Menningar- og íþróttaráð
Ár 2025, föstudaginn 11. apríl var haldinn 6. fundur menningar- og íþróttaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Friðjón R Friðjónsson, Kjartan Magnússon, Kristinn Jón Ólafsson og Sara Björg Sigurðardóttir. Jóna Hlíf Halldórsdóttir áheyrnarfulltrúi BÍL. Jafnframt: Steinþór Einarsson, Atli Steinn Árnason, Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir, Helga Friðriksdóttir, Auður Ásgrímsdóttir og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 3. febrúar 2025 þar sem svohljóðandi tillögu fulltrúa í ungmennaráði Breiðholts frá fundi borgarstjórnar 28. janúar 2025 er vísað til meðferðar menningar- og íþróttaráðs:
Lagt er til að borgarstjórn samþykki að breyta reglum um frístundakort þannig að þær gildi til 20 ára aldurs miðað við fæðingarár. Breytingin skal taka gildi árið 2026.
Greinargerð fylgdi tillögunni. MSS25010157
Tillögunni er vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.Fulltrúar í menningar- og íþróttaráði leggja fram svohljóðandi bókun:
Menningar- og íþróttaráð þakkar fulltrúa ungmennaráðs í Breiðholti fyrir góða tillögu. Mikilvægt er að borgin leiti allra leiða til þessa að stuðla að bættri lýðheilsu og félagslegri tengingu á meðal ungmenna. Tillögunni er hér með vísað til fjárhagsáætlunargerðar til frekari skoðunar.
Anton Ingi Lárusson fulltrúi í ungmennaráði Breiðholts og Hulda Valdís Valdimarsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.
- kl. 09:15 tekur Stefán Pálsson sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á Reykjavík Dance Festival, sem er ein af borgarhátíðunum.
Pétur Ármannsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar menningar- og íþróttaráðs leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar í menningar- og íþróttaráði þakka fyrir góða kynningu á málefnum dansgreina, sem eru listgrein í viðkvæmri stöðu. Brýnt er að efla dansmenntir með ýmsum hætti jafnt innan skólakerfisins og menningarstofnanna, en þar má hafa í huga möguleika dans til inngildingar. Í því skyni er mikilvægt að ráðast í stefnumótun varðandi danslistir á vettvangi borgarinnar.
-
Lögð fram tillaga menningar og íþróttasviðs dags. 7. apríl 2025 um skipan þriggja sérfræðinga í ráðgefandi faghóp vegna úthlutunar styrkja til myndríkrar miðlunar. MIR25030004.
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarborgar dags 7. apríl 2025 með tilnefningum
Rithöfundasambands Íslands, Félags íslenska bókaútgefenda og Reykjavík bókmenntaborgar UNESCO um dómnefnd um bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2025. MIR25030002. Trúnaðarmál.
Samþykkt.
-
Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarborgar dags. 7. apríl 2025 með tilnefningum Reykjavík bókmenntaborgar UNESCO, Rithöfundarsambands Íslands og IBBY í dómnefnd um barnabókarverðlaun Guðrúnar Helgadóttur. MIR25030001 Trúnaðarmál.
Samþykkt.
Fulltrúar í menningar- og íþróttaráði leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar í menningar- og íþróttaráði óska eftir að sjá fulltrúa ungra lestrarhesta inn í dómnefnd fyrir barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur, en lagt er til að nánari útfærsla yrði útfærð af menningar- og íþróttasviði í samvinnu við Reykjavíkurráð ungmenna.
-
Lagt fram að nýju bréf skrifstofu mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 18. mars 2025 þar sem óskað er eftir ábendingum á efni dagskrá borgaraþings 2025. MSS25010177.
Fulltrúar menningar- og íþróttaráðs leggja fram svohljóðandi bókun:
Eitt helsta leiðarljós lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar er að efla gæði í ákvarðanatöku með því að fá fram og taka tillit til mismunandi sjónarhorna og hagsmuna. Borgaraþing er kjörinn vettvangur íbúa og borgarstjórnar til að eiga samtal um málefni borgarinnar sem skipta íbúa máli hverju sinni. Menningar- og íþróttaráð leggur til að Útilífsborgin verði umræðuefni næsta borgaraþings með því markmiði að auka þátttöku borgarbúa í almennri útiveru og stuðla að bættri lýðheilsu. Þá mætti skoða það að tengja þemað við aðrar hugmyndir íbúa og ráða eins og um loftslagsmál og gönguvæna borg.
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lagningu gervigrasvallar á svæði ÍR við Skógarsel sbr. 5. fundur menningar- og íþróttaráðs frá 28. mars 2025 liður 11. MIR25030015.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svofellda breytingartillögu:
Menningar- og íþróttaráð óskar eftir því að í tengslum við lagningu nýs gervigrass á gervigrasvöll Íþróttafélags Reykjavíkur við Skógarsel, verði ráðist í frekari framkvæmdir svo tryggt verði að ÍR geti leikið heimaleiki sína á eigin félagssvæði. Til þess þarf að stækka öryggissvæði vallarins og koma fyrir vökvunarbúnaði, sem myndi bæta endingu hans og draga úr slysahættu. Augljóst hagræði er af því að ráðast í áðurnefndar framkvæmdir á yfirstandandi ári, um leið og skipt er um gervigras á vellinum í stað þess að fresta þeim, sem hefði í för með sér aukinn kostnað síðar.
Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga:
Lagt er til að vísa breytingartillögunni til stýrihóps um uppfærslu forgangsröðunar á uppbyggingu íþróttamannvirkja í Reykjavík.
Samþykkt.
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráð hefur samþykkt að bjóða út endurgerð gervigrasvallar ÍR við Skógarsel. Stefnt er að því að verkið verði unnið í sumar. Hér er lagt til að samhliða verði stækkað öryggissvæði vallarins og koma fyrir vökvunarbúnaði, sem myndi bæta endingu hans og draga úr slysahættu. Þeirri tillögu verður vísað til vinnu stýrihóps um uppfærslu á forgangsröðun íþróttamannvirkja sem tekur til starfa í næstu viku.
-
Lögð fram tillaga meirihluta Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna um lengingu opnunartíma sundlauga í framhaldi af samþykkt borgarstjórnar dags. 4. mars 2025 um að fela menningar- og íþróttaráði útfærslu á lengingu á sumaropnun sundlauga um helgar. MSS25020123
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt.Fulltrúar í menningar- og íþróttaráði leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar í menningar- og íþróttaráði fagna lengri opnunartíma sundlauga um helgar yfir sumartímann en opnunin gildir frá og með 1. júní 2025 til og með 31. ágúst 2025. Opnunartíminn lengist um eina klukkustund laugardaga og sunnudaga, opið verður til kl. 22 laugardaga og sunnudaga, utan Klébergslaugar á Kjalarnesi, en hún verður opin frá kl. 10-18. Tekið er mið af lögfestum útivistartíma barna og ungmenna sem aftur hefur mikilvægt forvarnargildi og stuðlar að heilbrigðri samveru fjölskyldu og vina.
- kl. 10:45 víkur Jóna Hlíf Halldórsdóttir af fundi.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning Útilífsborgarinnar á Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. MIR24090003.
Þorkell Heiðarson situr fundinn undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svofellda bókun:
Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn er mikilvægt útivistarafl í hjarta Reykjavíkur sem um 200 þús. manns sækja ár hvert. Tímabært er að hefja mótun framtíðarstefnu fyrir garðinn þar sem hugað verði m.a. að endurnýjun tækja, leiksvæða, fjölgun þematengdra viðburða og stuðla að aukinni aðsókn. Menningar- og íþróttarráð leggur til að menningar- og íþróttasvið útbúi tillögu um skipan stýrihóps um mótun framtíðarstefnu fyrir Fjölskyldu- og húsdýragarðinn sem verður svo lögð fyrir ráðið.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svofellda bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir góða kynningu á starfsemi Fjölskyldu- og húsdýragarðsins og metnaðarfullum hugmyndum um endurbætur og almenna framþróun garðsins. Minnt er á fyrri tillögur Sjálfstæðisflokksins um að kannaðir verði kostir þess, sem og kostnaður, að koma upp grastorfu (fuglahóli) í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Í torfunni og utan á henni verði útbúin varpaðstaða fyrir lunda, langvíur og e.t.v. fleiri íslenska fugla. Ljóst er að slík grastorfa gæti orðið kærkomin viðbót við garðinn og aukið aðsókn að honum, bæði meðal Íslendinga og erlendra ferðamanna. Leggja þarf áherslu á að grastorfan nýtist til náttúrufræðikennslu.
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svofellda bókun:
Framsókn þakkar fyrir góða kynningu á stöðu fjölskyldu- og húsadýragarðsins. Eins og kom fram þá er mikil þörf fyrir endurnýjun á garðinum, hvort sem um ræðir tækjakost, húsnæðis og síðast en ekki síst að aukningu á fjölbreytni dýra t.d. Lunda. Slíkar aðgerðir myndu auka aðdráttarafl og áhuga erlendra ferðamanna í garðinn og gera garðinn betur í stakk búinn til að standa undir sínum rekstri.
Fylgigögn
-
Frestað
Fylgigögn
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svofellda tillögu:
Lagt er til að gerður verði samningur við Íþróttafélagið Leikni í Breiðholti um stuðning borgaryfirvalda við starf íþróttafulltrúa á vegum félagsins í tengslum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2026. Samningurinn taki mið af þeim samningum, sem þegar hafa verið gerðir við önnur hverfisíþróttafélög í borginni.
Frestað.
Fundi slitið kl. 11:35.
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- og íþróttaráðs frá 11. apríl 2025