Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

Ár 2015, mánudaginn 10. ágúst, var haldinn 241. fundur menningar- og ferðamálaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 13:32. Viðstaddir: Elsa Hrafnhildur Yeoman formaður, Þórgnýr Thoroddsen, Stefán Benediktsson, Dóra Magnúsdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Ingvar Mar Jónsson. Áheyrnarfulltrúar BÍL: Kolbrún Halldórsdóttir og Jóna Hlíf Halldórsdóttir. Áheyrnarfulltrúi vinstri grænna: Elín Oddný Sigurðardóttir. Áheyrnarfulltrúi SAF: Þórir Garðarsson. Af hálfu starfsmanna: Svanhildur Konráðsdóttir, Signý Pálsdóttir og Auður Halldórsdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram til kynningar tillaga hússtjórnar Borgarleikhúss um framlengingu rekstrarsamnings Reykjavíkurborgar og Leikfélags Reykjavíkur sem lögð verður fram í borgarráði. Tillögunni fylgdi greinargerð. (RMF13030005)

- Kl. 13:40 tekur Júlíus Vífill Ingvarsson sæti á fundinum. 

2. Sviðstjóri Menningar- og ferðamálasviðs gerir grein fyrir ferli framundan við ráðningu nýs forstöðumanns Höfuðborgarstofu. (RMF15080004)

3. Einar Bárðarson forstöðumaður Höfuðborgarstofu og Karen María Jónsdóttir verkefnastjóri viðburða kynna Menningarnótt 2015. (RMF15020023)

4. Næstu skref varðandi endurskoðun á aðgerðaáætlun ferðamálastefnu rædd. (RMF14110011)

5. Endurskoðaðar verklagsreglur um styrki menningar- og ferðamálaráðs samþykktar. (RMF15080003) 

6. Lagt fram erindi Hrafnhildar Gunnarsdóttur fyrir hönd Krumma Fims um styrk vegna höfundargreiðslu fyrir ljósmyndir frá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. (RMF15010005) Samþykkt að veita Krumma Films kr. 130.000 samkvæmt aðgerðaráætlun menningarstefnu. 

7. Lagt fram erindi Bandalags íslenskra listamanna dags. 5. júní 2015 um fjölgun áheyrnarfulltrúa í menningar- og ferðamálaráði sem frestað var á 240. fundi. (RMF15020018)

Samþykkt að hafna erindinu með 5 atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Framsóknar og flugvallarvina og Pírata. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiða atkvæði á móti.

8. Lögð fram skýrsla starfshóps um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar dags. 30. júní 2015 ásamt bréfi borgarráðs dags. 17. júlí 2015 þar sem óskað er umsagnar menningar- og ferðamálaráðs. (RMF15080002) 

Frestað. 

9. Tillaga og umsagnir um að glæða borgargarða nýju lífi. (RMF15030012) 

Vísað til meðferðar í áætlanagerð 2016. 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menningar- og ferðamálaráði leggja fram svohljóðandi bókun: 

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um að glæða borgargarða nýju lífi var flutt í borgarstjórn um miðjan marsmánuð. Hún fékk jákvæða umsögn Íþrótta- og tómstundaráðs 24. apríl sl. og sömuleiðis jákvæða umsögn Menningar- og ferðamálasviðs 27. apríl og hefði því ekkert átt að vera að vanbúnaði hefja vinnu í anda hennar. Því var ekki heilsa. Tillaga um að dreifa álagi ferðamanna um borgina og nýta gamla borgargarða á nýjan hátt var laumulega stungið undir stól. Hún var svo dregin fram þremur mánuðum síðar þegar langt var liðið á sumar og vísað annan hring inn í borgarkerfið. Þetta er í samræmi við þær starfsaðferðir sem teknar hafa verið upp á þessu kjörtímabili. Þær felast í því að nýta aldrei og samþykkja aldrei tillögur frá minnihlutanum hversu gagnlegar sem þær kunna að vera. Jafnvel þannig er farið með tillögu sem sett er fram í þeim tilgangi að auka litríki borgarinnar og nýta sköpunarkrafta ungs fólks til þess að kalla borgarbúa og ferðamenn inn í garðana. Margar borgir hafa markvisst dreift álagi vegna ferðamanna með þessum hætti. Við það eykst fjölbreytileiki borgarlífsins og upplifun ferðamannsins verður ekki einvörðungu bundin við gönguferðir um hina sögulegu miðborg. Óskandi hefði verið að borgarfulltrúar meirihlutans hefðu litið upp úr úreltri og gamaldags átakapólitík og nýtt tillöguna til gagns fyrir borgarbúa og þá sem koma að heimsækja Reykjavík.

10. Lögð fram umsögn skrifstofustjóra menningarmála til borgarráðs dags. 30. júlí 2015 um menningarminjar við Grímsstaðarvör. (RMF14090003)

11. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menningar- og ferðamálaráði leggja fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að skipuð verði sérstök ráðgjafanefnd um þær merku fornleifar frá upphafi byggðar sem fundist hafa við Lækjargötu og hafnarmannvirki við Tryggvagötu frá 19. og 20. öld sem komið hafa í ljós við byggingarframkvæmdir. Ráðgjafanefndin verði menningar- og ferðamálaráði, umhverfis- og skipulagsráði og borgarráði til fulltingis og móti tillögur að því með hvaða hætti ofangreindar fornleifar verði best varðveittar til framtíðar og gerðar almenningi sýnilegar. Með stofnun ráðgjafanefndar verði komið á formlegri samvinnu á milli Minjastofnunar og Reykjavíkurborgar um það mikilvæga verkefni að vernda umræddar fornleifar. Minjastofnun verði boðið að tilnefna sérfræðing í nefndina en auk  hans sitji í nefndinni tveir fulltrúar frá Reykjavíkurborg á þessu sérfræðisviði. Tveir kjörnir fulltrúar sitji einnig í nefndinni og annar þeirra verði formaður. Nefndina má stækka eftir því sem þurfa þykir. Sviðsstjóri menningar- og ferðarmálasviðs gerir erindisbréf fyrir nefndina, vinnur að nánari útfærslu og leitar til viðkomandi sviða og ráða eftir hugmyndum og tilnefningum. Ráðgjafanefndin vinni eins hratt og auðið er og geri tímaáætlun á sínum fyrsta fundi sem lögð verður fram í viðkomandi ráðum.

Frestað.

Fundi slitið kl. 16:22

Elsa Hrafnhildur Yeoman

Þórgnýr Thoroddsen Stefán Benediktsson

Dóra Magnúsdóttir Marta Guðjónsdóttir

Júlíus Vífill Ingvarsson Ingvar Mar Jónsson