Menningar- og íþróttaráð
Ár 2025, föstudaginn 10. október var haldinn 15. fundur menningar- og íþróttaráðs. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 14, Hofi og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru: Skúli Helgason formaður, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Friðjón R Friðjónsson, Kristinn Jón Ólafsson, Kjartan Magnússon, Sara Björg Sigurðardóttir og Stefán Pálsson. Jóna Hlíf Halldórsdóttir áheyrnarfulltrúi BÍL og Frímann Ari Ferdinandsson varaáheyrnarfulltrúi ÍBR. Jafnframt: Steinþór Einarsson, Atli Steinn Árnason, Arnfríður Sólrún Valdimarsdóttir, Helga Friðriksdóttir, Elín Hrefna Ólafsdóttir og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Fram fer kynning á úttekt á húsnæðismálum sjálfstæðra sviðslista á höfuðborgarsvæðinu og tillögur til úrbóta. MIR24110005
Vigdís Jakobsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svofellda bókun:
Haustið 2023 var undirritað samkomulag milli Reykjavíkurborgar og menningar og viðskiptaráðuneytis um samstarf til að efla stöðu sviðslista á höfuðborgarsvæðinu. Ráðist var í þarfagreiningu og úttekt á aðstöðu sviðslista á svæðinu og liggur sú greining nú fyrir. Helstu niðurstöður hennar er að mikil þörf er á sýninga- og æfingarými fyrir sjálfstæða sviðslistahópa á höfuðborgarsvæðinu. Lagt er til að fullnýta rými í opinberri eigu og sameina rekstur Tjarnarbíós og Iðnó undir einum hatti; setja á fót tilraunaverkefni um Listamannadvöl í óhefðbundnum rýmum; setja á fót nýtt sýningarrými: Svartan kassa fyrir sjálfstæða hópa; hefja undirbúning að stofnun sérhæfðs Danshúss í samvinnu við ríkið og loks að fjárfesta í færanlegu leiksviði fyrir sjálfstæða hópa. Hér er um að ræða afar spennandi og metnaðarfullar tillögur sem forsvarsmenn ráðsins munu fara vel yfir með nýjum ráðherra menningarmála.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir úttekt á húsnæðismálum sjálfstæðra sviðslista á höfuðborgarsvæðinu og þær tillögur til úrbóta sem unnar voru að beiðni Menningarráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Fulltrúarnir taka undir að bæta þurfi aðstöðu sviðslista og margar tillögurnar eru allrar athugunar verðar. Ákvörðun þáverandi menningarmálaráðherra um að flýta flutningi Listaháskólans úr Laugarnesi á Skólavörðuholtið, með tilheyrandi sparnaði, getur skapað tækifæri fyrir sviðslistir í borginni. Einnig hvetja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til þess að forsvarsmenn ráðsins og sviðsins eigi samtal við Umhverfis- og skipulagssvið og Eignaskrifstofu um framtíðarskipulag borgarinnar og þau rými sem nýst gætu fyrir sviðslistir í borginni.
- kl. 09:57 víkur Jóna Hlíf Halldórsdóttir af fundi.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á Vetrargarði og framkvæmdum á skíðasvæðum innan Reykjavíkur. MIR25100002.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svofellda bókun:
Fulltrúar samstarfsflokkanna í meirihluta þakka fyrir kynningu á stöðu framkvæmda í Vetragarðinum. Mikill er máttur fjölbreyttrar útivistar innan borgarmarkanna en einstök lífsgæði eru fólgin í sameiginlegum svæðum okkar er stuðla að góðri lýðheilsu, efla forvarnir og hvetja til heilbrigðs lífstíls. Vetrargarðurinn er einn af þessum stöðum en að markmið hans er að skapa svæði til vetraríþrótta og útilífs sem stuðlar að útivist og hreyfingu í fjölskylduvænu umhverfi fyrir byrjendur skíðaíþróttarinnar. Mikil tækifæri eru fólgin í því að kynna fyrir börnum í leik- og grunnskóla gæði vetraríþrótta, opna fyrir þeim heim fjölbreytar útivistar allan ársins hring og auka íþróttaþátttöku barna í hverfinu. Bætt skíða- og snjóbrettaðstaða fyrir skíðafélögin mun laða að sér frekari iðkendur og framkvæmdin mun styðja við áframhaldandi uppbyggingu í Bláfjöllum og Skálafelli. Fulltrúar samstarfsflokkanna í meirihluta styðja við áframhaldandi fjarfestingaráætlun uppbyggingu Vetrargarðsins þannig að ungir sem aldnir geti aftur rennt sér í Breiðholti og notið stórkostlegs útsýnis yfir borgina og Faxaflóann.
Fulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Framsóknar þakkar fyrir fína kynningu á Vetrargarðinum, ljóst er að um stórt og metnaðarfullt verkefni er að ræða sem myndi auka möguleika íbúa Reykjavíkur til að stunda skíði og aðrar vetraríþróttir. Fulltrúi Framsóknar vill benda á, að mikilvægt er að hugað sé að gerð bílastæða og að almenningssamgöngur hafi greiða leið að þessu svæði, svo að sem flestir íbúar getið haft not á því sem Vetrargarðurinn mun bjóða upp á.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir þakkir fyrir kynningu á stöðu framkvæmda við Vetrargarðinn. Beint lá við að nýta tækifærið sem framkvæmdir við Arnarnesveg sköpuðu til að stækka og bæta brekkuna. Ljóst er þó að fjárfesting og rekstrarkostnaður verða umtalsverð og mikilvægt að almannafé sé vel varið. Brekkan mun bjóða upp á stórbætta aðstöðu til skíða- og snjóbrettaiðkunar í þéttbýli og eflaust verða til þess að kynna vetraríþróttir fyrir borgarbúum, ungum sem öldnum, og stuðla þannig að lýðheilsu og heilbrigðum lífsstíl.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á skýrslu ÞON um sánur í sundlaugum Reykjavíkur ásamt minnisblaði skrifstofustjóra íþróttaborgar dags. 8. október. 2025. MIR24120007.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Niðurstöður viðhorfskönnunar sundlaugagesta í Reykjavík sýnir mikla ánægju með þjónustu sundlauganna en nærri 95% þátttakenda voru mjög ánægðir með sundlaugar borgarinnar. Sérstaklega var spurt um afstöðu til gufubaðsþjónustu sundlauganna og mismunandi tegunda gufu, þar sem þurrgufa eða sána nýtur mestra vinsælda, blautgufa eða gufubað kemur þar á eftir og loks infrarauð gufa. Menningar- og íþróttaráð þakkar sérstaklega fyrir góða og faglega vinnu með áherslu á þjónustustefnu Reykjavíkurborgar. Niðurstöðurnar leiða í ljós að þjónustuframboð sundlauganna megi gjarnan vera mismunandi en mikilvægt að upplifun gesta sé góð. Tækifæri eru í því til framtíðar að rýna enn frekar styrkleika hverrar hverfislaugar heildrænt og þá hvaða markhópum þær eigi að sérhæfa sig gagnvart til þess að efla þjónustuupplifun sundlaugargesta borgarinnar.
Fylgigögn
-
Lagt fram minnisblað skrifstofu MÍR dags. 8. október 2025 varðandi innleiðingu tillagna stýrihóps um aukið frístundastarf á Kjalarnesi. MIR24010004.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Lagt er fram minnisblað um stöðu innleiðingar á tillögum stýrihóps um aukið framboð frístundastarfs á Kjalarnesi. Ánægjulegt er að sjá að aukin þjónusta Strætó eflir aðgengi barna og ungmenna að íþróttastarfsemi, þá stendur til að innleiða tillögu um að boðið verði upp á dansnámskeið fyrir börn og ungmenni á svæðinu og hafinn er undirbúningur að kórastarfi í samvinnu við stjórnendur Klébergsskóla. Þá er mikilvægt að fylgt verði eftir tillögu um að boðið verði upp á starf fyrir ungmenni í björgunarsveitinni Kili enda er leitun að frístundastarfi sem gefur ungu fólki jafn fjölbreytta og gefandi reynslu og starf með björgunarsveitum.
Fylgigögn
-
Lögð fram drög að samningi við Sporið um lagningu skíðagöngubrauta á Austurheiðum og á Rauðavatni. MIR25100003.
Samþykkt.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Gönguskíðaiðkun nýtur vaxandi vinsælda í borginni enda frábær útivist og holl hreyfing. Samningur við Sporið um lagningu gönguskíðabrauta á Austurheiðum og við Rauðavatn felur í sér spennandi tækifæri til að auka veg skíðagöngu í borginni og gera hana aðgengilegri fyrir borgarbúa auk þess að bæta aðstöðu til skíðaæfinga innan borgarmarkanna. Með þessu móti er verið að stuðla að bættri lýðheilsu borgarbúa með aukinni hreyfingu og útiveru í anda lýðheilsustefnu borgarinnar og stefnu í íþróttamálum til ársins 2030.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um stöðu innleiðingar á stafrænu borgarkorti. MIR25050004.
-
Lagt fram minnisblað dags. 10. október 2025 um styrki til íþrótta- og æskulýðsmála vegna 2025. MIR25100004.
Tilhögun sú sem fram kemur í minnisblaðinu samþykkt.
Fylgigögn
-
Rætt um skipun menningar- og íþróttaráðs í styrkjahóp vegna úthlutunar styrkja vegna íþrótta- og æskulýðsmála 2026. MIR25100004.
Samþykkt að Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Kristinn Jón Ólafsson og Sara Björg Sigurðardóttir sitji í hópnum.
-
Lagður fram styrktarsamningur milli mennta- og barnamálaráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og Íþróttabandalags Reykjavíkur dags. 4. október 2025 um Breiðholtsverkefnið. MIR25100001.
Fulltrúar meirihluta Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Breiðholtsverkefnið um aðgerðir til að auka þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu frístundastarfi í Breiðholti er nú hafið en menningar- og íþróttaráð samþykkti að taka þátt í verkefninu 27. júní síðastliðinn með sérstakri fjárveitingu og aðkomu að stjórnun verkefnisins. Nú hefur verið undirritaður samningur milli borgarinnar og mennta- og barnamálaráðuneytis um að ráðuneytið styrki verkefnið um 21 milljón króna sem er afar mikilvægt framlag til að auka slagkraft verkefnisins. Sérstakur stýrihópur tekur til starfa á næstunni og mun leggja línur varðandi það frístundaframboð sem boðið verður upp á í samvinnu við starfsmenn verkefnisins, íþróttafélögin í hverfinu, skólasamfélagið o.fl.
Fylgigögn
-
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 9. fundi menningar- og íþróttaráðs 13. júní 2025 um fræðsluskipti um Hólavallaskóla. MIR25060007.
Samþykkt að vísa tillögunni til gerðar fjárhagsáætlunar.
-
Lagt fram svar fjármálastjóra MÍR dags. 3. október 2025 við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á fundi menningar- og íþróttaráðs 26. september 2025 um tekjur af rekstri Fjölskyldu- og húsdýragarðsins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka fyrir framlagðar upplýsingar um tekjur og gjöld Fjölskyldu- og húsdýragarðsins. Núvirt framlag Reykvíkinga til garðsins stefnir í tæpa 7 milljarða á þessum aldarfjórðungi. Áhyggjur vekur að þróunin í rekstri sé óhagfelld þar sem hallinn eykst. Á síðustu tíu árum hafa útsvars- og skattgreiðendur greitt ríflega 3,6 milljarða með rekstri garðsins. Mikilvægt er að endurskoða rekstur garðsins þannig að þessi mikilvægi staður í borginni nýtist áfram sem uppspretta ánægju og fræðslu, en aðhalds og ráðdeildar verði gætt í rekstri.
Fylgigögn
-
Lagt fram fundardagatal MÍR til áramóta. MIR25100007
Samþykkt.
Fylgigögn
-
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að gerður verði samningur við Íþróttafélagið Leikni í Breiðholti um stuðning borgaryfirvalda við starf íþróttafulltrúa á vegum félagsins í tengslum við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2026. Samningurinn taki mið af þeim samningum, sem þegar hafa verið gerðir við önnur hverfisíþróttafélög í borginni.
Frestað.
Fundi slitið kl. 11:35
Skúli Helgason Kristinn Jón Ólafsson
Sara Björg Sigurðardóttir Stefán Pálsson
Kjartan Magnússon Friðjón R. Friðjónsson
Aðalsteinn Haukur Sverrisson
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð menningar- og íþróttaráðs frá 10. október 2025