Menningar- og ferðamálaráð
Ár 2015, mánudaginn 28. september var haldinn 244. fundur menningar- og ferðamálaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 13:32. Viðstaddir: Elsa Hrafnhildur Yeoman, Þórgnýr Thoroddsen, Margrét Norðdahl, Stefán Benediktsson, Magnús Arnar Sigurðsson, Júlíus Vífill Ingvarsson og Marta Guðjónsdóttir. Áheyrnarfulltrúi vinstri grænna: Elín Oddný Sigurðardóttir. Áheyrnarfulltrúar BÍL: Kolbrún Halldórsdóttir og Jóna Hlíf Halldórsdóttir. Áheyrnarfulltrúi SAF: Rannveig Grétarsdóttir. Af hálfu starfsmanna: Berglind Ólafsdóttir, Signý Pálsdóttir og Auður Halldórsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram 7 mánaða staða Menningar- og ferðamálasviðs. Trúnaðarmál. (RMF15050008)
2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 16. september 2015, þar sem fram kemur að borgarstjórn hafi samþykkt á fundi sínum 15. september 2015 að Margrét Norðdahl taki sæti Dóru Magnúsdóttur í menningar- og ferðamálaráði og Eva Indriðadóttir taki sæti Margrétar Norðdahl sem varamaður í ráðinu. (RMF14060015)
3. Kynnt verk sem er hluti af Berlínarmúrnum og Reykjavíkurborg hefur þegið að gjöf. (RMF15090005)
4. Kristín Viðarsdóttir verkefnastjóri Bókmenntaborgar kynnir Lestrarhátíð 2015. (RMF15090006)
5. Lögð fram svohljóðandi tillaga hverfisráðs Hlíða dags. 20. september 2015 vegna nýs listaverks á Klambratúni:
Hverfisráð Hlíða óskar eftir að borgarráð og menningar- og ferðamálaráð í samráði við Listasafn Reykjavíkur hrindi af stað framkvæmd um nýtt listaverk á Klambratúni í stað höggmyndar af Einari Ben sem flutt var að Höfða og að sú vinna fari fram í góðum tengslum við Hverfisráð Hlíða. Hverfisráð leggur til að fram fari samkeppni um verkið og að verkið hafi tengsl við núverandi hlutverk túnsins sem vettvangur íbúa í hverfinu og borgarbúa allra, til útivistar, leiks og samveru. (RMF14080010)
Samþykkt að vísa til umsagnar safnstjóra Listasafns Reykjavíkur.
6. Lagt fram að nýju bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 17. júlí sl. með ósk um umsögn ráðsins um skýrslu starfshóps um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar. Halldór Nikulás Lárusson kynnir skýrsluna. (RMF15080002)
Umsögn menningar- og ferðamálaráðs um skýrslu starfshóps um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar samþykkt.
7. Lagt fram erindi Listahátíðar í Reykjavík dags. 21. september 2015 um hækkun á framlagi Reykjavíkurborgar til hátíðarinnar og vísað til fjárhagsáætlunargerðar Reykjavíkurborgar 2016. (RMF15020009)
8. Umsóknir um skyndistyrki sem bárust fyrir 31. ágúst 2015 og lagðar voru fram á 243. fundi. (RMF15050005)
Samþykkt að styrkja eftirfarandi verkefni samtals að upphæð kr. 1.200.000:
Kári Þormar fh. Dómkórsins vegna Tónlistardaga Dómkirkjunnar 2015 – 30 ára afmæli Dómkirkjuorgelsins kr. 250.000.
Erla Steinþórsdóttir vegna verkefnisins Skáldhugi í Keilufelli 5, vinnusmiðju í skapandi skrifum fyrir ungmenni í skólaselinu Keilufelli kr. 250.000.
Rúnar Guðbrandsson fh. Heimilislausa leikhússins ETHOS vegna starfsemi leikhópsins á næstu mánuðum kr. 500.000.
Ewa Marcinek fh. Ós pressunar vegna We are Ós/This is us, verkefni sem felst í því að setja upp og kynna viðburð sem byggir á sýningu á bókmenntatextum kvenna af ólíkum þjóðernum og upplestri á verkum sem samin eru í tilefni af 100 ára afmæli kosningarétts kvenna kr. 200.000.
Magnús Arnar Sigurðssson víkur af fundi við meðferð málsins.
9. Skipan stjórnar Barnamenningarhátíðar 2016. (RMF15090003)
Frestað.
10. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra menningarmála dags. 28. september 2015 um tilnefningar í faghóp um styrki menningar og ferðamálaráðs 2016. (RMF15080003)
Samþykkt með fimm greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Framsóknar og flugvallarvina, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menningar- og ferðamálaráði sitja hjá.
Fundi slitið kl. 15:12
Elsa Hrafnhildur Yeoman
Þórgnýr Thoroddsen Stefán Benediktsson
Margrét Norðdahl Júlíus Vífill Ingvarsson
Marta Guðjónsdóttir Magnús Arnar Sigurðsson