Öldungaráð - Fundur nr. 79

Öldungaráð

Ár 2023, miðvikudaginn 13. september var haldinn 79. fundur öldungaráðs Reykjavíkurborgar. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Sjávarhólum og hófst kl. 10.04. Fundinn sátu Sara Björg Sigurðardóttir, Unnur Þöll Benediktsdóttir, Ingibjörg Sverrisdóttir, Ingibjörg Óskarsdóttir, Viðar Eggertsson, Þorkell Sigurlaugsson og Ingibjörg Ósk Guðmundsdóttir. Einnig sat fundinn Anna Kristinsdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir og Þórhildur Guðrún Egilsdóttir.
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram fundadagatal öldungaráðs september - desember 2023. MSS22060166

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á þjónustu velferðarsviðs við eldra fólk.  MSS23060084  

    Öldungaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Öldungaráð þakkar fyrir góða kynningu. Það er ljóst að Reykjavíkurborg er leiðandi í samþættingu fjölbreyttrar þjónustu við eldra fólk í borginni. Starfstöðvar eru 117 talsins og þar af veita 77 þeirra sólarhringsþjónustu. Stórt skref var tekið þegar Reykjavíkurborg tók að sér heimahjúkrun sem er skilgreind sem heilbrigðisþjónusta og er á forræði Ríkisins. Þar er þjónustan samþætt félagsþjónustunni. Þannig gefst eldra fólki kostur á að fá ýmiskonar þjónustu heim til sín, til dæmis í formi heimastuðnings, heimahjúkrunar eða endurhæfingar í heimahúsi. Þau sem geta ekki eldað sjálf eiga þess kost á að sækja félagsmiðstöðvar til að borða eða fengið heimsendan mat. Í borginni eru sautján félagsmiðstöðvar þar sem boðið er upp á ýmiss konar félagsstarf, hreyfingu og samveru. Almennar dagdvalir eru veittar á fjórum stöðum í borginni en sérhæfðar dagdvalir fyrir fólk með heilabiliun eru sex. Nýjasta dagdvölin var opnuð á Höfða síðastliðið sumar.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á Rafrænni miðstöð velferðarsviðs um verkefni sem snúa að þjónustu við eldra fólk. MSS23060085

    Öldungaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Öldungaráð þakkar fyrir góða kynningu og hlakkar til að fylgjast með áframhaldandi nýsköpun í velferðartækni fyrir eldra fólk. Mikil sóknarfæri liggja í frekari þróun velferðatækni til að breyta og bæta þjónustu við eldra fólk en þar hefur Reykjavíkurborg verið leiðandi, ekki bara á landsvísu heldur á Norðurlöndum samkvæmt skýrslu á vegum Nordens välfärdscenter um aðgerðir sem styðja við innleiðingu á velferðartækni. Um er að ræða alla þá tækni sem er notuð til þess að viðhalda, öryggi, virkni eða sjálfstæði fólks í daglegu lífi. Samhliða getur velferðartækni bætt vinnuumhverfi og leitt til betri nýtingu á tíma starfsfólks og fjármagns. Það er magnað að hægt sé að fylgjast með lyfjagjöfum og lífsmörkum úr fjarlægð. Að boðið sé upp á skjáheimsóknir, fjarsjúkraþjálfun og lyfjaskammtara sem aðstoða fólk við að taka lyfin sín á réttum tíma og í réttum skammti á sjálfstæðan hátt. Skömmtun lyfja er mikið öryggismál og hentar vel einstaklingum sem þurfa daglega aðstoð og eftirfylgni með lyfjum.

    Styrmir Erlingsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Fram fer kynning á fræðslu og þjálfun fyrir starfsfólk velferðarsviðs. MSS23090019

    Öldungaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Öldungaráð þakkar fyrir góða kynningu. Hæft starfsfólk er lykilinn að því að veita góða þjónustu. Því er frábært að starfsfólk fái tækifæri til að skerpa á hæfni sinni á vinnustaðnum með þjálfun frá Reykjavíkurborg á vinnutíma. Einnig er mikilvægt að þjónustan sé samhæfð milli starfsfólks en þó miðuð að hverjum starfsmanni fyrir sig. Mikil og góð viðbót er að bjóða upp á stafræn námskeið í gegnum Torgið, fræðslutorg borgarinnar.

    -    Kl. 11.58 víkur Ingibjörg Sverrisdóttir af fundinum.

    Anna Guðmundsdóttir og Hildur Oddsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 12:15

Sara Björg Sigurðardóttir Unnur Þöll Benediktsdóttir

Þorkell Sigurlaugsson Ingibjörg Óskarsdóttir

Viðar Eggertsson Ingibjörg Ósk Guðmundsdóttir

Ingibjörg Sverrisdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
79. fundur öldungaráðs frá 13. september 2023