Menningar- og íþróttaráð
Ár 2025, föstudaginn 14. mars var haldinn 4. fundur menningar- og íþróttaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Ásta Björg Björgvinsdóttir varamaður fyrir Aðalstein Hauk Sverrisson, Friðjón R Friðjónsson, Kristinn Jón Ólafsson, Sara Björg Sigurðardóttir og Stefán Pálsson. Jafnframt: Steinþór Einarsson, Atli Steinn Árnason, Helga Friðriksdóttir, Auður Ásgrímsdóttir og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 24. febrúar 2025 þar sem fram kemur að á fundi borgarstjórnar 21. febrúar 2025 hafi eftirtaldir aðilar verið kosnir í menningar- og íþróttaráð: Skúli Helgason formaður, Sara Björg Sigurðardóttir, Kristinn Jón Ólafsson, Stefán Pálsson, Friðjón R Friðjónsson, Kjartan Magnússon og Aðalsteinn Haukur Sverrisson. Til vara: Birkir Ingibjartsson, Ólöf Helga Jakobsdóttir, Oktavia Hrund Guðrúnar Jóns, Líf Magneudóttir, Birna Hafstein, Helga Margrét Marzellíusardóttir og Ásta Björg Björgvinsdóttir.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 6. mars 2025 þar sem fram kemur að á fundi borgarstjórnar 4. mars 2025 hafi menningar- og íþróttaráði verið falið að útfæra tillögu borgarfulltrúa Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna um lengingu opnunartíma sundlauga.
Sviðsstjóra falið að koma með tillögu á næsta fund.
- kl. 09:08 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Opnunartími sundlauga um helgar var styttur í fyrra til að mæta kröfu um hagræðingu. Nú hafa nýju samstarfsflokkarnir í meirihlutanum ákveðið að lengja opnunartímann á ný í sumar með áherslu á félagsauð og forvarnir í þágu ungmenna. Menningar- og íþróttaráði er falið að útfæra tillöguna, sú vinna er hafin og verður kynnt á allra næstu vikum.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 6. mars 2025 þar sem fram kemur að á fundi borgarstjórnar 4. mars 2025 hafi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna um að fela menningar- og íþróttaráði að yfirfara áætlanir um úrbætur á aðstöðu í Húsdýragarðinum verið samþykkt.
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Aðgerðaráætlun samstarfsflokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur, sem kynnt var á dögunum, tiltók sérstaklega að yfirfara skyldi áætlanir um úrbætur á aðstöðu í Húsdýragarðinum og þá sérstaklega varðandi selalaugina. Um mikilvægt málefni er að ræða, ekki einungis út frá dýraverndunarsjónarmiðum heldur ekki síður til að auka aðdráttarafl garðsins, þar sem selirnir eru nú þegar einhverjar vinsælustu skepnur hans. Samstarfsflokkarnir álíta að Húsdýragarðurinn eigi mikla vaxtarmöguleika og muni í framtíðinni sem hingað til ná að heilla nýjar kynslóðir Reykvíkinga auk þess sem vel mætti sjá fyrir sér að unnt væri að lokka í garðinn mikinn fjölda erlendra ferðamanna með því að bjóða upp á víðtækari kynningu á fleiri þáttum íslenskrar náttúru. Minnt er á að Dýraþjónusta Reykjavíkur, sem staðsett er í Húsdýragarðinum sinnir mikilvægu hlutverki ekki aðeins gagnvart dýrum garðsins heldur einnig veikum og villtum dýrum í hremmingum, t.d. fuglum sem lent hafa í háska eða villtum selum sem koma reglulega inn og þurfa aðhlynningu. Þess vegna er mikilvægt að halda áfram að þróa Húsdýragarðinn sem þjónustumiðstöð fyrir dýratengd málefni og í auknum mæli með áherslu á dýraathvarf fyrir villt og veikburða dýr til þess að uppfylla okkar lögbundnu skyldur.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins minna á tillögu sína frá 12. janúar 2018 um að kannaðir verði kostir þess, sem og kostnaður, að koma upp grastorfu (fuglahóli) í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Í torfunni og utan á henni verði útbúin varpaðstaða fyrir lunda, langvíur og e.t.v. fleiri íslenska fugla. Ljóst er að slík grastorfa gæti orðið kærkomin viðbót við garðinn og aukið aðsókn að honum, bæði meðal Íslendinga og erlendra ferðamanna. Leggja þarf áherslu á að grastorfan nýtist til náttúrufræðikennslu.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á verkefninu - Íþróttir og frístundir í Reykjavík. Suðurmiðstöð, leikskólar, grunnskólar, frístundamiðstöð, íþrótta- og frístundaaðilar, mál- og menningarhópar og foreldrar vinna að því að auðvelda íþrótta- og frístundaþátttöku allra barna– MSS23040148.
Jóhannes Guðlaugsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar samstarfsflokkana þakka fyrir kynningu á íþrótta og frístundastarfi í Reykjavík. Mikið og gott starf hefur verið unnið síðustu árin til að auka hlutfall þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu íþrótta og tómstundastarfi í þeim hverfum sem hallaði á þátttöku eins og Breiðholti. Staða frístundatengilsins er mjög mikilvægur þáttur í bæði kynningastarfi og ná óvirkum börnum og ungmennum í þátttöku og virkni á sínum forsendum með sérstakri áherslu á börn sem búa við fátækt, fötluð börn og börn af erlendum uppruna. Tilraunaverkefnið Frístundir í Breiðholti hefur sannað gildi sitt og mikilvægt er fyrir borgaryfirvöld haldi áfram að styðja við starfið enda um viðvarandi verkefni að ræða því alltaf bætast við börn og ungmenni með viðkvæmt bakland sem þarf að ná utan um, valdefla og styðja þannig að þau upplifi sig sem part af hóp og tilheyri.
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Framsóknar þakkar góða kynningu og mikilvæga umræðu um frístundastarf barna. Sérstaklega er jákvætt að flagga afreksíþróttastefnunni, þar sem snemmbær sérhæfing hefur getur haft þær afleiðingar að börn haldist síður í íþróttum. Við verðum ávallt að hafa barnið í forgrunni og vinna út frá vellíðan þess. Verkefnið Tvennan er gott dæmi um nálgun sem eykur aðgengi barna að fjölbreyttu frístundastarfi einnig er mikilvægt að tryggja virkni barna í frístundum og styðja foreldra þeirra, enda hefur félagsleg þátttaka jákvæð áhrif. Samstarf við félagsmiðstöðvarnar skiptir hér miklu máli og samstarf við Flotann einnig. Mikilvægt er að við tökum þessar upplýsingar og vinnum frekar með þær í ráðinu, því það skiptir miklu máli að sú mikla reynsla og þekking sem hefur safnast nýtist til framtíðar.
-
Fram fer kynning á verkefninu ÍR ungir, Breiðholtskrakkar. Börnum í 1. og 2. bekk í Breiðholti býðst að taka þátt í tveimur íþrótta- og frístundakostum gegn greiðslu hálfs frístundakorts kr. 25.000 fyrir önnina. MIR25030003
Jóhannes Guðlaugsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
- kl. 09:49 tekur Ingvar Sverrisson sæti á fundinum.
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar samstarfsflokkana telja mikilvægt að börn og ungmenni geti prófað sem flestar íþróttir á sínum yngstu árum til þess að finna sína ástríðu, styrkja félagsleg tengsl og stuðla að lýðheilsu. Mikilvægt er að skoða leiðir til þess að skala upp lýðheilsu verkefni sem reynst hafa vel innan ákveðinna hverfa sem víðast innan borgarinnar. Næstu skref verður því að kalla eftir frekar upplýsingum frá öðrum íþróttafélögum og skoða hvaða tækifæri til þess eru fyrir hendi.
-
Lögð fram umsögn menningar- og íþróttaráðs um áfengisveitingar á íþróttaviðburðum í íþróttamannvirkjum. MIR24070001
Samþykkt.
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Áfengisveitingar á íþróttaviðburðum hafa lengi verið umdeildar og snerta á siðferðilegum, samfélagslegum og efnahagslegum þáttum. Borgarráð fékk til meðferðar á síðasta ári umsókn um varanlegt leyfi til vínveitinga á Laugardalsvelli og vísaði málinu til meðferðar menningar- og íþróttaráðs. Ráðið óskaði eftir umsögnum fimmtán haghafa og skiluðu sjö þeirra umsögnum. Menningar – og íþróttaráð telur að í þeim umsögnum komi fram mikilvæg sjónarmið um forvarnir, lýðheilsu og vernd barna og ungmenna sem nauðsynlegt sé að horfa til í þessu máli. Ráðið leggur áherslu á að það sé nauðsynleg forsenda breytinga á viðkomandi málsmeðferðarreglum borgarráðs um bann við veitingu áfengra drykkja á íþróttaviðburðum að íþróttahreyfingin í þessu tilviki Knattspyrnusamband Íslands eftir atvikum í samráði við ÍSÍ og ÍBR leggi fram sannfærandi reglur sem tryggi að börn og ungmenni yrðu varin fyrir óæskilegum áhrifum af slíkri veitingasölu.
Fylgigögn
-
Lögð fram ályktun félags íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa vegna sölu áfengis á íþróttaviðburðum. MSS25010143
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á áfangaskýrslu spretthóps um fyrirkomulag gufubaðsþjónustu í sundlaugum Reykjavíkur MIR24120007
Fylgigögn
-
Lagt fram erindisbréf dags. 14. febrúar 2025 um stýrihóp um forgangsröðun íþróttamannvirkja – MIR25010007
Frestað.
Fylgigögn
-
Lögð fram samantekt um stöðu forgangsröðunar á uppbyggingu íþróttamannvirkja, sbr. samþykkt borgarráðs 3. september 2020. MIR25010007
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Eins og fram kemur í minnisblaði um stöðu einstakra verkefna á forgangslista uppbyggingar íþróttamannvirkja í borginni þá er einu verkefni lokið og þrjú til viðbótar i fyrsta forgangi í skýrum farvegi með fjármagn tryggt í fjárfestingaráætlun og undirbúningur framkvæmda vel á veg kominn. Fimm verkefni til viðbótar eru komin á góðan rekspöl. Í öðrum tilvikum er unnið að útfærslu og undirbúningi sem er mislangt á veg kominn eftir verkefnum.
Fulltrúar Sjálfstæðiflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir umbeðið yfirlit um framvindu gildandi forgangsröðunar vegna uppbyggingu íþróttamannvirkja í Reykjavík, sem samþykkt var árið 2020. Yfirlitið sýnir að aðeins eitt af þeim átján verkefnum sem þar voru samþykkt, er í raun komið til framkvæmdar, þ.e. gervigrasvellir í Laugardal, sem voru númer þrjú á forgangslistanum. Þegar svo illa hefur verið staðið við samþykkta forgangsröðun frá 2020, vaknar sú spurning hvaða tilgangi uppfærsla á henni eigi að þjóna. Líklega er tilgangur meirihlutans sá að búa til nýja afsökun fyrir slælega frammistöðu í uppbyggingarmálum íþróttamannvirkja með því að setja þessi mál í einn eitt ferlið og stofna enn einn starfshópinn.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um uppgjör við Fylki sem lögð var fram á fundi menningar- og íþróttaráðs 13. desember 2024. MIR24120009
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram málsmeðferðartillögu um að tillögunni verði vísað til borgarráðs.
Samþykkt.
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar samstarfsflokkana leggja til að málinu sé vísað til borgarráðs til meðerðar og úrvinnslu byggt á samkomulagi Reykjavíkurborgar og Fylkis vegna uppbygginar og endurbóta á íþróttasvæði Fylkis frá 18. des. 2017. Uppgjör hefur farið fram, en eftirstöðvar samnings sýna að Fylkir eigi inni óráðstafað rúmar 6 milljónir kr.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Vinstri grænna um fjölgun ístíma í Skautahöllinni í Laugardal. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs dags. 12. mars 2025 um ístíma í Skautahöllinni í Laugardal, sbr. fund menningar- og íþróttaráðs frá 13. desember 2024 . FAS24010022
Tillögunni er vísað til stýrihóps um forgangsröðun íþróttamannvirkja.
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóða bókun:
Skautaíþróttir eru einhver mesti vaxtarbroddurinn í íþróttalífinu og hefur gríðarleg iðkun orðið í iðkendafjölda á liðnum misserum. Úrbætur í aðstöðumálum skautafólks eru ofarlega á forgangslista borgarinnar, þótt vissulega væri æskilegt ef fleiri sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu öxluðu ábyrgð í stuðningi við íþróttina. Í þessu samhengi er rétt að halda til haga að skautadans er sérlega sterk og vaxandi stúlknaíþrótt og efling hennar því í samræmi við jafnréttismarkmið borgarinnar í íþróttamálum. Niðurstaða athugunar sviðsstjóra leiðir í ljós að teljandi aukning ístíma í Skautahöllinni er óraunhæf nema til nýbyggingar komi. Það eru mikilvæg skilaboð inn í komandi vinnu við forgangsröðun í gerð íþróttamannvirkja.
Fylgigögn
Fundi slitið kl. 11:54
Skúli Helgason Sara Björg Sigurðardóttir
Kristinn Jón Ólafsson Stefán Pálsson
Kjartan Magnússon Friðjón R. Friðjónsson
Ásta Björg Björgvinsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- og íþróttaráðs frá 14. mars 2025