Menningar- og ferðamálaráð
Reykjavíkurborgar
Ár 2012, mánudaginn 27. ágúst, var haldinn 171. fundur menningar- og ferðamálaráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 13.39. Viðstaddir: Einar Örn Benediktsson formaður, Margrét Kristín Blöndal, Stefán Benediktsson, Marta Guðjónsdóttir, Áslaug Friðriksdóttir og Davíð Stefánsson. Áheyrnarfulltrúi BÍL: Hrafnhildur Sigurðardóttir og Kolbrún Halldórsdóttir. Áheyrnarfulltrúi SAF: Þórir Garðarsson. Af hálfu starfsmanna: Svanhildur Konráðsdóttir, Berglind Ólafsdóttir, Signý Pálsdóttir og Kristjana Nanna Jónsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Fjárhagsáætlun 2013. Lögð fram rammaúthlutun borgarráðs dags. 16. ágúst 2012, tímaáætlun vegna fjárhagsáætlunar 2013 – 2017 dags. 18. júní 2012 og forsendur fjárhagsáætlunar 2013 dags. 15. ágúst 2012. Sviðsstjóri kynnti þróun rekstrar og fjárheimilda sviðsins 2007 – 2012 ásamt skuldbindingum og samþykktri forgangsröðun ráðsins fyrir árið 2013. Sviðsstjóra falið að vinna tillögu að starfs- og fjárhagsáætlun 2013. (RMF12010007)
2. Lagt fram sex mánaða uppgjör MOF ásamt ásamt skorkorti, yfirliti yfir almenn innkaup frá apríl til júní á Menningar- og ferðamálasviði yfir 1.000.000.-, yfirlit yfir listaverkakaup Listasafns Reykjavíkur 1. janúar til 31. júní og embættisafgreiðslum borgarminjavarðar 1. apríl – 30. júní. (RMF12060006)
3. Lögð fram skýrsla verkefnastjóra viðburða dags. 24. ágúst 2012 um framkvæmd Menningarnætur 2012. Karen María Jónsdóttir og Guðmundur Birgir Halldórsson verkefnastjórar viðburða Höfuðborgarstofu kynntu.
Menningar- og ferðamálaráð óskaði bókað:
Menningar- og ferðamálaráð lýsir yfir ánægju sinni með vel heppnaða hátíð og þakkar starfsfólki Höfuðborgarstofu fyrir afar vel unnin störf við undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar. (RMF12060009)
4. Lagt fram minnisblað safnstjóra Listasafns Reykjavíkur dags. 23. ágúst 2012 um dagskrá og viðburði safnsins í tilefni 80 ára afmæli Errós þann 19. júlí 2012. Hafþór Yngvason safnstjóri Listasafns Reykjavíkur kynnti. Formaður mun opna sýningu á verkum Errós á Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn þann 14. september 2012. (RMF12080005)
5. Lagt fram yfirlit yfir útilistaverk utan miðborgarinnar skipt eftir póstnúmerum. Hafþór Yngvason safnstjóri Listasafns Reykjavíkur kynnti.
6. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra menningarmála dags. 22. ágúst 2012 um undirritaða samninga vegna framlaga úr Borgarhátíðarsjóði. Jafnframt lagðir fram til staðfestingar samningar milli Menningar- og ferðamálasviðs og Bókmenntahátíðar í Reykjavík dags. 21. ágúst 2012 annars vegar og milli Menningar- og ferðamálasviðs og Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík RIFF dags. 15. maí 2012. Samþykkt. (RMF11110010)
7. Lagt fram erindi frá skrifstofu borgarstjóra dags. 20. ágúst 2012 sem sent var Menningar- og ferðamálasviði og –ráði til meðferðar um tónlistarhátíð í Hljómskálagarðinum. Menningar- og ferðamálaráð leggur til að unnin verði stefnumótun um nýtingu á almenningsrýmum fyrir útitónleika í samráði við umhverfis- og samgönguráð, garðyrkjustjóra og forstöðumann Höfuðborgarstofu. (RMF12080004)
8. Boðun hækkunar á virðisaukaskatti á gistingu. Málið verður tekið fyrir á fundi borgarráðs fimmtudaginn 30. ágúst nk. og hefur formaður óskað eftir að kjörnir fulltrúar í menningar- og ferðamálaráði verði boðaðir þann fund.
9. Lagt fram erindi frá samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum menningarmál dags. 31. júní 2012 um sölumarkað fyrir listamenn um helgar í miðbænum. Áheyrnarfulltrúum BÍL í menningar- og ferðamálaráði falið að skoða undirtektir við hugmyndinni á meðal félagsmanna sinna. (RMF12020001)
10. Lagt fram erindi frá samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum ferðamál dags. 31. júlí 2012 um að setja á fót sýningu um leiðtogafundinn í Höfða.
Afgreiðsla menningar- og ferðamálaráðs:
Í sumar ákvað Reykjavíkurborg að opna Höfða fyrir gestum og gangandi frá og með 5. júní sl. og hefur húsið verið opið í allt sumar milli klukkan 11 og 16 virka daga. Áhugasamir eiga þess kost að skoða húsið frítt en tekið er við frjálsum framlögum á staðnum. Jafnframt opnun hússins var opnuð sýning á efri hæð fyrir almenning um byggingu Höfða og sögu norskra húsa á Íslandi en norska sendiráðið gaf Reykjavíkurborg sýninguna. Sýningin og opnun hússins varir til 30. ágúst nk.
Í mörg ár hefur verið ljósmyndasýning á neðstu hæð hússins um leiðtogafundinn í Höfða í október 1986 þar sem gestir geta m.a. skoðað gestabókina sem Reagan og Gorbatsjov rituðu í á sínum tíma.
Opnun hússins í sumar hefur gengið afar vel og er stefnt að því að opna það fyrir almenningi aftur næsta sumar.
(RMF12020001)
11. Lagt fram erindi frá samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum ferðamál dags. 31.7.2012 um að gera Reykjavík að jólaþorpi (jólaborg).
Afgreiðsla menningar- og ferðamálaráðs:
Í desember 2011 hrinti Reykjavíkurborg af stað verkefninu Jólaborgin Reykjavík í samræmi við Ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar 2011 – 2020 með það að markmiði að fjölga gestum og auka verslun á aðventunni. Á aðventunni 2011 var í boði ýmis konar fjölbreytt dagskrá víða um borgina og mun svo verða áfram næstu árin. Fengnir voru þrír ungir hönnuðir til að leggja fram hugmyndir um þema Jólaborgarinnar til að samræma útlit og dagskrá fyrst og fremst í miðborginni á aðventu. Valin var sú leið að byggja á gömlu íslensku sagnahefðinni og leggja áherslu á sérstöðu íslenskra jólasiða og hefða. Þannig fengu íslensku jólavættirnar nýtt andlit í teikningum sem varpað var á húsveggi víða um miðborgina og ratleikur fyrir fjölskyldur þeim tengdur settur af stað. Ljós og skreytingar voru með gamaldags blæ, eingöngu hvítar perur notaðar og reynt var að efla og styðja við markaði og viðburði í miðborginni. Einnig var boðið upp á fjölbreytta dagskrá í Laugardalnum; Kaffi Flóra var með jólabasar og jólatrjáasölu, tónlistaruppákomur í Grasagarðinum og víðar, jólakötturinn var í hávegum hafður og ýmsar uppákomur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum fyrir fjölskyldur voru tengdar honum.
Haldið verður áfram næstu árin að þróa verkefnið og Jólaborgin Reykjavík markaðssett sérstaklega erlendis.
(RMF12020001)
Fundi slitið kl. 15.25
Einar Örn Benediktsson
Margrét Kristín Blöndal Stefán Benediktsson
Marta Guðjónsdóttir Áslaug Friðriksdóttir
Davíð Stefánsson