Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGAR- OG FERÐAMÁLARÁÐ

Ár 2006, mánudaginn 11. desember, var haldinn 40. fundur menningar- og ferðamálaráðs. Fundurinn var haldinn í Ingólfsnausti, Vesturgötu 1 og hófst hann kl.11:35. Mættir: Kjartan Magnússon, formaður, Guðmundur H. Björnsson, Sigríður Heiðar, Guðrún Erla Geirsdóttir, Stefán Jón Hafstein og Árni Þór Sigurðsson. Áheyrnarfulltrúi F-lista: Guðrún Ásmundsdóttir. Áheyrnarfulltrúar BÍL: Ágúst Guðmundsson og Þuríður Sigurðardóttir. Af hálfu starfsmanna: Svanhildur Konráðsdóttir, Signý Pálsdóttir og Kristjana Nanna Jónsdóttir sem ritaði fundargerð.


Þetta gerðist:

1. Styrkir og samstarfssamningar – formaður fagnefndar, Hallmar Sigurðsson, mætti á fundinn. Lögð fram greinargerð fagnefndar um styrki og samstarfssamninga, ódags. Trúnaðarmál. (RMF06080012/RMF06080015)

- Kl. 11:50 mætti Júlíus Vífill Ingvarsson á fundinn.

2. Skipun í stjórn Ásmundarsafns.
Kjartan Magnússon, formaður, Guðmundur H. Björnsson og Guðrún Ásmundsdóttir tilnefnd. (RMF06120004)

3. Tillaga frá borgarráði um stefnumótun um barnamenningu. Lagt fram bréf frá skrifstofu borgarstjóra, dags. 1. desember 2006. Samþykkt að vísa til stefnumótunar um menningarstefnu Reykjavíkurborgar. (RMF06090007)

4. Staða listmunalána. Samþykkt að vinna áfram að málinu. (R05050092)

5. Staða sjónlistamiðstöðvarinnar á Korpúlfsstöðum. Samþykkt að vinna áfram að málinu. (RMF05100003)

6. Grímstaðavör - Menningarminjar 2007. Guðný Gerður Guðmundsdóttir, borgarminjavörður, mætti á fundinn. (RMF05100006)
Lögð fram svohljóðandi tillaga:
Menningar- og ferðamálaráð leggur til við borgarráð að veitt verði framlag að uppæð kr. 5.250.000.- á fjárhagsáætlun 2007 vegna verndunar menningarminja við Grímstaðavör.
Tillögunni fylgdi fjárhagsáætlun.
Samþykkt.

7. Guðný Gerður Gunnarsdóttir, borgarminjavörður, kynnti norræna viðurkenningu fyrir margmiðlun í sýningarhaldi (Nordic Digital Excellence in Museums) sem Minjasafn Reykjavíkur og Gagarín hlutu fyrir Landnámssýninguna 871 +/-2 (The Best Design of Digital Experience in Cultural Heritage). Menningar- og ferðamálaráð fagnaði viðurkenningunni með lófaklappi og kom á framfæri þakklæti og hamingjuóskum til starfsfólks Minjasafns og Gagaríns.

8. Minnisvarði um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Hafþór Yngvason, safnsstjóri, mætti á fundinn. (RMF05090030)
Lögð fram svohljóðandi tillaga:

Menningar- og ferðamálaráð leggur það til við borgarráð að veitt verði framlag að upphæð kr. 3.000.000.- frá fjárhagsáætlun 2007 vegna uppsetningar minnisvarða um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Framlag Reykjavíkurborgar yrði þá jafnt framlagi ríkisins til verkefnisins. Minnisvarði verði á opnu svæði á horni Amtmannsstígs og Þingholtsstrætis.
Tillögunni fylgir minnisblað.
Samþykkt.

9. Málefni Tónlistarþróunarmiðstöðvarinnar - svar við fyrirspurn. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra menningarmála, dags. 5. desember 2006. (RMF05060005)
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar óskuðu bókað:
Þakkað er fyrir greinargóð svör um málefni Tónlistarþróunarmiðstöðvar. Svörin undirstrika þó mikilvægi þess að fara nánar yfir starfsemina og að leitað verði leiða til að tryggja forsendur þessarar mikilvægu starfsemi.

10. Endurvarp BBC hjá 365 miðlum - svar við fyrirspurn. Lagt fram minnisblað skrifstofu Menningar- og ferðamálasviðs, dags. 11. desember 2006. Hafa útsendingar hafist að nýju. (RMF06080007)

11. Tillaga áheyrnarfulltrúa Frjálslyndaflokksins um leiklist í tengslum við myndlistarsýningar í skólum frá 39. fundi, 27. nóvember 2006:

Fari svo að frábær tillaga meirihlutans um kynningu á listaverkum í eigu borgarinnar fari fram í skólum, með því að málverk í eigu Reykjavíkurborgar verði sett upp í skólum á höfuðborgarsvæðinu nái fram að ganga, þætti mér mikilvægt að þegar verkin yrðu sett upp í hverjum skóla yrði gerður út leikhópur með þremur leikurum til að kynna fyrir nemendum listaverkin, höfunda þeirra, brot úr ævisögu, tímabil það í Íslandssögunni sem þau (listamennirnir) lifðu og málverkin voru gerð o.s.frv.

Tillögunni fylgdi kostnaðaráætlun.
Samþykkt að vísa tillögunni til þeirrar vinnu sem hefst eftir áramót um samstarf Menntasviðs og Listasafns Reykjavíkur um list í skólum.

Fundi slitið kl. 13:30


Kjartan Magnússon
Guðmundur H. Björnsson Stefán Jón Hafstein
Júlíus Vífill Ingvarsson Guðrún Erla Geirsdóttir
Sigríður Heiðar Árni Þór Sigurðsson