Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 86

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð

Ár 2023, föstudaginn 27. janúar var haldinn 86. fundur menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 09:32.  Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Kristinn Jón Ólafsson, Pawel Bartoszek, Sabine Leskopf, Stefán Pálsson, Kjartan Magnússon og Ingvar Sverrisson áheyrnarfulltrúi ÍBR. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Eiríkur Björn Björgvinsson, María Rut Reynisdóttir, Steinþór Einarsson og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf frjálsíþróttadeilda Ármanns, Fjölnis, ÍR og KR dags. 6. des. 2022 um beiðni deildanna um aukinn aðgang að frjálsíþróttahöllinni í Laugardal.

    Ráðið leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ráðið þakkar fyrir erindi frjálsíþróttadeilda Ármanns, Fjölnis, ÍR og KR þar sem óskað er eftir auknum aðgangi íþróttafólks félaganna að frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Mikilvægt er að skoða vandlega hvaða leiðir koma til greina til að bæta aðgengi að frjálsíþróttahöllinni og þannig auka stöðugleika og fyrirsjáanleika varðandi æfingar og keppni. Meirihlutinn vísar tillögunni til meðferðar sviðsstjóra og óskar eftir rýni á málinu og tillögum að lausnum, sem hægt verði að taka afstöðu til.

    Fylgigögn

  2. Fram fer umræða um æfingagjöld félaga.

    Ráðið leggur fram svohljóðandi bókun:

    Frístundastyrkurinn hækkaði um helming um áramótin skv. tillögu sem samþykkt var einróma hér í ráðinu. Hækkunin nemur 25 þúsund krónum á hvert barn og er mesta hækkun í sögu styrksins. Eins og fram kom í bókun meirihlutans frá 27. nóvember 2022 er tilgangur styrksins að auka virkni og þátttöku barna og ungmenna í frístundastarfi og vilji borgarinnar er klárlega að stærstur hluti hækkunarinnar renni til barna og forráðamanna þeirra. Nú berast fregnir af því að dæmi séu um verulega hækkun æfingagjalda að undanförnu og er óskað eftir því að Íþróttabandalag Reykjavíkur taki saman heildstætt yfirlit yfir æfingagjöldin með samanburði fyrir og eftir hækkun styrksins. Fyrstu upplýsingar frá ÍBR benda til þess að æfingagjöld hafi almennt ekki hækkað umfram verðlag en hins vegar eru einstök dæmi um meiri hækkanir sem mikilvægt er að bregðast ákveðið við. Ráðið gerir alvarlegar athugasemdir við hækkanir æfingagjalda umfram verðbólgu og telur eðlilegt að í slíkum tilvikum taki viðkomandi félög slíkar hækkanir til endurskoðunar. Mikilvægt er að íþróttafélögin, Íþróttabandalag Reykjavíkur og borgaryfirvöld vinni þétt saman að því að verja grundvöll og tilgang frístundastyrksins sem mikilvægri forsendu fyrir almennri frístundaþátttöku barna og ungmenna í borginni en ekki sé grafið undan styrknum með óhóflegum verðhækkunum.

    -    kl. 09:50 tekur Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir sæti á fundinum.
    -    kl. 10:22 víkur Ingvar Sverrisson af fundi.

  3. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra þróunar og reksturs dags. 25. janúar 2023 vegna miðnæturopnunar í Laugardalslaug.

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar leggja fram eftirfarandi bókun:

    Meirihlutinn þakkar fyrir minnisblað um framkvæmd tilraunaverkefnis um miðnæturopnun í Laugardalslaug á fimmtudögum sem stóð til áramóta. Verkefnið mæltist vel fyrir einkum hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára en því fylgdu ýmsar áskoranir varðandi starfsmannahald og kostnaður var meiri en lagt var upp með. Ekki er fjármagn til að halda verkefninu áfram að sinni en eins og kemur fram í minnisblaðinu væri áhugavert að gera tilraun með miðnæturopnun í afmarkaðan tíma og tengja þá jafnvel við viðburðahald á sameinuðu sviði menningar og íþrótta, nýta sköpunarkraft starfsfólks Hins Hússins o.s.frv.

    -    kl. 10:27 tekur Erling Jóhannesson áheyrnarfulltrúi BÍL sæti á fundinum.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra dags. 25. janúar 2023 varðandi vanfjármögnuð verkefni sviðsins vegna 2023.

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar leggja fram eftirfarandi bókun:

    Meirihlutinn óskar eftir tillögum sviðsstjóra um hvernig bregðast megi við þessari vanfjármögnun á yfirstandandi ári. Fjárhagur borgarinnar leyfir ekki almenna vísitölubindingu samninga við þriðja aðila að sinni en það er mikilvægt langtímamarkmið að uppfæra slíka samninga í takt við verðlag þegar svigrúm skapast í rekstri borgarinnar. Jafnframt er nauðsynlegt að forgangsraða í þágu lögbundinnar þjónustu og grunnþjónustu.

    Fylgigögn

  5. Sviðsstjóri fór yfir framgang vinnu við sameiningu á nýju sviði. 

  6. Lagður fram nýr samstarfssamningur við Menningarfélagið Tjarnarbíó um stuðning við rekstur Tjarnarbíós á árinu 2023. MOS23010075
    Samþykkt.

    Fulltrúar meirihluta Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fyrir liggur samstarfssamningur borgarinnar við Tjarnarbíó sem lagt er til að verði endurnýjaður til eins árs með það í huga að við taki nýr samningur til þriggja ára frá og með næsta ári. Tjarnarbíó er afar öflugt heimili sjálfstæðra sviðslista með mikla vaxtarmöguleika til framtíðar en líka áskoranir sem tengjast aðstöðumálum. Nú stendur yfir samtal á milli borgarinnar og menningarmálaráðuneytis um þarfagreiningu varðandi aðstöðumálin og aðra mögulega samstarfsfleti þessara aðila og Tjarnarbíós sem vonir standa til að leiði til niðurstöðu á komandi mánuðum.

    Fylgigögn

  7. Lagður fram nýr þjónustusamningur við Bandalag íslenskra listamanna um þjónustu á sviði menningarmála á árinu 2023. MOS23010074
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarmála dags. 25. janúar 2023 þar sem kynntir eru nýjir samstarfssamningar á sviði menningarmála 2023-2025 sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 28. nóvember 2022.   

    Fylgigögn

  9. Lagt fram matsblað faghóps menningarstyrkja 2023. MOF22110010. 

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarmála dags. 25. janúar 2023 vegna skipunar dómnefndar Barnabókarverðlauna Reykjavíkurborgar – trúnaðarmál.
    Jafnframt lagðar fram nýjar verklagsreglur Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar.
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram svar sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs dags. 25. janúar 2023 við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði um bókabílinn sbr. fund borgarráðs 20. október 2022.

    Fylgigögn

  12. Lagt fram svar Dýraþjónustu Reykjavíkur vegna fyrirspurnar áheyrnarfulltrúa flokks fólksins um þjónustu Dýraþjónustu sem lögð var fram á fundi borgarráðs 8. desember 2022.  MSS22120039 

    Fylgigögn

  13. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir upplýsingum um starfsmannafjölda nýs menningar- og íþróttasviðs og sundurliðuðu yfirliti eftir deildum, starfstöðum, stöðugildum og starfshlutfalli.

  14. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hver er kostnaðurinn sem hlýst af innheimtu hundagjalda? Hversu miklar tekjur hefur borgin af hundagjöldum? Hversu margir hundar eru skráðir hjá borginni og er vitað hversu stór hluti þeir hundar eru af heildarfjölda hunda í Reykjavík?    

Fundi slitið kl. 11:35.

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 27. janúar 2023