Öldungaráð - Fundur nr. 74

Öldungaráð

Ár 2023, miðvikudaginn 8. febrúar var haldinn 74. fundur öldungaráðs Reykjavíkurborgar. Fundurinn var haldinn í ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 10.03. Fundinn sátu Sara Björg Sigurðardóttir, Dagbjört Höskuldsdóttir, Jóhann Birgisson og Ingibjörg Ósk Guðmundsdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Viðar Eggertsson. Einnig sátu fundinn Þórhildur Guðrún Egilsdóttir og Anna Kristinsdóttir. 
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð. 

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 19. janúar 2023, um að Helga Margrét Marzellíusardóttir taki sæti sem aðalmaður í öldungaráði í stað Birnu Hafstein. Jafnframt er lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 7. febrúar s.l., um að Egill Þór Jónsson taki sæti sem aðalmaður í öldungaráði í stað Helgu Margrétar Marzellíusardóttur.
    MSS22060068

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2040. MSS21120152 

    -    Kl. 10.08 tekur Haraldur Sumarliðason sæti á fundinum.
    -    Kl. 10.10 tengist Ingibjörg Sverrisdóttir fundinum með rafrænum hætti.
    -    Kl. 10.17 tekur Ingibjörg Óskarsdóttir sæti á fundinum.
    -    Kl. 10.24 tekur Egill Þór Jónsson sæti á fundinum. 

    Öldungaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Öldungaráð þakkar fyrir góða yfirferð á skýrri sýn Aðalskipulags Reykjavíkur um hvernig borgin mun þróast til 2040. Mikilvægt er að tryggja samfellu í gegnum Húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar um uppbyggingu á húsnæði fyrir eldra fólk þar sem félagsleg blöndun er tryggð með fjölbreyttum húsnæðisformum í nálægð við græn svæði, atvinnukjarna, þjónustu og hágæða almenningssamgöngur. Telur ráðið brýnt að ráðist verði í þarfagreiningu á mögulegri uppbyggingarþörf á fjölbreyttum húsnæðiskostum fyrir eldra fólk samhliða tímaramma Aðalskipulagsins þar sem horft verði til hækkandi lífaldurs, breyttrar samfélagsgerðar og mannfjöldaspár Hagstofu Íslands samhliða frekari samþættingu á þjónustu við eldra fólk. Þannig væri hægt að gera uppbyggingar- og fjárfestingaráætlun fram í tímann, bæði til hagsbóta fyrir Félagsbústaði, einkaaðila og óhagnaðardrifin íbúðafélög. Vill ráðið hvetja til þess að horft verði til samnýtingu opinna svæða og samfélagslegra innviða borgarinnar fyrir ólík aldursskeið þegar íbúðakostir eru settir í deiliskipulagsferli í anda græna plansins. 

    Haraldur Sigurðsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á Húsnæðismálum eldra fólks í Reykjavík  – Félagsbústaðir og Velferðarsvið. MSS23020002 

    Öldungaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Öldungaráð þakkar greinagóða kynningu á húsnæðismálum eldra fólks. Eitt af markmiðum áratugar heilbrigðar öldrunar er að fólki gefist kostur á að búa sem lengst heima. Til að stuðla að því, þarf að tryggja aðgengi þess hóps að öruggum og fjölbreyttum húsnæðiskostum. Fjöldi íbúða sem skilgreindur er fyrir eldra fólk í Reykjavík árið 2021 eru alls 2580 íbúðir en um er að ræða  almennar íbúðir, félagslegar leiguíbúðir á vegum Reykjavíkurborgar, íbúðir í einkaeign, og/eða í húsnæði sem félagasamtök og óhagnaðardrifin félög hafa byggt. Vill Öldungaráðið vekja athygli á að engar íbúðir eru með samþykkt deiliskipulag í dag. Því er óvíst hvenær þær 564 íbúðir, sem eru í þróun, rísi. Kallar ráðið eftir þarfagreiningu á framtíðarþörf íbúða eldra fólks. Horft verði til hækkandi lífaldurs, breyttrar samfélagsgerðar, aldursbreytinga innan hverfa og mannfjöldaspár Hagstofu Íslands. Sér ráðið fyrir sér tímaramma Aðalskipulags Reykjavíkur. Samhliða kallar ráðið eftir því að Félagsbústaðir, hugi að því í stefnumótun sinni að festa kaup á íbúðum ætluðum eldra fólki og uppfæri þær þjónustuíbúðir sem komnar eru til ára sinna. Hvergi er minnst á uppbyggingu íbúða fyrir eldra fólk í Fjárhagsáætlun Félagsbústaða 2023 - 2027 en einungis er komið inn á áætlun viðhalds og endurbóta á þjónustuíbúðum sem Félagsbústaðir eiga og reka.

    Sigrún Árnadóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.  

    Fylgigögn

  4. Lögð fram umsögn öldungaráðs dags. 23. janúar 2023, um drög að þingsályktunartillögu um aðgerðaráætlun um þjónustu við eldra fólk 2023 - 2027. MSS23010166  

    -     Kl. 12.02 víkur Dagbjört Höskuldsdóttir af fundinum. 

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 12.04

Sara Björg Sigurðardóttir Viðar Eggertsson

Haraldur Sumarliðason Ingibjörg Ósk Guðmundsdóttir

Jóhann Birgisson Ingibjörg Óskarsdóttir

Egill Þór Jónsson Ingibjörg Sverrisdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
74. fundur öldungaráðs frá 8. febrúar 2023