Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 105

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2021, miðvikudaginn 26. maí kl. 9:02, var haldinn 105. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Pawel Bartoszek, Sara Björg Sigurðardóttir, Geir Finnsson, Marta Guðjónsdóttir, Björn Gíslason, Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúinn Vigdís Hauksdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Dóra Björt Guðjónsdóttir og áheyrnarfulltrúinn Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn Ágústa Sveinbjörnsdóttir, Þorsteinn Rúnar Hermannsson og Jóhanna Guðjónsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn með fjarfundarbúnaði: Björn Axelsson,  Gunnar Hersveinn Sigursteinsson, Inga Rún Sigurðardóttir.

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

  1. Kosning í skipulags- og samgönguráð, USK2018060045         Mál nr. US200285

    Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 19. maí 2021, þar sem tilkynnt er að Dóra Björt Guðjónsdóttir taki sæti í skipulags- og samgönguráði í stað Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur og að Valgerður Árnadóttir taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Alexöndru Briem. Einnig var samþykkt að Pawel Bartoszek verði kjörinn formaður ráðsins.

    Fylgigögn

  2. Skipulags- og samgönguráð 2018-2022, kosning varaformanns         Mál nr. US180158

    Kosning varaformanns skipulags- og samgönguráðs 2018-2022. 

    Samþykkt að kjósa Dóru Björt Guðjónsdóttur sem varaformann skipulags- og samgönguráðs.

    (E) Samgöngumál

  3. Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025, tillaga         Mál nr. US210119

    Lögð fram tillaga stýrihóps skipulags- og samgönguráðs að Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025 dags. 19. maí 2021.

    Samþykkt.

    Vísað til borgarráðs.

    Skipulags- og samgönguráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Skipulags- og samgönguráð fagnar framkominni Hjólreiðaáætlun 2021-2025. Frá því fyrsta hjólreiðaáætlun Reykjavíkur var samþykkt árið 2010 hefur hlutdeild hjólreiða í öllum ferðum aukist úr 2% í 7% og við vitum að betri og fleiri hjólastígar hafa þar skipt sköpum. Stefnt að því að fjárfestingar í nýjum hjólreiðainnviðum verði að lágmarki 5 milljarðar króna á árunum 2021-2025. Jafnframt er sett fram framtíðarsýn fyrir hjólanetið í Reykjavík til ársins 2030. Við leggjum áherslu á vinna við innleiðingu áætlunarinnar hefjist þegar í stað og að leitað verði umsagna íbúaráða í þeirri vinnu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Þetta er metnaðarfull áætlun. Markmiðið er að aðskilja gangandi og hjólandi umferð frá megin stofnleiðum borgarinnar. Tekið er undir mikilvægi þess að hvetja börn og ungmenni til að hjóla og samhliða verður að tryggja öryggi þeirra sem best. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður minnst á mikilvægi þess að taka fræðslu um reglur á hjólastígum (hjólakennslu) inn í skólana. Forvitnilegt væri að fá flokkun á hjólastígum eftir öryggi þeirra og „gæðum“. Víða eru stígar blandaðir, hjóla- og göngustígar sem eru upphaflega hannaðir sem göngustígar. Þá þarf að lagfæra til að þeir verði öruggir fyrir bæði hjólandi og gangandi. Rýmið er oftast nægilega mikið og hægt er að búa til aflíðandi beygjur og minnka brekkur. Tilefni er til að auka eftirlit með umferð á blönduðum stígum vegna fjölgunar á minni vélknúnum farartækjum og hefur slysum fjölgað í kjölfarið. Einnig má nefna að gjarnan gengur, hleypur og hjólar fólk á öllum aldri með tónlist í eyrunum og heyrir því ekki eins vel þegar einhver nálgast það. Úr geta því orðið árekstrar. Fjarlæga þarf jafnframt járnslár þar sem þær eru enda hættulegar hjólreiðafólki. Ef stígar eiga að verða hluti af samgöngukerfi borgarinnar þarf að vera eins lítið af brekkum og hægt er en öryggi er vissulega aðalatriðið. Fulltrúi Flokks fólksins tekur jafnframt undir bókun skipulags- og samgönguráðs í málinu.

    Fylgigögn

  4. Fjólugata, stæði fyrir hreyfihamlaða, USK2021020121         Mál nr. US210140

    Lögð fram svohljóðandi tillaga skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 

    19. maí 2021:

    Lagt er til við skipulags- og samgönguráð að samþykkt verði að stæði í Fjólugötu, móts við hús nr. 17, verði merkt sem stæði fyrir hreyfihamlaða. 

    Samþykkt með vísan til c liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs í samræmi við 1. mgr. 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

    (A)    Skipulagsmál

    Fylgigögn

  5. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

    Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 14. maí 2021.

    Fylgigögn

  6. Blikastaðavegur 10, breyting á deiliskipulagi         Mál nr. SN210322

    Arkís arkitektar ehf., Kleppsvegi 152, 104 Reykjavík

    Veitur ohf., Bæjarhálsi 1, 110 Reykjavík

    Lögð fram umsókn Arkís arkitekta ehf. dags. 30. apríl 2021 varðandi breytingu á deiliskipulagi Stekkjarbrekkna, með síðari breytingum, vegna lóðarinnar nr. 10 við Blikastaðaveg. Í breytingunni felst að stækka aðveitulóð, bæta við byggingarreit og auka byggingarmagn, samkvæmt uppdr. Arkís arkitekta ehf. dags. 20. apríl 2021. 

    Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  7. Laugardalur, breyting á deiliskipulagi     (01.39)    Mál nr. SN210331

    Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, að breytingu á deiliskipulagi Laugardals. Breytingin felur í sér skilgreiningu íþróttamannvirkja á svæði austan Laugardalsvallar. Gerðir verða nýir gervigrasvellir á svokölluðum Valbjarnarvelli. Gert er ráð fyrir tveimur nýjum gervigrasvöllum til æfinga og að þeir verði afgirtir með netgirðingum og heimilt verði að reisa ljósmöstur við vellina. Áfram er gert ráð fyrir núverandi tennisvöllum og opnum göngu og skokkleiðum á milli Laugardalsvallar og gervigrasvalla, samkvæmt uppdr. Landslags ehf. dags. 28. apríl 2021.

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. 

    Vísað til borgarráðs. 

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  8. Brautarholt 26-28, breyting á deiliskipulagi     (01.250.1)    Mál nr. SN210342

    Reykjavíkurborg, Ráðhúsinu, 101 Reykjavík

    Lagt fram erindi skrifstofu borgarstjóra og borgarritara dags. 6. maí 2021 varðandi breytingu á deiliskipulagi Skipholtsreits vegna lóðarinnar nr. 26-28 við Brautarholt. Í breytingunni felst að breyta lóðarmörkum til norðurs þar sem þau eru færð upp að húsi, samkvæmt uppdr. umhverfis- og skipulagssviðs dags. 6. maí 2021. Einnig er lagður fram lóðauppdráttur í vinnslu dags. 12. mars 2021 og breytingablað í vinnslu dags. 12. mars 2021.

    Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  9. Gufunes, samgöngutengingar, skipulagslýsing fyrir nýtt deiliskipulag, kynning á athugasemdum og ábendingum     (02.2)    Mál nr. SN210218

    Að lokinni kynningu er lögð fram að nýju skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, dags. 19. mars 2021 fyrir nýtt deiliskipulag. Um er að ræða tæplega 20 hektara svæði og er markmið skipulagsins m.a. að festa inn á deiliskipulag bráðabirgðatengingar fyrir innanhverfisveg og stígatengingar frá Gufunesinu upp á Strandveg í Grafarvogi, ásamt því að tryggja góð tengsl við umhverfið með fyrirkomulagi stíga, gatna og opinna svæða. Hafa þarf í huga fyrirhugaða lega Sundabrautar við skipulagsvinnuna. Jafnframt verður Hallsteinsgarður og nærumhverfi fest í sessi inn á deiliskipulag. Lýsing var kynnt til og með 5. maí 2021. Eftirtaldir sendu ábendingar/umsögn: skrifstofa umhverfisgæða dags. 12. apríl 2021, Veitur dags. 13. apríl 2021 og 5. maí 2021, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur dags. 4. maí 2021 og íbúaráð Grafarvogs dags. 5. maí 2021.

    Kynnt.

    Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nauðsynlegt er að bæta tengingar fyrir gangandi og hjólandi inn í hverfið, óháð því með hvaða hætti Sundarbraut kemur til með að liggja í gegnum svæðið. Ánægjulegt að Hallsteinsgarður fái fastan sess í skipulagi íbúum og öðrum borgabúum til yndisauka.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Brýnt er að nýjar bráðabirgða vegtengingar í Gufunesi þrengi ekki að legu Sundabrautar. Nú liggur fyrir niðurstaða um vegstæði Sundabrautar og verða því allar ákvarðanir um vegtengingar að taka mið af henni enda eru bundnar vonir við að fljótlega verði tekin ákvörðun um þann kost sem nefnd um Sundabraut hefur lagt til og framkvæmdir hefjast. Það er afar óskynsamlegt og mikil sóun á skattfé borgarbúa að fara í kostnaðarsamar vegtengingar sem þarf að rífa upp þegar lagning Sundabrautar hefst. Slík vinnubrögð hafa því miður verið viðhöfð áður í Gufunesi þegar lagður var vegur þar árið 2018 með miklum tilkostnaði sem búið er að moka í burtu innan aðeins þriggja ára. Mikilvægt er að vandað verði til verka við vegtengingar í Gufunesi, tekið tillit til legu Sundabrautar og haft verði gott samráð við íbúasamtök og íbúa.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sporin hræða gagnvart borgarstjóra þegar kemur að skipulagsvinnu varðandi Sundabraut. Fyrst var girt fyrir komu hennar á Kirkjusandi, síðar í Vogahverfi og nú í Gufunesi. Meirihlutanum er ekki treystandi. Verið er að kynnar bráðabirgðatengingar fyrir gangandi og hjólandi frá Gufunesi upp í Grafarvog og eiga þær að vera víkjandi gagnvart Sundabraut. Hvers vegna er rokið í þetta verkefni nú sem verður mjög kostnaðarsamt korter í að ákvarðanir um legu Sundabrautar. Þessu fólki sem stórnar Reykjavík er ekki viðbjargandi og ekki treystandi. Borgarfulltrúi Miðflokksins skilur ekki hvers vegna samgönguráðherra og Vegagerðin er ekki löngu búin að gefast upp á samstarfi við meirihlutann í Reykjavík. Það mætti halda að þar væru öll ljós kveikt og enginn heima.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kynntar eru athugasemdir og ábendingar vegna Gufunes, samgöngutengingar, skipulagslýsing fyrir nýtt deiliskipulag. Fram kemur að af ýmsu er að hyggja s.s. góð tengsl við umhverfið með fyrirkomulagi stíga, gatna og opinna svæða. Fulltrúi Flokks fólksins vill segja í þessu sambandi að hafa þarf í huga fyrirhugaða legu Sundabrautar við skipulagsvinnuna. Nákvæm lega hennar hefur ekki verið ákveðin enda þótt búið sé að ákveða vegstæði í grófum dráttum. Það er nauðsynlegt að ákvarða fyrst nákvæma legu Sundabrautar áður en farið er í að ákveða fyrirkomulag stíga og gatna. Það hlýtur að auðvelda skipulagsvinnu við stíga og götur ef búið er að ákveða nákvæma legu brautarinnar, annars er um hugsanlegan tvíverknað að ræða. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að hinkrað verði með þessa vinnu til að tryggja að ekki sé verið að sóa fjármagni, út í loftið. Að öðru leyti vonar fulltrúi Flokks fólksins að það samráð sem skipulagsyfirvöld tala um sé viðhaft sé alvöru samráð en ekki málamyndasamráð, til að geta „sagt“ að samráð hafi verið haft.

    Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  10. Hólmsheiði 2. áfangi, deiliskipulag athafnasvæðis, kynning á athugasemdum og ábendingum         Mál nr. SN210147

    Að lokinni kynningu er lögð fram skipulags- og matslýsing skipulagsfulltrúa dags. 26. febrúar 2021, þar sem gert er ráð fyrir að unnið verði deiliskipulag að athafnasvæði sem markast af Fjárborg til vesturs og Suðurlandsvegi til suðurs og fjarsvæðis vatnsverndar til austurs. Lýsingin var kynnt til og með 5. maí 2021. Eftirtaldir sendu athugasemdir/umsögn: Ólafur R Dýrmundsson Ph.D. dags. 14. apríl 2021, íbúaráð Grafarholts og Úlfarsárdals dags. 21. apríl 2021, Skipulagsstofnun dags. 23. apríl 2021, Umhverfisstofnun dags. 27. apríl 2021, Minjastofnun Íslands dags. 29. apríl 2021, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur dags. 5. maí 2021, Náttúrufræðistofnun Íslands dags. 5. maí 2021, Vegagerðin dags. 5. maí 2021 og Veitur dags. 12. maí 2021.

    Kynnt.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Nokkrir hnökrar eru á undirbúningnum að Hólmsheiði verði byggð. Eðlilegt er að hafa samráð við þá sem þegar eru með starfsemi á svæðinu. Má nefna að ekki eru meðal umsagnaraðila Fjáreigendafélag Reykjavíkur, sem hefur verið með mikla starfsemi í Fjárborg í Hólmsheiði síðan haustið 1970 , skv. samningi við Reykjavíkurborg, Hestamannafélagið Fákur sem hefur verið með starfsemi í Almannadal, nokkru vestar, þó aðeins síðan um aldamót en er hins vegar umsagnaraðili. Fulltrúi Flokks fólksins vill taka undir ábendingar Ólafar Dýrmundssonar en hann segir m.a. að „Hvergi er minnst á fjárhúsabyggð, aðeins hesthúsabyggð. Staðan er þannig að á 5 ha. landi Fjárborgar er sauðfé í um 20% húsanna. Þetta þarf að leiðrétta. Fjárborg er einkum hesthúsabyggð nú á dögum en jafnframt fjárhúsabyggð, og þar eru einnig hús sem hvorki hýsa fé né hross. Hesthúsa- og fjárhúsabyggðin í Fjárborg er í vesturjaðri Hólmsheiðar, ekki í Almannadal. Neðan hans tekur við Grafarheiði. Þetta er mjög skýrt í örnefna- og fornminjaskrám fyrir Austurheiðar og ætti að leiðréttast í samræmi við þær (sjá bls. 2 og 3 í Skipulags- og matslýsingu). Þarna gætir vanþekkingar, að starfsmenn og aðrir sem koma að málum þekkja ekki nægilega til í Hólmsheiði og mun það vonandi ekki vera endurtekið.

    Ólafur Melsted verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  11. Urðarbrunnur 16, breyting á deiliskipulagi     (05.056.2)    Mál nr. SN200779

    VG Verk og bygg ehf., Gerðarbrunni 14, 113 Reykjavík

    Lögð fram umsókn VG verk og bygg ehf. dags. 15. desember 2020 ásamt bréfi dags. 22. júní 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar nr. 16 við Urðarbrunn. Í breytingunni felst að heimilt verði að gera tvíbýlishús í stað einbýlishúss á lóð ásamt því að fjölga bílastæðum úr tveimur stæðum í fjögur stæði. Einnig er lagður fram uppdráttur Belkod ehf. ódags., stjórnsýslukæra dags. 13. október 2020 og umsögn skipulagsfulltrúa dags. 29. mars 2021.

    Synjað er beiðni um breytingu á deiliskipulagi með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 29. mars 2021. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

    Vísað til borgarráðs.

    Birkir Ingibjartsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    (B) Byggingarmál

    Fylgigögn

  12. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

    Fylgiskjal með fundargerð þessari er fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1114 frá 11. maí 2021 og nr. 1115 frá 18. maí 2021.

    (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  13. Úlfarsbraut 112, málskot     (02.698.5)    Mál nr. SN210056

    Kanon arkitektar ehf, Laugavegi 26, 101 Reykjavík

    Atli Bragason, Jónsgeisli 81, 113 Reykjavík

    Lagt fram málskot Þórðar Steingrímssonar f.h. Atla Bragasonar dags. 21. janúar 2021 vegna neikvæðrar afgreiðslu skipulagsfulltrúa frá 18. desember 2020 um breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar nr. 112 við Úlfarsbraut sem felst í að gera tvær íbúðir á lóð í stað einbýlishús. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 18. desember 2020.

    Umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 18. desember 2020, staðfest. Fulltrúar Sjálfstæðis-flokksins sitja hjá.

    Sólveig Sigurðardóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Kl. 10:47 tekur Daníel Örn Arnarson sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  14. Betri Reykjavík, minningarbekkir til afnota fyrir almenning , svar - USK2018040012         Mál nr. US180077

    530269-7609 Reykjavíkurborg, Ráðhúsinu, 101 Reykjavík

    Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds, dags. 5. mars 2021.

    Fylgigögn

  15. Minningarbekkir í borgarlandi, tillaga         Mál nr. US210143

    Lögð fram svohljóðandi tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða:

    Lagt er til að skipulags- og samgönguráð samþykki að aðstandendur látins einstaklings geti óskað eftir að gefa minningarbekk til uppsetningar í borgarlandinu í samræmi við verklag þar um.

    Einnig eru lögð fram drög að verkferli til að afgreiða óskir aðstandenda látins einstaklings um minningarbekki með formlegum hætti, dags. 5. mars 2021. 

    Tillögunni fylgir greinargerð.

    Samþykkt.

    Þórólfur Jónsson deildarstjóri náttúru og garða tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    (A) Skipulagsmál

    Fylgigögn

  16. Nýr Landspítali við Hringbraut, breyting á deiliskipulagi     (01.19)    Mál nr. SN210340

    Kanon arkitektar ehf, Laugavegi 26, 101 Reykjavík

    Nýr Landspítali ohf., Skúlagötu 21, 101 Reykjavík

    Lögð fram umsókn Þorkels Magnússonar dags. 6. maí 2021 varðandi breytingu á deiliskipulagi Nýs Landspítala við Hringbraut. Í breytingunni felst m.a. að koma fyrir ljósgarði með stoðvegg við Burkna- og Njólagötu, rampi fyrir aðkomu í kjallara, hækka rannsóknarhús við Hvannagötu og færsla rafstöðvar o.fl. samkvæmt uppdr. Kanon arkitekta ehf. dags. 5. maí 2021. 

    Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

    Hildur Gunnarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  17. Gamla höfnin - Vesturbugt, reitir 03 og 04, breyting á deiliskipulagi     (01.0)    Mál nr. SN200626

    Pálmar Kristmundsson, Aðalstræti 25, 470 Þingeyri

    Vesturbugt ehf., Borgartúni 20, 105 Reykjavík

    PK Arkitektar ehf., Brautarholti 4, 105 Reykjavík

    Lögð fram umsókn Pálmars Kristmundssonar dags. 7. október 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Vesturbugtar, Gamla höfnin, vegna reita 03 og 04. Í breytingunni felst að göturými Hlésgötu er bætt við reiti 03 og 04 og stækka svæðin sem því nemur, fjölga íbúðum úr 170 í 190, heimilt verði að breyta 3 raðhúsum á reit 03 í fjölbýlishús með því að tengja þau húsinu við hliðina (Mýrargata) með svalagangi, heimilt verði að breyta 2 x 3 raðhúsum á reit 04 í fjölbýlishús með því að tengja þau hornhúsunum sín hvoru megin með svalagöngum, heimilt verði að nýta jarðhæð á suðvestur horni á reit 04 fyrir allt að 7 íbúða búsetuúrræðiskjarna o.fl., samkvæmt uppdr. PK Arkitekta ehf. dags. 8. apríl 2021. Einnig er lagt fram minnisblað Einars I. Halldórssonar, dags. 20. maí 2021.

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

    Vísað til borgarráðs. 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Hér er verið að boða umtalsverðar breytingar á samþykktu deiliskipulagi löngu eftir að það hefur farið í gegnum skipulagsferli og verið samþykkt. Um er að ræða mikilvægt svæði í borgarlandinu við Gömlu höfnina sem borgarbúar hafa sterkar skoðanir á hvernig eigi að skipuleggja. Breytingin felur í sér talsverða fjölgun íbúða og verið er að breyta raðhúsareit í fjölbýlishúsareit sem gerir svæðið einsleitara og óáhugaverðara til útivistar. Í stað þess að meirihlutinn bregðist við lóðaskorti í borginni er sífellt verið að auka byggingarmagn á þéttingarreitum á dýrustu lóðunum í borginni. Upphaflega var gert ráð fyrir leikskóla á svæðinu sem ekki er gerð lengur krafa um þrátt fyrir að ljóst er að mikill skortur er á leikskólaplássum.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það sem er kallað Vesturbugt í dag var áður kallað Slippsvæðið. Skipulag á þessu svæði byrjaði 2003 samkvæmt frétt á heimasíðu Reykjavíkur frá þeim tíma. Engin uppbygging hefur átt sér stað í 18 ár þrátt fyrir þrálátar fréttir að uppbygging sé um það bil að hefjast allan þann tíma. Lýst er yfir miklum vonbrigðum að framkvæmdir eru ekki hafnar við Vesturbugt eins kynnt var á fundi þann 18. apríl 2017 þegar skrifað var undir samning um uppbyggingu íbúða á þessu svæði og aftur á fundi borgarráðs 14. mars 2019. Enn á ný eru boðaðar breytingar og byggingamagn aukið um tæpa 1.000 fermetra og íbúðum á að fjölga úr 170 í 190. Undarlegt samspil Reykjavíkurborgar og Vesturbugtar ehf. með fjármögnun verksins er óljós. Áhættuákvæði er fyrir borgina í samningnum þar sem hún er skylduð til að vera kaupandi að 74 íbúðum sem áætlað er að rísi á þessu svæði. Gera verður þá kröfu þegar Reykjavíkurborg úthlutar gæðum sem þessum til einstakra aðila að þeir sýni fram á fjárhagslega getu sína til verkefna svo uppbygging íbúðarhúsnæðis í borginni dragist ekki úr hömlu eins og verið hefur undanfarin ár. Það er eitthvað mjög skrýtið við allt þetta mál.

    Hildur Gunnarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    Kl. 11:36 víkur Björn Gíslason af fundi.

    -    Kl. 11:40 tekur Eyþór Laxdal Arnalds sæti á fundinum.

    (D) Ýmis mál

    Fylgigögn

  18. Furugerði 23, kæra 48/2021     (01.807.4)    Mál nr. SN210374

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 19. apríl 2021 ásamt kæru dags. 16. apríl 2021 þar sem kærð er ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 2. febrúar 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Furugerði 23. 

  19. Bergstaðastræti 2, kæra 52/2021     (01.171.3)    Mál nr. SN210375

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 20. apríl 2021 ásamt kæru dags. 20. apríl 2021 þar sem kærð er samþykkt byggingarfulltrúa frá 7. janúar 2020 um að innrétta krá/ölstofu að Bergstaðastræti 2.

  20. Frakkastígur - Skúlagata, kæra 20/2021, umsögn     (01.15)    Mál nr. SN210160

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 26. febrúar 2021 ásamt kæru dags. 26. febrúar 2021 þar sem kærð er ákvörðun borgarráðs frá 10. desember 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Frakkastíg - Skúlagötu vegna fyrirhugaðrar nýbyggingar við Frakkastíg 1. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 10. maí 2021.

  21. Grensásvegur 16a og Síðumúli 37-39, kæra 27/2017, umsögn, úrskurður     (01.295.4)    Mál nr. SN170209

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram bréf úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. mars 2017, ásamt kæru þar sem kært er deiliskipulag fyrir Grensásveg 16A og Síðumúla 37-39. Í kærunni er gerð krafa um frestun réttaráhrifa til bráðabirgða. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra, dags. 18. apríl 2017. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 1. desember 2017. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2017 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir sameiginlega lóð Grensásvegar 16A, Síðumúla 37 og Síðumúla 39. Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. júlí 2017 um að samþykkja byggingarleyfi til niðurrifs á bílastæðahúsi að Grensásvegi 16A.

  22. Grensásvegur 16a og Síðumúli 37-39, kæra 32/2017, umsögn, úrskurður     (01.295.4)    Mál nr. SN170237

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram bréf úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. mars 2017, ásamt kæru þar sem kært er deiliskipulag og framkvæmdaleyfi fyrir Grensásveg 16A og Síðumúla 37-39. Í kærunni er gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra, dags. 28. apríl 2017. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 1. desember 2017. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 9. febrúar 2017 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir sameiginlega lóð Grensásvegar 16A, Síðumúla 37 og Síðumúla 39. Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. júlí 2017 um að samþykkja byggingarleyfi til niðurrifs á bílastæðahúsi að Grensásvegi 16A.

  23. Dunhagi, Hjarðarhagi og Tómasarhagi, kæra 3/2021, umsögn, úrskurður         Mál nr. SN210028

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 12. janúar 2021 ásamt kæru dags. 12. janúar 2021 þar sem kærð er samþykkt og auglýsing nýs deiliskipulags fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Birt með auglýsingu nr. 1268/2020 þann 17. desember 2020 í B-deild Stjórnartíðinda. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 1. mars 2021. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 18. maí 2021. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 15. október 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Harðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46.

    Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20. 

  24. Dunhagi, Hjarðarhagi og Tómasarhagi, kæra 7/2021, umsögn, úrskurður         Mál nr. SN210042

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 15. janúar 2021 ásamt kæru dags. 15. janúar 2021 þar sem kært er auglýst deiliskipulag fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 1. mars 2021. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 18. maí 2021. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 15. október 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46.

    Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20. 

  25. Dunhagi, Hjarðarhagi og Tómasarhagi, kæra 8/2021, umsögn, úrskurður         Mál nr. SN210049

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 18. janúar 2021 ásamt kæru dags. 17. janúar 2021 þar sem kært er auglýst deiliskipulag fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Til vara er jafnframt farið fram á stöðvun framkvæmda. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 25. janúar 2021 um stöðvunarkröfu og bráðabirgðaúrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 27. janúar 2021. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 1. mars 2021. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 18. maí 2021. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 15. október 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Harðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46.

    Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20. 

  26. Dunhagi, hjarðarhagi og Tómasarhagi, kæra 9/2021, umsögn, úrskurður         Mál nr. SN210050

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 18. janúar 2021 ásamt kæru dags. 17. janúar 2021 þar sem kært er auglýst deiliskipulag fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 1. mars 2021. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 18. maí 2021. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 15. október 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Harðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46.

    Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20. 

  27. Dunhagi 18-20, kæra 50/2021, umsögn, úrskurður     (01.545.1)    Mál nr. SN210373

    701211-0140 Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 19. apríl 2021 ásamt kæru dags. 19. apríl 2021 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa frá 12. janúar 2021 um að samþykkja byggingarleyfi vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Dunhaga 18-20. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 27. apríl 2021. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 18. maí 2021. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 15. október 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Harðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46.

    Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20. 

  28. Gjúkabryggja 4, breyting á deiliskipulagi     (04.223)    Mál nr. SN210237

    Hugrún Þorsteinsdóttir, Blönduhlíð 6, 105 Reykjavík

    FA40 ehf., Höfðabakka 3, 110 Reykjavík

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 6. maí 2021 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Bryggjuhverfis vegna lóðarinnar nr. 4 við Gjúkabryggju.

    Fylgigögn

  29. Lágmúli, Háaleitisbraut, Kringlumýrarbraut, Suðurlandsbraut, stgr 1.260, skipulagslýsing og nýtt deiliskipulag         Mál nr. SN210304

    Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 6. maí 2021 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á kynningu á lýsingu að deiliskipulagi götureits Lágmúla, Háaleitisbraut, Kringlumýrarbraut, Suðurlandsbraut, staðgreinireitur 1.260.

    Fylgigögn

  30. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, 

    um aðgengi að vesturströndinni í Vesturbænum, umsögn         Mál nr. US210128

    Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa dags. 21. maí 2021.

    Skipulags- og samgönguráð leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:

    Lagt er til að bæta aðgengi fólks að vesturströndinni í Vesturbænum við Ánanaust eða Eiðsgranda. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að koma með tillögu að útfærslu og vísa henni í kjölfarið til gerðar fjárhagsáætlunar. Nú standa yfir endurbætur á sjóvarnargarði við Eiðsgranda og Ánanaust sem verður mun stærri á eftir. Gert er ráð fyrir áningarstað fyrir ofan garðinn við Eiðsgranda en aðgengi að ströndinni verður mjög takmarkað. Á bak við sjóvarnargarðinn leynist nærri kílómetra löng falleg strönd með einstöku útsýni. Mikil gæði felast í því að geta setið við ströndina, enda er mikil upplifun að sjá sólsetrið og horfa á öldurnar við Ánanaust. Það myndi auka gæði þessa fallega útivistarstaðar að gera gott aðgengi fólks að þessum fallega stað þannig að unnt sé að ganga með öruggum hætti yfir garðinn og niður fyrir hann.

    Samþykkt.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Um kílómetra löng ströndin vestast í Vesturbænum á einstökum stað nýtist lítið vegna skorts á aðgengi. Útsýni við hafið er einstakt í borginni og mun staðurinn verða nýr áningarstaður til að njóta útivistar. Það er jákvætt að hér sé tekið vel í tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins með örlitlum breytingum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar og styður þessa tillögu um að bæta aðgengi fólks að vesturströndinni i Vesturbæ við Ánanaust enda hefur fulltrúi Flokks fólksins marg oft bent á að náttúrulegar fjörur eru gott útivistarsvæði, en því miður er stöðugt gengið á þær. Þar sem möguleiki er á að nýta þær til útivistar á aðgengi að vera gott. Þannig er það í þessu tilfelli. Gert er ráð fyrir áningarstað fyrir ofan garðinn við Eiðsgranda en aðgengi að ströndinni verður mjög takmarkað. Á bak við sjóvarnargarðinn leynist nærri kílómetra löng falleg strönd með einstöku útsýni eins og kemur fram í tillögunni. Bæta þarf aðgengi til að fólk geti notið þessa fallega útivistarstaðar.

    -    Kl. 11:45 víkur Katrín Atladóttir af fundi.

    -    Kl. 11:46 tekur Örn Þórðarson sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  31. Fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um lóðirnar Jöfursbás 11 Gufunesveg 34 Þengilsbás 1 og Jöfursbás 5 og 7, umsögn - R21040331         Mál nr. US210124

    Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa dags. 21. maí 2021.

    Fylgigögn

  32. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um merkingar við göngugötur, umsögn - USK2021040029         Mál nr. US210078

    Lögð er fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 12. maí 2021. 

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að nú sé komin niðurstaða í „merkingar við göngugötur“. Umferð vélknúinna ökutækja akstursþjónustu fatlaðra og handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða er heimil á göngugötum og er sú heimild komin til að vera. Reykjavíkurborg mun ekki fá því breytt og þarf að bregðast við með því að merkja göturnar rækilega. Vísað er í nýsamþykktar breytingar á 10. gr. umferðarlaga en þar segir að „almenna heimild skal gefa til kynna með umferðarmerki sem kallar á að gert verði sérstakt skilti“. Fulltrúi Flokks fólksins skilur þetta svo að hanna þurfi sérstakt skilti í þessum tilgangi. Þetta er mikilvægt því dæmi er um að fólk á P merktum bílum sem ekur göngugötu til að komast á áfangastað hafi orðið fyrir aðkasti. Nokkuð langt er síðan fréttist af fyrsta tilfellinu og hafa fatlaðir og hreyfihamlaðir mátt búa við ákveðinn kvíða í þessu sambandi. Í svari má draga þá ályktun að skipulagsyfirvöld ætli að gera algert lágmark þegar kemur að merkingum. Segir í umsögn að kynna eigi reglur sem gilda. Fulltrúi Flokks fólksins telur að kynning ein og sér dugi ekki til. Beina þarf merkjum (sérstöku skilti) að akandi umferð svo reglurnar séu alveg skýrar.

    Fylgigögn

  33. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um fyrirhugaðan Vetrargarð, umsögn - USK2021030113         Mál nr. US210057

    Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 12. maí 2021.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvernig Reykjavíkur hyggst fyrirbyggja að börn sem eru að leika sér í fyrirhuguðum Vetrargarði í Efra Breiðholti andi ekki að sér mengandi útblæstri umferðar af hraðbraut Arnarnesvegar sem leggja á þvert yfir Vatnsendahvarf? Segir í umsögn að í „umferðarlögum er jafnframt að finna heimild fyrir sveitarfélög og Vegagerðina til að takmarka umferð vélknúinna ökutækja um stundarsakir vegna mengunar, sem kann að vera beitt ef mengun í lofti fer yfir heilsuverndarmörk.“ Fulltrúi Flokks fólksins telur hér komið tilefni til að fá nýtt umhverfismat. Það er klént að þurfa að loka væntanlegum Vetrargarði í tíma og ótíma vegna útblásturs frá hraðbraut. Stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu mælast iðulega yfir lögbundin heilsuverndarmörk svifryks. Á gráum dögum vilja sérfræðingar í loftmengun að börn haldi sig fjarri stofnbrautum og að allir haldi sig frá líkamlegri áreynslu við stofnbrautir. Reykjavíkurborg er með stórar áætlanir fyrir Vetrargarð fyrir íbúa Reykjavíkur og nágrennis, við skíðabrekkuna í Jafnaseli. Varla getur það talist ásættanlegt að leggja allt að 4 akreina stofnbraut, með tvöföldu hringtorgi, alveg upp við leik- og útivistarsvæði barna? Mikil hætta er á því að svifryksmengun fari yfir hættumörk í Vetrargarðinum á gráum dögum, sem myndi breyta Vetrargarðinum í ónothæft hættusvæði og ógn við lýðheilsu barna og fullorðinna.

    Fylgigögn

  34. Tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, 

    um geymslu hjólhýsa og fellivagna         Mál nr. US210132

    Lagt er til að eigendum hjólhýsa og fellivagna verði veitt heimild að leggja og geyma þau/þá á stæðum og grænum svæðum við heimili sín gegn vægu gjaldi yfir sumartímann. 

    Tillögunni fylgir greinargerð. 

    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði með tillögunni.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Meirihlutinn felldi tillögu mína um eigendum hjólhýsa og fellivagna yrði veitt heimild að leggja og geyma þau/þá á stæðum og grænum svæðum við heimili sín gegn vægu gjaldi yfir sumartímann. Hjólhýsa og fellivagna eign er mikil á Íslandi sem segir okkur að mikill vilji er til að ferðast innanlands. Það er mjög jákvætt fyrir ferðaþjónustuna og efnahag landsins. Þar sem þéttbýlast er í Reykjavík er ekki pláss fyrir að geyma hýsin og vagnana fyrir utan heimili fólks. Mikil verðmæti eru í þessum gistirýmum á hjólum og afleitt að hafa þau fjarri heimili vegna m.a. áhættu á skemmdarverkum. Þessi tillaga hvetur einnig fólk til að ferðast innanlands til að spara kolefnisspor sem stafar af flugferðum. Eins og með aðrar grænar tillögur sem lagaðar eru fram felldi meirihlutinn hana. Það er ekkert grænt við stefnu gráa meirihlutans í borginni.

  35. Fyrirspurn frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um hljóðvist         Mál nr. US210130

    Hversu margir hafa sótt um og hversu margir hafa fengið styrk til glerskipta í eigin húsnæði til að bæta hljóðvist á ári hverju frá árinu 2014? Hversu mikið hefur verið greitt í styrki til glerskipta á ári hverju frá árinu 2014? Hvernig dreifast umsóknir og styrkveitingar vegna glerskipta á götur? Hver er hæsta fjárhæð vegna styrks sem hefur verið veittur vegna glerskipta og hvert er meðaltal fjárhæða styrkja? Hver er kostnaður Reykjavíkur á ári hverju frá árinu 2014 við að meta hvort umsækjendur uppfylla kröfur til styrkveitingar og við að meta hljóðstyrk og veita ráðgjöf vegna hljóðvistar? Er eitthvað sem kemur í veg fyrir það að sami einstaklingur hljóti fjölda styrkja vegna þess að viðkomandi á fleiri en eina íbúð? Er skilyrði að einstaklingur búi í því húsi þar sem sótt er um styrk? Er eitthvað horft til efnahagsstöðu umsækjanda við mat á styrkhæfni hans?

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

  36. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, um Markúsartorg við Gerðuberg         Mál nr. US210133

    Stendur eitthvað til að bæta Markúsartorg við Gerðuberg en það er kalt, illa nýtt og óvistlegt. Töluvert margir íbúar hafa gefið sig á orð við mig upp á síðkastið og velt upp þeirri spurningu hvort það standi til að gera eitthvað til þess að gera torgið skjólsælla, nýtilegra og hlýrra?

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

  37. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, um nagladekkjanotkun         Mál nr. US210134

    Nagladekkjanotkun hefur lítið dregist saman þrátt fyrir stanslausan áróður Reykjavíkurborgar gegn þeim án þess að taka tillit til öryggissjónarmiða þeirra sem þurfa að keyra úr öðrum sveitarfélögum til vinnu í Reykjavík, sem kemur til vegna lóðaskorts í borginni. Að auki hafa bílaleigur bent á að vátryggingarskylda hvíli á þeim til notkunar nagladekkja yfir vetrartímann. Nagladekkjatalningar hafa staðið yfir síðan 2000-2001. Hvað hefur verið eytt miklu í auglýsingar að hálfu borgarinnar í nagladekkjaáróður frá árinu 2000 til áramóta 2020 tæmandi talið eftir árum?

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, fjármálastjóra.

  38. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um nagladekkjatalningu         Mál nr. US210135

    Skipulagsyfirvöld fá verkfræðistofuna Eflu til að halda utan um nagladekkjatalningu. Efla fær síðan ungt fólk/námsmenn til að telja hvað margir aka á nagladekkjum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um kostnað borgarinnar við að ráða verkfræði- og arkitektastofuna Eflu til að halda utan um þetta verk? Óskað er upplýsingar um kostnað fyrir einstakt skipti og hver kostnaðurinn hefur verið frá upphafi þ.e. frá aldamótum þegar talning hófst. Óskað er sundurliðunar á kostnaði og að með svari fylgi afrit af reikningi frá Eflu. 

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, fjármálastjóra.

  39. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, 

    um skipulagsmál í Úlfarsárdal         Mál nr. US210145

    Nú þegar það liggur fyrir að búið er að úthluta öllum lóðum í Úlfarsárdal óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að fá upplýsingar hvort það sé komin endanleg mynd á hverfið? Fulltrúi Flokks fólksins minnist þess að í hverfinu átti að vera blönduð byggð. Gengið hefur á ýmsum í þessu hverfi. Mikið er um kvartanir og hægt hefur gengið að ganga frá gönguleiðum og frágangi við götur, lýsingu og öryggismál.

    Frestað.

  40. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, 

    varðandi Haðarstíg         Mál nr. US210146

    Málefni Haðarstígar hafa áður komið til umfjöllunar. Eldsvoði varð á Haðarstíg síðastliðið sumar og vöktu íbúar þar athygli borgaryfirvalda á afleitum brunavörnum en þar bólar ekkert á endurbótum við stíginn sem fyrirhugaðar voru 2018 og 2019. Fulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju ábendingum íbúa hefur ekki verið svarað? Skipulagsyfirvöld státa sig af samráði en það virðist hafa brugðist. Íbúum var sagt fyrir tveimur árum að endurbótum hafði verið frestað án skýringa. Haðarstígur er göngustígur, ein þrengsta gata Reykjavíkur og illmögulegt að koma stórum slökkviliðsbíll þangað. Þar er enginn brunahani, sem torveldar slökkvistarf í þessum þéttbýla reit, þar sem húsin standa áföst hvert öðru. Hér er allt of mikið í húfi. Þegar kemur að öryggi sem þessu gengur ekki að borið sé við fjárskorti. Fram hefur komið hjá íbúum að ástand götunnar sé orðið mjög bágborið. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur skipulagsyfirvöld til að gyrða sig í brók í þessu máli áður en annað slys verður.

    Frestað.

  41. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um skutlu í miðbæinn         Mál nr. US210147

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld hlutist til um að Reykjavíkurborg reki skutlu sem aki Laugaveginn, Skólavörðustíginn, Lækjartorg og upp Hverfisgötu. Spurning er að reyna þetta í tilraunaskyni, tímabundið. "Skutlan" taki hring um kjarna miðborgarinnar t.d. 4-5 sinnum á klukkutíma eða eftir því sem þörf kallar. Markmiðið er að mæta þeim sem eiga erfitt með gang, eru hreyfihamlaðir eða tímabundnir svo eitthvað sé nefnt nú þegar aðgengi hefur verið takmarkað vegna lokunar gatna. Lokanir gatna fyrir bílaumferð hefur valdið mögum þeim sem eru ekki á hjóli eða eiga erfitt um gang ama. Þetta er ein tillaga sem gæti komið til móts við þá sem treysta sér ekki til að ganga mikið en langar e.t.v. engu að síður að koma inn á þetta svæði, eiga erindi þangað og fara um það á skömmum tíma. Skutlan er einnig tilvalin til að skutla ferðamönnum milli staða í miðbænum.

    Frestað.

  42. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi Haðarstíg         Mál nr. US210148

    Þann 18. ágúst 2019 kviknaði eldur á Haðarstíg, sem er þrengsta gata Reykjavíkur, og slökkvibíll komst ekki inn götuna. Hið sama var upp á teningnum hinn 13. maí sl. 1. Hvers vegna eru skipulagsyfirvöld í Reykjavík ekki löngu búin að tryggja öryggi íbúa sem búa í þessari götu og nágrannagötum þegar kemur að brunavörnum? 2. Hvað á að þurfa marga bruna í miðborginni til að skipulagsyfirvöld vakni? 3. Er samráð við slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu um þetta andvaraleysi? 4. Eru einhverjar götur á undanþágu frá yfirvöldum þegar kemur að brunavörnum? 5. Ef já - hvaða götur?

    Frestað.

  43. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi útboð         Mál nr. US210149

    Reykjavíkurborg braut gegn lagaskyldu sinni til útboðs með samningum við Orku náttúrunnar ohf. (ON) um LED-væðingu götulýsingar í borginni. Þetta kemur fram í úrskurði kærunefndar útboðsmála, en auk tveggja milljóna króna stjórnvaldssektar lagði nefndin fyrir borgina að bjóða verkið út. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki þurfi að vera með virkt endurmenntunarkerfi fyrir helstu stjórnendur borgarinnar þar sem t.d. nýjar reglugerðir og ný lög eru kynnt svo og fjármálalæsi kennd? Það er líklega mun hagstæðara en að þurfa hvað eftir annað að greiða sektir sem skapast við slæma stjórnsýslu og laga- og reglugerðarbrot Reykjavíkurborgar. Reykjavíkurborg hefur oft áður verið talin brotleg í málum sem kostað hefur borgarbúa milljónir. Í þessu máli halda engin rök og þau veiku rök sem borgin lagði fram hafa verið hrakin lið fyrir lið. Þegar slíkt gerist þarf að bæta vinnubrögð og tryggja að slíkt gerist ekki aftur. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta stríð borgarinnar gagnvart lögum og reglum ekki bara þreytandi heldur með öllu óásættanlegt af stjórnvaldi sem borgarbúa eiga að geta treyst sérstaklega þegar kemur að því að fylgja lögum og reglum. 

    Frestað.

  44. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US210150

    Innkaupamál á þessu og síðasta kjörtímabili hafa verið ein samfelld hneisa. Borgaryfirvöld hafa ítrekað virt lög og reglur um opinber innkaup að vettugi og gengið til samninga án þess að útboð fari fram. Þá er rétt að minna á það að þótt útboðsskylda verði aðeins virk fari samningur yfir ákveðin fjárhæðarmörk þá er ekkert sem kemur í veg fyrir að borgin bjóði út minni verk. Útboð eru til þess fallin að auka traust almennings á stjórnvöld og leiða gjarnan til sparnaðar fyrir borgina. Engu að síður hefur sitjandi meirihluti ítrekað farið á svig við lög um opinber innkaup og gengið beint til samninga við einkaaðila. Þetta sáum við þegar borgin keypti ljósastýringu án undangengins útboðs og orka er keypt án útboðs. Við munum vel hversu lítið eftirlit var með endurgerð Braggans í Nauthólsvík. Verkið fór langt umfram kostnaðaráætlanir. Þar voru meira og minna öll verk og öll þjónusta keypt án undangengins útboðs. Sitjandi meirihluti virðist ekki nýta útboð við að leita að hagstæðu verði. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvers vegna?

    Frestað.

  45. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US210151

    Skipulagsráð samþykkir að farið verði hið fyrsta í allsherjarátak við að hreinsa veggjakrot í borginni sem hefur stóraukist að undanförnu. Veggjakrotið er ekki eingöngu bundið við miðborgina heldur er einnig farið að bera á mikilli aukningu þess í úthverfunum. Til að stemma stigu við veggjakrotinu er mikilvægt að leitað verði eftir samstarfi m.a. við íbúaráð, íbúasamtök, þjónustumiðstöðvar, verkbækistöðvar hverfanna, skóla, frístundamiðstöðvar, félagasamtök og rekstraraðila í þeirri viðleitni að draga úr veggjakroti. 

    Frestað.

  46. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US210152

    Fram hefur komið að skipulagsyfirvöldum er ekki skylt að svara ábendingum og athugasemdum sem berast áður en mál er sent í skipulagslýsingu. Hugsunin að baki er að hafa eigi ábendingar/athugasemdir aðeins til hliðsjónar. Engin trygging er hins vegar fyrir því að hvort þær ábendingar eða athugasemdir sem berast í aðdraganda skipulagslýsingar séu hafðar til hliðsjónar eða yfir höfuð meðteknar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sjálfsagt að þetta verði endurskoðað og athugasemdum svarað enda myndi felast í því auknar líkur á að fá ítarlegri upplýsingar sem tvíhliða samskipti leiða af sér. Því víðtækari upplýsingar því meiri líkur á faglegum vinnubrögðum. Tvíhliða samskipti eru vísari með að skila þekkingu og innsýn í mál. Þegar viðkomandi sendir inn ábendingar en fær engin viðbrögð verða engin frekari samskipti. 

    Frestað.

    -    Kl. 11:55 víkur Eyþór Laxdal Arnalds af fundi.

Fundi slitið klukkan 12:13

Pawel Bartoszek Sara Björg Sigurðardóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skipulags-_og_samgongurad_2605.pdf