Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGAR- OG FERÐAMÁLARÁÐ


Ár 2007, mánudaginn 27. ágúst 2007, var haldinn 54. fundur menningar- og ferðamálaráðs.
Fundurinn var haldinn í Ingólfsnausti, Vesturgötu 1 og hófst hann kl.11:30. Mættir: Kjartan Magnússon, formaður, Guðmundur H. Björnsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Jóhannes Bárðarsson, Guðrún Erla Geirsdóttir, Oddný Sturludóttir og Friðrik Dagur Arnarson. Áheyrnarfulltrúi F-lista: Ásta Þorleifsdóttir. Áheyrnarfulltrúar BÍL: Áslaug Thorlacius og Ágúst Guðmundsson. Af hálfu starfsmanna: Svanhildur Konráðsdóttir, Signý Pálsdóttir, Berglind Ólafsdóttir og Kristjana Nanna Jónsdóttir sem ritaði fundargerð.


Þetta gerðist:

1. Rætt um breyttan fundartíma ráðsins. Stefnt að því að hefja fund fyrr á daginn annan og fjórða mánudag í mánuði.

2. 6 mánaða staða Menningar- og ferðamálasviðs. Lagt fram ásamt greinargerð og skorkorti. (RMF07060004)

3. Starfs- og fjárhagsáætlun 2008. Sviðsstjóri greindi frá stöðu við vinnu við starfs- og fjárhagsætlun 2008. (RMF07060006)

- Kl. 12:08 vék Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi og Marta Guðjónsdóttir tók þar sæti.

4. Verndun sjóvarnargarðs í Skerjafirði. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks:

Menningar- og ferðamálaráð leggur til við framkvæmdaráð að ráðist verði í lagfæringar og endurbætur á sjóvarnargarðinum við Skildinganes. Óskað er eftir því að verkefnið verði sett á framkvæmdaáætlun ársins 2008 og að samvinna verði höfð við Minjasafn Reykjavíkur um framkvæmd þess. Hafist verði handa sem fyrst við þessar lagfæringar þar sem um fornminjar er að ræða en veruleg hætta er á að þessar minjar hverfi með tímanum vegna mikils sjávarágangs ef ekkert verður að gert.

Tillögunni fylgdi greinargerð.
Samþykkt. (RMF07080013)

- Kl. 12:18 vék Marta Guðjónsdóttir af fundi og Júlíus Vífill Ingvarsson tók þar sæti.
- Kl. 12:18 vék Friðrik Dagur Arnarson af fundi og Árni Þór Sigurðsson tók þar sæti.

5. Viðeyingafélagið. Lagt fram umsögn Umhverfissviðs dags. 15. ágúst 2007. Sviðsstjóra falið að vinna að lausn málsins í samræmi við umsögn Umhverfissviðs og Minjasafns Reykjavíkur og umræður á fundinum. Samþykkt að gera samning við Viðeyingafélagið um árlega styrkveitingu til þriggja ára félagsins til reksturs starfsaðstöðu félagsins í Viðey. (RMF07060010)

6. Bætt aðstaða fyrir seglbíla í Viðey. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra dags. 23. ágúst 2007. Samþykkt tillaga sviðsstjóra um að verkefnisstjóra Viðeyjar verði falið að leita annarra og kostnaðarminni leiða til að bjóða seglbíla í Viðey.

7. Erindi Íslenskrar Grafíkur um fjárveitingar til SÍM. Lagt fram bréf Íslenskrar Grafíkur dags. 1. ágúst 2007. Áslaug Thorlacius, formaður SÍM, vék af fundi við umræður málsins. (RMF07080003)

- Kl. 13:25 vék Jóhannes Bárðarson af fundi og Jóhanna Hreiðarsdóttir tók þar sæti.

Menningarnótt 2007 – skýrsla. Lögð fram skýrsla verkefnisstjóra viðburða og formanns verkefnisstjórnar Menningarnætur dags. 23. ágúst 2007. (RMF07080008)

Menningar- og ferðamálaráð óskaði bókað:

Menningar- og ferðamálaráð flytur verkefnisstjórn Menningarnætur og starfsmönnum Höfuðborgarstofu bestu þakkir fyrir góða frammistöðu við undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar. Það fyrirkomulag, að dreifa tónleikum, Latabæjarhlaupi og öðrum stórum viðburðum um borgina heppnaðist vel.

8. Erindisbréf vegna starfshóps um Listasafn Sigurjóns Ólafssonar. Lagt fram. Samþykkt. (RMF07070003)

- Kl. 13:36 vék Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi.

9. Strætóminjar. Lagt fram erindi Kjartans Pálmarssonar og Hallgríms Péturs Gunnlaugssonar dags. 16. ágúst 2007 um verndun strætóminja. Samþykkt að veita kr. 300.000.- styrk til verkefnisins. (RMF07080014)

10. Styrkumsókn til rannsóknar á Iceland Airwaves. Erindi Önnu Katrínar Þorvaldsdóttur, Hjálmars G. Sigmarssonar og Þórðar Kristinssonar til borgarráðs dags. 16. júlí 2007 er vísað var til Menningar- og ferðamálasviðs. Erindið hlýtur ekki stuðning. (RMF07070007)

11. Endurskoðun Aðalskipulags Reykjavíkur. Lagt fram erindi Skipulags- og byggingarsviðs dags. 11. júlí 2007. Vísað til safnstjóra Listasafns Reykjavíkur sem er tengiliður sviðsins við vinnu við endurskoðun Aðalskipulags og borgarminjavarðar til umsagnar.

Menningar- og ferðamálaráð óskaði bókað:

Menningar- og ferðamálaráð fagnar því að fá tækifæri til að koma með athugasemdir við Áfangaskýrslu 1 í endurskoðun Aðalskipulags Reykjavíkur. Óskað er eftir að ráðið fái nánari kynningu frá Skipulags- og byggingarsviði þar sem eftirfarandi atriði verða tekin til umræðu:
Stefnumörkun fyrir útilistaverk í Reykjavík:
- að gert sé ráð fyrir útilistaverkum í hvert hverfi.
Stefnumörkun fyrir lifandi hverfi:
- að hvert hverfi hafi þjónustu- og menningarmiðstöð þar sem menningin er samþætt annarri þjónustu. Eins að hvert hverfi hafi hverfatorg þar sem fólk getur komið saman og þar sé aðstaða fyrir tónleika, markaði, hverfahátíðir og fleira.
Stefnumörkun fyrir ferðamannaborgina Reykjavík:
- að sviðsstjóra Menningar- og ferðamálasviðs sé falið að draga út að punkta úr stefnumótun um Ferðamannaborgina Reykjavík sem eiga erindi við endurskoðun Aðalskipulags Reykjavíkur.
Stefnumörkun fyrir húsvernd í Reykjavík:
- að tillögur Samfylkingarinnar um endurskoðun húsverndaráætlana í Reykjavík, sem samþykktar voru af borgastjórn – og vísað inn í endurskoðun Aðalskipulags, hljóti kynningu og umræðu í ráðinu.
Stefnumörkun fyrir stíga og merkingar m.t.t. menningarverðmæta og ferðaþjónustu. (RMF07020017)

12. Umsögn um erindi Korpúlfa vegna Korpúlfsstaða. Erindi Korpúlfa - Samtaka eldri borgara í Grafarvogi til borgarráðs er vísað var til umsagnar menningar- og ferðamálaráðs. Frestað frá 53. fundi.

Formaður lagði fram svohljóðandi tillögu:

Menningar- og ferðamálaráð styður þá ósk sem kemur fram í bréfi formanns Korpúlfa að félagi eldri borgara í Grafarvog bjóðist áfram að nýta aðstöðu á Korpúlfsstöðum fyrir Listasmiðju sína. Starfsemi Listasmiðjunnar er lífleg og fjölbreytt og fer vel í samstarfi við aðra menningar- og listastarfsemi sem rekin er á Korpúlfsstöðum á vegum Sjónlistamiðstöðvarinnar. Jafnframt er hvatt til þess að félagið fái góða aðstöðu fyrir starfsemi sína í fyrirhugaðri menningarmiðstöð í Spönginni og að nýting félagsins á rýminu á Korpúlfstöðum verði endurskoðuð þegar hönnun í Spönginni liggur fyrir.

Samþykkt með þremur atkvæðum, fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna sátu hjá með svohljóðandi bókun:

Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Frjálslyndra telja að aðstaða og rými á Korpúlfsstöðum bjóði ekki upp á þá samnýtingu sem fulltrúar meirihluta gerir ráð fyrir. Þá er engin trygging fyrir því að ný aðstaða í Spönginni muni rýma fjölbreytta menningarstarfsaemi eins og þá sem fram fer á vegum Korpúlfa. Við getum því ekki stutt þessa afgreiðslu enda sýnt að hún muni þrengja að starfsemi Sjónlistamiðastöðvar. Leggjum við hins vegar til að Korpúlfum verði tryggð viðunandi aðstaða í nýrri þjónustu- og menningarmiðstöð í Spöng. (RMF07050007)

- Kl. 14:22 vék Oddný Sturludóttir af fundi.

13. Styrkumsókn frá kór Háskólans í Varsjá vegna kórferðalags á Íslandi. Lagt fram erindi Ragnhildar Þórarinsdóttur dags. 19. ágúst 2007. Samþykkt að veita hópnum frían aðgang að söfnum Reykjavíkurborgar. (RMF070800109)

14. Listi yfir styrki og samstarfssamninga frá 2004. Lagt fram. (RMF07080006)

15. Niðurstöður viðhorfskönnunar meðal erlendra ferðamanna. Lagt fram minnisblað verkefnisstjóra markaðs- og ferðamála dags. 24. ágúst 2007. Sviðsstjóri fór yfir helstu niðurstöður.

16. Fulltrúar Samfylkingar lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Menningar- og ferðamálaráð blási til málþings með aðildarfélögum hverrar listgreinar. Málþingin yrðu öllum opin og gæfu borgaryfirvöldum og listamönnum kærkomið tækifæri til að ræða ýmis mál sem snerta viðkomandi listgrein. Samráðsfundir BÍL með menningar- og ferðamálaráði hafa gefið góða raun en sérhver listgrein hefur ólíkar þarfir og því nauðsynlegt að listamenn í Reykjavík geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Nánari útfærsla yrði unnin í nánu samstarfi við ráðsmenn og lagt yrði kapp á að hafa málþingin ,,frjáls í forminu” n.k. vettvang þar sem listamenn og ráðsmenn, sem og aðrir sem starfa að menningarmálum í Reykjavík, gætu komið sjónarmiðum sínum á framfæri milliliðalaust.

Frestað.

17. Fulltrúar Samfylkingar lögðu fram svohljóðandi tillögu:

Sviðsstjóra verði falið að athuga með möguleika á því að sumartónleikar á Miklatúni verði reglulegir næsta sumar til reynslu.

Tillögunni fylgdi greinargerð.
Frestað.

Fundi slitið kl. 15:02

Kjartan Magnússon
Guðmundur H. Björnsson Guðrún Erla Geirsdóttir
Jóhanna Hreiðarsdóttir Árni Þór Sigurðsson