Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGAR- OG FERÐAMÁLARÁÐ

Ár 2005, miðvikudaginn 22. júní, var haldinn 11. fundur menningar- og ferðamálaráðs. Fundurinn var haldinn í Ingólfsnausti, Vesturgötu 1 og hófst hann kl. 16:00. Mættir: Stefán Jón Hafstein formaður, Ásrún Kristjánsdóttir, Heiða Björg Pálmadóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Magnús Þór Gylfason og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Áheyrnarfulltrúi F-lista: Erna V. Ingólfsdóttir. Áheyrnarfulltrúi BÍL: Jóhann L Torfason. Af hálfu starfsmanna: Svanhildur Konráðsdóttir, Signý Pálsdóttir og Unnur Birgisdóttir sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram yfirlit sviðsstjóra. (R05040007)
- Kl. 16.10 tók Svandís Svavarsdóttir sæti á fundinum.
2. Lagðar fram umsagnir um tillögu að breyttum samþykktum fyrir Listasafn Reykjavíkur sem lagðar voru fram á fundi ráðsins þ. 8. júní sl. Umsagnirnar voru frá forstöðumanni Listasafns Reykjavíkur, verðandi forstöðumanni, stjórn SÍM og starfshópi um endurskoðun á samþykktum safnsins. Jafnframt var lögð fram tillaga að breyttum samþykktum fyrir Listasafn Reykjavíkur með nýrri breytingatillögu á 15. grein. (R05050058).
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3. Vísað til borgarráðs.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu bókað:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að R-listinn skuli ætla að breyta samþykktum Listasafns Reykjavíkur í algerri andstöðu við stjórnendur Listasafns Reykjavíkur, starfsmenn þess og Samtök íslenskra myndlistamanna. Mótmæli þessara aðila má sjá í umsögnum þeirra sem lagðar voru fyrir fundinn. Þar segir forstöðumaður Listasafnsins m.a.: #GLÉg undirritaður tel þessa tillögu hins vegar til óþurftar og ekki þjóna hagsmunum safnsins, heldur verða til þess að auka flækjustig við stjórnun þess og rekstur, auka kostnað við rekstur þess, og að í tillögunni um breytingu á innkaupanefnd felist ákveðið, en afar óverðskuldað, vantraust á starfsfólk Listasafns Reykjavíkur.#GL Formaður stjórnar SÍM tekur í sama streng: #GLÞað er mat stjórnar SÍM að tillaga þessi sé ekki til þess fallin að bæta starf Listasafns Reykjavíkur.#GL Báðir aðilar benda á að með nýjum samþykktum aukist stjórnunarkostnaður safnsins á kostnað skapandi menningarstarfsemi í safninu. Einnig má taka undir með forstöðumanni safnsins og formanni SÍM að hættan á auknum pólitískum áhrifum á safnið eykst með þessum breytingum. Sjálfstæðismenn gagnrýna enn það sleifarlag sem verið hefur á afgreiðslu málsins, sem birtist m.a. í þeirri staðreynd að fulltrúar menningar- og ferðamálaráðs fengu ekki að sjá tillögur um grundvallarbreytingar á samþykktinni fyrr en á fundinum sjálfum.

Fulltrúi BÍL óskaði bókað:

Áheyrnarfulltrúi SÍM (BÍL) harmar niðurstöðu um breytta samþykkt fyrir Listasafn Reykjavíkur. Telur fulltrúinn að faglegu starfi safnins sé stefnt í tvísýnu með því að opna enn frekar fyrir pólitísk afskipti á málefnum Listasafnsins.

Fulltrúar Reykjavíkurlistans óskuðu bókað:

Í fyrri samþykktum um Listasafn er heimild til að stofna ráðgjafarnefnd forstöðumanns sem ekki hefur verið nýtt. Menningar- og ferðamálaráð vill með þessari breytingu hnykkja á þeirri skoðun sinni að slíkt ráðgjafarráð skuli starfa, en án þess að verið sé með því að rýra valdsvið forstöðumanns hverju sinni né að menningar- og ferðamálaráð framselji vald sitt sbr. samþykktir Reykjavíkurborgar.
Til að undirstrika þann vilja menningar- og ferðamálaráðs að hér sé um að ræða faglegan stuðning við forstöðumann er skýrt tekið fram og kveðið á um að ekki sé ætlun að flækja stjórnsýslu eða rýra ákvarðanagetu forstöðumanns.
Menningar- og ferðamálaráð er áfram ábyrgur stefnumótandi í málefnum Listasafnsins, en kýs með þessu nýja ráði að veita fólki með faglega þekkingu og hæfni til að vera safninu til ráðuneytis, reglubundinn vettvang til upplýsingaöflunar og miðlunar þekkingar fyrir sína hönd.
Með þessu lítur ráðið síður en svo á að verið sé að kasta rýrð á starfsemi safnsins, en vill koma til móts við þau sjónarmið að tryggja þurfi faglega umgjörð umfram það sem menningar- og ferðamálaráð sjálft er fært um. Einnig er vonast til að safnráð geti veitt forstöðumanni og starfsfólki styrk með tengslaneti og þekkingu sem það færir inn í safnið.
Með því að sú breyting verður á að innkaupanefnd er skipuð tveimur fulltrúum úr safnráði sem forstöðumaður tilnefnir skapast meiri breidd en áður, jafnframt því að fulltrúa starfsmanna safnsins er áfram tryggð áhrif með setu áheyrnarfulltrúa. Menningar- og ferðamálaráð leggur áherslu á að með þessu fyrirkomulagi er aðeins verið að útfæra nánar hugmynd um ráðgjafarhóp, sem áður hefur verið gert ráð fyrir í samþykktum að gilti.
Niðurstaða þessi er fengin eftir ítarlegt vinnuferli faghópsins og umræður í ráðinu auk þess sem leitað hefur verið álits víða. Minnt er á niðurlagsorð í umsögnum fráfarandi forstöðumanns Listasafnsins þar sem segir: #GL Það er vissulega pólitískt hlutverk borgaryfirvalda - og þar með menningar- og ferðamálaráðs að móta umgjörð starfsemi Listasafns Reykjavíkur. Kjósi ráðið að gera svo og samþykkja fyrirliggjandi tillögu til breytinga á samþykkt fyrir safnið, treysti ég því að starfsfólk safnsins muni vinna að fullum trúnaði að verkefnum Listasafns Reykjavíkur innan hins nýja starfsramma.#GL

3. Lagt fram erindi OgVodafone, dags. 12. maí sl., þar sem óskað er eftir að fá að setja upp minnisskjöld við Höfða til minningar um 100 ára afmæli frjálsra fjarskipta á Íslandi þann 26. júní 2005. Jafnframt var lagt fram minnisblað sviðsstjóra um málið. (R05050097)
Samþykkt.

4. Lagt fram erindi frá lögfræðingi borgarstjórnar dags. 3. júní 2005 sem vísað var til meðferðar forstöðumanns Listasafns Reykjavíkur. Erindið varðar ósk Friðriks Þórs Guðmundssonar um að fá að koma fyrir minnismerki við Skerjafjörð til minningar um þá er létust þar í flugslysi 7. ágúst árið 2000. Jafnframt var lagt fram erindi forstöðumanns Listasafnsins með tillögu að staðsetningu minnismerkisins, ásamt greinargerð. (RMF05060004)
Samþykkt.
5. Lagt var fram erindi Kristbjargar Ágústsdóttur dags. 2. júní sl. fyrir hönd Skeenufélagsins á Íslandi og Kanada um leyfi og staðsetningu í Viðey fyrir skipskrúfu og skjöld til minningar um björgunarafrek. Lögð fram svohljóðandi tillaga:

Menningar- og ferðamálaráð samþykkir fyrir sitt leyti að veitt verði leyfi til að að flytja skrúfu skipsins Skeenu út í Viðey. Borgarminjaverði og garðyrkjustjóra verði falið að finna skrúfunni viðeigandi stað og hún sett niður með áletruðum skildi til að minnast afreka Einars Sigurðssonar, skipstjóra á Mb Aðalbjörgu, sem stóð fyrir stærstu línubjörgun við Ísland fyrr og síðar.

Greinargerð fylgdi tillögunni. (RMF05060016)
Samþykkt.

6. Lögð fram svohljóðandi tillaga vegna 220 ára afmæli Reykjavíkurborgar:
Menningar- og ferðamálaráð leggur til við borgarráð að Höfuðborgarstofu verði falið að sjá um framkvæmd 220 ára afmælis Reykjavíkurborgar árið 2006. Höfuðborgarstofa vinni í samráði við skrifstofu borgarstjóra, önnur svið og einstakar stofnanir borgarinnar við að móta tillögu að afmælisdagskrá. Höfuðborgarstofa skal bera ábyrgð á skipulagningu á framkvæmd og kynningu hennar í samræmi við þá fjárveitingu sem úthlutað verður til verkefnisins. (RMF05050018)
Samþykkt.
7. Umræður um Korpúlfsstaði. Frestað. (R05040014)
8. Lögð fram drög að stofnskrá Leikhúsbrúar Reykjavíkur. Edda Arnljótsdóttir leikari mætti á fundinn vegna málsins. Samþykkt að fela skrifstofu menningarmála að vinna að framgangi málsins.(RMF05060021)
9. Lagt fram bréf borgarráðs, dags. 16. júní sl., þar sem tilkynnt er samþykkt á nýjum reglum um Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar.

Fundi slitið kl. 17.50

Stefán Jón Hafstein

Ásrún Kristjánsdóttir Gísli Marteinn Baldursson
Heiða Björg Pálmadóttir Magnús Þór Gylfason
Svandís Svavarsdóttir ÞorbjörgHelga Vigfúsdóttir