Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGAR- OG FERÐAMÁLARÁÐ

Ár 2009, mánudaginn 7. september, var haldinn 105. fundur menningar- og ferðamálaráðs sem var haldinn í fundarherbergi ráðsins, Ingólfsnausti, Vesturgötu 1, 2. hæð og hófst hann kl. 14.15. Viðstaddir: Áslaug Friðriksdóttir, Sif Sigfúsdóttir, Ragnhildur Jónasdóttir, Brynjar Fransson, Guðrún Erla Geirsdóttir, Dofri Hermannsson og Hermann Valsson. Áheyrnarfulltrúi BÍL: Ágúst Guðmundsson. Af hálfu starfsmanna: Svanhildur Konráðsdóttir, Signý Pálsdóttir og Hildur Sif Arnardóttir sem ritaði fundargerð.


Þetta gerðist:


1. Guðný Gerður Gunnarsdóttir borgarminjavörður og Ólöf Örvarsdóttir skipulagsstjóri kynntu tillögur að deiliskipulagi Vallarstrætis og suðurhluta Ingólfstorgs. (Ný tillaga Björns Ólafs, dags. 6. apríl 2009). Frestað frá fundi 27. ágúst 2009. Borgarminjavörður lagði fram minnisblað dags. 27. ágúst vegna málsins.
Kl 14:35 mætti Ólafur F. Magnússon á fundinn.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

Jákvætt er hversu mikill áhugi er á skipulagi Ingólfstorgs og svæðinu þar í kring. Fyrir liggur tillaga um breytingu á deiliskipulagi við Vallarstræti. Samþykkt var í pólitískri sátt að auglýsa tillöguna í skipulagsráði 10. júní sl. og borgarráð staðfesti það 18. júní sl. Auglýsingin er nú í samráðsferli svo að allir sem hafa áhuga geta skilað inn athugasemdum vegna breytinganna. Að fresti loknum verða athugasemdir yfirfarnar hjá skipulagsráði og ákvörðun tekin með framhaldið.
Samkvæmt samþykktum menningar- og ferðamálaráðs veitir ráðið umsagnir um deiliskipulagstillögur er snerta svæði þar sem standa byggingar er falla undir ákvæði 6. gr. laga um húsafriðun. Meirihluti menningar- og ferðamálaráðs fagnar því að nú stendur til að varðveita gömlu húsin við Vallarstræti, eina elstu götu Kvosarinnar, en í gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir að þau verði rifin. Það er mat meirihluta menningar- og ferðamálaráðs að tillaga skipulagsráðs um breytingu á deiliskipulagi við Vallarstræti sé skref í rétta átt frá gildandi deiliskipulagi. Meirihlutinn bendir á að Ingólfstorg er mikilvægur hluti af menningarlífi Reykjavíkurborgar og er eitt af helstu samkomutorgum borgarinnar og að nauðsynlegt er að skipulag torgsins taki vel mið af því hlutverki. Að loknu athugasemdaferlinu fer málið til endanlegrar afgreiðslu hjá skipulagsráði sem fer yfir athugasemdir með hliðsjón af heildarhagsmunum á svæðinu.


Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúa Vinstri grænna í menningar- og ferðamálaráði hugnast illa sú uppbygging sem fyrirhuguð er við Vallarstræti og Ingólfstorg, enda er þar gert ráð fyrir að gengið verði freklega á almenningsrými í miðborginni. Tilfærsla húsanna við Vallarstræti myndi auk þess brjóta upp heillega götumynd Vallarstrætis og Bröttugötu og rjúfa flutningshúsin úr sínu sögulega samhengi. Fulltrúinn telur því brýnt að gengið verði til samninga við hagsmunaaðila með það að markmiði að finna aðra og hentugri lóð fyrir þá uppbyggingu sem þarna er fyrirhuguð.

Fulltrúar Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Tillagan gerir ráð fyrir skerðingu torgsins án þess að almenningi sé tryggð stækkun þess til norðurs á móti. Það er verulegur galli enda ekki öðrum torgum til að dreifa í borginni þar sem hægt er að efna til tónleika og annarra viðburða þar sem mikill mannfjöldi kemur saman.
Fulltrúar Samfylkingar í menningar- og ferðamálaráði hafa áhyggjur af því að sú kvöð sem hvílir á framkvæmdaraðila að láta fara fram fornleifarannsóknir á svæðinu komi til með að skilja eftir opið sár í miðborginni í mörg ár áður en framkvæmdir hefjast. Einnig vekur það áleitnar spurningar um varðveislu fornminja sem kunna að koma í ljós á byggingarreitnum að stefnt er að byggingu djúps kjallara undir hótelbyggingunni.
Ekki er tryggt í tillögunni að tónleikasalurinn NASA verði endurbyggður heldur er fjallað um það með orðalaginu ”stefnt er að”. Fulltrúar Samfylkingar taka undir orð borgarminjavarðar um að salurinn hafi ótvírætt mest gildi þar sem hann er nú. Óvíst er að hið blómlega starf sem þar hefur þrifist fylgi honum neðar ofan í jörðina. Þá er alls ótryggt að framkvæmdaraðili hafi fjárhagslegt bolmagn til að endurbyggja salinn þegar hann hefur verið rifinn.

Ólafur F. Magnússon lagði fram eftirfarandi bókun:

Ég lýsi áhyggjum af því að ekki er nógu mikið hugað að sem upprunalegastri götumynd við Aðalstræti og Vallarstræti þó að horfið hafi verið frá grófustu niðurrifstillögum í Kvosinni og við Laugaveg úr tíð R-listans. Undirritaður barðist ötullega gegn þeim á kjörtímabilinu 2002 – 2006.
Á þessu kjörtímabili hefur baráttan fyrir varðveislu gamallar götumyndar við Laugaveg og í Kvosinni haldið áfram en ekki hefur tekist að forða því, að þrengt væri enn frekar að umhverfi og götumynd í næsta nágrenni við elsta hús borgarinnar við Aðalstræti 10.
Ég vildi sjá meira af sem upprunalegastri götumynd við Aðalstræti m.a. gegnt Aðalstræti 10. Þá hefði þeim milljörðum sem varið var til endurreisnar Morgunblaðsins verið betur varið til endurreisnar gamallar götumyndar við Aðalstræti. Jafnframt mætti Morgunblaðshúsið við Aðalstræti minnka eða hverfa.

2. Guðný Gerður Gunnarsdóttir lagði fram og kynnti lista yfir embættisafgreiðslur borgarminjavarðar frá 1. apríl til 31. júlí 2009.



Fundi slitið 15.43

Áslaug Friðriksdóttir
Sif Sigfúsdóttir Ragnhildur Jónasdóttir
Brynjar Fransson Guðrún Erla Geirsdóttir
Dofri Hermannsson Hermann Valsson