Menningar- og íþróttaráð
Ár 2025, föstudaginn 14. nóvember var haldinn 17. fundur menningar- og íþróttaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Sara Björg Sigurðardóttur, Friðjón R Friðjónsson, Kristinn Jón Ólafsson, Kjartan Magnússon og Stefán Pálsson. Frímann Ari Ferdinandsson varaáheyrnarfulltrúi ÍBR. Jafnframt: Steinþór Einarsson, Atli Steinn Árnason, Helga Friðriksdóttir, Elín Hrefna Ólafsdóttir og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á vinnu stýrihóps um stefnumótun fjölmenningarborgarinnar Reykjavík. MIR25040003
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ný stefna um fjölmenningarborgina Reykjavík byggir á grundvallargildum um inngildingu, virka þátttöku, virðingu fyrir fjölbreytileika og áherslu á Reykjavíkurborg sem þjónandi forystu og vinnustað sem mætir þörfum fólks óháð uppruna. Stefnan er mikilvægt innlegg í þjóðfélagsumræðu hérlendis sem í alltof miklum mæli hefur einkennst af fordómum og skautun. Menningar– og íþróttaráð mun nú taka til við að móta tillögur um aðgerðir sem þjóna fyrrnefndum markmiðum á starfsstöðvum sviðsins, þar sem leiðarljósið verður ekki síst að auka þátttöku innflytjenda í menningarstarfi, íþróttum og heilsueflingu.
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Reykjavík hefur það hlutverk að styðja við virka þátttöku fyrir öll í menningar-, íþrótta- og tómstundastarfi óháð uppruna eða stöðu. Til þess þarf að fjarlægja raunverulegar hindranir og styðja sérstaklega við þau sem hingað til hafa ekki haft raunhæfan aðgang að slíku starfi, þannig verður inngilding að veruleika, ekki aðeins stefnu á blaði. Markviss móttaka, leiðsögn og samstarf við félög og stofnanir eru lykilatriði til að skapa öryggi og tilheyra í borgarsamfélaginu. Við þurfum að styðja félögin og stofnanirnar í að ná til fleiri hópa, grípa þau sem eru á jaðrinum og tryggja að starfið sé aðgengilegt fyrir öll, hvort heldur sem áherslan er á afreksstarf eða heilsueflandi þátttöku almennings. Jafnframt þarf skýra tengingu við aðrar ráðstafanir borgarinnar, m.a. íslenskukennslu, sem er grundvöllur þess að geta tekið þátt til jafns við aðra.
Sabine Leskopf tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
kl. 09:18 tekur Ásta Björg Björgvinsdóttir sæti á fundinum.
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga um stofnun starfshóps sem greinir tækifæri til uppbyggingar útivistarsvæðis á Austurheiðum og við vötnin þrjú Langavatn, Reynis- og Rauðavatn. MSS25110035
Meirihluti Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja til að stofnaður verði starfshópur með fulltrúum útilífsborgarinnar hjá MÍR og fulltrúum frá skipulaginu og deildum náttúru og gæða og opinna svæða hjá USK sem greinir tækifæri til að byggja upp fjölbreytt tækifæri til útivistar í Austurheiðum og Rauðavatn til skemmri og lengri tíma og til að koma ennfrekar til móts við fólk til að njóta útivistar og hreyfingar í anda lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar.
Samþykkt.
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Austurheiðar eru hin nýja Heiðmörk Reykvíkinga en mikil tækifæri til útivistar er að finna í Austurheiðum og vötnunum þremur, Rauðavatni, Reynisvatni og Langavatni. Áður en farið er í uppbyggingu er mikilvægt að að kortleggja tækifærin á svæðinu með ólíka útivistarmöguleika í huga, bæði til skemmri og lengri tíma, koma með tillögur og forgangsraða út frá fjárhags- og faglegum sjónarmiðum. Brýnt er að tillögurnar fangi sem flestar tegundir útivistar í sem mestri sátt en mikilvægt er finna lausnir sem henta ólíkum hópum án þess að öryggi vegfarenda sé stefnt í hættu. Austurheiðar er svæðið sem tengist inn á Græna trefillinn og er heiti yfir skógræktar- og útivistarsvæði við útmörk sveitarfélaganna sjö á höfuðborgarsvæðinu. Starfshópurinn mun hafa til hliðsjónar bæði Lýðheilsustefnu Reykjavíkurborgar, stefnu í Íþróttamálum til 2030 og hjólreiðastefnu 2030 en þar eru leiðarvísar til að skapa heilsueflandi og öruggt samfélag þar sem fólk á öllum æviskeiðum hefur jöfn tækifæri til að hlúa að andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu.
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að tryggja virkt samtal og samráð við hagaðila og notendur svæðisins með það að markmiði að efla aðgengi borgarbúa að svæðunum og skapa fjölbreytt tækifæri til útivistar. Forvarnarstarf á sér stað í slíku umhverfi og er það hvati til hreyfingar, félagslegrar þátttöku og á sama tíma mikilvægt innlegg í bætt lífsgæði og lýðheilsu.
Fylgigögn
-
Lögð fram drög að viljayfirlýsingu vegna varanlegs húsnæðis fyrir Klifurfélag Reykjavíkur. MIR25110003
Samþykkt.
Fulltrúar menningar- og íþróttaráðs leggja fram svohljóðandi bókun:
Klifurfélag Reykjavíkur er ört vaxandi íþróttafélag í borginni sem heldur úti öflugu barna- og unglingastarfi og hefur félaginu vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum með þróttmiklu starfi sem laðar til sín sífellt fleiri iðkendur á öllum aldri. Hátt í annað þúsund iðkendur nýta aðstöðu Klifurfélagsins en frekari vöxtur er ekki síst háður því að félagið fái betri aðstöðu fyrir sína starfsemi. Menningar- og íþróttaráð styður það að félaginu verði tryggt varanlegt framtíðarhúsnæði með viljayfirlýsingu þar sem Reykjavíkurborg lýsir sig reiðubúna til að mæta auknum leigukostnaði Klifurfélagsins þegar félagið finnur sér varanlegt framtíðarleiguhúsnæði.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað um uppbyggingu á Ylströndinni ódags. MIR25110004
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Ylströndin í Nauthólsvík hefur þjónað borgarbúum og öðrum gestum í aldarfjórðung og á 25 ára afmælinu er við hæfi að horfa til framtíðar og kortleggja hvernig megi bæta aðstöðuna til að gera upplifun gesta enn betri. Fyrir liggja teikningar að nýjum heitum potti og vaxandi spurn er eftir þurrgufu í takt við tíðarandann. Þá er þörf á bættri aðstöðu fyrir ört vaxandi hóp sjósundsgesta, auk bættrar salernisaðstöðu og grillaðstöðu svo eitthvað sé nefnt. Næstu skref eru að tryggja fjármagn til að hefja hönnunarvinnu fyrir þessar framkvæmdir, sem vonandi skilar jákvæðri niðurstöðu í nánustu framtíð.
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Mikilvægt er að svæðið verði þróað út frá skýrri heildarsýn sem tryggir að það nýtist sem allra best fyrir fólk, með aðgengi og þjónustu í forgangi. Heildarskipulag þarf að taka mið af fjölbreyttum notendum, lýðheilsu og framtíðarvexti, þannig að uppbygging á svæðinu verði bæði sjálfbær og samfélagslega gagnleg til lengri tíma.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um fjárhags- og fjárfestingaráætlun. MIR25110006
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Minnt er á fyrri tillögur Sjálfstæðisflokksins um að ráðist verði í lagningu nýs gervigrass á gervigrasvöll Íþróttafélags Reykjavíkur við Skógarsel og þannig tryggt að félagið geti leikið heimaleiki sína á eigin félagssvæði í samræmi við reglur KSÍ. Til þess þarf að breyta legu vallarins að hluta, stækka öryggissvæði og koma jafnframt fyrir vökvunarbúnaði, sem myndi bæta endingu hans og draga úr slysahættu. Ráðast átti í framkvæmdina á yfirstandandi ári en af því varð ekki af ýmsum orsökum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja þunga áherslu á að þessari mikilvægu framkvæmd verði ekki frestað frekar og að ráðist verði í hana á árinu 2026.
-
Lögð fram stöðuskýrsla spretthóps dags. í nóvember 2025 um þjónustu við ungbarnafjölskyldur í sundlaugum borgarinnar. MIR25090007
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fyrstu niðurstöður sýna að grunnþjónusta fyrir barnafjölskyldur er almennt góð í sundlaugum borgarinnar. Hins vegar má bæta aðstöðu fyrir yngstu börnin sérstaklega, t.d. er aðeins ein sundlaug með afgirt svæði fyrir fólk með börn í búningsklefa, þrjár rennibrautir til staðar fyrir 3 ára og yngri, og vatnshiti nær víða ekki ráðlögðum 34–36°C fyrir ung börn, eða í tveimur innilaugum og þremur útilaugum af átta sundlaugum borgarinnar. Mikilvægt er að bjóða upp á fjölbreytta og aðgengilega aðstöðu fyrir ungbarnafjölskyldur í sundlaugum borgarinnar, þótt allar þeirra þurfa ekki að bjóða upp á sömu þjónustu. Áhugavert væri að greina sérkenni hverrar laugar og gera könnun meðal íbúa hvaða laugar ætti að byggja upp með sérstaka áherslu á börn og fjölskyldur. Meirihlutinn leggur til að spretthópurinn móti fyrstu drög að tillögum byggt á núverandi vinnu sem verði kostnaðarmetnar gróflega fyrir 20. nóv. 2025. Þá verði stefnt að því fara í þjónustukönnun og samráð með íbúum um þá aðstöðu og þjónustu sem betrumbæta mætti gagnvart börnum og fjölskyldum, með sérstaka áherslu á ungbarnafjölskyldur, í sundlaugum borgarinnar í samráði við þjónustuhönnuði Þjónustu- og nýsköpunarsviðs.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað frá samráðsfundi mannréttindaráðs dags. 31. október 2025 þar sem fjallað var um: Hvernig er að vera foreldri af erlendum uppruna í Reykjavík. MSS25010051
Fylgigögn
-
Lögð fram tillaga að breyttu skipulagi á ráðningum sumarliða hjá Reykjavíkurborg. MIR25110002
Menningar- og íþróttasvið leggur til að umgjörð um verkefnið Sumarliðar í Reykjavík verði breytt á þá leið að styrktarsjóður verði settur á laggirnar með skýrum og aðgengilegum reglum. Félög geti sótt um styrk og Reykjavíkurborg veiti þá styrki sem jafngildi launum og launatengdum gjöldum sumarliða en það verði á ábyrgð félaga að ganga frá ráðningarsamningum við sumarliðana.
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga Sjálfstæðisflokksins um íþróttafulltrúa hjá Leikni frá 15. fundi menningar- og íþróttaráðs liður 13. MIR25040006
Vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins samþykkja að tillögu þeirra um stuðning við Íþróttafélagið Leikni um starf íþróttafulltrúa á vegum félagsins, verði vísað til fjárhagsáætlunargerðar, í trausti þess að hún hljóti þar jákvæða umfjöllun og afgreiðslu. Leiknir gegnir afar mikilvægu hlutverki í þágu íþrótta- og æskulýðsmála í Efra Breiðholti.
-
Lagt fram að nýju bréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 8. október 2025 þar sem vísað er til meðferðar menningar- og íþróttaráðs tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um minnismerki um Gunnar Gunnarsson rifhöfund. USK25090148
Jafnframt lögð fram skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs dags. í júlí 2025 vegna fyrirhugaðrar íbúauppbyggingar á lóðinni að Laugarásvegi 59.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi breytingartillögu:
Gunnar Gunnarsson var merkur rithöfundur sem markaði djúp spor í íslenska bókmenntasögu. Reykjavíkurborg hefur haldið minningu hans á lofti með myndarlegum hætti. Borgin festi kaup á húsi skáldsins að Dyngjuvegi 8 árið 1991, fól það síðar Rithöfundasambandinu til afnota og að lokum fullrar eignar á menningarnótt 2012. Gunnarshús stendur því sem glæsilegur minnisvarði um höfundinn.
Það er hins vegar vel viðeigandi, nú á fimmtíu ára ártíð Gunnars Gunnarssonar, að huga að því að rifja upp lífsstarf Gunnars og eiginkonu hans Franziscu Gunnarsdóttur, sem hvíla í Viðeyjarkirkjugarði. Töldu hjónin að sá garður væri jafnhelgur kaþólsku fólki og lútersku, en þau voru sitthvorrar trúarinnar. Lagt er til að Borgarsögusafni verði falið að leggja mat á hvort tilefni sér til að koma upp söguskilti um Gunnar og Franziscu í Viðey.
Samþykkt með 4 atkvæðum Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna gegn 3 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar samstarfsflokkanna eru sammála því markmiði tillögunnar að nýta hálfrar aldar ártíð Gunnars Gunnarssonar til að halda minningu skáldsins og Franziscu konu hans á lofti. Betur færi þó á því að gera það á fjölsóttum ferðamannastað á borð við Viðey, þar sem hjónin hvíla, en í miðju íbúðahverfi þar sem mun færri ættu leið um.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fyrir liggur tillaga Sjálfstæðisflokksins um að minnismerki um Gunnar Gunnarsson rithöfund, verði komið fyrir á Gunnarstúni við Laugarásveg 59. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggjast gegn breytingartillögu Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna um málið, sem felur í sér að í stað minnismerkis um skáldsins á Gunnarstúni verði söguskilti komið fyrir úti í Viðey. Sjálfsagt er að setja upp söguskilti um skáldið í Viðey en það er annað mál. Markmið breytingartillögu meirihlutans er greinilega að búa frekar í haginn fyrir uppbyggingu á Gunnarstúni í andstöðu við íbúa, stofnanir og íbúasamtök, sem hafa tjáð sig um málið. Fjölmargir íbúar hafa lýst yfir áhyggjum og andstöðu við þær hugmyndir, sem uppi eru, um að reisa íbúðarhús á Gunnarstúni. Túnið er vinsælt leiksvæði barna og unglinga í hverfinu, ekki síst sem sleðabrekka að vetri. Hugmyndir um að byggja á svæðinu ganga í berhögg við vaxandi skilning og viðurkenningu á þýðingu grænna útivistarsvæða inni í hverfum, sem m.a. kemur fram í nýrri borgarhönnunarstefnu. Undirskriftalisti með nöfnum 432 íbúa hefur verið lagður fram þar sem andstöðu er lýst við umrædd byggingaráform meirihluta borgarstjórnar á túninu og óskað eftir því að það verði verndað. Þá mælir Stofnun Gunnars Gunnarssonar eindregið gegn því að Reykjavíkurborg rjúfi gamalt samkomulag um að ekki skuli byggt á umræddri lóð.
Fylgigögn
-
Fulltrúar Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hver er skipting frístundakortsins milli allra félaga í Reykjavík árið 2024 og fyrir árið 2025 til 15.11. 2025, út frá iðkendum innan hverfa ekki bara stærstu fjölgreinafélaganna heldur allra félaga eftir aldri, kyni og lögheimilsbúsetu í samanburði við skráða iðkenndur félaganna í Abler.
Hverjar eru tölur iðkennda, eftir aldri, kyni, lögheimili og tómstund í abler og þeirra sem raunverulega greiða æfingagjöld í samanburði við nýtingu frístundastyrksins?
Hvað eru mörg börn sem aldrei nýta frístundastyrkinn út frá lögheimili, kyni og aldri? MIR25110008
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn vegna umsagnar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um aðkomuleiðir að Laugardalsvelli:
Í umsögn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, dags. 31. október 2025, vegna breytinga á aðalskipulagi í Laugardal, kemur fram að verði fyrirhugaðar breytingar á aðkomuleiðum að Laugardalsvelli að veruleika sé „afar líklegt að útkallstími lögreglu lengist til muna“ og að öryggi gesta verði þar með „sett í hættu“.
Lögreglan leggur jafnframt áherslu á að að minnsta kosti tvær virkar aðkomuleiðir verði tryggðar að vellinum og telur að verði aðeins ein aðkomuleið, verði að hámarki hægt að taka á móti 5.000 gestum á leikjum og tónleikum, í stað allt að 20.000 gesta áður.
Í ljósi þessara athugasemda eru lagðar fram eftirfarandi spurningar til menningar- og íþróttaráðs Reykjavíkurborgar:
1. Hyggst menningar- og íþróttaráð bregðast við umsögn Lögreglunnar og þeim öryggisáhyggjum sem þar koma fram?
2. Hefur verið metið hvaða áhrif slík takmörkun á aðkomuleiðum myndi hafa á rekstur og framtíðarnýtingu Laugardalsvallar, þar með talið á möguleika til að halda landsleiki eða aðra fjölmennari viðburði?
3. Mun menningar- og íþróttaráð óska eftir endurmati á skipulagi svæðisins með hliðsjón af ábendingum Lögreglunnar?
4. Hver ber ábyrgð á samráði við lögreglu, slökkviliði og Neyðarþjónustu um aðkomu, öryggis- og flóttaleiðir við Laugardalsvöll og nærliggjandi íþróttasvæði?
Fundi slitið kl. 11:40
Skúli Helgason Kristinn Jón Ólafsson
Sara Björg Sigurðardóttir Stefán Pálsson
Friðjón R. Friðjónsson Kjartan Magnússon
Ásta Björg Björgvinsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- og íþróttaráðs frá 14. nóvember 2025