Menningar- og íþróttaráð - Fundur nr. 19

Menningar- og íþróttaráð - Fundur nr. 19

Menningar- og íþróttaráð

Ár 2025, föstudaginn 12. desember var haldinn 19. fundur menningar- og íþróttaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 09:07.  Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Ásta Björg Björgvinsdóttir, Friðjón R Friðjónsson, Kjartan Magnússon, Sara Björg Sigurðardóttur og Stefán Pálsson. Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns varamaður fyrir Kristinn Jón Ólafsson tekur sæti á fundinum með rafrænum hætti. Jóna Hlíf Halldórsdóttir áheyrnarfulltrúi BÍL. Jafnframt:  Steinþór Einarsson, Atli Steinn Árnason, Arnfríður S. Valdimarsdóttir, Elín Hrefna Ólafsdóttir og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Í kjölfar kynningar á stöðuskýrslu spretthóps um þjónustu við ungbarnafjölskyldur á fundi menningar- og íþróttaráðs 14.nóvember síðastliðinn er lögð fram eftirfarandi tillaga ásamt greinargerð um gerð þjónustukönnunar meðal ungbarnafjölskyldna og kynningu á þjónustu sundlauga borgarinnar við þær:

    1. Framkvæmd verði þjónustukönnun í janúar og febrúar 2026 í samráði við þjónustuupplifunarteymi á þjónustu- og nýsköpunarsviði. 
    2. Farið verði í tilraunaverkefni í febrúar 2026 í Breiðholtslaug þar sem hiti verði hækkaður í 35°C um helgar (laugardag og/eða sunnudag) og það kynnt sérstaklega. Fylgst verði með viðtökum. 
    3. Útbúið verði sérstakt kynningarefni sem dregur fram sérkenni lauganna í þjónustu við ungbarnafjölskyldur og þannig auðveldað þeim að velja þá laug sem best uppfyllir þarfir þeirra hverju sinni.

    Í mars 2026 væru niðurstöður kynntar og metið hvort farið skuli í nánara samráð við notendur og þjónustuhönnuð. Ellegar kæmi spretthópur með kostnaðarmetnar tillögur varðandi hvernig bæta megi þjónustu í tilteknum laugum gagnvart börnum og fjölskyldum, með sérstaka áherslu á ungbarnafjölskyldur.  MIR25090007

    Helga Friðriksdóttir skrifstofustjóri íþróttaborgarinnar tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Samþykkt.

    Menningar- og íþróttaráð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Menningar- og íþróttaráð fagnar tillögu spretthóps um þjónustukönnun meðal ungbarnafjölskyldna, en mikilvægt er að byggja ákvarðanir á raunverulegum þörfum notenda í takt við þjónustustefnu Reykjavíkurborgar. Þar sem hver laug hefur sinn karakter og mismunandi aðstöðu, væri m.a. áhugavert að heyra frá íbúum hvaða laugar ætti að byggja upp með sérstaka áherslu á aðstöðu og þjónustu fyrir börn og fjölskyldur. Tilraunaverkefnið í Breiðholtslaug, þar sem vatnshiti verður hækkaður í 35°C um helgar, er skynsamleg leið til að byrja að meta áhrif slíkra breytinga án mikillar fyrirhafnar og fjárfestingar. Ráðið tekur einnig undir mikilvægi þess að byrja kynna betur það sem er í boði fyrir börn og fjölskyldur þeirra í sundlaugum borgarinnar þannig að það hjálpi fjölskyldum að velja þá laug sem hentar best þörfum þeirra hverju sinni, m.a. að hægt verði að sjá myndrænan samanburð þjónustuframboðs mismunandi sundlauga fyrir markhópinn samantekið á einum stað á vefsíðu borgarinnar. Við hlökkum til að sjá niðurstöður könnunar og fyrrgreindra fyrstu skrefa í því að bæta þjónustuna til ungbarnafjölskyldna sem verða kynntar í mars 2026 og þökkum spretthópnum sérstaklega fyrir góða og skilvirka vinnu hingað til.    

    Fylgigögn

  2. Fram fer kynning á Hafnarhaus og HlemmurHaus MIR25120003

    René Boonekamp tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    kl. 09:48 víkur Stefán Pálsson af fundi og Birkir Ingibjartsson rekur sæti á fundinum.

  3. Fram fer kynning á Sinfóníuhljómsveit Íslands MIR25120004

    Guðni Tómasson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    -    kl. 10:06 víkur Oktavía Hrund Guðrúnar Jóns af fundi.
    -    kl. 10:29 tekur Kristinn Jón Ólafsson sæti á fundinum.

  4. Lögð fram tillaga fulltrúa Samfylkingar og Pírata um frístundasjóð – MIR25120005:

    Menningar- og íþróttaráð leggur til að stofnaður verði styrktarsjóður fyrir börn í viðkvæmri stöðu til að greiða fyrir þátttökugjöld og útbúnað í íþrótta- og tómstundastarfi. 
    Menningar – og íþróttasviði verði falið að móta reglur um umsóknarferli, úthlutun styrkja og utanumhald sjóðsins, í samvinnu við velferðarsvið. 
    Stefnt verði að því að styrktarsjóðurinn styðji við teymi frístundatengla sem munu þjónusta skólahverfi borgarinnar með það að markmiði að ná til barna í viðkvæmri stöðu; fátækra barna, fatlaðra barna og barna af erlendum uppruna.

    Samþykkt.

    Fulltrúar Samfylkingar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

    Rannsóknir sýna fram á að þátttaka barna í skipulögðu í íþrótta- og tómstundastarfi sé einn af verndandi þáttum gegn áhættuhegðun, hefur mikið forvarnargildi og er ein besta leiðin til samfélagslegrar inngildingar barna í nærsamfélaginu. Með því að samtvinna enn betur skóladag barna í viðkvæmri stöðu við skipulagt frístundastarf er betur hægt að vinna með farsæld barnsins eftir að skóladegi lýkur til að tryggja þátttöku og virkni lengur. Sú staðreynd að fimmtungur barna í borginni sem eiga rétt á frístundarstyrknum nýta hann ekki þarf að skoða sérstaklega og skima fyrir hvort það sé vegna fjárhagslega, félagslegra eða menningarlegra ástæðna. Sjóðurinn styður við vinnu teymis frístundatengla og er eingöngu hugsaður fyrir börn og ungmenni í viðkvæmri stöðu sem búa við fátækt, fötlun eða eru í þörf fyrir félagslega inngildingu. Sjóðurinn er hugsaður til að veita styrki í tvennum tilgangi. Annars vegar til að brúa bil þess auka kostnaðar sem kann að falla til við íþrótta- og tómstundastarf eins og kaup/leiga á búnaði, ferðalög og viðburði. Hins vegar til að greiða þátttökugjöld barna og ungmenna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi fyrir eina tómstund þegar búið er að nýta frístundastyrkinn. Það er einlæg von fulltrúa samstarfsflokkana að sjóðurinn muni ná að styðja og valdefla fleiri börn og ná þeim í þátttöku í þeirri tómstund sem þau finna sig í.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningarborgar dags. 9. desember 2025 varðandi skipan dómnefnda Barnabókarverðlauna Reykjavíkurborgar, Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar og Barnabókarverðlauna Guðrúnar Helgadóttur fyrir árið 2026. MIR25120002  Trúnaðarmál.

    Samþykkt.

  6. Samningur við Farfugla ses vegna tjaldstæða í Laugardal. MIR25120006
    Frestað.

    -    kl. 11:05 víkur Jóna Hlíf Halldórsdóttir af fundi.

  7. Lagt fram að nýju bréf sviðsstjóra menningar- og íþróttasviðs dags. 26. nóvember 2025 sem frestað var á fundi menningar- og íþróttaráðs 28. nóvember 2025 um tillögur um samninga við félög og samtök sem renna út um áramótin. 
    Jafnframt lagt fram minnisblað menningar- og íþróttasviðs dags. 27. nóv. 2025 varðandi endurnýjun samninga við félög og samtök.  Trúnaðarmál. MIR25110011
    Samþykkt með 4 atkvæðum meirihluta Samfylkingar og Pírata.  Fulltrúar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fyrirliggjandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar og Pírata felur í sér gífurlega skerðingu framlaga Reykjavíkurborgar til íþrótta- og æskulýðsstarfs í borginni. Þau félög og samtök, sem verða nú fyrir barðinu á niðurskurði vinstri meirihlutans gegna öll mikilvægu og margverðlaunuðu æskulýðsstarfi. 
    • Styrkveitingar til skákdeilda Fjölnis og KR eru felldar niður að fullu. 
    • Styrkir til Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík og Íþróttasambands fatlaðra eru lækkaðir um 50%.
    • Styrkir til Skáksambandsins og Bridgesambandsins eru lækkaðir um 73%.
    • Skerðingin er í raun meiri þar sem ekki er gert ráð fyrir neinum verðbótum í umræddum styrkjaframlögum á milli ára.
    Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leggjast eindregið gegn þessum mikla niðurskurði á framlögum til íþrótta- og æskulýðsstarfs í borginni. Í öllum tilvikum er um að ræða sjálfstæð félög og samtök, sem virkja fjölmarga sjálfboðaliða í starfsemi sinni í þágu barna og unglinga. Í flestum tilvikum er um fremur lágar upphæðir að ræða en þó afar mikilvægar fyrir starfsemi sem byggist að miklu leyti á sjálfboðaliðum.
    Vinstri meirihlutinn kaus að tilkynna þennan mikla niðurskurð með afar skömmum fyrirvara, þegar einungis nokkrar vikur eru eftir til áramóta, sem er óviðunandi gagnvart þeim félögum sem treysta á stöðugleika í starfsemi sinni.

    Fulltrúar Samfylkingar og Pírata leggja fram eftirfarandi bókun:

    Það er hluti af ábyrgri fjármálastjórn að leita leiða til að fara betur með sameiginlegt fé borgarbúa í borgarsjóði.  Menningar - og íþróttaráð vill sýna ábyrgð í verki með því að hagræða á næsta ári um 300 milljónir króna með lögbundin verkefni í forgangi og halda sig innan fjárheimilda. Til að svo megi verða þarf að velta við öllum steinum þar með talið að endurskoða gildandi styrktarsamninga við ýmis félög og samtök. Fjöldi samninga rennur út um áramótin og er lagt til að heildarfjárhæð þeirra samninga verði lækkuð um 8,4 milljónir.  Í öllum þeim tilvikum er um að ræða fjárhæðir á bilinu 600 þúsund til 2,7 milljónir.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi gönguskíðabraut á Hólmsheiði: MIR25120007

    Undanfarið hafa átt sér stað framkvæmdir á Hólmsheiði líklega í tengslum við gerð gönguskíðabrautar. Samhliða hafa borist ábendingar um umfangsmikið jarðrask, lokanir stíga, uppsetningu keðja, staura og skilta, sem og um mögulega grisjun og röskun gróðurs á svæðinu. Um miðjan nóvember var gefið út tímabundið afnotaleyfi til tveggja vikna og er ljóst að einhverjar framkvæmdir hófust þá og jafnvel fyrr. Umfang þeirra virðist vera talsvert umfram það sem gefið var í skyn í kynningu á verkefninu þegar styrkur til þess var veittur.
    Í ljósi þessa spyrjum við eftirfarandi:
    1.    Hver er nákvæm lega og afmörkun gönguskíðabrautarinnar á Hólmsheiði?
    2.    Á hvaða framkvæmdastigi er verkið statt nú?
    3.    Liggur fyrir formleg áætlun um framvindu verksins, áfanga og verklok?
    4.    Lokun stíga og aðgengismál
    •    Hver tók ákvörðun um lokanir stíga með keðjum, staurum og skiltum, líkt og gert hefur verið á svæðinu?
    •    Á grundvelli hvaða reglna, heimilda eða stjórnvaldsákvarðana voru þær lokanir gerðar?
    •    Hver ber ábyrgð á upplýsingagjöf til almennings um lokanir og aðgengi að svæðinu?
    5.    Hve breið er brautin og þarf að fella tré til að koma henni fyrir?
    6.    Liggja fyrir sérstakar heimildir fyrir jarðraski, flutningi grjóts, slóðagerð, grisjun eða trjáfellingum á svæðinu?
    •    Ef ekki, hver hefur þá farið um svæði á ökutækjum og vinnuvélum utan slóða, rofið jörð, fellt tré og sagað greinar?
    7.    Hver fer með formlegt eftirlit með framkvæmdunum fyrir hönd borgarinnar?
    8.    Liggja fyrir upplýsingar um hvort einhver samtök eða fyrirtæki, svo sem Fákur, Skógrækt Reykjavíkur eða Veitur, standi að framkvæmdum og/eða lokunum stíga á því svæði sem afmarkast af Mjódalsvegi til suðurs, Hólmsheiðarvegi til austurs og Reynisvatni til norðurs?

    Fylgigögn

  9. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn fulltrúa Framsóknarflokksins um Íþróttafélagið Fylki: MIR25120008

    Óskað er eftir upplýsingum um hver staða málsins er varðandi samning Reykjavíkurborgar við Íþróttafélagið Fylki, sem undirritaður var í desember 2017 og laut að afsali félagsins á æfingasvæði við Hraunbæ gegn endurgjaldi vegna uppbyggingar á aðstöðu við Fylkisveg.
    Sérstaklega er óskað eftir svörum við eftirfarandi:
    1.    Hver er núverandi staða efnda samningsins af hálfu Reykjavíkurborgar?
    2.    Hafa tekjur af sölu þeirra lóða sem samningurinn tók til verið gerðar upp gagnvart Íþróttafélaginu Fylki í samræmi við ákvæði samningsins, og ef ekki, hvers vegna?
    3.    Hefur verið unnið mat á þeirri fjárhæð sem Reykjavíkurborg kann að skulda Íþróttafélaginu Fylki vegna vanefnda samningsins, og liggi slíkt mat fyrir, hver er niðurstaðan?
    4.    Eru áform uppi um að ljúka efndum samningsins og ef svo er, samkvæmt hvaða tímaramma?

Fundi slitið kl. 11:45

Skúli Helgason Kristinn Jón Ólafsson

Sara Björg Sigurðardóttir Birkir Ingibjartsson

Kjartan Magnússon Friðjón R. Friðjónsson

Ásta Björg Björgvinsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- og íþróttaráðs 12.12.2025 - Prentvæn útgáfa