Menningar- og íþróttaráð - Fundur nr. 7

Menningar- og íþróttaráð

Ár 2025, föstudaginn 9. maí var haldinn 7. fundur menningar- og íþróttaráðs. Fundurinn var haldinn í Hofi og hófst hann kl. 09:05. Eftirtalin voru viðstödd fundinn: Skúli Þór Helgason, Sara Björg Sigurðardóttir, Stefán Pálsson, Kjartan Magnússon, Friðjón R. Friðjónsson og Aðalsteinn Haukur Sverrisson. Kristinn Jón Ólafsson tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar: Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Steinþór Einarsson, Atli Steinn Árnason, Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir, Helga Friðriksdóttir og Auður Ásgrímsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á skýrslu starfshóps um fjölmenningarfræðslu fyrir íþrótta- og tómstundastarf í Reykjavík.  MIR25040003

    Gerður Sveinsdóttir og Birta Björnsdóttir mannréttinda- og fræðslustjóri frá ÍBR taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Starfshópur um fjölmenningarfræðslu fyrir íþrótta- og tómstundastarf í borginni hefur unnið afburðagott starf á undanförnum árum eftir að hópurinn var settur á fót árið 2018. Mótaðir hafa verið verkferlar fyrir móttöku nýrra iðkenda af erlendum uppruna, bætt upplýsingamiðlun um fjölmenningu og síðast ekki síst inngildingu. Skipulegt íþrótta- og tómstundastarf er ein besta leið til að taka þátt í nærsamfélaginu, þátttakan myndar tengsl milli barna, hefur mikið forvarnargildi og vinnur gegn áhættuhegðun allt í gegnum leikinn. Starfshópurinn leggur nú fram tillögur um áhugaverð verkefni, eins og gæðafulltrúa sem sinni sérstaklega iðkendum af erlendum uppruna, íþróttakort sem mikilvægt er að vinna í tengingu við fristund.is, aukna áherslu á fræðslu um fjölmenningu og inngildingu í þjálfaramenntun, og miðlun upplýsinga um kostnað við æfingar og keppnum í mismunandi íþróttagreinum. Það er einkar mikilvægt að leitað sé leiða til að brúa umframkostnað sem skapast af þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi fyrir tekjuminni fjölskyldur. Þá er ánægjulegt að sjá að útfærsla og innleiðing á vinaliðafjölskyldum eða íþróttastuðningsfjölskyldum að norrænni fyrirmynd er á dagskránni samkvæmt samningi Reykjavíkurborgar við ÍBR.

    Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn fagnar þeirri vinnu sem ÍBR er að hefja út frá niðurstöðum starfshóps um fjölmenningarstarf fyrir íþrótta- og tómstundastarf í Reykjavík. Inngilding er gríðarlega mikilvæg fyrir fjölskyldur af erlendum uppruna og fyrir íslenskt samfélag í heild. Skipulagt íþróttastarf er ein besta leið til að virkja börn og foreldra þeirra til að koma í veg fyrir félagslega einangrun.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir kynningu á skýrslu starfshóps um fjölmenningarfræðslu fyrir íþrótta- og tómstundastarf í Reykjavík. Skýrslan felur í sér góða greiningu á viðfangsefninu og ýmsar tillögur til úrbóta. Meðal annars liggur fyrir tillaga um að ráðist verði í sérstak átak til að auka íþróttaþátttöku ungs fólks af erlendum uppruna í Efra Breiðholti og að sérstakur starfsmaður sinni því verkefni. Í þessu sambandi er minnt á tillögu Sjálfstæðisflokksins, sem lögð var fram á fundi íþrótta- og menningarráðs 11. apríl, um stuðning borgaryfirvalda við starf íþróttafulltrúa á vegum  Íþróttafélagsins Leiknis í Efra Breiðholti. Ljóst er að eitt helsta hlutverk þess íþróttafulltrúa yrði að auka íþróttaþátttöku ungs fólks af erlendum uppruna í hverfinu og væri starf hans því í góðu samræmi við slíkt átak. Afgreiðslu áðurnefndrar tillögu var frestað að ósk meirihluta ráðsins og óska fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir því að hún verði tekin til afgreiðslu á næsta fundi þess.

    -    kl. 9:07 tekur Jóna Hlíf Halldórsdóttir áheyrnarfulltrúi BÍL sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  2. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra íþróttaborgar dags. 9. maí vegna endurbóta og viðhaldsframkvæmda í Vesturbæjarlaug.  MIR25050006

    Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þakkað er fyrir kynningu á fyrirhuguðum framkvæmdum við Vesturbæjarlaug sem unnar verða í viðhaldslokun laugarinnar frá seinni hluta maí til júníloka. Þær fela í sér mikilvægar viðgerðir á laugarkeri, ýmsar smærri uppfærslur og endurnýjun á gufubaðsaðstöðu sem ætlað er að auka fjölbreytni og gæði þjónustunnar. Farið verður í tímabæra viðgerð á laugarkerinu þ.m.t. málun, umskipti á rennibraut, breytingu á lýsingu, útskipti á neyðarkerfi hússins, endurnýjun á hálkuvörnum á tröppum, útskipti á öryggisgrindverkum á bakka og ýmis verkefni í tæknikjallara. Þá verður ráðist í framkvæmdir tengdar nýrri gufubaðaðstöðu þar sem skipt verður um hefðbundna sánuklefa auk þess sem komið verður fyrir infrarauðri sánu. Samráð verður haft við sundlaugargesti um útfærslur á þjónustunni með hugmyndasamkeppni en tillögur arkitekta á nýju aðstöðunni eru komnar til kynningar í lauginni.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á stafrænu borgarkorti.  MIR25050004

    Lára Aðalsteinsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

  4. Lögð fram eftirfarandi tillaga skrifstofustjóra menningarborgar dags. 7. maí 2025 um nýja þátttakendur í faghóp Borgarhátíða.  MIR25050002 –  trúnaðarmál.

    Samþykkt.

  5. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra menningarborgar dags. 7. maí 2025 um borgarlistamann Reykjavíkur 2025.  MIR25030011 –  trúnaðarmál.

    Umræður.

  6. Fram fer umræða um Borgarsögusafn og 20 ára afmæli Sjóminjasafnsins.  MIR25050003

    Guðbrandur Benediktsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið. 

  7. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu MIR25050014:

    Menningar- og íþróttaráð Reykjavíkur beinir því til borgarráðs að veittur verði styrkur til Knattspyrnufélagsins Víkings vegna viðhalds og endurbóta á fasteignum félagsins við Stjörnugróf. Brýnt er að endurnýja þak íþróttahússins sem og klæðningu á útveggjum. Ráðast þarf í ýmsar endurbætur innan húss, t.d. lagfæringar vegna rakaskemmda, sem orðið hafa vegna lélegs ástands þaks og útveggja. Jafnframt er æskilegt að farið verði í breytingar á skipulagi húsnæðisins svo það þjóni hlutverki sínu betur, t.d. með tilfærslu á skrifstofum, sölum og búningsklefum. Þá þarf að gera úrbætur á aðgengismálum, innan dyra og utan, enda ljóst að þau samræmast ekki nútímakröfum að þessu leyti.

Fundi slitið kl. 11:24.

Skúli Helgason

Kristinn Jón Ólafsson Sara Björg Sigurðardóttir
Stefán Pálsson Friðjón R. Friðjónsson
Kjartan Magnússon Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Stefán Pálsson Kjartan Magnússon

Sara Björg Sigurðardóttir Friðjón R. Friðjónsson

Aðalsteinn Haukur Sverrisson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- og íþróttaráðs frá 9. maí 2025