No translated content text
Menningar- og ferðamálaráð
Ár 2014, mánudaginn 12. maí var haldinn 213. fundur menningar- og ferðamálaráðs. Fundurinn var haldinn í Höfða og hófst hann kl. 13:45. Viðstaddir: Einar Örn Benediktsson formaður, Margrét Kristín Blöndal, Ósk Vilhjálmsdóttir, Eva Baldursdóttir, Áslaug María Friðriksdóttir og Davíð Stefánsson. Áheyrnarfulltrúar BÍL: Kolbrún Halldórsdóttir og Erla Þórarinsdóttir. Áheyrnarfulltrúi SAF: Þórir Garðarsson. Af hálfu starfsmanna: Svanhildur Konráðsdóttir, Signý Pálsdóttir og Auður Halldórsdóttir sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram rekstraryfirlit Menningar- og ferðamálasviðs fyrir janúar og febrúar 2014. Trúnaðarmál.
- Kl. 13:55 tekur Áslaug María Friðriksdóttir sæti á fundinum.
2. Samþykktir fyrir nýtt borgarsafn lagðar fram til afgreiðslu. (RMF13120009)
Samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og vísað til borgarráðs.
3. Barnamenningarhátíð 2014. (RMF13090014)
Menningar- og ferðamálaráð óskar bókað:
Menningar- og ferðamálaráð óskar Reykvíkingum til hamingju með vel heppnaða Barnamenningarhátíð og þakkir eru færðar stjórn Barnamenningarhátíðar, verkefnastjórum og starfsfólki Höfuðborgarstofu fyrir fallegt verk.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga Óskar Vilhjálmsdóttur dags. 12. maí 2014 ásamt greinargerð og fylgiskjölum:
Menningar- og ferðamálaráð leggur til við borgarráð að verklagsreglur um meðferð umsókna um leyfi fyrir veggmyndum utanhúss í borginni verði formgerðar svo hægt sé að tryggja listrænt mat á verkunum. Nauðsynlegt er að faglegur aðili eins og Listasafn Reykjavíkur eða sérfræðingar á þess vegum meti myndverkið svo að smekkur einstaklinga hafi ekki áhrif á leyfisveitingu. Æskilegt er að þetta ferli verði einfaldað eins og kostur er.
Tillagan samþykkt með áorðnum breytingum og send í borgarráð.
5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra skrifstofu eigna og atvinnuþróunar dags. 28. apríl 2014 um uppsetningu listaverks á Laugardalshöll. (RMF14050002)
Menningar- og ferðamálaráð óskar bókað:
Menningar og ferðamálaráð fagnar því að þetta listaverk fari úr geymslu og upp á vegg.
6. Samningur Icelandic Group, Icelandair, Bláa lónsins, ISAVIA, Reyka Vodka, Icelandic Glacial Water, Reykjavíkurborgar, Íslandsbanka, Landsvirkjunar, Íslandsstofu, utanríkisráðuneytisins, forsætisráðuneytisins og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um markaðs- og kynningarverkefni í Norður-Ameríku undir yfirskriftinni Iceland Naturally 2014-2016 lagður fram til afgreiðslu. (RMF13010010)
Samþykkt og vísað í borgarráð.
7. Tillaga að nafni á höggmyndagarði til minningar um formæður íslenskrar höggmyndalistar. (RMF131000059)
Frestað.
8. Dagskrá samráðsfundar Bandalags íslenskra listamanna og borgarstjóra í Höfða 12. maí 2014 rædd. (RMF14030005)
9. Lagt fram erindi frá samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum ýmislegt dags. 30. apríl 2014 um að setja upp skilti með jákvæðum og fallegum orðum. (RMF14010002)
Afgreiðsla menningar- og ferðamálaráðs:
Skilaboð sem auka jákvæðni og gleði borgarbúa eru sannarlega af hinu góða, en þó má ekki líta fram hjá því að nú þegar eru ótal skilti í borgarumhverfinu sem margir upplifa sem áreiti. Það er því ekki endilega æskilegt að fjölga umhverfismerkingum. Hins vegar væri hægt að miðla jákvæðum skilaboðum á annan hátt en með skiltum, og verða þeir sem standa fyrir viðburðum og hátíðum á vegum borgarinnar svo sem Vetrarhátíð, Barnamenningarhátíð og Menningarnótt, hvattir til að nýta sem flestar leiðir og miðla til að koma jákvæðum skilaboðum til borgarbúa og gesta.
10. Lagt fram erindi frá samráðsvefnum Betri Reykjavík úr flokknum menning og listir dags. 30. apríl 2014 um að setja Batman-merkið í friðarsúlu Yoko Ono. (RMF14010002)
Afgreiðsla menningar- og ferðamálaráðs:
Vissulega er þetta skemmtileg hugmynd. En Friðarsúlan er höfundarverk Yoko Ono og er reist til minningar um John Lennon. Sá gjörningur að setja Batman merkið – eða hvaða annað merki - á Friðarsúluna myndi brjóta alvarlega gegn sæmdarrétt listamannsins, en sæmdarréttur er sá réttur að gætt sé höfundarheiðurs og sérkenna. Í 2. málsgrein 4. greinar höfundarlaga segir „Óheimilt er að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni.“
11. Lagt fram erindi frá samráðsvefnum Betri Reykjavík dags. 30. apríl 2014 um að setja varmaskipti á almenningsklósett. (RMF14010002)
Afgreiðsla menningar- og ferðamálaráðs:
Hveralyktin svokallaða hefur vissulega farið fyrir brjóstið á einhverjum. Hinu má ekki gleyma, að nýting jarðvarma til hitunar vatns og húsa í Reykjavík er eitt af sérkennum borgarinnar. Virkjun jarðvarma er flokkuð sem endurnýjanleg orka vegna þess að varmatap jarðar er hverfandi lítið miðað við hve varmainnihald jarðar er mikið. Við vinnslu á hitaveituvatni í virkjunum á háhitasvæðunum er kalt vatn hitað upp en örlitlu brennisteinsvetni er blandað í það til að hreinsa úr vatninu súrefni, sem veldur tæringu í lögnum. Þannig berst hveralykt með öllu hitaveituvatni í Reykjavík. Að setja varmaskipti á alla krana væri kostnaðarsamt og ekki á verksviði Reykjavíkurborgar að sjá um slíka framkvæmd.
Fundi slitið kl. 14:56
Einar Örn Benediktsson
Margrét Kristín Blöndal Ósk Vilhjálmsdóttir
Áslaug María Friðriksdóttir Eva Baldursdóttir
Davíð Stefánsson
Fundargerð var ekki undirrituð en verður lögð fram til staðfestingar á næsta fundi menningar- og ferðamálaráðs.