Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGARMÁLANEFND

Ár 2004, þriðjudaginn 3. febrúar, var haldinn 383. fundur menningarmálanefndar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu menningarmála og hófst hann kl. 08.25. Viðstaddir voru Stefán Jón Hafstein formaður, Ármann Jakobsson, Gísli Marteinn Baldursson og Rúnar Freyr Gíslason. Auk þeirra var viðstödd Signý Pálsdóttir. Unnur Birgisdóttir ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

Örnólfur Thorsson fulltrúi í samstarfsnefnd Leikfélags Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar mætti á fundinn vegna málsins.

1. Formaður kynnti bókun fulltrúa Reykjavíkurlistans vegna málefna Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsi og lögð var fram í borgarráði samdægurs. (R04010098)

- Kl. 08.35 tók Ásrún Kristjánsdóttir sæti á fundinum.

Lagt fram minnisblað ásamt bráðabirgðauppgjöri framkvæmdastjóra LR dags. 14. janúar 2004.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menningarmálanefnd fagna því að R-listinn ætli, í kjölfar tillöguflutnings Sjálfstæðismanna í borgarráði um aukin fjárframlög til Leikfélags Reykjavíkur, að bregðast við þeim fjárhagsvanda sem steðjar að leikfélaginu. Löngu ljóst er að það fjárframlag sem R-listinn samþykkti í fjárhagsáætlun, dugar ekki fyrir þeirri starfsemi sem bæði leikfélagið og Reykjavíkurborg hafa metnað til að fari fram í Borgarleikhúsinu. Með ólíkindum er að sú upphæð skuli hafa verið samþykkt af meirihluta borgarstjórnar, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar. Það er því löngu tímabært að endurskoða þá samninga, bæði fjárhagslega og formlega, sem í gildi eru á milli Reykjavíkurborgar og Leikfélags Reykjavíkur, einsog Sjálfstæðismenn og forsvarsmenn L.R. hafa ítrekað bent á, á fundum menningarmálanefndar og víðar. Í bókun R-listans sem lögð verður fram í borgarráði í dag, er tekið á mörgum brýnum málum varðandi L.R., en ekki er hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að um þau öll hefur oft verið rætt og mikið ritað. Því blasir við, að viðræðunum sem ljúka á um miðjan næsta mánuð, hefði auðveldlega verið hægt að ljúka miklu fyrr, ef dugnaður, metnaður og framsýni hefði verið fyrir hendi hjá borgarfulltrúum R-listans í þessum málaflokki. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menningarmálanefnd gera jafnframt þá kröfu að þeir fái að taka þátt í þeim viðræðum sem fara munu fram næsta einn og hálfa mánuðinn, enda um mjög mikilvæga stefnumótun í menningarmálum höfuðborgarinnar að ræða.

Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Menningarmálanefnd lýsir yfir ánægju með þær upplýsingar sem fram komu á fundi dags. 3 febrúar 2004 um fjárhagsstöðu LR og þróun í viðræðum Reykjavíkurborgar og Leikfélags Reykjavíkur. Þessi gögn sýna jákvæðan viðsnúning í rekstri LR á síðasta ári. Þá er ljóst að með áframhaldandi viðræðum borgar og LR, sem staðið hafa með formlegum og óformlegum hætti allt síðastliðið ár, verður hægt að leiða til meiri stöðugleika í menningarstarfi í Borgarleikhúsi. Bókun fulltrúa D-lista er ekki svaraverð að öðru leyti en því að Reykjavíkurborg hefur margsannað góðan vilja í garð LR í verki, með tímamótasamningi sem gerður var árið 2001, viðbótarframlögum og samvinnu sem leiða á til öflugs menningarstarfs í Borgarleikhúsi.

Fundi slitið kl. 09.05

Stefán Jón Hafstein
Ármann Jakobsson Gísli Marteinn Baldursson
Ásrún Kristjánsdóttir Rúnar Freyr Gíslason