Menningar- og ferðamálaráð - og ferðamálaráð

Menningar- og ferðamálaráð

MENNINGARMÁLANEFND

Ár 2003, fimmtudaginn 8. maí, var haldinn 372. fundur menningarmálanefndar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu menningarmála og hófst hann kl. 09.00. Viðstaddir voru Stefán Jón Hafstein formaður, Steinunn Birna Ragnarsdóttir, Ásrún Kristjánsdóttir og Rúnar Freyr Gíslason. Auk þeirra voru viðstödd Áslaug Thorlacius og Kjartan Ólafsson fulltrúar BÍL og Signý Pálsdóttir. Fundargerð ritaði Unnur Birgisdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram drög að stofnskrá sjóðsins "Loftbrú Reykjavík" til styrktar hljómsveitum og fjöllistahópum að koma sér á framfæri erlendis. - Kl. 09.15 tók Hanna Birna Kristjánsdóttir sæti á fundinum. Lögð fram svohljóðandi tillaga:

Í samræmi við kynningu á "Loftbrú Reykjavík" fyrir menningarmálanefnd samþykkir nefndin að veita einni milljón króna af fjárhagsramma nefndarinnar til verkefnisins. Þetta er skilyrt því að endanlegar samþykktir og drög að stofnskrá fyrir sjóð verkefnisins verði lagðar fyrir nefndina til samþykkis.

Tillagan var samþykkt.

2. Lögð fram niðurstaða dómnefndar um tónlistarhóp Reykjavíkurborgar 2003. Í niðurstöðu sinni mælir dómnefndin með að Eþos kvartettinn fái eins árs framlengingu sem tónlistarhópur. Samþykkt. Í niðurstöðu sinni hvetur dómnefndin að auki til að vakin sé, með einhverjum hætti, athygli á því hver tónlistarhópur borgarinnar sé hverju sinni. Samþykkt að útnefningin verði tilkynnt opinberlega í Hafnarhúsi þ. 17. júní nk.

3. Kynning á ljósmyndasýningunni "Jörðin séð frá himni" sem sett verður upp á Austurvelli 31. maí nk. og mun standa til 20. september nk. Anna Margrét Guðjónsdóttir verkefnisstjóri mætti á fundinn vegna málsins.

4. Óskað eftir að tillögur að Borgarlistamanni 2003 liggi fyrir á næsta fundi þ. 22. maí nk. Útnefningin verður tilkynnt opinberlega í Hafnarhúsinu þ. 17. júní nk.

5. Lagt fram til kynningar 3ja mánaða uppgjör menningarmála ásamt útskýringum við kostnaðarstaði.

6. Nýr samningur við Myndhöggvarafélagið um Nýlendugötu 13B og 15. Frestað.

7. Lagt fram til kynningar yfirlit yfir húsaleigusamninga í menningarmálum.

8. Menningarmálastjóri kynnti fund menningarmálastjóra höfuðborga Norðurlanda sem haldinn var í Reykjavík í mars sl. og dreifði fundargerð frá fundinum ásamt áætlun um menningarsamvinnu höfuðborganna til ársins 2006.

9. Lagðar fram styrkumsóknir Kammersveitar Reykjavíkur, Ólafur Gunnars Guðlaugssonar v/Benedikts búálfs og Kjartans Óskarssonar v/aldarafmælis Dr. Victors Urbancic. Frestað.

10. Menningarmálastjóri sagði frá vorhátíð starfsmanna menningarstofnana Reykjavíkur, sem haldin verður þ. 28. maí nk. kl. 20 í Grófarhúsi.

11. Lögð fram til kynningar niðurstaða borgarráðs, dags. 14. apríl 2003, varðandi breytt form Listahátíðar í Reykjavík.

12. Lögð fram svohljóðandi bókun frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í menningarmálanefnd Reykjavíkurborgar lýsa undrun sinni yfir því, að tekin hafi verið ákvörðun af hálfu borgaryfirvalda, sem knýr Leikfélag Reykjavíkur (LR) til að segja upp 38 einstaklingum vegna bágrar fjárhagsstöðu félagsins, án þess að málið hafi verið kynnt og rætt í nefndinni. Er skorað á formann nefndarinnar, Stefán Jón Hafstein, að hann beiti sér fyrir því, að á vettvangi nefndarinnar gefist tækifæri til að fara rækilega í saumana á þessu máli í því skyni að stefna borgaryfirvaldia í málinu sé mótuð í samræmi við eðlilegar starfsreglur á vettvangi borgarstjórnar. Ljóst er að hinum djúpstæða vanda í samskiptum LR og Reykjavíkurborgar verður ekki lengur ýtt á undan sér eins og gert hefur verið af hálfu borgaryfirvalda um margra mánaða skeið.

Formaður menningarmálanefndar óskaði bókað: Samskipti Reykjavíkurborgar og Leikfélags Reykjavíkur hafa verið í ákaflega farsælum farvegi að undanförnu. Formaður nefndarinnar og borgarstjóri hafa átt fundi með forsvarsmönnum LR og skal bent á svar borgarstjóra sem lagt var fram vegna svipaðrar fyrirspurnar í borgarráði um það efni. Menningarmálanefnd hefur áður fjallað ítarlega um málefni LR og mun gera það aftur og mun formaður hafa um það frumkvæði. Fundi slitið kl. 11.00

Stefán Jón Hafstein
Steinunn Birna Ragnarsdóttir Hanna Birna Kristjánsdóttir
Ásrún Kristjánsdóttir Rúnar Freyr Gíslason