Menningar- og ferðamálaráð
MENNINGARMÁLANEFND
Árið 2000, miðvikudaginn 9. ágúst hélt menningarmálanefnd sinn 309. fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 14.00. Fundinn sátu Guðrún Jónsdóttir formaður, Anna Geirsdóttir, Eyþór Arnalds og Júlíus Vífill Ingvarsson. Jafnframt sátu fundinn Tryggvi M. Baldvinsson, Valgerður Bergsdóttir, María Karen Sigurðardóttir, Elísabet B. Þórisdóttir, Sigurbjörg U. Guðmundsdóttir og Signý Pálsdóttir, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Dreift var til nefndarinnar geisladisknum ,,Dans stöðumælanna’’ sem Ingvi Þór Kormáksson hafði gefið út með styrk frá nefndinni og sendi henni. Þá var dreift sýningarskrám frá ljósmyndaranum Marisa Navarro Arason vegna sýningarinnar Óratoría hafsins, sem haldin var með styrk frá nefndinni. Jafnframt voru lagðar fram niðurstöður dómnefndar um aldamótasamkeppni um útilistaverk í Reykjavík.
2. Formaður kynnti erindi frá Þórunni Sigurðardóttur, stjórnanda M-2000. Í tilefni af því að menningarborgir Evrópu árið 2000 halda aðalfund sinn í Reykjavík dagana 18.-20. ágúst n.k. verður haldinn sérstakur fundur, þar sem gestur verður breski fræðimaðurinn Charles Landry og heldurinn hann fyrirlesturinn ,,How to stay a creative cultural city”. Menningarmálanefnd var boðið á fyrirlesturinn.
3. Kynnt var hátíðadagskrá á afmæli Reykjavíkurborgar fö. 18. júní 2000 í tilefni formlegrar opnun Grófarhúss, afhendingar Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar og starfslauna listamanna. Tafir við framkvæmdir gætu haft áhrif á hvort full starfsemi geti hafist á Ljósmyndasafni og Borgarbókasafni strax eftir formlega opnun.
4. Lagðar voru fram niðurstöður dómnefndar um val á Tónlistarhópi Reykjavíkur árið 2000. Í dómnefnd sátu Anna Geirsdóttir, sem jafnframt er formaður, Eyþór Arnalds, Tryggvi M. Baldvinsson B.Í.L, Lára Rafnsdóttir F.Í.T., og Árni Scheving F.Í.H.. 11 umsóknir bárust. Dómnefnd komst einróma að þeirri niðurstöðu að veita skyldi tríóinu Guitar Islancio styrkinn að þessu sinni, en hann er skipaður þeim Birni Thoroddsen, Gunnari Þórðarsyni og Jóni Rafnssyni. Menningarmálanefnd var samþykk niðurstöðum dómnefndar og mun því mælast til þess við borgarráð að Guitar Islancio verði valinn Tónlistarhópur Reykjavíkur 2000.
5. Ræddar voru umsóknir um starfslaun. Fulltrúar faghópa er fjallað höfðu um umsóknirnar gáfu sitt álit, Tryggvi M. Baldvinsson um tónlist, Signý Pálsdóttir um leiklist og kvikmyndir, María Karen Sigurðardóttir um bókmenntir og leikritun og Valgerður Bergsdóttir um myndlist. Menningarmálanefnd ákvað að halda aukafund þann 14. ágúst til að komast að niðurstöðum.
Fundi slitið kl.16.00
Guðrún Jónsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson Anna Geirsdóttir
Eyþór Arnalds