Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGAR- OG FERÐAMÁLARÁÐ

Ár 2008, þriðjudaginn 16. desember, var haldinn 88. fundur menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkurborgar. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 16:10. Viðstaddir: Áslaug Friðriksdóttir formaður, Jakob Hrafnsson, Brynjar Fransson, Marta Guðjónsdóttir, Dofri Hermannsson, Guðrún Erla Geirsdóttir og Guðrún Ásmundsdóttir. Áheyrnarfulltrúi F-lista: Magnús Skúlason. Áheyrnarfulltrúar BÍL: Ágúst Guðmundsson og Hulda Stefánsdóttir. Af hálfu starfsmanna: Svanhildur Konráðsdóttir, Signý Pálsdóttir, Berglind Ólafsdóttir og Anna Gréta Möller sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fyrir drög að endurskoðaðri fjárhagsáætlun 2009.
Fulltrúar S-lista lögðu fram fyrirspurn í 15 liðum er varðar tillögur borgarstjóra að fjárhagsáætlun 2009. Trúnaðarmál.
Fulltrúar D lista og B lista lögðu til eftirfarandi bókun:

Undanfarna mánuði hefur þverpólitískur aðgerðarhópur vegna stöðu efnahagsmála farið yfir áætlanir allra sviða og fyrirtækja borgarinnar undir dyggri forystu formanns borgarráðs. Undir kringumstæðum eins og þeim sem nú ríkja í þjóðfélaginu er mikilvægt að borgarfulltrúar allir hugi að hag Reykvíkinga og tryggi grunngildi, eins og borgarstjórn er sammála um. Samstaða er um að verja grunnþjónustuna, verja störf borgarstarfsmanna og hækka ekki gjöld fyrir grunnþjónustu að svo stöddu. Gott samstarf hefur einkennt vinnu menningar- og ferðamálaráðs og pólitískir fulltrúar höfðu hist óformlega og farið hugmyndir um hagræðingu. Síðan unnið var að fyrstu hugmyndum um hagræðingu hefur ný þjóðhagsspá út frá forsendum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sett enn þrengri ramma fyrir sviðin en samt sem áður er verklag skýrt um að tekin er rúmur tími í að innleiða hagræðingaraðgerðir og breytingar í kjölfar fjárhagsáætlunar. Drög að fjárhagsáætlun fyrir hvert svið liggur fyrir borgarráði nk. laugardag og sýnir í fyrsta sinn hvernig tekist er á við afleiðingar lækkandi tekna borgarinnar. Fagna ber að náðst hafi að leggja fram hallalausa áætlun. Menningar- og ferðamálasviði og þeim sem komu að þeirri miklu vinnu sem liggur til grundvallar fjárhagsáætlun eru færðar þakkir fyrir góð störf.

Fulltrúar S-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Samfylkingin hefur frá upphafi fjárhagsvinnunnar lýst sig reiðubúna til fullrar þátttöku í gerð tillagna að auknum sparnaði við þær erfiðu aðstæður sem nú ríkja. Samfylkingin hefur frá upphafi lagt ríka áherslu á að þessi staða og mögulegar lausnir á henni yrðu ræddar í nánu samráði við helstu hlutaðeigandi aðila á hverju sviði. Allt frá í byrjun nóvember hefur verið ljóst að ráðast þyrfti í sársaukafullan niðurskurð, talsvert umfram það sem fyrri tillögur borgarstjóra gerðu ráð fyrir. Það veldur því verulegum vonbrigðum hve meirihlutinn hefur notað tímann illa. Að síðustu vikur hafi ekki verið notaðar til samráðs við þá aðila sem best þekkja til á hverju sviði og líklegastir eru til að koma auga á möguleika til hagræðingar. Í stað samráðs um mögulegar lausnir hefur borgarstjóri setið aðgerðarlaus á ótíðindunum þar til á elleftu stundu og niðurstaðan sem starfsfólk, samstarfsaðilar borgarinnar og íbúar Reykjavíkur standa frammi fyrir er flatur niðurskurður. Áherslur Samfylkingarinnar í fjárhagsvinnunni hafa verið að standa vörð um velferð, þjónustu við íbúa og störfin í borginni. Því miður benda tillögur borgarstjóra til þess að í atvinnumálum sé einblínt á það sem kallað hefur verið mannaflafrekar framkvæmdir. Samfylkingin gagnrýnir harðlega að með mannaflafrekum framkvæmdum virðist einkum átt við dýrar verklegar framkvæmdir. Öllum má ljóst vera að á mörgum sviðum atvinnulífsins er hægt að skapa mun fleiri störf fyrir þá peninga sem úr er að spila. Þetta á ekki síst við á sviði menningar og lista þar sem fjármagn nýtist til að skapa um 10-20 sinnum fleiri ársverk en í byggingariðnaði, svo dæmi séu tekin.

Fulltrúar D og B lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Ítrekað er að minnihluti og meirihluti hafi sameiginlega unnið í aðgerðarhópi að gerð fjárhagsáætlunar. Fyrri bókun er ítrekuð.

2. Lögð fyrir greinargerð fagnefndar vegna styrkveitinga menningar- og ferðamálaráðs fyrir árið 2009.
Sigrún Valbergsdóttir, formaður faghóps mætti á fundinn og gerði grein fyrir tillögum faghóps til styrkveitinga ráðsins 2009.
Menningar- og ferðamálaráð þakkar fagnefnd fyrir vandaðar og faglegar tillögur.

3. Lögð fyrir styrkumsókn Evu Rúnar Þorgeirsdóttur dags. 7. ágúst sl. vegna heimildarmyndar um tónlistarmanninn Ragnar Bjarnason framsent frá borgarráði til meðferðar menningar- og ferðamálaráðs dags. 30.10.2008. (RMF08110001). Samþykkt að veita verkefninu styrk kr. 400.000.

Fundi slitið kl. 17.45
Áslaug Friðriksdóttir

Marta Guðjónsdóttir Dofri Hermannsson
Brynjar Fransson Jakob Hrafnsson
Guðrún Erla Geirsdóttir Guðrún Ásmundsdóttir