Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGARMÁLANEFND

Ár 2001, miðvikudaginn 1. ágúst, hélt menningarmálanefnd sinn 332. fund í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 12.00. Fundinn sátu: Guðrún Jónsdóttir formaður, Ásrún Kristjánsdóttir, Örnólfur Thorsson, Eyþór Arnalds og Júlíus Vífill Ingvarsson. Auk þeirra sátu fundinn Kjartan Ólafsson og Pjetur Stefánsson, fulltrúar B.Í.L. Einnig sátu fundinn Anna Torfadóttir, Eiríkur Þorláksson, Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, Svanhildur Bogadóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir, Signý Pálsdóttir og Unnur Birgisdóttir sem skráði fundargerð. Gestur fundarins var Þórunn Sigurðardóttir.

Þetta gerðist:

1. Kjartan Ólafsson og Pjetur Stefánsson, nýir fulltrúar BÍL í menningarmálanefnd kynntir og boðnir velkomnir. Nýir varamenn þeirra verða Margrét Bóasdóttir og Anna Eyjólfsdóttir.

2. Þórunn Sigurðardóttir fyrrum stjórnandi verkefnisins ,,Reykjavík-menningarborg Evrópu árið 2000" kynnti lok menningarborgarverkefnisins. Lokaskýrslu og myndabókinnni "Reykjavík - menning í myndum" var dreift til fundarmanna.

- Kl. 12:30 vék Þórunn Sigurðardóttir af fundi.

3. Forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur lagði fram tillögu að staðsetningu útilistaverkanna "Vatnaflautan" e. Hafstein Austmann og "Þorfinnur Karlsefni" e. Einar Jónsson. Tillagan var samþykkt.

4. Lagður fram til kynningar listi með 106 umsóknum sem bárust um starfslaun listamanna. Tilnefndir voru umsagnaraðilar: Myndlist (50) og hönnun (2): Eiríkur Þorláksson, Pjetur Stefánsson og Anna Eyjólfsdóttir. Tónlist (20): Kjartan Ólafsson og Tryggvi Baldvinsson. Leiklist (8): Signý Pálsdóttir og Elísabet B. Þórisdóttir. Ritlist (15) og leikritun (5): Anna Torfadóttir og Svanhildur Bogadóttir. Kvikmyndir og ljósmyndun (6): Guðný Gerður Gunnarsdóttir og María Karen Sigurðardóttir.

5. Menningarmálastjóri kynnti erindi frá Ísraelsmanninum Dror Doron, sem hefur hug á að stofnsetja í Reykjavík módelsafn. Umsagnir borgarminjavarðar og menningarmálastjóra kynntar. Menningarmálastjóri lagði fram tillögu að afsvari við erindinu og var það samþykkt.

6. Lögð fram til samþykktar verkáætlun vegna mótunar menningarstefnu Reykjavíkur. Verkáætlunin var samþykkt en minnihlutinn sat hjá og lagði fram eftirfarandi bókun: "Við teljum óþarfa að ráða utanaðkomandi aðila til þess að vinna að lokafrágangi menningarstefnu. Til nefndarinnar var ráðinn menningarmálastjóri árið 1999 og í kjölfarið menningarmálafulltrúi ásamt aðstoðarmanni. Allt eru þetta ný störf. Að menningarmálum starfar hæft fólk sem sinnt getur þessari vinnu með fulltrúum menningarmálanefndar."

7. Lögð fram til kynningar drög og hugmyndir að Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2001-2024. Formaður mun koma með tillögu að athugasemdum frá nefndinni síðar.

8. Lagt fram erindi frá bílstjórum bókabíla er gerðir eru út frá Bústaðasafni. Menningarmálanefnd felur borgarbókaverði að kynna viðkomandi bréfriturum bókun menningarmálanefndar frá 30. maí sl.

9. Lögð fram umsókn frá Glámu/Kím arkitektum þar sem óskað er eftir að nefndin leiti leiða til að fjármagna myndverk v/Borgaskóla. Vísað til næsta fundar.

10. Lögð fram til kynningar umsögn borgarlögmanns frá. 31. maí um samþykkt menningarmálanefndar 7. mars sl. um friðun húsa í miðbænum. Borgarráð samþykkti umsögnina. Menningarmálastjóra var falið að rita Orkuveitu Reykjavíkur hvatnaðarorð vegna friðunar spennistöðva.

- Kl. 14.05 vék Anna Torfadóttir af fundi.

11. Lagt fram til kynningar bréf frá Músik og sögu þar sem þakkaður er styrkur til gerðar gagnagrunns.

12. Lagt fram erindi frá Norræna félaginu þar sem farið er fram á fjárstyrk og óskað eftir að nefndin sendi fulltrúa á höfuðborgamót norrænu félaganna sem haldið verður í Helsinki 31. ágúst - 2. september nk. Samþykkt að styrkja Norræna félagið um kr. 100.000 af kostnaðarstað erlendra samskipta en senda ekki fulltrúa.

13. Lagt fram erindi sem vísað var til menningarmálanefndar frá skrifstofu borgarstjóra. Erindið er beiðni um að ríki og borg reisi brjóstmynd af Þorsteini Einarssyni, fyrrum íþróttafulltrúa ríkisins, í Laugardal. Vísað til umsagnar forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur.

14. Nýútkominni Upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar dreift.

Fundi slitið kl. 14:10

Guðrún Jónsdóttir
Örnólfur Thorsson Júlíus Vífill Ingvarsson
Ásrún Kristjánsdóttir Eyþór Arnalds