Menningar- og ferðamálaráð
Ár 2014, mánudaginn 8. september var haldinn 219. fundur menningar- og ferðamálaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 13:31. Viðstaddir: Elsa Hrafnhildur Yeoman formaður, Þuríður Björg Þorgrímsdóttir, Dóra Magnúsdóttir, Stefán Benediktsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Marta Guðjónsdóttir og Ingvar Jónsson. Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna: Elín Oddný Sigurðardóttir. Áheyrnarfulltrúar BÍL: Kolbrún Halldórsdóttir og Jóna Hlíf Halldórsdóttir. Áheyrnarfulltrúi SAF: Þórir Garðarsson.
Af hálfu starfsmanna: Svanhildur Konráðsdóttir, Berglind Ólafsdóttir, Signý Pálsdóttir og Auður Halldórsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Sviðsstjóri og skrifstofustjóri fjármála og rekstrar upplýsa um stöðu vinnu við gerð starfs- og fjárhagsáætlunar 2015-2020. (RMF14010019)
2. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra menningarmála um styrkveitingar menningar- og ferðamálaráðs vegna verkefna á árinu 2015 ásamt drögum að verklagsreglum um úthlutun nýrra styrkja og samstarfssamninga ráðsins. Einnig lagt fram bréf stjórnar Hönnunarmiðstöðvar dags. 5. september 2014. Verklagsreglur samþykktar með áorðnum breytingum og verða sendar borgarráði til staðfestingar. Samþykkt að óska eftir tilnefningum Bandalags íslenskra listamanna og Hönnunarmiðstöðvar samkvæmt samþykktum verklagsreglum. (RMF14080008)
3. Kristín Viðarsdóttir og Lára Aðalsteinsdóttir verkefnastjórar Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO kynna Bókmenntaborgina og helstu verkefni hennar.
4. Lögð fram skýrsla um Menningarnótt 2014. (RMF14080001)
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina óskar eftir sundurliðun á kostnaði sem fram kemur í skýrslu um menningarnótt 2014. Umræddur kostnaður er eftirfarandi:
„…annar dagskrárkostnaður s.s. leiga á húsnæði og vöfflukaffi kr. 1.380.000.“
5. Lögð fram tilnefning stjórnar SAF um áheyrnarfulltrúa í menningar- og ferðamálaráði. (RMF14060013)
6. Lögð fram tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um flutning á styttu Ásmundar Sveinssonar af Einari Benediktssyni sem lögð var fram á fundi borgarráðs þ. 28 ágúst 2014 og vísað til umsagnar Menningar- og ferðamálasviðs. Jafnframt lögð fram umsögn safnstjóra Listasafns Reykjavíkur dags 4. september 2014. Hafþór Yngvason safnstjóri Listasafns Reykjavíkur tekur sæti á fundinum undir þessum lið. (RMF14080010) Menningar- og ferðamálaráð tekur undir umsögn safnstjóra með áorðnum breytingum og vísar til borgarráðs.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks þakka fyrir umsögn safnstjóra um mögulegan flutning styttu Ásmundar Sveinssonar af skáldinu Einari Benediktssyni sem nú stendur á Klambratúni. Því er fagnað að í umsögninni er opnað fyrir flutning styttunnar í nágrenni Höfða og jafnframt því að í umsögninni er bent á þann kost að hægt sé að sýna minningu skáldsins viðeigandi sóma með því að endurnýja garðinn og umhverfi styttunnar. Frá því styttan af Einari Benediktssyni var sett upp í garðinum árið 1964 hafa orðið miklar breytingar á lífsvenjum og aðstöðu til útivistar og þá um leið á nýtingu hefðbundinna borgargarða eins og Klambratúns. Bílaumferð um Miklubraut hefur margfaldast frá því að styttan af Einar Benediktssyni var sett upp í næsta nágrenni götunnar og umhverfi styttunnar orðið óaðlaðandi m.a. af þeim sökum. Tekið er undir það sem fram kemur í umsögninni að endurnýja þarf Klambratún.
7. Lagt fram erindi frá samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum menning og listir sem tekið var af vefnum 5. ágúst sl. um að setja upp styttu af Jóni Páli Sigmarssyni. Hafþór Yngvason safnstjóri Listasafns Reykjavíkur sat fundinn undir þessum lið. (RMF14010002)
Afgreiðsla menningar- og ferðamálaráðs:
Það er ekki á vegum safnstjóra eða innkaupanefndar Listasafns Reykjavíkur að taka afstöðu til hverra skuli minnst í opinberu rými borgarinnar. Innkaupanefnd fjallar um gjafir sem safninu eru boðnar og metur hvort þær skuli þegnar. Safnstjóri gerir tillögur til menningar– og ferðamálaráðs um staðsetningu myndverka á almannafæri að höfðu samráði við garðyrkjustjóra Reykjavíkur. Menningar– og ferðamálaráð gerir tillögur til borgarráðs um staðsetningar myndverka á almannafæri, að fenginni umsögn umhverfis- og skipulagsráðs. Það er réttilega bent á að stór meirihluti þeirra stytta sem minnast einstaklinga í Reykjavík eru af karlmönnum og það er ástæða til að taka tillit til þess í slíkum ákvörðunum. Það má líka benda á að á síðustu áratugum hefur listræn sköpun þróast í átt að nánari tengslum listaverka við umhverfi sitt og er mikilvægt að tekið sé mið af þeirri þróun þegar kemur að nýjum listaverkum fyrir almenningsrými borgarinnar og þá sérstaklega þegar um er að ræða opin og náttúruleg svæði eins og Laugardalinn.
8. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu ásamt greinargerð:
Grásleppuskúrarnir við Ægisíðu eru elstu minjar um smábátaútgerð í Reykjavík. Skúrarnir og vörin hafa mikið gildi fyrir menningar- og atvinnusögu Reykjavíkur og því mikilvægt að vinna að varðveislu þeirra á ný. Engin vinna við endurgerð skúranna fór fram á síðasta kjörtímabili og því er lagt til að sú vinna við endurgerð grásleppuskúranna sem hafin var á kjörtímabilinu 2006-2010 hefjist á ný og byggt verði á þeirri vinnu við varðveislu þessara menningarminja. Þá er jafnframt lagt til að starfshópur í samvinnu við Borgarsögusafn Reykjavíkur verði skipaður til að hafa umsjón með endurgerð Grásleppuskúraranna og Grímstaðarvarar.
Frestað.
- Kl. 16:11 víkur Marta Guðjónsdóttir af fundi.
Fundi slitið kl. 16:22
Elsa Hrafnhildur Yeoman m.e.h
Þuríður Björg Þorgrímsdóttir m.e.h Dóra Magnúsdóttir m.e.h
Stefán Benediktsson m.e.h Júlíus Vífill Ingvarsson m.e.h
Ingvar Jónsson m.e.h