Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGARMÁLANEFND

Ár 2004, miðvikudaginn 3. nóvember, var haldinn 399. fundur menningarmálanefndar. Fundurinn var haldinn í Grófarhúsi, Tryggvagötu 15 og hófst hann kl. 16.15. Viðstaddir voru Stefán Jón Hafstein formaður, Ármann Jakobsson, Ásrún Kristjánsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson og Rúnar Freyr Gíslason. Auk þeirra voru viðstödd Áslaug Thorlacius, fulltrúi BÍL, Erna Ingólfsdóttir, varafulltrúi F-lista, Signý Pálsdóttir og Hermann Baldursson.
Fundargerð ritaði Unnur Birgisdóttir.

Þetta gerðist:

1. Boðið var til opins fundar menningarmálanefndar um starfsáætlun menningarmála og menningarstofnana 2005. Formaður bauð gesti fundarins velkomna, kynnti drög að starfs- og fjárhagsáætlun 2005, starfsemi menningarstofnananna og forstöðumenn þeirra. Í kjölfarið voru fyrirspurnir og umræður. (R04100471)

Opnum fundi lauk kl. 17.00 en menningarmálanefnd hélt áfram fundi sínum.

2. Lögð fram til afgreiðslu tillaga að gjaldskrárbreytingum menningarstofnana Reykjavíkurborgar. Samþykkt. (R04100471)

3. Lögð fram til afgreiðslu starfs- og fjárhagsáætlun menningarmála og menningarstofnana 2005. Fjárhagsáætlun samþykkt. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá við afgreiðslu málsins. Samþykkt að vísa starfs- og fjárhagsáætlun til borgarráðs. (R04100471)

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Sjálfstæðismenn fagna drögum að metnaðarfullri starfsáætlun menningarmála og menningarstofnana Reykjavíkurborgar fyrir árið 2005. Þar er margt bitastætt og spennandi á döfinni og sjálfstæðismenn þakka menningarmálastjóra og forstöðumönnum menningarstofnananna þeirra góða starf. Hinu verður ekki framhjá litið að starfsáætlunin ber þess merki, að R-listinn heldur áfram að skera niður framlög til menningarstofnana. Sú hlutfallslega hækkun á framlaginu sem reiknað hafði verið með og lofað í 3ja ára áætlun, skilar sér ekki nú frekar en fyrri ár. Því hafa forstöðumenn menningarstofnananna þurft að skera niður í starfseminni, segja upp fólki, fækka viðburðum, hækka gjaldskrár og skera nður í þjónustu við borgarbúa. Óstjórn R-listans í fjármálum borgarinnar er þannig farin að bitna á menningarlífi borgarinnar og sjálfstæðismenn mótmæla þeirri forgangsröð harðlega.

Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:

Framlag til menningarlífs borgarbúa hefur aukist svo nemur tugum milljóna á yfirstandandi kjörtímabili til margra framfaramála, en menningarstofnanirnar taka á sig hagræðingu eins og aðrar stofnanir í borginni. 1600 milljónir kr. á næsta ári til menningarlífs í borginni ber vott um stórhug og framfaravilja.

Fundi slitið kl. 17.25

Stefán Jón Hafstein
Ármann Jakobsson Gísli Marteinn Baldursson
Ásrún Kristjánsdóttir Rúnar Freyr Gíslason