Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGAR- OG FERÐAMÁLARÁÐ

Ár 2005, miðvikudaginn 23. febrúar, var haldinn 2. fundur Menningar- og ferðamálaráðs. Fundurinn var haldinn í Ingólfsnausti, Aðalstræti 2 og hófst hann kl. 16:10. Mættir: Stefán Jón Hafstein formaður, Andri Snær Magnason, Ármann Jakobsson, Ásrún Kristjánsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Magnús Þór Gylfason og Tinna Traustadóttir. Áheyrnarfulltrúi F-lista: Gísli Helgason. Áheyrnarfulltrúar BÍL: Áslaug Thorlacius og Edda Þórarinsdóttir. Af hálfu starfsmanna: Svanhildur Konráðsdóttir, Signý Pálsdóttir og Unnur Birgisdóttir sem ritaði fundargerð.


Þetta gerðist:

1. Lagt fram erindi borgarráðs, dags. 4. febrúar sl., þar sem óskað er umsagnar um fyrirmynd (drög dags. 17.02.05) að samþykkt fyrir fyrir fagráð Reykjavíkurborgar. (R05020008)
Meirihluti menningar- og ferðamálaráðs gerir engar athugasemdir við samþykktina.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu eftir að koma með ákveðnar athugasemdir við 7. gr. sbr. fylgiskjal og samþykkti ráðið að koma þeim áfram til borgarráðs.

2. Lagt fram erindi borgarráðs, dags. 4. febrúar sl., þar sem óskað er umsagnar um drög að nýjum leikreglum með fjárhagsáætlun og fjárhagsáætlunarferli. Menningar- og ferðamálaráð samþykkti að veita ofangreindu jákvæða umsögn án athugasemda. (R04100035)

3. Lögð fram til kynningar drög, dags. 02.02.05, að nýrri samþykkt fyrir menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar. Frestað. (R05020008)
Ráðið samþykkir að fela formanni og sviðstjóra að koma með tillögu að samráðsferli við ráðningu stjórnenda menningarstofnana fyrir næsta fund.

4. Kynning á Listahátíð í Reykjavík 2005. Þórunn Sigurðardóttir listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík mætti á fundinn og kynnti komandi Listahátíð í Reykjavík.

5. Lögð fram til kynningar svohljóðandi tillaga um styrkveitingar menningar- og ferðamálaráðs: (R04100091)
Í ljósi þess að borgarráð hefur falið menningar- og ferðamálaráði meðferð allra umsókna um styrki til menningarmála, þar með talið tilfallandi styrkja til ófyrirséðra verkefna utan umsóknarferils, úthlutar nefndin fjármunum sem nú hafa verið færðir frá borgarráði til menningar- og ferðamálaráðs.
Þremur aðilum sem komu til álita við úthlutun styrkja í umsóknaferli fyrir árið 2005:
- Tónlistarþróunarmiðstöðin / D. Pollock, styrkur verði í samræmi við álit fagráðs og hækki úr 500 þúsund í 900 þúsund
- Kling og Bang gallerí fái 500 þúsund
- Smekkleysa á Laugavegi fái 500 þúsund
Tilfallandi styrkur vegna ófyrirséðs verkefnis:
Þátttaka í uppsetningu á verkinu Blind Pavillion eftir Ólaf Elíasson í Viðey, ásamt Listahátíð og fleirum, auk framlags til listasmiðju grunnskólabarna sem verður samtímis opnun Listahátíðar í Viðey í samstarfi við myndlistarmenn á vegum hátíðarinnar. Samtals styrkur að hámarki 2,5 millj. kr. Verkefnið samrýmist stefnu ráðsins um aukið menningarlegt hlutverk Viðeyjar.

Samþykkt með 3 atkvæðum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá við afgreiðslu málsins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:
Þótt Sjálfstæðismenn fagni því að Ólafur Elíasson setji upp listaverk sitt Blind Pavillion í Viðey í tengslum við Listahátíð í Reykjavík, gera þeir alvarlegar athugasemdir við það verklag sem viðhaft var í þessu máli. Menningar- og ferðamálaráð var sammála um það á fyrsta fundi ráðsins, fyrir aðeins 3 vikum, að að fé sem hér um ræðir ætti að renna til þeirra sem áður hefðu sótt um verkefnastyrki. Ólafur Elíasson var því miður ekki í þeim hópi og samþykktar reglur því brotnar. Þetta er áréttað til að framvegis verði gegnsæi og skýrar samþykktir ráðsins hafðar að leiðarljósi í styrkveitingum ráðsins svo ekki komi upp grunur um að geðþóttaákvarðanir ráði för í styrkveitingum.

Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:
Í ljósi þess að borgarráð hefur falið menningar- og ferðamálaráði meðferð allra umsókna um styrki til menningarmála, þar með talið tilfallandi styrkja til ófyrirséðra verkefna utan umsóknarferlis, úthlutuar nefndin fjármunum sem nú hafa verið færðir frá borgarráði til menningar- og ferðamálaráðs. Við styrkjaúthlutun þarf að vega saman ólík sjónarmið; annars vegar að ráðið úthluti að megni til öllum styrkjum samtímis eftir umsóknaferli, og áréttar meirihluti ráðsins vilja sinn til þess. Hins vegar að ráðið geti hér eftir brugðist við ófyrirséðum en mikilvægum verkefnum utan umsóknarferlis, þar sem ekki er að vænta að borgarráð bregðist við slíkum erindum í sama mæli og áður. Verkefni í samstarfi við Listahátíð nú er gott dæmi um að ráðið þarf að hafa svigrúm til slíkrar þátttöku, eins og reyndar er gert ráð fyrir í reglum um styrkjaúthlutanir, þar sem áskilið er að halda megi eftir fé, komi upp svona tilvik.
Meirihluti fagnar því að Ólafur Elíasson skuli vilja gera Viðey þann heiður að lána verk sitt, Blind Pavillion, endurgjaldslaust til sýningar í eynni og þar með stuðla að auknu menningarlegu hlutverki eyjunnar.

6. Lagt fram til kynningar ársuppgjör Höfuðborgarstofu og menningarmála 2004.
7. Samþykkt að fundir ráðsins verði framvegis 2. og 4. miðvikudag hvers mánaðar.
8. Samþykkt að fela skrifstofu menningarmála undirbúning samráðsfundar með Bandalagi íslenskra listamanna. (R03100140)
9. Ráðið lýsir yfir ánægju sinni með nýafstaðna Vetrarhátíð og störf þeirra sem að henni stóðu.

Fundi slitið kl. 18.10

Stefán Jón Hafstein
Ármann Jakobsson Gísli Marteinn Baldursson
Ásrún Kristjánsdóttir Magnús Þór Gylfason
Andri Snær Magnason Tinna Traustadóttir