Skipulags- og samgönguráð - Fundur nr. 100

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2021, miðvikudaginn 14. apríl kl. 09:02, var haldinn 100. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Pawel Bartoszek, Hjálmar Sveinsson, Aron Leví Beck, Eyþór Laxdal Arnalds, Marta Guðjónsdóttir, Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúarnir Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir og Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir.

Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn með fjarfundarbúnaði: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Þorsteinn Rúnar Hermannsson og Jóhanna Guðjónsdóttir.

Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

Þetta gerðist:

  1. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

    Lögð fram fundargerð embættisafgreiðslufundar skipulagsfulltrúa frá 9. apríl 2021.

    Fylgigögn

  2. Farleiðir laxa og urriða á ósasvæðum Elliðaáa og Leirvogsár, árin 2017 og 2018, skýrsla Hafrannsóknarstofnunar         Mál nr. US210091

    Lögð fram skýrsla Hafrannsóknarstofnunar um farleiðir laxa og urriða á ósasvæðum Elliðaáa og Leirvogsár árin 2017 og 2018, dags. mars 2021.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Eftir að hafa skoðað skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um farleiðir laxfiska í ósum Elliðaár og Elliðavogs með tilliti til landfyllinga þá teljum við brýnna að vernda þá stofna sem þarna eru nú þegar en að bæta við auknu landflæmi í andstöðu við náttúru staðarins. Samkvæmt skýrslunni hefur fyrsti hluti landfyllingarinnar óveruleg áhrif en ætla má að næstu skref yrðu íþyngjandi fyrir laxastofnana á þessu svæði. Fulltrúi Sósíalista telur að náttúran skuli í þessu tilliti njóta vafans og fá að vera eins óáreitt og nokkur kostur er, sér í lagi þar sem um einstaka náttúruperlu er að ræða sem er laxgengd í borg. Við teljum að strandlengjuna beri að varðveita og gæta varúðar eins og í öllu sem snýr að náttúru landsins.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Frá upphafi 20. aldar hafa miklar landfyllingar verið gerðar við strandlengju Reykjavíkurborgar og í dag eru náttúrulegar og óskertar fjörur lítill hluti strandsvæði borgarinnar. Áætlað er að fara í 13 hektara landfyllingu austan megin á ósasvæði Elliðaáa og reisa þar íbúðabyggð. Er stærðin á landfyllingunni langt yfir þeim mörkum sem krefst umhverfismats. Líst er yfir miklum áhyggjum vegna villtra fiskitegunda í Elliðaám og er ljóst að um mikið og stórtækt inngrip er að ræða í þá einstöku náttúruperlu sem árnar eru inn í miðri höfuðborg landsins. Skipulagsstofnun telur að ekki sé unnt að taka afstöðu til þess hvort ásættanlegt sé að fara í 2. og 3. áfanga landfyllingar. Umhverfissóðarnir sem stjórna Reykjavík eira engu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lögð er fram skýrsla Hafrannsóknarstofnunar um farleiðir laxfiska á ósasvæðum Elliðaáa. Skýrslan er unnin í samstarfi við Reykjavíkurborg en borgin áætlar 13 ha landfyllingu austan megin á ósasvæði Elliðaáa þar sem gert er ráð fyrir að rísi íbúðabyggð. Strandsvæðið sem fer undir landfyllingu er mögulega nýtt af laxaseiðum á göngu sinni úr Elliðaám til sjávar.  Samkvæmt skýrslunni er  ekki víst að landfyllingar hafi áhrif á göngu þeirra.  Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þessu því landfylling minnkar náttúrulegt lífríki við ströndina. Best væri ef þessir bakkar fengju að vera sem mest í friði og setja þar ekki  stór mannvirki. Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að stofnunin telur að bein áhrif fyrirhugaðrar landfyllingar á laxfiska geti orðið talsverð og jafnvel verulega neikvæð sé horft til mögulegrar skerðingar á fæðumöguleikum og búsvæði. Hver þessi áhrif verða er þó háð óvissu þar sem ekki liggja fyrir nægilega upplýsingar um búsvæði laxfiska við ósanna, um dvalartíma laxfiska og fleira. Stofnunin minnir á meginreglu umhverfisréttar um varúð sem hefur m.a.  verið lögfest í náttúruverndarlögum. Heildarvandinn er að verið er að ganga á náttúrulegar fjörur og manngera náttúru til að búa til gerviveröld þar sem náttúrulegu umhverfi með dýralífi, öllum þeim kostum sem því fylgir, er haldið fjarri.

    Hlynur Bárðarson frá Hafrannsóknastofnun, Guðmundur B. Friðriksson, Þórólfur Jónsson og Snorri Sigurðsson frá skrifstofu umhverfisgæða taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  3. Mýrargata 18, breyting á deiliskipulagi     (01.116.3)    Mál nr. SN210194

    THG Arkitektar ehf., Faxafeni 9, 108 Reykjavík

    Lögð fram umsókn THG Arkitekta ehf. dags. 11. mars 2021 varðandi breytingu á deiliskipulagi Vesturbugtar vegna lóðarinnar nr. 18 við Mýrargötu. Í breytingunni felst að lóðarmörk Mýrargötu eru rýmkuð um 2 metra til norðurs og 3 metra til austurs auk þess að kvöð um göngustíg á milli Mýrargötu 18 og Mýrargötu 16 er felld niður, samkvæmt uppdr. THG Arkitekta ehf. dags. 2. mars 2021. 

    Frestað.

    Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  4. Nýlendugata 14, breyting á deiliskipulagi     (01.131.1)    Mál nr. SN210190

    THG Arkitektar ehf., Faxafeni 9, 108 Reykjavík

    Lögð fram umsókn THG Arkitekta ehf. dags. 11. mars 2021 varðandi breytingu á deiliskipulagi Nýlendureits 1.131 vegna lóðarinnar nr. 14 við Nýlendugötu. Í breytingunni felst að heimilt verði að hækka þak hússins og að þakhalli verði hærri við Mýrargötu í stað Nýlendugötu. Koma fyrir lyftu í húsinu og að lyftuhús fari út fyrir byggingarreit. Gera þakbyggingu á lágþaki núverandi húss. Setja franskar svalir á norðurhlið húss við Mýrargötu og að svalir á suðurhlið húss megi almennt kraga 40 cm út fyrir lóðarmörk, fyrir utan svalir við flóttaleið á 2. hæð sem mega fara 130 cm út fyrir byggingarreit. Handrið á þaksvölum vestan megin skal vera inndregið 150 cm frá lóðamörkum, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdráttum THG Arkitekta ehf. dags. 5. mars 2021. 

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

    Vísað til borgarráðs.

    Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  5. Laugavegur 20B, breyting á deiliskipulagi     (01.171.5)    Mál nr. SN210232

    Páll V Bjarnason, Laufásvegur 7, 101 Reykjavík

    Stórval ehf, Vínlandsleið 16, 113 Reykjavík

    Lögð fram umsókn Páls V. Bjarnasonar dags. 24. mars 2021 varðandi breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.5, Laugavegs- og Skólavörðustígsreitir, vegna lóðarinnar nr. 20B við Laugaveg. Í breytingunni felst að heimilt verði að gera einnar hæðar viðbyggingu á bakhlið hússins með þaksvölum auk þess að gera inndregna þakhæð, tengibyggingu á millibyggingu milli hornhúss og rishúss, með kvisti til suðurs úr mænisþaki sem veitir aðgang að þaksvölum sem verða yfir endahúsinu. Við breytinguna hækkar nýtingarhlutfall lóðar, samkvæmt uppdr. P ARK teiknistofu sf. dags. 22. mars 2019, br. 20. febrúar 2020. Einnig eru lagðar fram umsagnir Minjastofnunar Íslands dags. 12. nóvember 2018 og 25. mars 2019 og umsögn Borgarsögusafns Reykjavíkur dags. 5. desember 2018. 

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

    Vísað til borgarráðs.

    Hildur Gunnarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  6. Lækjargata 1, nýtt deiliskipulag     (01.17)    Mál nr. SN200645

    Framkvæmdasýsla ríkisins, Borgartúni 7, 105 Reykjavík

    Lögð fram umsókn Framkvæmdasýslu ríkisins dags. 14. október 2020 ásamt bréfi dags. 14. október 2020 um nýtt deiliskipulag fyrir lóðina nr. 1 við Lækjargötu, lóð forsætisráðuneytisins og stjórnarráðshússins, vegna áforma um viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið fyrir starfsemi forsætisráðuneytisins, samkvæmt uppdr. Kurt og Pí ehf. dags. 31. mars 2021. 

    Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

    Vísað til borgarráðs.

    Ólafur Melsted verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    (E) Samgöngumál

    Fylgigögn

  7. Hámarkshraðaáætlun Reykjavíkur, tillaga         Mál nr. US210092

    Lögð fram svohljóðandi tillaga skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 22. mars 2021, ásamt fylgigögnum:

    Lagt er til að skipulags- og samgönguráð samþykki meðfylgjandi tillögu að hámarkshraðaáætlun Reykjavíkurborgar.

    Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Eyþórs Laxdals Arnalds og Mörtu Guðjónsdóttur.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Katrín Atladóttir, situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Vísað til borgarráðs.

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Markmið hámarkshraðaáætlunarinnar er að stuðla að bættu umferðaröryggi. Það er yfirlýst markmið Reykjavíkurborgar, sem áréttað er í umferðaröryggisáætlun Reykjavíkur, að enginn slasist alvarlega eða látist í umferðarslysum innan borgarinnar. Til að koma í veg fyrir alvarleg slys á fólki í umferðinni, þar sem ólíkir ferðamátar mætast, er nauðsynlegt að taka mið af gangandi og hjólandi vegfarendum. Stórt skref í þá átt er að stuðla að lágum umferðarhraða.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Laxdal Arnalds og Marta Guðjónsdóttir, leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja að miðstýrð aðferðarfræði henti ekki til að tryggja umferðaröryggi og umferðarflæði. Tafatími í umferð er mjög mikill í borginni og mun aukast við þessa framkvæmd. Hætta er á að auknar umferðartafir verði til þess að umferðarflæði fari inn í íbúðagötur og skapi þannig óþarfa hættu. Í þessari áætlun borgarinnar er gert ráð fyrir að fjárfesta fyrir milljarða í auknum þrengingum á götum borgarinnar. Dæmi um áhrif inngripa er frá árinu 2014 þegar þrengt var að Hofsvallargötunni. Samkvæmt umferðartalningu borgarinnar jókst umferð í nærliggjandi götum um 1.000 bíla á sólarhring. Í ákveðnum tilfellum er nauðsynlegt að lækka hámarkshraða vegna öryggissjónarmiða en það á ekki við alls staðar. Árangursríkara er að hvetja fólk til að nota nagladekk minna og að borgin gæti að þrifum gatna sinna, fremur en að beita yfirgripsmiklum hraðatakmörkunum til að stemma stigu við svifryksmengun. Ljóst er að sjónarmið fjölmargra íbúa eru neikvæð í garð tillögunnar. Þá er rétt að benda á að umsögn Strætó bs. er neikvæð enda muni breytingin lengja ferðatíma Strætó. Gert er ráð að Suðurlandsbraut fari úr 60km hraða í 40km Bústaðavegur og Grensásvegur fari í 40km hraða. Auk þess er stefnt að hraðalækkun mikilvægra umferðargatna í Breiðholti og í Grafarvogi.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Katrín Atladóttir, leggur fram svohljóðandi bókun:

    Samkvæmt umsögnum íbúaráða virðast íbúar almennt vilja hafa hægari umferð innan hverfa og margar athugasemdir snéru jafnvel að enn hægari umferð eða vistgötum og að eftirliti með hraðakstri á þessum götum yrði sinnt betur. Hraði á stofngötum og borgargötum er umdeildari og væri gott að sjá betri gögn um þjóðhagslega hagkvæmni, áhrif á umferð í nærliggjandi íbúðagötum og áætlun um hvenær verður farið í þessar hraðalækkanir til að geta tekið afstöðu til áætlunarinnar í heild.

    Áheyrnarfulltrúi Sósíalistaflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Undirrituð, fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands styður lækkun umferðarhraða innan íbúðahverfa Reykjavíkurborgar en vill leggja fram bókun um nauðsyn þess að halda stofnbrautum áfram með hærri umferðarhraða til að tryggja að ekki myndist meiri umferðartafir en þegar eru á álagstímum þegar fólk mætir til og frá vinnu/skóla. Fjöldi fólks býr utan Reykjavíkur bæði á höfuðborgarsvæðinu sjálfu sem og utan þess, en sækir vinnu/skóla og/eða þjónustu inn í borgina og því einkar brýnt að stofnbrautir geti flutt fólk hratt og vel á milli borgarhluta og þurfi ekki að sitja langar stundir í umferðarhnútum með tilheyrandi töfum og mengun en þekkt er sú mengun sem gangsettur bíll í kyrrstöðu skapar og mun auka mengun í andrúmslofti borgarinnar ef hraði er of lágur á stofnbrautum – sér í lagi á annatímum. Reykjavík á að vera okkar allra og má því ekki verða bílfjandsamleg borg þó að við viljum vera eins umhverfisvæn og hægt er.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Aðgerðir vegna lækkunar hámarkshraða í 30 km. á borgargötum eru áætlaður 1,5 milljarður. Er borgarstjóri og meirihlutinn ekki með öllum mjalla? Finnst fólki í lagi að þessir aðilar sem stjórna Reykjavíkurborg á minnihluta atkvæðum getir tekið svona einhliða ákvörðun að lækka umferðarhraða í 30 km. sísvona. Ekki stóð á áróðursdeild ráðhússins í gær þegar þjófstartað var í fréttum RÚV bæði kl. 19:00 og 22:00 þar sem delerað var um þessar hugmyndir og borgarstjóri var tekinn í viðtal áður en málið er kynnt í skipulags- og samgönguráði. Öll áhersla var lögð á að þessi tillaga myndi minnka svifryk á fundinum er hins vegar öll áhersla lögð á slysahættu. Einmitt – hvers vegna er þá ekki farið í samgöngubætur á slysamestu gatnamótum Reykjavíkur. Uppreiknuð arðsemi er talin vera 70% og er þá átt við samfélagslegan sparnað. Einungis ein breyta er tekin inn en ekki tekin inn í myndina tafakostnaður fjölskyldnanna, fyrirtækjanna og Strætó. Ekki er búið að keyra þessa breytingu í gegnum nýtt umferðarmódel og er skýrt brot á samgöngusáttmálanum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Mikilvægt er að hafa 30 km/klst. hraða á svæðum þar sem börn fara um s.s. í nágrenni við skóla. Víða hefur hraði í íbúðagötum verið lækkaður og er það mjög af hinu góða.  Þegar horft er til hraðalækkunar og hraðahindrana almennt séð togast á tveir þættir sem stundum er erfitt að samræma, annars vegar að því minni hraði því færri óhöpp en hins vegar að því hægar sem er ekið því minni er afkastageta gatnakerfisins og meiri umferðartafir og mengun eins og sjá má víða í borginni. Umferðartafir og teppur í borginni er stórt vandamál sem ekki hefur tekist að leysa þrátt fyrir að framlagðar hafi verið magar nothæfar tillögur. Þessi mál eru ekki einföld. Það dugar því skammt að segja að þeir sem benda á að lækkun hraða þýði verra umferðarflæði og skapi tafir sé byggt á einhverjum misskilningi. Enginn er að halda því fram að hærri hraði leiði ALLTAF til meiri afkastagetu götu. Margt annað í aðstæðum hverju sinni þarf að taka inn í myndina. Hér þarf því að finna einhvern milliveg og reyna að mæta þörfum sem flestra til að komast sem öruggast og best á milli staða í borginni.

    Stefán Agnar Finnsson verkfræðingur, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir deildarstjóri og Höskuldur Rúnar Guðjónsson verkfræðingur taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  8. Lækjartorg, samkeppni         Mál nr. US210089

    Kynning á undirbúningi samkeppni um endurbætur á  Lækjartorg og nágrenni.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kynnt var á fundinum undirbúningur samkeppni um endurbætur á Lækjartorg og nágrenni ásamt framvindu hönnunar endurbóta á göngugötunni Laugavegi. Nær svæðið frá Þingholtsstræti niður Bankastræti yfir Lækjartorg og inn Austurstræti að Veltusundi. Borgarfulltrúi Miðflokksins spurði hvers vegna Lækjargatan væri ekki tekin í sömu umferð því hún er svo sannarlega óprýði fyrir borgina eins og hún er núna. Svörin sem fengust voru þau að „hönnunarteymi borgarlínu“ væri með Lækjargötuna. Enn eru málin flækt og báknið er löngu vaxið Reykvíkingum yfir höfuð. Ítrekað var spurt hvað heildarkostnaður yrði fyrir verkið allt en engin svör fengust. Hér er því verið að fara af stað með enn einn óútfyllta tékkann á kostnað útsvarsgreiðenda í Reykjavík.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Kynning er á undirbúningi samkeppni um endurbætur á Lækjartorgi og farið yfir skilyrðin. Í þessari kynningu kjarnast kannski óánægja sem var í kringum lokun gatna á Laugaveg og Skólavörðustíg sem varð til þess að svæðið er mannlaust og rými auð. Fram kemur þegar spurt er um hvort ekki eiga að bjóða notendum og rekstraraðilum í stýrihópinn að fyrst skuli tekin ákvörðun og síðan er rætt við notendur og rekstraraðila. Þetta er það samráð sem boðið er upp á, sem er auðvitað ekki samráð heldur er fyrst tekin ákvörðun og síðan er sú ákvörðun kynnt borgarbúum og hagaðilum. Þetta heitir að tilkynna ákvörðun sem valdhafar hafa tekið en ekki  verið sé að hafa „samráð“. Fulltrúi Flokks fólksins finnst sem skipulagsyfirvöld læri ekki af reynslu, læri ekki af mistökum sínum. Öll þessi leiðindi í kringum Laugaveginn sem fræg eru orðin geta því auðveldlega endurtekið sig. Fólki, notendum og hagaðilum finnst sífellt valtað yfir sig þar sem þeir fái aldrei hafa neitt um aðalatriðin að segja. Þau fá að segja til um litlu hlutina, hvar ruslatunna á að vera, bekkur og blóm? Þessi litlu atriði eru kannski þau sem skipulagsyfirvöld eiga að ákveða en notendur sjálfir eiga að ráða stóru myndinni ef allt væri eðlilegt.

    Rebekka Guðmundsdóttir borgarhönnuður tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  9. Laugavegur í 9 skrefum, framvinda         Mál nr. US210090

    Kynning á framvindu hönnunar endurbóta á göngugötunni Laugavegi. 

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Verið er að berja í brestina hvað varðar Laugaveginn sem göngugötu. Milljónum á milljónum er eytt í rugl og þvælu til að reyna að bæta fyrir þá ákvörðun að loka Laugaveginum fyrir bílum. Fyrsta skrefið til að lappa upp á þetta svæði er að útrýma veggjakroti af húsum og rafmagnskössum. Páskaskreytingum var ekki komið upp á þessu ári svo dæmi sé tekið. Lokun Laugavegarins er algjör bömmer fyrir borgina og sífelldur bútasaumur á sér stað til að flikka upp á þetta svæði. Því miður er það of seint því fjöldi rekstraraðila hafa flúið Laugaveginn nágrenni hans undanfarin misseri.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Það sem til stendur með Laugaveg í 9 skrefum kann að vera metnaðarfullt. Talað er um teymin sem eiga að stýra þessu en í þeim er enginn fulltrúi notenda eða hagaðila.  Þetta eru sérkennileg vinnubrögð. Einhver í teyminu heldur síðan utan um að upplýsa notendur um ákvarðanir teymisins. Þessi aðferðarfræði vísar ekki á gott. Bjóða á notendum um borð frá byrjun, fulltrúa hagaðila, fulltrúa hverfa og fleirum. Þetta er miðbær okkar allra en ekki þröngs hóps sérfræðinga eða skipulagsyfirvalda. Aðferðarfræðin sem notuð hefur verið t.d. með göngugötur og lokanir gatna hefur skilið eftir sárindi fjölmargra, notenda og hagaðila. Kannski átti engin von á að svo sterkt orsakasamhengi myndi vera milli lokunar fyrir umferðar og hruns fjölda verslana. Þegar vísbendingar um að slíkt orsakasamhengi raungerist átti að staldra við og finna nýjan og hægari takt í aðgerðum sem fleiri gætu sætt sig við. Sá meirihluti sem nú ríkir lagði áherslu í upphafi kjörtímabils að hafa fólkið með í ráðum svo á það sé nú minnt hér í þessari bókun.

    Rebekka Guðmundsdóttir borgarhönnuður kynnir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    (D) Ýmis mál

  10. Hrísateigur 15, málskot     (01.360.1)    Mál nr. SN210083

    Þórir J. Einarsson ehf., Hrísateigi 15, 105 Reykjavík

    Lagt fram málskot Þóris Jósefs Einarssonar mótt. 29. janúar 2021 vegna afgreiðslu/niðurstöðu skipulagsfulltrúa frá 11. desember 2020 um að gera rishæð með kvistum á húsið á lóð nr. 15 við Hrísateig, setja nýjar svalir á 1. og 2. hæð á suður og vesturhlið hússins, svalir á rishæð og gera útgang út í garð úr kjallara á suðurhlið. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 11. desember 2020.

    Umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 11. desember 2020, staðfest.

    Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

    Fylgigögn

  11. Bergstaðastræti 81, málskot     (01.196.4)    Mál nr. SN210130

    ALARK arkitektar ehf, Dalvegi 18, 201 Kópavogur

    Lagt fram málskot ALARK arkitekta ehf. dags. 12. febrúar 2021 vegna neikvæðrar afgreiðslu skipulagsfulltrúa frá 5. febrúar 2020 um að byggja bílgeymslu á austurhluta lóðarinnar nr. 81 við Bergstaðastræti. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 1. febrúar 2021.

    Umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 1. febrúar 2021, er staðfest. 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Fylgigögn

  12. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um lækkun hámarkshraða við Korpúlfsstaðaveg, umsögn - USK2021020022         Mál nr. US210008

    Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 9. apríl 2021.

    Tillagan er felld. 

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins lagði til lækkun hámarkshraða við Korpúlfsstaðaveg og að farið verði í að skoða hraðann við stoppistöð milli Brúnastaða og Bakkastaða. Þar er lýsing nánast engin, hraðinn mikill, merkingar nánast engar og um þetta svæði fara börn til skóla. Tillagan hefur verið felld. Í umsögn segir að ekki eigi að lækka ökuhraða að svo stöddu. En er þá ætlunin að gera það seinna? Væri ekki einfalt að gera það strax. Umsögnin er afar óljós og einnig í hrópandi ósamræmi við hámarkshraðaáætlun skipulagsyfirvalda. Gildir annað lögmál við Korpúlfsstaðaveg en aðrar götur í borginni í kringum skóla og í íbúðahverfum? Á þessum stað er stór hópur barna af yngsta stigi að taka skólarútuna á hverjum morgni og koma svo aftur seinni partinn heim. Báðar tímasetningar eru á háannatíma og þegar umferðin er sem mest. Mælingar sem borgin gerði sl haust til þess að skoða eðli umferðarinnar á veginum voru villandi að mati íbúa. Mælingarnar voru gerðar milli Brúnastaða og Garðsstaða þar sem hraðahindranir eru fyrir og merktar gangbrautir. Í umsögn meirihlutans að nýrri hámarkshraðaáætlun er lögð áhersla á hæga umferð og öryggi gangandi á gönguleiðum að grunnskólum sbr. það sem segir í skýrslu um Hámarkshraðaáætlun Reykjavíkur. Af hverju á það ekki við um Korpúlfsstaðaveg?

    Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nú er að samþykkja heildstæðar tillögur um lækkun hámarkshraða í allri borginni. Umrædd hugmynd er ekki hluti af þeim tillögum en þar hámarkshraði á stofngötum á borð við Korpúlfsstaðaveg enn hafður 50 km /klst.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Þarna er svæði sem börn fara um. Vorum við ekki öll sammála um að þar sem væru skólar og börn á ferð ætti að vera 30 km/klst hraði? Af hverju ná  heildstæðar tillögur um lækkun hámarkshraða meirihlutans ekki til þessarar götu þótt stofngata sé? Um er að ræða öryggi barna sem ætti að vera ávallt og alltaf í forgangi

    -    Kl. 12:57 víkur Katrín Atladóttir af fundi.

    Fylgigögn

  13. Dunhagi 18-20, kæra 28/2021, umsögn, úrskurður     (01.545.1)    Mál nr. SN210182

    Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 9. mars 2021 ásamt kæru dags. 9. mars 2021 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 8. mars 2021 um útgáfu byggingarleyfis fyrir Dunhaga 18-20. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 10. mars 2021. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 30. mars 2021. Úrskurðarorð: Kærumáli þessu er vísað frá nefndinni.

    Fylgigögn

  14. Skólavörðustígur 36, kæra 29/2021, umsögn um stöðvunarkröfu, bráðabirgðaúrskurður     (01.181.4)    Mál nr. SN210206

    Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 11. mars 2021 ásamt kæru dags. 11. mars 2021 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur frá 2. mars 2021 um að veita leyfi til að byggja þriggja hæða steinsteypt hús með verslunarhúsnæði á jarðhæð og einni íbúð á 2. og 3. hæð á lóð nr. 36 við Skólavörðustíg. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra, dags. 24. mars 2021, vegna stöðvunarkröfu. Jafnframt er lagður fram bráðabirgðaúrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 31. mars 2021. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.

    Fylgigögn

  15. Álagrandi 2A, kæra 38/2021, umsögn     (01.521.6)    Mál nr. SN210236

    Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

    Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 24. mars 2021 ásamt kæru dags. 24. mars 2021 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa um endurútgefið byggingarleyfi vegna byggingarstjóraskipta að Álagranda 2A. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 31. mars 2021.

    Fylgigögn

  16. Fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um fyrirhugaða fækkun bílastæða og heildarfjölda þeirra, umsögn - R21010216, USK2021030023         Mál nr. US210052

    Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 9. apríl 2021.

    Fylgigögn

  17. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um merkingar á göngugötum vegna P-merktra bíla, umsögn - R190070069, USK2021030026         Mál nr. US210054

    Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 9. apríl 2021.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Spurt var um hvenær er áætlað að sérstakt merki sem tilgreinir að P merktum bílum er heimilt að aka göngugötur verði tilbúið og það komið upp við göngugötur í Reykjavík? Í svari er afstaða borgarinnar birt sem er að lágmarka beri umferðarmerkingar og að ekki sé nauðsynlegt að setja upp umferðarmerki um lögákveðna undanþágu frá akstursbanni. Ástæða fyrir að fulltrúi Flokks fólksins sendi inn þessa fyrirspurn er að fólk sem fer um göngugötur borgarinnar í fullum rétti hefur orðið fyrir aðkasti. Slíkt þarf að fyrirbyggja að gerist og er ein áhrifamesta leiðin í þeim efnum að hafa skýrar merkingar til að geta bent á þær á þeim stundum sem aðkast á sér stað.  Fram kemur í svari að á Alþingi sé nú með til meðferðar frumvarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um breytingu á umferðarlögum. Umhverfis og skipulagssvið hefur sett á laggirnar starfshóp sem vinnur að gerð draga að samþykkt fyrir göngugötur sem leggja á fyrir Alþingi. Ljóst er að allt á að gera til að spyrna fótum við að P merktir bílar megi aka göngugötur í samræmi við nýsett lög. Skortur er á skilningi borgaryfirvalda á þörfum hreyfihamlaðra alla vega í þessu máli að mati fulltrúa Flokks fólksins.

    Fylgigögn

  18. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins, um götuþrif, umsögn - USK2021010099         Mál nr. US200459

    Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu reksturs og umhirðu, dags. 9. apríl 2021.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ef þetta svar er rétt er augljóst að gera þarf stórátak í götuþrifum í Reykjavík. Þær borgir sem meirihlutinn ber sig sífellt saman við í umferðarmálum þrífa, þvo og sópa göturnar a.m.k. einu sinni í mánuði. Reykjavíkurborg er drulluskítug og okkur öllum sem byggjum þetta land til skammar. Ábyrgðin er borgarstjóra.

    Fylgigögn

  19. Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US210083

    Á fundi skipulags- og samgönguráðs þann 16. desember 2020 lagði ég fram eftirfarandi fyrirspurn: "Hvað hafa göturnar í Reykjavík verið þrifnar/þvegnar oft á árinu 2020 tæmandi talið eftir hverfum? "Tími til svars er löngu liðinn og óskað er eftir að fyrirspurninni verði svarað á næsta fundi skipulags- og samgönguráðs.

    Hvers vegna hefur fyrirspurninni ekki verið svarað? 

    Lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu reksturs og umhirðu, dags. 9. apríl 2021 vegna fyrirspurnar US200459

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ef þetta svar er rétt er augljóst að gera þarf stórátak í götuþrifum í Reykjavík. Þær borgir sem meirihlutinn ber sig sífellt saman við í umferðarmálum þrífa, þvo og sópa göturnar a.m.k. einu sinni í mánuði. Reykjavíkurborg er drulluskítug og okkur öllum sem byggjum þetta land til skammar. Ábyrgðin er borgarstjóra.

    Fylgigögn

  20. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US210084

    Lagt er til að auka tíðni á þrifum og þvotti á helstu stofn-  og tengibrautum í borgarlandinu til að draga úr svifryksmengun. Götur hér eru þvegnar mun sjaldnar en viðgekkst áður fyrr. Í þeim löndum sem við berum okkur saman við eru þær þvegnar mun oftar en hér í því sambandi má t.d. nefna að víða í Evrópu eru þær þvegnar tvisvar í mánuði. Aukinn tíðni þrifa gatna gæti orðið mikilvægur liður í að draga úr svifryksmengun.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu reksturs og umhirðu.

  21. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US210087

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í skipulags- og samgönguráði óska upplýsinga um hvort samráð hefur verið haft við rekstraraðila og íbúa vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Laugaveg frá Klapparstíg að Frakkastíg. Hefur verið rætt við þessa aðila  hvernig verði að þeim staðið, hvenær framkvæmdir eigi sér stað og hversu langur framkvæmdatíminn verður.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunnar.

  22. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US210088

    Lagt er til að við Freyjubrunn/Lofnarbrunn verði komið upp gangbraut en þar er engin göngutenging til staðar við biðstöð Strætó. Mikilvægt er að tryggja umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda og því brýnt að úr þessu verði bætt sem fyrst.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunnar.

  23. Tillaga íbúaráðs Kjalarness, um úttekt og úrbætur á heimreiðum á Kjalarnesi - R21030131, USK2021030083         Mál nr. US210093

    Lögð er fram tillaga íbúaráðs Kjalarness sem send var til meðferðar borgarráðs með bréfi mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 17. mars 2021.  Tillagan var send til meðferðar skipulags- og samgönguráðs þann 23. mars 2021 og er svohljóðandi:

    Íbúaráð Kjalarness leggur til við borgarráð að gerð verði úttekt á heimreiðum í dreifbýli á Kjalarnesi og gerðar úrbætur þar sem þörf er á slíku.

    Greinargerð fylgir tillögunni.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

    Fylgigögn

  24. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um trjárækt meðfram stórum umferðaræðum         Mál nr. US210100

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til skipulagsyfirvöld ákveði að stórauka plöntun trjáa meðfram stórum umferðaræðum í borgarlandinu. Eitt af því sem ekki hefur verið horft til í baráttunni við svifryksmengun er trjágróður.  Rannsóknir sýna að trjágróður dregur úr svifryki.  Svifryk er einatt til vandræða og plöntun trjáa er einföld aðgerð sem hefur góð áhrif. Umrædd  svæði nýtast ekki til útivistar, en eru án bygginga vegna skipulagsmála enda þarf að vera gott rými meðfram stóru umferðaræðunum  vegna  veghelgunar og framtíðarnotkunar.  En svæðin má nýta tímabundið með trjárækt en gera jafnframt ráð fyrir að slíkur trjágróður verði felldur þegar og ef nýta á rýmið í annað. Þetta er svipuð hugmyndafræði og er í verkefninu ,,Torg í biðstöðu".Lagt er því til að plöntun trjáa meðfram stórum umferðaræðum verði stóraukin.

    Frestað.

  25. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að stytta og hraða ferla þegar sótt er um lóðir og byggingarleyfi         Mál nr. US210101

    Tillaga Flokks fólksins er að hraða ferlum til að stytta tímann milli þess sem sótt er um lóð/byggingarleyfi og þar til hægt er að nota eignina. Tíminn sem tekur frá því að byrjað er að byggja og geta selt er of langur tími að mati margra sem  eru að byggja og gildir það bæði um einstaklinga og fyrirtæki. Leggja þarf áherslu á að hraða þeim verkferlum sem stuðst er við, við skipulag og úthlutun byggingarleyfa. Stefna borgarinnar þarf að vera skýr og skilmálar verða að vera vel kynntir þannig að óvissuþættir séu ekki að þvælast fyrir. Það flækjustig sem nú ríkir og langar og flóknar boðleiðir eru mikil hindrun í framgangi og þróun á húsnæðismarkaði.

    Frestað.

  26. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að fjölga lóðum til einstaklinga og byggingarverktaka         Mál nr. US210102

    Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að fjölga lóðum til einstaklinga og byggingarverktaka fyrir allar tegundir eigna þ.m.t. sérbýliseigna til að hægt sé að viðhaldi eðlilegum húsnæðismarkaði. Erfiðleikar með að fá byggingarlóð í Reykjavík hefur verið mein í borgarkerfinu svo lengi sem elstu menn muna. Þess utan er mikill seinagangur í afgreiðsluferlinu öllu og líður allt of langur tími frá umsókn þar til eign kemst í notkun. Undanfarið hefur verið lögð áhersla á þéttingu byggðar, en það veldur því að lítið framboð er á rað- og einbýlishúsum. Nú er svo komið að barist er um slíkar eignir. Þetta skapar ójafnvægi á húsnæðismarkaðinum. Í ljósi þess að eftirspurn eftir rað- og sérbýlislóðum er nú í sögulegu hámarki þarf að auka sveigjanleika byggðastefnunnar. Um  30% fasteignakaupenda eru fyrstu kaupendur. Í sölu eru um 200 eignir en þær þyrftu að vera um allt að 900 ef hægt ætti að vera að viðhalda eðlilegu flæði. Sú þróun sem átt hefur sér stað síðustu ár er slæm. Mæta þarf  ólíkum þörfum í þessum málum sem öðrum.

    Frestað.

  27. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um fundarsköp         Mál nr. US210103

    Fulltrúi Flokks fólksins hefur haft samband við Sveitarstjórnarráðuneytið til að kanna hvort  bann við bókunum við kærum og framlögðum bréfum borgarstjóra standist sveitarstjórnarlög.  Lögfræðingur ráðuneytisins hvatti borgarfulltrúa Flokks fólksins til að óska eftir skýringum frá lögfræðingi skipulags- og samgöngusviðs vegna málsins. Hér með er því óskað skriflegra skýringa á því hvers vegna bókunarréttur er þrengri á fundum skipulags- og samgönguráðs en almennt tíðkast í ráðum jafnvel þótt  byggja eigi á sömu lögum og reglugerðum. Gengið hefur verið óeðlilega langt í að meina fulltrúum minnihlutans að leggja fram bókanir m.a. við kærur sem kynntar eru og "bréf borgarstjóra" sem lögð eru fram á fundum.  Bókanir eru eina tjáningarformið sem fulltrúar minnihlutans geta beitt til að koma á framfæri skoðunum sínum og álitum á málum þegar fundir eru lokaðir (sbr. 2. mgr. 5. gr. samþykktar skipulags- og samgönguráðs).  Ekki er tilgreint að ákveðin mál á dagskrá skuli undanskilin. Vísað er einnig í 2. mgr. 26. gr. sveitarstjórnarlaga að málfrelsi fylgi réttur til að leggja fram bókanir. Eins hefur fulltrúi Flokks fólksins ítrekað óskað eftir að fá fundardagskrá án fylgigagna senda í fundarboði, sbr. verklag sem tíðkast í öðrum ráðum. Það hefur ekki vafist fyrir öðrum ráðum að senda dagskrá samhliða boðun. Öll ráð og svið borgarinnar nýta sömu tæknina og ætti hún því ekki að vera vandamál hér.

    Frestað.

     

  28. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn, um gróður         Mál nr. US210104

    a. Hversu mörgum fermetrum af trjágróðri hefur verið fargað í tengslum við framkvæmdir við nýjan malbikaðan veg og svokallaða perlufesti í Öskjuhlíð? b. Hversu margir fermetrar er áætlað að berjarunnar á sérafnotareitum í Vogabyggð verði?

Fundi slitið klukkan 13:12

Pawel Bartoszek Hjálmar Sveinsson

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
skipulags-_og_samgongurad_1404.pdf