Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGARMÁLANEFND

Ár 2004, mánudaginn 7. júní, var haldinn 393. fundur menningarmálanefndar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu menningarmála og hófst hann kl. 16.05. Viðstaddir voru Stefán Jón Hafstein formaður, Svandís Svavarsdóttir, Ásrún Kristjánsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson og Rúnar Freyr Gíslason. Auk þeirra voru viðstödd Edda Þórarinsdóttir og Jóhann L. Torfason fulltrúar BÍL og Signý Pálsdóttir. Fundargerð ritaði Unnur Birgisdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram til afgreiðslu tillaga að Borgarlistamanni 2004. Samþykkt samhljóða. (R04050146) 2. Lögð fram til afgreiðslu tillaga forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur, dags. 3. júní 2004, að staðsetningu friðarsteins frá Hiroshima en nefndin samþykkti á fundi sínum 23. febrúar sl. að fela forstöðumanni Listasafnsins að finna heppilega staðsetningu fyrir steininn. Samþykkt með 4 atkvæðum, með fyrirvara um að hverfisráð miðborgar geri ekki athugasemd við staðsetningu. (R04020078)

3. Lagðar fram til afgreiðslu stofnskrár um Mugg – tengslasjóð fyrir myndlistarmenn og ferðasjóð Muggs. Samþykkt. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá.

Formaður óskaði bókað að haft verði samráð við stjórn SÍM um skipun fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn sjóðsins. (R04040032)

4. Lögð fram til afgreiðslu ályktun menningarmálanefndar um sverð á Melatorgi - kynningarátak Þjóðminjasafns Íslands.

Nefndin hefur kynnt sér mismunandi álit um tillögur þess efnis að koma fyrir stóru sverði í kynningarskyni fyrir Þjóðminjasafnið á hringtorgi fyrir framan hús safnsins. Nefndin þakkar álitsgjöfum vel unnin störf. Nefndin leggur til að safninu verði heimilað að setja upp sýningargrip í kynningarskyni í þeirri stærð sem óskað er eftir - tímabundið í 3-6 mánuði. Þjóðminjasafnið ákveði sjálft úr hve varanlegu efni gripurinn verði miðað við þetta tímabundna leyfi. Komi fram óskir um framtíðarstaðsetningu einhvers konar listaverks á torginu mun menningarmálanefnd fjalla um það sjálfstætt óháð þessari leyfisveitingu enda til þess bær samkvæmt samþykktum borgarinnar. Nefndin leggur því til að borgarráð heimili tímabundna staðsetningu á sýningargrip í tengslum við opnun safnsins.

Við afgreiðslu málsins voru lagðar fram umsagnir Sambands íslenskra myndlistarmanna, Arkitektafélags Íslands og Hverfisráðs Vesturbæjar. (R04050036) Samþykkt samhljóða.

5. Lögð fram til kynningar drög að reglum um Artótek og listmunalán. Borgarbókasafn Reykjavíkur hefur staðfest opnun Artóteks þ. 18. ágúst nk. Samþykkt að fá borgarbókavörð og formann SÍM á fund nefndarinnar þ. 28. júní nk. vegna málsins. (R04040033)

6. Lagt fram til kynningar álit borgarlögmanns v/úthlutunar úr Safnasjóði 2004 þar sem Safnaráð er beðið um frekari rökstuðning vegna úthlutunar sjóðsins fyrir yfirstandandi ár. (R04030116)

7. Lögð fram til afgreiðslu tillaga að 1.200 þús. kr. styrk til Kvikmyndahátíðar í Reykjavík. Samþykkt með þeim fyrirvara að takist að fjármagna hátíðina að öðru leyti. (04010163)

8. Bókun menningarmálanefndar vegna Listahátíðar í Reykjavík 2004:

Menningarmálanefnd óskar stjórnendum Listahátíðar í Reykjavík til hamingju með frábæra hátíð, þakkar flytjendum öllum glæsilega framgöngu og vill koma á framfæri þakklæti til allra sem tóku þátt í samstarfi um að gera hátíðina jafn vel heppnaða og raun ber vitni. Hér eftir verður Listahátíð árlega og fagnar menningarmálanefnd því sérstaklega að samstarf hefur tekist um það. (R03040100) 9. Lagt fram til kynningar bréf borgarstjórnar dags. 4. júní 2004, þar sem samþykkt er að fella úr gildi reglur um starfslaun listamanna og reglur um styrk til starfrækslu tónlistarhóps Reykjavíkurborgar. (R04050105)

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

R-listinn hefur numið úr gildi allar reglur um starfslaun listamanna í Reykjavík og Tónlistarhóp Reykjavíkurborgar. Þetta var gert þrátt fyrir áköf mótmæli Sjálfstæðismanna og Bandalags íslenskra listamanna sem sagðist í yfirlýsingu mótmæla eindregið þeirri hugmynd. Rök R-listans um að endurskoðun á reglunum standi yfir, duga ekki fyrir þessari einkennilegu ákvörðun. Endurskoðun þeirri sem vísað er til, er hvergi nærri lokið, og ljóst er að langt er í að nákvæmar tillögur um nýjar reglur líti dagsins ljós. Hópurinn var skipaður í janúar á þessu ári, en hefur enn ekki haldið formlega boðaðan fund, svo vitað sé. Í skipunarbréfi hans segir að niðurstöðum skuli skilað "í síðasta lagi 1. júní 2004" en engar tillögur hafa enn sést, og ekki einu sinni drög að tillögum. Ofaní kaupið er ekki einu sinni ljóst hvort starfshópur þessi muni gera tillögur um nýjar reglur um starfslaun listamanna og Tónlistarhóp Reykjavíkur, enda er verksvið starfshópsins svo vítt, að líkur eru á að tillögur hans verði almennar en ekki sértækar um starfslaunin, þegar þeim loks verður skilað. Í ljósi alls þessa verður það að teljast mjög ábyrgðarlaust hjá meirihluta menningarmálanefndar að leggja til að allar reglur um starfslaunin og Tónlistarhóp Reykjavíkur yrðu numdar úr gildi. Þau rök sem meirihluti nefndarinnar færði fyrir því á síðasta fundi menningarmálanendar voru engan veginn fullnægjandi og jafnvel misvísandi, vonandi vegna vanþekkingar á viðfangsefninu. Eftir stendur að listamenn og aðrir borgarbúar verða enn um sinn að búa við þá undarlegu stöðu að engar reglur né hugmyndir að reglum séu um starfslaun listamanna í Reykjavík og ítreka sjálfstæðismenn andstöðu sína við vinnubrögð R-listans í málinu.

Formaður óskaði bókað:

Bókun D-listamanna er furðuleg en meginmálið er það að engin vandræði steðja að og fáránlegt að gefa í skyn að einhver vandi sé þótt skil starfshóps hafi dregist. Ekki hafa menn miklar áhyggjur ef þetta er allt sem hægt er að fjalla um. Meirihluti menningarmálanefndar hefur margoft látið í ljós þann vilja að endurskoða í heild styrkjastefnu á vegum hennar og mun leggja skýrar línur til hagsbóta fyrir starf nefndarinnar og umsækjendur um styrki í haust þegar tímabært verður að auglýsa styrki á vegum nefndarinnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað: Formaður menningarmálanefndar færði þau rök fyrir afnámi allra reglna um starfslaun listamanna, að nýjar reglur yrðu tilbúnar í síðasta lagi 1. júní. Það gekk ekki eftir. Þvert á móti hafa ekki einu sinni borist drög að nýjum reglum, tíu dögum eftir að lokaniðurstöðum var lofað. Að auki hyggst starfshópurinn ekki skila sérstökum reglum um starfslaun listamanna, einsog formaðurinn lét á sér skiljast, heldur aðeins almennum reglum um styrki og mun menningarmálanefnd semja nákvæmari útfærslur sjálf. Þetta eru ámælisverð vinnubrögð formannsins. Tíminn er orðinn naumur: Menningarmálanefnd mun kynna úthlutanir starfslauna í desember nk., enda eiga þau að miðast við almanaksár. Umsóknarfrestur ætti því að renna út 1. október eða þar um bil, enda hafa faghópar og menningarmálanefnd hingað til þurft um tvo mánuði til að skoða og meta umsóknirnar vandlega. Eðlilegur umsóknarfrestur er einn og hálfur mánuður, og þá liggur fyrir að auglýsing um starfslaun þarf að birtast 15. ágúst, eftir um tvo mánuði. Enn geta liðið dagar eða vikur þar til starfshópur um endurskoðun styrkja Reykjavíkurborgar skilar niðurstöðum, þótt þeim hafi verið lofað 1. júní sl. Þá þarf menningarmálanefnd sjálf að fara í víðtækt samráðsferli með listamönnum og fleirum, um það hvernig reglur um starfslaun listamanna og Tónlistarhóp Reykjavíkur skuli vera. Nú þegar er ljóst að tími til þess verður innan við tveir mánuðir. Af þessum tveimur mánuðum, fer um einn og hálfur í fundarhlé nefndarinnar, samkvæmt venju. Það er nauðsynlegt að draga þetta svona saman, til að vekja athygli á því að tíminn er naumur, og allar yfirlýsingar formanns menningarmálanefndar um að "fáránlegt [sé] að gefa í skyn að einhver vandi sé", eru óábyrgar og ekki til þess fallnar að skapa traust hjá listamönnum eða öðrum. Öll vinnubrögð formannsins í þessu máli hafa verið til skammar, röksemdafærsla hans í besta falli misvísandi, samráðið ekkert og tímaáætlanir hans eru þegar farnar útum þúfur.

Fundi slitið kl. 17.05

Stefán Jón Hafstein
Svandís Svavarsdóttir Gísli Marteinn Baldursson
Ásrún Kristjánsdóttir Rúnar Freyr Gíslason