsskóla hafa dregist og seinkun hefur orðið á að koma fyrir færanlegum kennslustofum á lóðinni með þeim afleiðingum að skólahaldið er dreift um borgina, annars vegar í húsnæði Hjálpræðishersins og hins vegar í Korpuskóla. Mikilvægt er að skólahald geti hafist sem fyrst í hverfinu næst heimilum nemenda. Munu tímaáætlanir varðandi uppsetningu færanlegra kennslustofa standast og sömuleiðis tímaáætlun endurbóta við skólahúsnæðið?

  Frestað.

 27. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi umferðarspegil við Markarveg við Fossvogsveg         Mál nr. US210242

  Bent hefur verið á að umferðarspegill við Markarveg við Fossvogsveg hefur verið ónothæfur og í ólagi á þriðja ár. Umferðarspegill þarna eykur umferðaröryggi og því mikilvægt að koma þessu í lag sem fyrst. Hvenær má búast við að nýr umferðarspegill verði settur upp?

  Frestað.

 28. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir, um könnun um ferðavenjur         Mál nr. US210243

  1. Hver var kostnaðurinn við könnun sem Maskína gerði fyrir Reykjavíkurborg um ferðavenjur íbúa á höfuðborgarsvæðinu og hvernig þeir ferðast úr og í vinnu og hvernig þeir myndu helst vilja ferðast úr og í vinnu?
  2. Hvers vegna varð Maskína fyrir valinu?

  Frestað.

 29. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um Laugarveg í 9 skrefum         Mál nr. US210244

  1. Hver er kostnaðurinn frá upphafi til 1. september 2021 við teymin sem vinna að "Laugavegur í 9 skrefum" með auglýsingakostnaði og öllu tæmandi talið? 
  2. Hvernig voru teymin valin?
  3. Hver eru starfsheiti þeirra sem í teymunum sitja?
  4. Hver er áætlaður heildarkostnaður við verkefnið "Laugavegur í 9 skrefum" við verklok? 
  5. Hvers vegna var eigendum og rekstraraðilum á Laugaveginum ekki boðið að vera í teymunum? 

  Frestað.

Fundi slitið klukkan 12:02

Pawel Bartoszek Alexandra Briem

Hjálmar Sveinsson Sara Björg Sigurðardóttir

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skipulags-_og_samgongurad_0109.pdf